Ég sárbæni ykkur

 um að hafa í ykkar hópi þá sem þarfnast gæsku ykkar. Bregðist ekki í þessu!

Ég er fæddur þann 3. maí árið 1945, sama daginn og einhver mesti manníðingur mannkynssögunnar fyrir utan Stalín lét lífið í neðanjarðarbyrgi í höfuðborg þess ríkis sem hann kallaði þúsund ára ríkið eftir að hafa leitt einhverja menntuðustu þjóð heimsins á helvegu með 12 ára stjórn sinni: Adolf Hitler.

Pabbi minn var vélstjóri í íslenska farskipaflotanum og sigldi reglulega til þessa sama lands á fyrirstríðsárunum allt til aprílmánaðar árið 1940 þegar þýski nasistaherinn lagði undir sig Danmörku sem Ísland tilheyrði á þeim tíma. Einhverjar fyrstu æviminningar mínar voru þegar ég sat á hnjám hans og hann greindi okkur bræðrunum frá því hvernig nasistarnir skutu gyðingabörnin á hafnarbakkanum í Danzig þegar þau komu að sópa upp kolarykinu sem féll til jarðar úr kolakrönunum eftir útskipun dagsins.

Íslenskir sjómenn voru ekki í neinum vafa um hvaða ógnarstjórn var hér komin til valda, þeir sáu það með eigin augum. Þeir fylktu sér því saman með bandamönnum í baráttunni gegn þessum ógnaröflum í stríðinu. Blóðfórnir Íslendinga voru miklar. Rúmlega 500 sjómenn féllu í þessum hildarleik, urðu að fórnardýrum þýskra kafbáta og flugvéla á leið sinni til Englands með fisk til að brauðfæða sveltandi almenning landsins. Pabbi minn dó ungur maður, 54 ára gamall, árið 1954. Líkamsþrekið var þorrið og hjartað ónýtt því að það tók á að standa vaktina niður í vélarúmi í árásum kafbáta Þriðja ríkisins á skipalestir bandamanna. Þetta var reglan en ekki undantekningin. Af þeim 30 vélstjórum sem útskrifuðust í árgang 1929 var aðeins einn á lífi árið 1955. Hann var strætisvagnabílstjóri sem misst hafði tærnar eftir að hafa velkst um á fleka á Norðuratlantshafinu í sjö daga ásamt skipsfélögum sínum eftir að skip þeirra var skotið niður af þýskum kafbát á leið þeirra til Ameríku. Skipið var es Hekla og þar létu fjórtán menn lífið.

Pabbi varð aðnjótandi náðar Guðs í þessu tilviki ásamt sex öðrum skipsfélögum sínum, en hann sigldi einmitt á þessu sama skipi. Engill birtist þremur eiginkonum þessara manna – þar á meðal mömmu – og sagði: „Segið þeim að taka sér frí í þessari ferð! Þetta var einmitt það sem þeir gerðu. Hvað varðar hjartveiki pabba þá var hún alþekkt afleiðing styrjaldarinnar. Upp úr árinu 1952 létust tugþúsundir hermanna bandamanna alls óvænt og án allrar sýnilegrar ástæðu. Þýskur hjartasérfræðingur varpaði ljósi á þetta í Stalíngrad þegar hann var beðinn um að rannsaka óvæntan dauða fjölda þýskra hermanna. Þeir urðu bráðkvaddir þar sem þeir stóðu! Hann rakti ástæðuna til þess að öll fita hyrfi úr hjartavöðvunum undir langvarandi álagi – þetta var áður en orðið stress var uppgötvað – sem leiddi til skyndilömunar á hjartastarfseminni. Foringinn mikli hafði leitt þessa menn á þessar helslóðir í trylltu æði sínu eftir heimsyfirráðum. Þjóðverjar gáfu þessum sjúkdómi nafnið „Weisser tod“ (hvítidauði).

Hið tryllta æði „foringjans mikla“ beindist ekki einungis að landvinningum, heldur birtist það ekki síður með ofsafengnum hætti í taumlausri græðgi eftir tæknilegum framförum á sviði læknavísindanna. Þar var öllum siðrænum gildum rutt úr vegi og mannfyrirlitningin ein látin ráða ferðinni. Gerðar voru tilraunir á lifandi fólki sem réttlættar voru með framförum á sviði læknisfræðinnar. Tugum þúsunda var fólki fórnað á altari „framfaranna“ og færustu læknar fylgdust síðan með dauðastríði þess og skráðu allt nákvæmlega niður af mikilli samviskusemi. Einn af risum upplýsingatækni 21. aldarinnar – IBM – sá svo um að halda þessum upplýsingum til haga í aðgengilegu formi, að sjálfsögðu gegn dágóðri greiðslu af gulli því sem nasistar höfðu rænt í hernumdum löndum af fórnardýrum sínum.

Milljónir hermanna bandamanna fórnuðu lífi sínu til að berjast gegn þeirri hugmyndafræði sem hér bjó að baki: DAUÐAMENNINGUNNI! Við héldum að hún hefði verið kveðin í kútinn í eitt skiptið fyrir öll þegar Þriðja ríkið voru brunarústir einar. Hvílíkur barnaskapur! Hún hefur aldrei blómstrað með jafn áþreifanlegum hætti eins og á okkar tímum. Ung kona sem er ráðherra í stjórn framsóknar dauðamenningarinnar á Íslandi í dag kom fram í sjónvarpinu í fyrrakvöld og dró upp fagra mynd af þeirri glæstu framtíð sem biði okkar með því að lögleiða stofnfrumurannsóknir úr deyddum frumfóstrum á Íslandi vegna þess að með þessum hætti væri unnt að lækna margvíslega kvilla sem hrjá fólk.

En hér skulum við nema staðar eitt andartak. Sama röksemdafærslan býr hér að baki og hjá nasistunum: FRAMFARIRNAR. öllum siðrænum gildum skal rutt úr vegi til að ná þessu takmarki. Boðorð Guðs: Þú skalt ekki mann deyða, er harla léttvægt í þessari framsókn dauðamenningarinnar. En það grátlegasta við þetta mál allt saman er að unnt er að framkvæma þessar sömu stofnfrumurannsóknir á frumum fullvaxta fólks sem gefur slíkar frumur í stofnfrumubanka. Slíkur banki er þegar starfræktur á Íslandi og ég hvet sem flesta Íslendinga sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru til að veita Stofnfrumubankanum framlag sitt því að slíkar rannsóknir eru afar gagnlegar með hliðsjón af framförum innan læknavísindanna.

Ráðherrann ungi sem reyndar kemur úr sama fæðingarbæ og ég lýsti því með fögrum orðum, hversu björt sú framtíð væri sem biði Íslendinga með því að iðka slíkar rannsóknir: Sannkallað Eldórado heilbrigðis. Nú erum við komin að kjarna málsins: Mannhatrinu og mannfyrirlitningunni, þeirri sömu og þreifst meðal þýskra nasista forðum þar sem öll Mannhelgi var afnumin með opinberum lagaboðum og fótum troðin.

Ég sný mér nú til kristins fólks í landinu. Þetta er einn af lokaáföngunum í afkristnun íslensku þjóðarinnar. Ekkert er eftir annað en líknarmorðin á öldruðu fólki, Þá er landið okkar orðið að fórnardýri nýheiðninnar að fullu og öllu. Við sitjum uppi með ríkisskirkju sem er grútmáttlaus í baráttunni við þessi ógnaröfl. Það gera kristnir menn í Kína einnig. Þar hafa stjórnvöld komið upp falskirkju á vegum ríkisvaldsins sem gerir kristindóminn að hreinum afkáraskap, en hinn raunverulegi kristindómur er ofsóttur og leiðtogar hans og fylgjendur ofsóttir og hnepptir í fangelsi. Bregðumst við eins og þessir bræður okkar og systur í Kína og föstum og biðjum: Biðjum fyrir landinu okkar. Látum það ekki verða nýheiðninni að bráð í framsókn guðsafneitunarinnar.

Heiðrum minningu hinna föllnu í heimstríðinu mikla með því að verjast af jafn mikilli einurð gegn ógnaröflunum. Áköllum Drottin okkar um hjálp og hann mun ekki bregðast okkur. Látið þessi skrif berast meðal kristinna safnaða í landinu. Biðjum, vökum. Minnumst orða Barnabusar úr frumkirkjunni: „Ég sárbæni ykkur um að hafa í ykkar hópi þá sem þarfnast gæsku ykkar. Bregðist ekki í þessu!“ Hverjir þarfnast meiri gæsku af okkar hálfu en varnarlaus frumfóstur í móðurlífi – okkar minnstu og varnalausustu bræður og systur? Frumvarp ríksstjórnar framsóknarflokka guðsafneitunarinnar er ávöxtur þess sæðis sem sáð var með stóraukningu fósturdeyðinga á Íslandi á vordögum 1975 þegar DAUÐAMENNINGIN hóf innreið sína af fullum þunga inn í íslenskt þjóðlíf, dauðamenning sem þegar hefur fórnað 24.000 börnum á altari Mólokks, DAUÐAMENNING sem hófst til vegs og virðingar einungis 30 árum eftir að herir Þriðja ríkisins voru knúðir til að leggja niður vopn sín.

Jón Rafn Jóhannsson


Greinin birtist upphaflega á heimasíðu kirkju.net.


Fleiri greinar eftir Jón Rafn Jóhannsson/

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: