Krukkufórnir og barnamorð


Í gamla daga þegar ég var að bögglast við að læra latínu las ég Púnversku stríðin hans Tacítusar. Það var ekki svo að mér væri uppálagt það, heldur rakst ég á ævagamalt eintak af bókinni á latínu á fornbókasölu. Ég er ekki sá fyrsti sem hef látið heillast af þessum forna rómverska sagnaritara. Mig minnir að það hafi tekið mig heilan vetur að strögglast í gegnum verkið, enda mikið að vöxtum.

Á þessum tíma, lýðveldistímanum, voru Rómverjar afar siðprúðir menn og höfðu konur sínar, börn og heimili í hávegum. Upphaf púnversku stríðanna við Karþagómenn fólst ekki einungis í verslunarhagsmunum, heldur fyrirlitu Rómverjar Karþagómenn fyrir mannfórnir þeirra, einkum barnafórnir. Karþagómenn komu upphaflega frá Fönikíu og á fönísku þýðir Karþagó “Nýja borgin.” Borgin var þannig eins konar New York í útþenslustefnu þeirra.

Púnversku stríðin voru þrjú talsins. Það fyrsta stóð yfir frá 264-241 f. Kr., það annað í röðinni frá 218-202 og það þriðja sem lauk með sigri Rómverja var háð á árunum 149-146 f. Kr. Frá þessu öllu greinir Tacítus í þessu mikla ritverki sínu sem tilheyrir öndvegisverkum heimsbókmenntanna.

 

Í sjálfri Fönikíu voru mannfórnir landlægur ósiður. Fundist hefur járnstytta af goðinu Mólok. Í iðrum goðsins logaði eldur og armarnir voru færanlegir. Fórnardýrið var lagt á armana og síðan látið falla lifandi niður í gin goðsins. Við uppgröft á fönískum hofum hefur fundist mikill fjöldi leirkrukka með barnalíkum. Börnin voru grafin þannig lifandi goðunum til dýrðar.

Þýskir fornleifafræðingar hafa unnið að uppgreftri rústa hinnar fornu Karþagóborgar undanfarna áratugi. Meðal annars hafa þeir grafið upp 12.000 leirkrukkur með líkamsleifum barna. Þrátt fyrir þetta er hér einungis um lítinn hluta af því svæði að ræða þar sem ummerki slíkrar mannlegrar grimmdar er að finna. Kannske getum við nú gert okkur í hugarlund hversu heilshugar hinir fornu Rómverjar fyrirlitu Karþagómennina. Ummæli Catós gamla í rómverska senatinu urðu fleyg og lifa enn í dag. Hann lauk svo aldrei ræðum sínum að hann bætti ekki við: Svo legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði!”

örlög Rómverja sjálfra urðu heldur dapurleg í kjölfar sigursins þegar veldi þeirra tók að breiðast út austur á bóginn. Á árunum frá því um 100 f. Kr til um 60 f. Kr. hrundi siðgæðisvitund þeirra. Þeir þoldu ekki samskiptin við austrænar þjóðir. Þó gengu þeir aldrei svo langt að stunda mannfórnir í trúarlegum athöfnum sínum. Einu mannfórnirnar sem okkur er kunnugt um voru tengdar Satúrnalhátíðinni sem var nýárshátíð þeirra. Þá völdu þeir “fíflakóng” sem var einráður í borginni í þrjá daga. Síðan var honum fórnað. Síðustu ummerki slíkra hátíðahalda hafa þýskir fornleifafræðingar fundið hjá rómverska setuliðinu í Trier í Þýskalandi frá árinu 349 e. Kr. Þá var þessa norðlæga borg orðin höfuðborg rómverska ríkisins og einum hermannanna var fórnað með þessum hætti. Hómósexualismi varð hins vegar afar útbreiddur. Við getum einnig með óbeinum hætti flokkað alla þá er létu lífið í Colosseum undir mannfórnir. Þegar Trajanus keisari andaðist voru þannig öll börn sem fæddust í Róm í vikunni á eftir borin út í dánarminningu keisarans. [1] Tólf árum síðar var lagður sérstakur veltuskattur á hóruhúsin í borginni vegna þess að fjöldi þessara útburða féllu í hendur þrælamæðra og voru alin upp til að svala kynlosta borgarbúa.

Breytum nú um vettvang og hverfum til Íslands. Lög nr. 25 sem sett voru þann 22. maí 1975 rýmkuðu mjög rétt til fóstureyðinga. Ég hef hér haldbærar tölur frá Landlæknisembættinu yfir fóstureyðingar á árabilinu 1982-2003. Þær voru alls 17428. Miðað við fólksfjölgunarstuðul Hagstofu Íslands gæti talan í fyrsta ættlið með frávikum hlaupið á tölunni 28.000 til 33.000, ég á við ef tekið er mið af hugsanlegum afkomendum þessara ólánsömu barna. Býsna mikil blóðtaka fyrir ekki fjölmennari þjóð. Jón Valur Jensson, sá talnafróði alvísill, hefur tjáð mér að líklega sé þessi tala frá 1975 fram á sumar 2005 nær 22.000 börnum, eða því sem næst þriðjungi fleiri einstaklingar en fórust í móðuharðindunum eftir Skaftáreldana miklu með hliðsjón af frjósemisstuðli. Síðan geta talnaglöggir menn reiknað þetta áfram sem svarar einni öld. Líklega yrði talan þá meira en ívið hærri en býr nú á Stórreykjavíkursvæðinu.

En ástandið er þó sínu verra í mörgum Evrópulöndum. Tökum Frakkland sem dæmi. Samkvæmt tölvuspám verða múslimar orðnir fjölmennari en Frakkar að 40 árum liðnum í landinu. [2] Þetta er athyglisvert með hliðsjón af orðum Biblíunnar: “Svo að landið spúi yður ekki, er þér saurgið það” (3 M 18. 28). Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast í Frakklandi fyrir augum okkar. Sömu örlög bíða fjölmargra Evrópuþjóða í framtíðinni þar sem innflytjendur eru látnir fylla upp í skörðin. Mylla Guðs malar hægt en örugglega og ekkert orða hans hverfur til baka, fyrr en það hefur unnið sitt verk!

Samkvæmt lögmáli Gyðinga er mannsmorð fordæmt vegna þess að þúsundir eru myrtir ættlið eftir ættlið með þessu eina morði. Ég sagði hér að framan að það hefði tekið Rómverjana um það bið fimmtíu ár að úrkynjast. Nú eru liðin 31 ár síðan nýju fóstureyðingarlögin voru innleidd hér á landi. Nú koma enn önnur lögin frá þessu sama löggjafarvaldi sem hefja hómósexualisma til vegs og virðingar. Varúð, góðir hálsar, varúð!

Í hvert skipti sem kirkjan leggur áherslu á vanhelgi fóstureyðinga taka þúsundir prentvalsa að snúast af ofsahraða um allan heim og fordæma slíkt forneskjuhjal. Opinberunarbókin greinir okkur frá ástæðunni sem býr þessu að baki: “OG HöGGORMURINN SPJÓ VATNI ÚR MUNNI SÉR EFTIR KONUNNI, EINS OG FLÓÐI” (Opb 12. 15).

Höggormurinn er drekinn ógurlegi, en nafn hans er einnig DAUÐINN. Hann veit að verk hans og meðreiðarsveina hans standast ekki hreinleika og flekkleysi konunnar. Hann gerir sér ljóst að hver sem missir sjónar af konunni glatar fyrr en síðar sjónum af Syni hennar. Verk heimsins standast ekki flekkleysi og hreinleika konunnar og barns hennar.

Alhelga mey og Guðsmóðir, bið þú fyrir oss!

[1]. Ég þarf að koma hér að leiðréttingu, atriði sem kom mér í huga eftir að ég skrifaði greinina. Samkvæmtpatris potestas (feðravaldinu) var rómverskur heimilisfaðir musterisprestur og vilji hans því lög. Þannig voru öll stúlkubörn borin út, nema eitt eða tvö til að viðhalda gens eða ættinni. Þannig var rómverskum stúlkum ekki gefið sérnafn fyrr en á giftingaraldri, heldur báru þær gælunöfn líkt og húsdýr. Rómverjar hæddust óspart að Gyðingum fyrir að ala upp öll sin stúlkubörn.

[2]. Leiðrétting 18. feb. Betra er að hafa það sem sannara reynist í hverjum hlut. Múslimar í Frakklandi eru nú um 7% heildaríbúafjöldans. Ef þessi minnihluti fjölgaði sér um 2% á ári næstu 50 árin og Frökkum fækkaði um 0,5% hefði Frökkum fækkað um 9% að 50 árum liðnum og múslimar teldust 25%. Þar við bætist að fjölmargir múslimar í Frakklandi snúist til kristnu svo að ég hefði varlega átt að trúa tölvuspám sem segja að múslimar verði orðnir fjölmennari eftir 40 ár. Óvarlegt er að horfa lengra inn í framtíðina, jafn mikil óvissa og slíkt er. En þróunin er sú sem vikið er að í greininni, einungis hægari.

Jón Rafn Jóhannsson

Greinin birtist upphaflega á heimasíðu kirkju.net.


Fleiri greinar eftir Jón Rafn Jóhannsson/

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: