Stríð kærleikans


Meðan Frelsarinn dvaldi með okkur á jörðu sagði hann: “ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð” (Mt 10. 35). Drottinn talar hér um stríð kærleikans, stríð sem snýst um líf og dauða sálarinnar. Skömmu áður sagði hann: “Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina” (Mt 10. 28). Hér víkur hann að ógnarvaldi dauðans. Þetta ógnarvald sem Ritningin nefnir “drekann rauða” (Opb 12. 3) hefur lostið 200 börn með hala sínum einungis meðan ég skrifa þessa málsgrein. Hér vík ég að fóstureyðingarstóriðjunni sem tortímir 6000 ófæddum börnum á klukkutíma á heimsvísu, 124.000 börnum á sólahring hverjum. Þetta er óaðskiljanlegur hluti þeirrar DAUÐAMENNNINGAR sem tröllríður heimsbyggðinni í dag og grundvallast á óhlýðni við BOÐORÐ DROTTINS.

Þetta er brot á einu boðorða Drottins: Þú skalt eigi mann deyða! Og Endurlausnarinn tók skírt fram að hann væri ekki kominn til að afnema lögmálið, heldur uppfylla það:

“ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki” (Mt 5. 16-20).

Boðorð Drottins eru því í fullu gildi enn í dag. Á öðrum stað í guðspjöllunum víkur hann að tveimur æðstum þessara boðorða:

 

“Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.” Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: “Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.’ Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir“ (Mt 21. 34-40).

Kjarni þeirrar DAUÐAMENNINGAR sem birtist í fóstureyðingunum felst í að hafna boðorðum Drottins. Þegar kirkja Krists berst gegn þeim öflum sem standa henni að baki er hún að dæma sjálfan verknaðinn, athöfnina sem slíka. En hún er ekki að boða hatur gegn þeim sem drýgja slíka synd, þá væri hún að brjóta annað æðsta boðorðið. Þetta gegnir um öll önnur brot á boðorðum Drottins, þar með IÐKUN KYNVILLU. Kirkjan fordæmir ekki samkynhneigða, heldur þá sem iðka kynlíf með aðila af sama kyni vegna þess að slíkt athæfi er syndsamlegt, jafn syndsamlegt eins og þegar gagnkynhneigður einstaklingur heldur fram hjá konu sinni eða öfugt. Þetta gildir um okkur öll, líka samkynhneigða. Spurningin er því einfaldlega þessi: Er það synd eða ekki að brjóta gegn boðorðum Drottins?

Sama lögmál lífsins Anda (Rm 8. 2) gildir því fyrir samkynhneigða og gagnkynhneigða, og sömu kröfurnar gilda um fyrirgefningu drýgðra synda, eins og um manninn sem græddur var við laugina forðum: “Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar”! (Jh 5. 14) og um konuna sem drýgði hórdóm: “Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar“ (Jh 8. 11). Með syndafyrirgefningunni er okkur forðað úr höndum þess sem megnar að deyða sálina.

Það er ekki allra að taka þátt í stríði kærleikans í hinni stríðandi kirkju á jörðu. Ef þú hefur ekki hoggið á fjötra þína við höfðingja þessa heims að fullu og öllu munu þessir hlekkir verða þér fjötur um fót. Þá muntu meta hagsmuni þína í heiminum meira þegar á reynir og ekki hafa það þolgæði til að bera sem nauðsynlegt er á úrslitastundinni. Gerðu þér ljóst að mikil illska er í heiminum og börn þessa heims eru slæg eins og höggormur. Þá skaltu snúa þér að því að ákalla hið Alhelga Hjarta Jesú og læra að vígbúast fyrir styrjöldina miklu, því að eins og systir Elísabet af Þrenningunni sagði: “Það er einungis ein hræring í hinu Alhelga Hjarta Jesú, að uppræta syndina og leiða okkur til síns himneska Föður.”

Jón Rafn Jóhannsson

Greinin birtist upphaflega á heimasíðu kirkju.net.


Fleiri greinar eftir Jón Rafn Jóhannsson/

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: