Hin nýju lög gegn fóstureyðingum í Suður Dakota


Þann 23. febrúar s.l. samþykkti þing Suður Dakotafylkis víðtækt bann gegn fóstureyðingum. Lögin voru samþykkt með 23 atkvæðum gegn 12. Þann 8. mars undirritaði síðan Mike Round (R) fylkisstjóri lögin. Lögin ganga þvert á úrskurð hæstaréttar frá 1973 sem viðurkenndi óskoraðan rétt kvenna til fóstureyðinga. Lögin krefjast þess að hæstiréttur verður að kveða upp nýjan úrskurð fyrir gildistöku þeirra.

Roger W. Hunt (R) sem lagði frumvarpið fram komst svo að orði: “Nú er komið að þeirri stund að alríkislögin um fóstureyðingar muni breytast í náinni framtíð.” Kate Looby, framkvæmdastjóri “Planned Parenthood of South Dakota” sem ætlar þegar í stað að kæra fóstureyðingarbannið sagði að “hún væri enn í losti.” Hún bætti síðan við: “Vissulega er þetta svartur dagur fyrir konur í Suður Dakota. Við áttum von á þessu, en engu að síður er dapurlegt til þess að vita að löggjafarvaldið ber svo litla umhyggju fyrir konum [hvað um lífsrétt barna?]

Auk Suður Dakota hafa önnur ríki íhugað að setja lög sem takmarka rétt til fóstureyðinga á þessu ári, það er að segja Ohio, Indiana, Georgia, Tennessee og Kentucky. Talsmenn fóstureyðinga láta í ljós efasemdir um að hin nýju lög muni fá jákvæða niðurstöðu í hæstarétti. Þannig sagði Nancy Keenan, forseti “NARAL Pro-Choice America” að “þegar þið sjáið þá samþykkja lög sem fela ekki í sér undanþáguatkvæði vegna nauðgana, sifjaspella eða heilsufars móður, þá gerið þið ykkur ljóst, að úrslit kosninga skipta máli. Við munum verða afar virk á vali á frambjóðendum fyrir kosningarnar 2006 og 2008 sem túlka vilja meirihluta Bandaríkjamanna.”

 

Á undanförnum árum hefur hreyfingin gegn fóstureyðingum einbeitt sér að baráttunni innan einstakra ríkja sem fela meðal annars í sér skerðingu á réttinum til fóstureyðinga með takmörkunum á úrræðum og biðtíma þar sem foreldrum er gert skylt að taka sér ákveðinn umhugsunartíma, áður en til fóstureyðingarinnar kemur. Chuck Donovan, varaframkvæmdastjóri “Family Research Council og fyrrum talsmaður “National Right to Life Committee” segir: “Ef við lesum einungis lögin eins og þau eru núna, hafa lögin frá Suður Dakota enga möguleika til að standast úrskurð hæstaréttar í málum þeirra Roe og Casey. [1] Ég verð að taka undir orð þeirra sem telja þetta ekki mögulegt.”

Engu að síður eru aðrir andstæðingar fóstureyðinga bjartsýnni en þeir hafa verið nokkru sinni áður sökum hinna tveggja nýskipuðu og íhaldsömu dómara í hæstarétti, þeirra John G. Roberts Jr. og Samuel A. Alito. Roberts hefur ekki tjáð opinberlega skoðun sína á rétti til fóstureyðinga. Ekki hefur gætt samræmis í afstöðu Alito á fóstureyðingum frá því að hann starfaði sem saksóknari. En hvernig sem úrslit þessa máls verða, er fróðlegt fyrir íslenska lífsverndarsinna að fylgjast með framgangi þess.

[1]. Hér er vísað til úrskurðar hæstaréttar frá 1992 í máli “Planned Parenthood” gegn Casey. Samkvæmt úrskurðinum hefur kona rétta á fóstureyðingu áður en fóstrið getur lifað sjálfstæðu lífi án móður. Síðari úrskurðurinn er frá 1973 þar sem einstæðri móðir (Roe) var heimilt að ganga undir fóstureyðingu í Texas þar sem lífi móðurinnar var stefnt í hættu á meðgöngutímanum.

Greinin er byggð á fréttum úr Washington Post.

Jón Rafn Jóhannsson

Greinin birtist upphaflega á heimasíðu kirkju.net.


Fleiri greinar eftir Jón Rafn Jóhannsson/

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: