Lífsmenning ljóss og elsku eða dauðamenning?

Kæru bræður og systur! Um aldir hefur orðið hin stríðandi kirkja á jörðu verið haft um hönd í kaþólskri guðfræði. Með kaþólskri guðfræði á ég við guðfræði rómversk kaþólsku kirkjunnar og Rétttrúnaðarkirkjunnar. Við tölum einnig um hina sigrandi kirkju himnanna, samfélag heilagra á himnum, og hina líðandi kirkju eða kirkju þjáninganna í hreinsunareldinum (Austurkirkjan í eldinum). Þetta samfélag myndar eina órofna heild og fyrri limirnir tveir bera statt og stöðugt fram fyrirbænir fyrir kirkju þjáninganna í eldinum eilífa. Þetta er það lífssamfélag sem Endurlausnarinn lagið grundvöllinn að í holdtekju sinni á jörðu og þar er hann höfuð líkamans. Kirkjan er því ekki “grasrótarhreyfing” eins og einn fylgjenda endurskoðunarguðfræði póstmódrnismans komst að orði. Hún lýtur valdi Drottins Jesú Krists af auðmýkt. Kristur er konungur kirkjunnar, við hins vegar þegnar hans.

Ég bið lesendur einnig að misskilja mig ekki þegar ég stend fast á kristnum gildum. Þetta felur alls ekki í sér að ég lítilsvirði önnur trúarbrögð. Ég vitna í þessu sambandi til Nostra Aetate, yfirlýsingu Annars Vatíkansþingsins til afstöðu kirkjunnar til annarra trúarbragða (1-2):

“Á okkar tímum þegar mannkynið verður sífellt meira að einni heild og sambandið milli ólíks fólks verður nánara, þá íhugar kirkjan betur afstöðu sina til trúarbragða sem ekki eru kristin. Í viðleitni sinni til að skapa einingu og elsku meðal manna, í reynd meðal þjóðanna, leggur hún megináherslu á það í þessari yfirlýsingu sem menn eiga sameiginlegt og hvað leiðir til nánara samfélags þeirra.

Samfélag mannanna er eitt, uppruninn einn og samur, sökum þess að Guð skapaði eitt mannkyn og lét það byggja allt yfirborð jarðar (P 17. 26). Lokatakmarki er jafnframt eitt og hið sama: Guð. Ráðsályktun hans, opinberun gæsku hans, allt hjálpræðisverk hans er fyrirhugað öllum mönnum (sjá SS 8. 1; P 14. 17; Róm 2. 6-2 og 1 Tm 2. 4), uns hinir fyrirhuguðu sameinast í Borginni helgu, borginni sem leiftrar í dýrð Guðs og þar sem þjóðirnar munu ganga í hans ljósi (sjá Opb 21, 23 o. áfr.).

Í hinum ýmsu trúarbrögðum vænta menn svars við óleystum ráðgátum mennskra aðstæðna, sem nú eins og fyrr á tímum snerta hjörtu mannanna með djúpstæðum hætti . . . Trúarbrögðin leitast við að horfast í augu við eirðarleysi mannshjartans, hvert með sínum hætti, með því að leggja fram “leiðir” sem fela í sér kenningar, reglur og helgirit.

Kaþólska kirkjan hafnar engu sem er í samhljóðan við sannleikann og heilagt í þessum trúarbrögðum. Hún lítur af mikilli virðingu til lífsafstöðu þeirra, fyrirmæla og kenninga sem eru þrátt fyrir það að ýmsu leyti frábrugðnar hennar eigin, en endurvarpa engu að síður geislum þess Sannleika sem uppljómar alla menn. Í reynd og ávallt verður hún að boða Krist sem “veginn, sannleikann og lífið” (Jh 14. 6). Það er í honum sem mennirnir geta fundið fyllingu trúarlífsins sökum þess að það er í honum sem Guð hefur sætt oss við sig fyrir Krist (sjá 2 Kor 5. 18-19).”

Þannig finnur kaþólska kirkjan til mikillar samkenndar með Íslam í baráttunni fyrir þeirri lífsmenningu ljóss og elsku sem er andhverfa þess sem hún kallar dauðamenningu síðkristinna (post-christian) samfélaga sem birtist í fóstureyðingum. Hún á einnig samstöðu með Íslam gagnvart óheftri og viðurstyggilegri klámvæðingu hins vestræna heims á síðustu áratugum.

Nú er svo komið að tvö menningarsvæði sem tilheyra hinum kristna heimi hafa gefið út afdráttarlausar lagaheimildir þar sem andstaðan gegn hómósexualisma er skilgreind sem kynvilluandúð (hómófóbía) og ákveðinn boðskapur heilagra Ritninga skilgreindur sem hatursáróður. Þetta eru Kanada og Evrópubandlagið. Þannig mega kristnir menn gera ráð fyrir ofsóknum á hendur sér á næstu árum þar sem prestar og leikmenn verða dæmdir til fjársekta og frelsissviftingar fyrir að boða Orðið. Þá reynir á trúfestu þeirra sem beygja ekki kné sín fyrir Baal. Svo er komið í afkristnun þjóðanna, að ríkisvaldið á þessum menningarsvæðum er orðið fjandsamlegt kristnum siðagildum.

Seint hefði ég trúað því að svo færi að bræður okkar og systur í Gídeonfélaginu ættu eftir að horfast í augu við að verða dæmd fyrir að útbreiða “hatursáróður.” En það er þessi staðreynd sem blasir nú við sem blákaldur veruleikinn.

En og aftur snýr kaþólska kirkjan sér til Panhagíunnar, rétt eins og hún hefur gert í aldanna rás, til hinnar alsælu Maríu Guðsmóður, Meyjar hinnar sínálægu hjálpar, eða með orðum prófessors Peter Kreeft:

Ákallið Maríu, hina síðari Evu, konuna sem sigraði höggorminn sem tældi hina fyrri Evu (1 M 3. 15). Hún vann sigur á þessum höggormi fyrir tvö þúsund árum (sjá Opb 12) og að nýju í Mexíkó árið 1531, og enn að nýju í Þýskalandi árið 1945 og aftur í Rússlandi árið 1989. Þennan sigur getur hún fullkomnað að nýju meðal þjóða sem guðræknir múslimar kalla “hinn mikla Satan,” menningu sem úthellir blóði milljóna saklausra barna árlega í gráðugan munn Móloks. Það er einungis Drottning englanna og himneskar hersveitir hennar sem megnar að sigra þennan engil illskunnar og umbreyta menningu okkar úr “dauðamenningu” í lífsmenningu ljóss og elsku.

Sjálfur tel ég að mér verði auðsýndur mikill heiður og náð fyrir að verða dæmdur í fjársektir og til fangelsisvistar fyrir að standa við hlið þess sem er “vegurinn, sannleikurinn og lífið” (Jh 14. 6) þegar hin nýju ólög verða innleidd á Íslandi. Það er sómi sérhvers sannkristins einstaklings, karla sem kvenna. Við fylgjendur póstmóderniskar endurskoðunarguðfræði segi ég einungis þetta: Hafið ekki þökk fyrir framlag ykkar.

sjá: http://www.narth.com/docs/criminalize.html

Jón Rafn Jóhannsson

Greinin birtist upphaflega á heimasíðu kirkju.net.


Fleiri greinar eftir Jón Rafn Jóhannsson/

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: