Minningabrot


Fyrir um það bil tuttugu árum síðan varð ég fyrir merkilegri lífsreynslu. Ásamt fleira fólki heimsótti ég sængurkonu sem alið hafði barn fyrir tímann. Þetta er nefnt “fyrirburafæðing” og í þessu tilviki var móðirin komin sjö mánuði á leið. Í dag er þessi fyrirburi stæltur strákur sem stundar íþróttir, menntaskólanám og byggingarvinnu í skólafríum.

Þetta var síðdegis á gamlársdag og þá er það óskrifuð regla á fæðingardeild Landsspítalans að bjóða þeim sem þess óska, að líta inn á fyrirburadeildina. Hjúkrunarkonan lét mig klæðast heljarmiklum hvítum búningi og stígvélum sem minnti einna helst á búning geimfara vegna þess að glerhlíf er fyrir andlitinu til að koma í veg fyrir alla smithættu. Þessi heimsókn varð eitt af markverðari augnablikunum í mínu lífi.

Hún gekk með mig um á milli glerkassana þar sem börnunum var komið fyrir í og þar sem þau lágu dúðuð með lopahúfur og trefla. Þetta er gert sökum þess að lungun eru enn svo veikburða, að börnin mega alls ekki kvefast því að þá er vá fyrir dyrum. “Og þessi hérna,” sagði hún svo, “er einungis 3 mánaða gamall.” Ég spurði furðu lostinn: “Og eiga þessi börn sér einhverja lífsvon”? Já, já, tækninni hefur fleygt svo mikið fram,” svaraði hún. [1]

 

Það er óþarfi að taka fram að barnið var enn dvergvaxið og húðin jafnvel hálf gegnsæ. Það er á mörkum þess sem í læknisfræðinni er skilgreint sem “fóstur sem er á mörkum þess að geta lifað utan móðurlífsins.” Í fóstureyðingarstórðjunni er slíkum “fóstrum” miskunnarlaust eytt, eða réttara sagt myrt. Það var undarleg tilfinning að sjá hvernig barnið skynjaði nærveru móðurinnar og andlitið kipraðist örlítið til þegar hún snerti hendur þess.

Eins og ég sagði þá var þetta á gamlársdag og það var hrollkalt úti. Það skipti svo sem ekki miklu máli því að bílinn minn var nýr og var en heitur þegar ég settist upp í hann. Engu að síður varð mér hrollkalt þegar mér var hugsað til þess að í næstu byggingu á sömu lóð deyða þeir þessi börn sem fórnfúsar hjúkrunarkonur og foreldrar hlúa að í byggingunni við hliðina.

Þetta er gert til samræmis við opinber lagaboð. Kunningjakona mín sem var orðin 35 ára þegar þau hjónin áttu sitt fyrsta barn greindi mér frá því þegar hún heimsótti lækninn í fyrsta skiptið. Hann sat við skrifborð sitt og horfði á hana þungbúinn á svip og líkt og með trega. Þegar hún greindi honum frá því að hún ætlaði sér að eignast barnið létti yfir ásjónu hans og hann brosti og sagði: “Og ég sem hélt að þú ætlaðir að biðja um fóstureyðingu!” Mennsk lög eru ekki ávallt léttbær þeim sem falið er að annast framkvæmd þeirra, einkum þegar þau ganga þvert á boðorð Guðs.

[1]. Þarna varð mér á í messunni! Barnið hlýtur að hafa verið komið á 23 viku, eða ríflega 5 mánuði.

Um lífslíkur fyrirbura og heilsufar

Jón Rafn Jóhannsson

Greinin birtist upphaflega á heimasíðu kirkju.net.


Fleiri greinar eftir Jón Rafn Jóhannsson/

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: