Nauðsynlegustu upplýsingar um NFP (Natural Family Planning)


Hvað er NFP eða náttúrleg fjölskylduáætlun?
NFP er heildarheiti yfir ákveðnar aðferðir sem stuðst er við til að geta barn eða koma í veg fyrir getnað. Þessar aðferðir eru byggðar á athugunum á náttúrlegum ummerkjum eða einkennum frjósemis- og ófrjósemisskeiða konunnar með hliðsjón af tíðahring hennar. Hjón sem styðjast við NFP til að koma í veg fyrir þungun forðast samfarir meðan konan er frjósöm. Engin lyf eða önnur úrræði eru notuð til að forðast þungun. NFP hefur til hliðsjónar gildi einstaklingsins í hjónabandi og fjölskyldulífi, glæðir opinleika gagnvart lífinu og virðir rétt barnsins. Með því að virða elskuríkt inntak sambands karls og konu styrkir NFP sambandið milli eiginmanns og eiginkonu.

Í upphafi skulum við leita til Trúfræðslurits kirkjunnar og heyra hvað kirkjan boðar í þessum efnum. Kirkjan hvetur alla meðlimi sína til að lifa af fyllstu ábyrgðarkennd:

Sérstakur þáttur þessarar ábyrgðar varðar stjórnun getnaðar. Sanngjarnar ástæður geta valdið því að makarnir vilji ákvarða lengd milli fæðinga barna sinna. Það er skylda þeirra að sjá til þess að ósk þeirra stafi ekki af eigingirni heldur að hún samræmist því örlyndi sem hæfir ábyrgu foreldrahlutverki. Ennfremur eiga þeir að samræma breytni sína hlutlægum mælikvarða siðferðis: Þegar það er spurning um að samræma kærleika hjónabandsins og ábyrga myndun lífs, ræðst siðferði þess sem gert er ekki einungis af einlægum ásetningi og mati á hvötum, heldur verður það að ákvarðast af hlutlægum undirstöðureglum; undirstöðureglum sem taka mið af eðli og atferli persónunnar og virða fulla merkingu gagnkvæmrar sjálfsgjafar og mannlegs getnaðar í tengslum við sanna ást. Þetta er einungis mögulegt ef hreinlífisdyggð hjónabandsins er ástunduð af einlægu hjarta (2368)

Síðan lesum við nokkru síðar:

Reglubundin sjálfsstjórn, það er, að hafa stjórn á fæðingum með því að fylgjast með og nota ófrjó tímabil, er í samræmi við undirstöðureglur siðferðis. Slík aðferð virðir líkama makanna, hvetur til ástúðar milli þeirra og styrkir þroskann til sanns frelsis. Aftur á móti er „hver sú aðgerð, sem hefur það að markmiði, eða er leið að því, að hindra getnað fyrir hjúskaparfar, meðan á því stendur eða eftir að þróun náttúrulegrar afleiðingar þess er hafin,“ í eðli sínu syndsamleg: Með getnaðarvörnum er þannig breitt yfir hið náttúrulega tungumál, sem tjáir fulla og gagnkvæma sjálfsgjöf eiginmanns og eiginkonu, með gagnstæðu tungumáli, það er að segja, með því að gefa sig ekki hvort öðru að fullu og öllu leyti. Þetta leiðir ekki einungis til afdráttarlausrar höfnunar á því að vera opin fyrir lífi heldur einnig til fölsunar á innri sannleika hjúskaparkærleikans sem ætlað er að vera heildargjöf persónunnar.… Munurinn, bæði mannfræðilegur og siðferðilegur, á því að nota getnaðarvarnir og að nýta sér tíðahringinn… leiðir af sér í endanlegri greiningu tvö ósamrýmanleg hugtök um mannlega persónu og mannlegt kynferðislíf (2370).

Felst NFP í almanaksaðferð tíðahringsins?
Þessi aðferð var þróuð á þriðja áratugi s. l. aldar. Hún var byggð á þeirri kenningu að unnt væri að finna tíma eggloss móður með hliðsjón af fyrri tímabili tíðahringsins. Þessi aðferð reyndist iðulega ónákvæm þar sem tíðahringur hverrar konu er frábrugðinn því sem gerist hjá öðrum. Tíðahringur sumra kvenna er afar óreglulegur og af og til reynist lengd tíðahrings allra kvenna óvenjulega langar.

Hins vegar grundvallast NFP á stöðugum athugunum, það er að segja daglegum athugunum á náttúrlegum einkennum og ummerkjum frjósemis- eða ófrjósemisskeiða tíðahringsins. NFP hefur hliðsjón af þeim breytingum sem eiga sér stað við egglos og lítur á hvern tíðahring sem einstæðan.

Hjón sem styðjast við NFP til að forðast þungun eiga ekki kynmök á frjósemisskeiði tíðahringsins. Hjón sem vilja hins vegar að þungun eigi sér stað geta einnig haft hliðsjón af frjósemistímabilinu. Þar sem NFP gerir hjónum kleift að aðlaga sig að tíðahring konunnar er hér ekki um getnaðarvörn að ræða, ekkert er gert sem vinnur gegn getnaði barns.

Hverjir geta stuðst við NFP?
öll hjón geta notað NFP! Kona þarf ekki að hafa “reglulegan” tíðahring. Uppfræðsla um NFP hjálpar hjónum til að skilja til fulls frjósemisskeiðin til að stuðla að þungun eða koma í veg fyrir hans. Lykilatriðið til að NFP komi að fullum notum er samvinna og náið samband karlsins og konunnar.

Sem aðferð í fjölskylduáætlun krefst NFP

A. Gagnkvæmrar ábyrgðar eiginmanns og konu.
B. Krefst þess að hjónin vinni saman.
C. Aðferðin er byggð á vísindalegum niðurstöðum.
D. Meðhöndlar hvern tíðahring sem einstakan og kennir hjónum að gefa gætur að einkennum um frjósemi frá degi til dags.
E. Hún hefur engin skaðleg hliðaráhrif.
F. Hún er áhrifarík leið fyrir þá sem vilja forðast þungun.
G. Hægt er að styðjast við hana undir sérstökum kringumstæðum, það er að segja eftir samfarir, við brjóstagjöf og í tíðateppu.
H. Er því sem næst ókeypis!

NFP er einstök aðferð í fjölskylduáætlunum vegna þess að hún gerir notandanum kleift að vinna með líkamanum, fremur en gegn honum. Litið er á frjósemina sem raunveruleika lífsins, en ekki vandamál sem þarf að leysa.

Hver eru ummerki frjósemisskeiðanna?
Líkami konunnar gefur jafnt frjósemis- sem ófrjósemisskeiðin til kynna á þrjá vegu í tíðahringnum. Þetta er sú leið sem liggur öllum NFP aðferðum til grundvallar.

Mikilvægustu ummerki frjósemi er legslímið sem kemur úr móðurlífinu. Konan lærir að bera kennsl á, heilbrigða legslímslosun þegar líklegast er að um þungun verði að ræða. önnur ummerki eru líkamshitinn. Sökum áhrifa frá hormónastarfseminni er líkamshiti konunnar breytilegur í tíðahringnum. Lægri líkamshiti gefur til kynna að egglos sé ekki hafið. Hár líkamshiti gefur til kynna vöxt í progesterónum sem þýðir að frjósemisskeiðinu er lokið. Þriðju ummerkin eru breyting á lögun legsins. Auk þess má tilgreina ummerki líkt og minniháttar sársauka í kviðarholi eða þrýsting við egglos.

Hvernig virkar NFP?
Leiðbeiningar hjálpa hjónum til að finna besta tímann fyrir þungun eða til að forðast hana.

Í hverju felast kostir NFP?
Í NFP læra bæði hjónin að skilja eðli frjósemi og vinna með henni. Annað hvort geta þau gert áætlun um hvenær þungun er æskileg eða forðast hana. Hjón sem styðjast við NFP læra brátt að ábyrgð þeirra er sameiginleg hvað áhrærir fjölskylduáætlun sína. Eiginmenn eru hvattir til að “stilla sig inn á” tíðahring konunnar og hjónin eru hvött til að ræða opinskátt og frjálslega um kynferðislegar þarfir sínar og hugmyndir um fjölskyldustærð.

Aðrir kostir aðferðarinnar eru meðal annars þessir:

(a). Aðferðin felur ekki í sér mikla fjárhagsbyrði
(b). Engar skaðlegar hliðarverkanir
(c). Er virk hvað varðar tímaáætlanir um þungun
(d). Unnt er að styðjast við hana allan þann tíma sem konan er frjósöm
(e). Auðgar hjónabandið og gagnkvæman skilning hjóna
(f). Glæðir virðingu gagnvart börnunum
(g). Leiðir til virðingar einstaklinga gagnvart hvor öðrum
(h). Mætir kröfum um siðferði

Hversu áhrifaríkar eru náttúrlegar fjölskylduáætlanir?

Þegar hjónin skilja þau lögmál sem búa aðferðinni að baki býður hún upp á 99% öryggi til að fastsetja æskilegan tíma til að fæða barn eða fresta því. NFP grundvallast á því að reglur hennar séu virtar og hjón sem gera það ná fyllsta árangri.

Hvar er unnt að læra meira um NFP?

Besta leiðin til að læra NFP er hjá sérmenntuðum leiðbeinanda, það er að segja leiðbeinanda sem lokuð hefur námskeiði um aðferðina. Þrátt fyrir að starfsfólk í heilsugæslu kynni sér aðferðina í stigvaxandi mæli og styðji við bak þeirra foreldra sem vilja nota hana, hafa þeir oft á tíðum ekki notið sérstakrar þjálfunar í notkun NFP.

Auk þess er boðið upp á margvísleg hjálpargögn í þessu sambandi. Ég hef þegar minnst á sérstök tölvuforrit sem unnt er að hlaða niður af netinu, en einnig eru sérstakar frjósemistölvur (fertility computers) í boði. Hér skal minnst á slíka sem framleidd er hjá fyrirtækinu RaxMedical í Californíu, svokallaða Lady-Comb. Hún hefur einnig notið mikilla vinsælda í Evrópu. Notkun hennar krefst einungis 30 sekúndna daglega. Hún hefur að geyma gagnagrunn með 700.000 frávikum í tíðahring kvenna og samkvæmt klíniskum rannsóknum býður hún upp á 99, 3% öryggi. 

Fólk getur auk þess fengið fyllri upplýsingar hjá:
Secretariat for Pro-Life Activities | 3211 4th Street, N.E., Washington DC 20017-1194 |
Email: nfp@usccb.org

Jón Rafn Jóhannsson

Greinin birtist upphaflega á heimasíðu kirkju.net.


Fleiri greinar eftir Jón Rafn Jóhannsson/
.

 

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: