Evangelium Vitae (Heimsbréfið -“Guðspjall Lífsins”)

Ioannes Paulus PP. II

Til biskupa, presta og djákna, karla og kvenna sem vígst hafa klausturlífi, trúðara leikmanna og til allra manna með góðan vilja um gildi og friðhelgi mannlegs lífs

25. mars 1995

 

INNGANGUR

1. Guðspjall lífsins er í hjarta boðskapar Jesú og dag eftir dag meðtekur kirkjan hans það af elsku. Það á að kunngjöra af algerri tryggð þjóðum allra tíma og menningarsvæða sem “fagnaðarerindi”.

Fæðing Krists er kunngjörð sem gleðifregn við upphaf hjálpræðisins: “Ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs” (Lk 2:10-11). Uppspretta þessa “mikla fagnaðar” er fæðing frelsarans; en jólahátíðin opinberar einnig fulla merkingu hverrar fæðingar mannsins og því er litið á fögnuðinn sem fylgir fæðingu Messíasar sem grundvöll og fyllingu þess fagnaðar sem er við fæðingu hvers barns í heiminn (sbr. Jh 16:21).

Þegar Jesús setur fram kjarnann í endurlausnarerindi sínu segir hann: “Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð” (Jh 10:10). Í sannleika sagt er hann að vísa til þess “nýja” og “eilífa” lífs sem felst í samneyti við Föðurinn en hver maður er af frelsi kallaður til þess í Syninum fyrir kraft hins helgandi Anda. Það er nákvæmlega í þessu “lífi” sem allir þættir og öll svið mannlegs lífs öðlast að fullu merkingu sína.

 

Einstætt gildi hinnar mannlegu persónu

2. Maðurinn er kallaður til fullnustu lífs sem nær langt út fyrir víddir jarðneskrar tilvistar hans vegna þess að það felur í sér að eiga hlutdeild í sjálfu lífi Guðs. Háleitni þessarar yfirnáttúrlegu köllunar leiðir í ljós mikilfengleika og ómælanlegt gildi mannlegs lífs jafnvel á tímabundnu stigi þess. Raunar er stundlegt líf grundvallarskilyrði, frumstig og óaðskiljanlegur hluti, allrar þeirrar samræmdu þróunar sem felst í mannlegri tilveru. Þetta er þróun sem óvænt og óverðskuldað er upplýst af fyrirheiti og endurnýjuð af gjöf guðdómslegs lífs er nær fullum efndum í eilífðinni (sbr. 1Jh 3:1-2). Jafnframt auðkennir þessi yfirnáttúrlega köllun afstæð einkenni jarðnesks lífs hvers einstaklings. Því að þegar allt er skoðað er lífið á jörðinni ekki “endanlegur” heldur “næstsíðastur” veruleiki. Eigi að síður er hann nú sem fyrr heilagur veruleiki sem okkur er gert að annast. Hann eigum við að varðveita af ábyrgðartilfinningu og færa til fullkomnunar í kærleika og með gjöf á sjálfum okkur til Guðs og bræðra okkar og systra.

Kirkjan veit að þetta guðspjall lífsins sem hún hefur þegið frá Drottni sínum[1] ómar með djúpstæðum og sannfærandi hætti í hjarta hvers einasta manns – hvort sem hann er trúaður eða ekki – vegna þess að það fyllir á undursamlegan hátt allar væntingar hjartans samtímis að það tekur þeim langt fram. Hver maður sem er af einlægni opinn fyrir sannleika og góðsemi getur með ljósi skynseminnar og leyndri verkun náðarinnar, jafnvel mitt í erfiðleikum og við óstöðugleika, borið kennsl á í náttúrulögmálinu, sem letrað er í hjarta hans (sbr. Rm 2:14-15), heilög gildi mannlegs lífs alveg frá upphafi þess og þar til því lýkur og getur staðfest rétt hverrar mannlegrar sálar til þess að hafa þessi frumgæði virt til hins ýtrasta. Sérhvert mannlegt samfélag sem og pólitískt samfélag er grundvallað á því að þessi réttur sé viðurkenndur.

Með sérstökum hætti verða trúendur Krists að verja og efla þennan rétt og hafa í huga, eins og þeir gera, hinn undursamlega sannleika sem annað Vatíkanþingið minnti á: “Með holdtekju sinni sameinaði Sonur Guðs sig á vissan hátt hverjum manni.”[2] Þessi hjálpræðisatburður opinberar mannkyninu ekki einungis takmarkalausan kærleika Guðs sem “svo elskaði … heiminn að hann gaf sinn einkason” (Jh 3:16) heldur einnig hið óviðjafnanlega gildi hverrar mannlegrar persónu.

Kirkjan sem hugleiðir af trúmennsku leyndardóm endurlausnarinnar játar þetta gildi af endurtekinni dásemd.[3] Hún telur sig kallaða til að kunngjöra þjóðum allra tíma þetta “guðspjall” – uppsprettu ósigrandi vonar og sanns fagnaðar á hverju tímabili í sögunni. Guðspjall kærleika Guðs til mannsins, guðspjall tignar persónunnar og guðspjall lífsins eru eitt og óskiptanlegt guðspjall.

Af þessari ástæðu er maðurinn –maðurinn sem lifir – fyrsta og grunnleið kirkjunnar.[4]

Ný ógn við mannlegt líf

3. Einmitt sökum leyndardóms Orðs Guðs sem íklæddist holdi (sbr. Jh 1:14), er hver einstaklingur falinn kirkjunni til móðurlegrar umönnunar. Eigi verður hjá því komist að í sjálfu hjarta kirkjunnar verði fundið til þegar lífi mannsins og tign hans er ógnað. Óhjákvæmilega snertir það kjarna trúar hennar á endurlausnarholdtekju Sonar Guðs og skuldbindur hana í erindi hennar að kunngjöra guðspjall lífsins öllum heiminum og allri sköpun (sbr. Mk 16:15).

Í dag er sérstaklega brýnt að kunngjöra þetta vegna óvenjulegrar aukningar á alvarlegum ógnum við líf einstaklinga og þjóða, sérstaklega þegar lífið er vanburða og varnarlaust. Til viðbótar þeim fornu plágum sem eru fátækt, hungur, landlægir sjúkdómar, ofbeldi og stríð hafa nýjar ógnir komið fram af ógurlega víðtækri stærðargráðu.

Í kafla sem heldur öllu sínu gildi í dag fordæmir annað Vatíkanþingið kröftuglega nokkra glæpi og árásir gegn mannlegu lífi. Þrjátíu árum síðar tek ég upp orð þingsins og af sama krafti endurtek ég þessa sömu fordæmingu í nafni allrar kirkjunnar í þeirri vissu að ég túlki sanna tilfinningu hverrar heiðarlegrar samvisku: “Hvaðeina sem er andstætt lífinu eins og morð í sínum ýmsu gerðum, þjóðarmorð, fóstureyðingar, líknardráp eða sjálfseyðing af ráðnum hug, hvaðeina sem óvirðir mannlega helgi eins og limlestingar, pyndingar á sál og líkama eða tilraunir til að þvinga viljann, hvaðeina sem niðurlægir mannlega tign eins og heimilisaðstæður sem sæmir ekki mönnum, gerræðislegar fangelsanir, útlegð, þrældómur, vændi, sala á konum og börnum svo og smánarlegar vinnuaðstæður þar sem farið er með fólk eins og það væri verkfæri til hagnaðar en ekki frjálsar og ábyrgar persónur – allir eru þessir hlutir og aðrir líkir þeim sannarleg svívirða. Þeir eitra mannlegt þjóðfélag og gera meiri skaða þeim sem iðka þá en þeim sem líða óréttlætið. Þeir eru ennfremur mesta vanvirða við skaparann.”[5]

4. Því miður er langt í frá að það dragi úr þessu kvíðvænlega ástandi mála – það færist í aukanna. Með nýrri atburðarás sem þróun í vísindum og tækni hafa hrundið af stað eru upp komnar nýjar gerðir árása á tigin hinnar mannlegu sálar. Samtímis er nýtt menningarlegt andrúmsloft að þróast og festa sig í sessi sem gefur glæpum gegn lífinu ný og – að því leyti sem það er unnt – jafnvel enn ískyggilegri einkenni sem veldur enn alvarlegri áhyggjum: ríkur hluti almenningsálitsins réttlætir vissa glæpi gegn lífinu í nafni réttinda er tilheyri einstaklingsfrelsinu og á þessum grunni er þess ekki einungis krafist að þeir séu ekki refsiverðir heldur að ríkið löggildi þá til að gera megi þessa hluti í algeru frelsi og raunar með ókeypis aðstoð heilsukerfisins.

Allt veldur þetta djúpstæðri breytingu á því hvernig litið er á lífið og mannleg samskipti. Sú ákvörðun löggjafans í mörgum löndum (og víkur jafnvel með því frá grunnreglum stjórnarskráa sinna) að refsa ekki fyrir þessar aðgerðir gegn lífinu og gera þær jafnvel að fullu löglegar, er hvort tveggja alvarleg einkenni og veigamikil orsök alvarlegrar siðferðilegrar hnignunar. Valkostir sem áður voru einróma álitnir glæpsamlegir og þeim hafnað með almennri siðferðisvitund eru smám saman að verða ásættanlegir í samfélaginu. Jafnvel á vissum sviðum læknastéttarinnar, sem hefur það að köllun sinni að verja og annast mannlegt líf, er aukinn vilji til að framkvæma þessi verk gegn persónunni. Með þeim er gengið gegn sjálfu eðli læknastéttarinnar og það afskræmt auk þess sem reisn þeirra sem iðka þau bíður hnekki. Við slíkar menningarlegar og lagalegar aðstæður verða hin alvarlegu lýðfræðilegu og félagslegu vandamál, en einnig fjölskylduvandamál sem íþyngja mögum þjóðum heimsins og krefjast ábyrgrar og virkrar athygli þjóðlegra og alþjóðlegra stofnanna, móttækileg fyrir fölskum og villandi lausnum sem eru gagnstæðar sannleikanum og hag persóna og þjóða.

Afleiðing þessa er að endingu hörmuleg: eyðing svo margra mannlegra lífa sem enn hafa ekki fæðst eða eru í þann mund að fæðast er ekki einungis afar alvarleg og skelfileg staðreynd, heldur er sú staðreynd ekki síður alvarleg og skelfileg að sjálf samviskan – myrkvuð ef svo má segja af víðtækri mótun – á í sífellt meiri erfiðleikum með að gera greinarmun á góðu og illu í því sem varðar grunngildi mannlegs lífs.

 

Í samneyti við alla biskupa heimsins

5. Aukaþing kardínála haldið í Róm 4.-7. apríl 1991 var helgað vandamálinu sem er ógn gegn lífinu á okkar dögum. Eftir ítarlegar og nákvæmar umræður um vandamálið og þær áskoranir sem það hefur í för með sér fyrir alla fjölskyldu mannsins og einkum hið kristna samfélag, báðu kardínálarnir mig einum rómi að staðfesta í nafni embættis míns sem eftirmanns Péturs, gildi mannlegs lífs og friðhelgi þess í ljósi nútíma aðstæðna og fjandsamlegra aðgerða sem ógna því í dag.

Til að koma til mót við þessa ósk skrifaði ég persónulegt bréf á hvítasunnu 1991 til allra bræðra minna biskupanna og bað þá í anda félagshóps biskupanna að veita mér stuðning sinn við samningu tiltekins skjals.[6] Ég er innilega þakklátur öllum þeim biskupum sem svöruðu mér og gáfu mér gagnlegar staðreyndir, vísbendingar og tillögur. Með því báru þeir vitni um einróma þrá sína að eiga hlut í kenningarlegu og hirðislegu erindi kirkjunnar er varðar guðspjall lífsins.

Í þessu sama bréfi, sem skrifað var skömmu eftir að haldið var upp á aldarafmæli heimsbréfsins Rerum Novarum, beindi ég athygli þeirra allra að þessari eftirtektarverðu hliðstæðu: “Líkt og fyrir öld síðan að það var hin vinnandi stétt sem var undirokuð í grunnréttindum sínum, og kirkjan af miklu hugrekki kom henni til varnar með því að kunngjöra friðhelg réttindi verkamannsins sem persónu, þannig er það nú, þegar annar flokkur fólks er undirokaður í grunnréttindum sínum til lífs, að kirkjan telur sig skuldbundna til þess að tala opinskátt með sama hugrekki af hálfu þeirra sem hafa enga rödd. Hennar er ávallt hið evangelíska hróp til varnar hinum fátæku heimsins, þeim sem búa við ógn og fyrirlitningu og hafa mannréttindi sín vanhelguð.”[7]

Í dag er troðið á grunnréttindum til lífs hjá gífurlegum fjölda vanburða og varnarlausra mannvera, einkum hjá ófæddum börnum. Ef kirkjan gat við lok síðustu aldar ekki þagað um óréttlæti þess tíma getur hún enn síður þagað í dag þegar félagslegt óréttlæti liðinna tíma, sem því miður hefur ekki enn verið sigrast á, er gert illt verra á mörgum svæðum heimsins með enn sorglegra óréttlæti og undirokun enda þótt það sé sagt vera hluta þróunar í ljósi nýrrar skipunar heimsins. Þessu heimsbréfi, ávexti samvinnu biskupsstóla allra landa heimsins, er þannig ætlað að vera nákvæm og þróttmikil staðfesting á gildi mannlegs lífs og friðhelgi þess en samtímis brýnt ákall sem beint er til hverrar persónu í nafni Guðs: virðið, verndið, elskið og þjónið lífinu, hverju mannlegu lífi! Einungis með þeim hætti finnið þið réttlæti, þroska, sannarlegt frelsi, frið og hamingju!

Megi þessi orð ná til allra sona og dætra kirkjunnar! Megi þau ná til allra manna með góðan vilja sem er annt um hag hvers karls og konu og um hlutskipti alls þjóðfélagsins!

6. Í djúpu samneyti við alla bræður mína og systur í trú og fylltur andagift af sannri vináttu gagnvart öllum, er það ósk mín að hugleiða enn og aftur og kunngjöra guðspjall lífsins, ljóma sannleikans sem upplýsir samviskuna, hið skýra ljós sem lagar hina myrkvuðu sjón og er óbrigðul uppspretta trúfesti og staðfestu þegar horfst er í augu við nýjar áskoranir sem á vegi okkar verða.

Þar sem ég rifja upp hina áhrifamiklu reynslu af ári fjölskyldunnar líkt og ég væri að ljúka við Bréfið sem ég skrifaði “til hverrar einustu fjölskyldu á öllum stöðum heimsins”,[8] lít ég af endurnýjuðu trausti til allra heimila og bið að á öllum stigum komi fram á ný almenn skuldbinding til stuðnings fjölskyldunni og að þessi stuðningur styrkist til að einnig í dag – jafnvel innan um svo marga erfiðleika og alvarlegar ógnir – verði fjölskyldan eftir sem áður og í samræmi við fyrirætlun Guðs “griðastaður lífs”.[9]

Til allra meðlima kirkjunnar, lýð lífsins og fyrir lífið, beini ég þessu brýna ákalli að saman bjóðum við heimi okkar nýtt tákn vonar og störfum að því að tryggja að réttlæti og samstaða færist í aukana og að ný menning mannlegs lífs verði staðfest til uppbyggingar sannrar siðmenningar sannleika og kærleika.

 

 

I. KAFLI:

 

BLÓÐ BRÓÐUR ÞÍNS HRÓPAR TIL MÍN AF JöRÐINNI

 

Ógnir okkar tíma gegn mannlegu lífi

 

“Réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann” (1M 4:8): rætur ofbeldis gegn lífinu

7. “Guð er ekki valdur að dauðanum og gleðst ekki yfir að líf deyr. Guð skapaði allt til þess að það lifði. … Guð skapaði manninn til óforgengileika og gjörði hann mynd veru sinnar. En öfund djöfulsins leiddi dauðann inn í heiminn, og þeir fá að reyna hann sem tilheyra honum” (SS 1:13-14; 2:23-24).

Guðspjall lífsins, sem kunngjört er í upphafi þegar maðurinn er skapaður í mynd Guðs til þess hlutskiptis að eiga fullt og fullkomið líf (sbr. 1M 2:7; SS 9:2-3), fær mótstöðu af sársaukafullri reynslu af dauðanum sem kom í heiminn og varpar skugga tilgangsleysis yfir alla tilveru mannsins. Dauðinn kom í heiminn sem afleiðing öfundar djöfulsins (sbr. 1M 3:1, 4-5) og syndar fyrstu foreldra okkar (sbr. 1M 2:17, 3:17-19). Og dauðinn kom inn í hann með ofbeldisfullum hætti fyrir dráp Kains á bróður sínum Abel: “ Á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann” (1M 4:8).

Þessu fyrsta morði er komið á framfæri af einstakri málsnilld á blaðsíðum fyrstu Mósebókar og hefur það algilda þýðingu: þessar blaðsíður eru endurritaðar daglega af óvæginni og auðmýkjandi reglufestu í sögubók mannsins.

Við skulum endurlesa saman þessa frásögn Biblíunnar sem kennir okkur heilmargt þrátt fyrir fornfálega uppbyggingu og mikinn einfaldleika.

Abel varð hjarðmaður, en Kain jarðyrkjumaður. Og er fram liðu stundir, færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra. Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur. Þá mælti Drottinn til Kains: “Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni”.

Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: “Göngum út á akurinn” Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann. Þá sagði Drottinn við Kain: “Hvar er Abel bróðir þinn?” En hann mælti: “Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?” Og Drottinn sagði: “Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni! Og skalt þú nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu, sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi. Þegar þú yrkir akurlendið, skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni.” Og Kain sagði við Drottin: “Sekt mín er meiri en svo, að ég fái borið hana! Sjá, nú rekur þú mig burt af akurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig.” Þá sagði Drottinn við hann: “Fyrir því skal hver, sem drepur Kain, sæta sjöfaldri hegningu.” Og Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann. Þá gekk Kain burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden (1M 4:2-16).

8. Kain “reiddist ákaflega” og varð hann “niðurlútur” vegna þess að “Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans” (1M 4:5). Texti Biblíunnar segir ekki frá því hvers vegna Guð tekur fórn Abels fram yfir fórn Kains. Hann sýnir hins vegar með skýrum hætti fram á að Guð, enda þótt hann kjósi gjöf Abels, gerir ekki hlé á samtali sínu við Kain. Hann ávítar hann og minnir hann á frelsi sitt gagnvart hinu illa: manninum er á engan hátt fyrirhugað að gera hið illa. Vissulega lætur hann freistast líkt og Adam af óprúttnum krafti syndarinnar sem, líkt og villt skepna, liggur og bíður við dyr hjarta hans reiðubúin að stökkva á bráð sína. En Kain er eftir sem áður frjáls andspænis syndinni. Hann getur og verður að sigrast á henni: “Syndin … hefir hug á þér en þú átt að drottna yfir henni” (1M 4:7).

öfund og reiði hafa betur gegn viðvörun Drottins og því ræðst Kain á eigin bróður sinn og drepur hann. Og eins og við lesum í Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar: “Í frásögninni af morði Kains á bróður sínum Abel opinberar Ritningin að fyrir frumsyndina hafi reiði og öfund komið í manninn strax í upphafi mannkynssögunnar. Maðurinn verður óvinur meðbróður síns.”[10]

Bróðir drepur bróður. Líkt og fyrsta bróðurmorðið er sérhvert morð brot gegn hinum “andlega” skyldleika sem sameinar mannkynið í eina stóra fjölskyldu[11] þar sem allir deila sömu grundvallargæðum: jafnri persónulegri tign. Einnig er ekki óalgengt að brotið sé gegn skyldleika “holds og blóðs” til dæmis þegar ógnir við lífið koma upp í samskiptum foreldra og barna líkt og gerist með fóstureyðingu eða ef litið er í víðara samhengi til fjölskyldunnar eða skyldleikans að hvatt er til líknardráps eða það framkvæmt.

Við rætur hvers ofbeldisverks gegn náunganum er eftirlátssemi gagnvart “hugsun” hins illa, hans sem var “manndrápari frá upphafi” (Jh 8:44). Eða eins og Jóhannes postuli minnir okkur á: “Því að þetta er sá boðskapur sem þér hafið heyrt frá upphafi: Vér eigum að elska hver annan. Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn” (1Jh 3:11-12). Dráp Kains á bróður sínum við sjálfa dögun sögunnar er þannig dapur vitnisburður um hvernig hið illa breiðist út með ótrúlegum hraða: í kjölfar uppreisnar mannsins gegn Guði í hinni jarðnesku paradís kemur hinn banvæni hildarleikur manns gegn manni.

Eftir glæpinn skerst Guð í leikinn til að hefna hans sem var drepinn. Í stað þess að sýna iðrun og biðjast fyrirgefningar frammi fyrir Guði sem spyr hann um afdrif Abels er Kain hrokafullur og sneiðir hjá spurningunni: “Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?” (1M 4:9) “Það veit ég ekki”: Kain reynir að fela glæp sinn með lygi. Þetta var og er enn tilfellið þegar alls kyns hugmyndafræði reynir að réttlæta og leyna grimmilegustu glæpum gegn mannlegum sálum. “Á ég að gæta bróður míns?” Kain kýs að hugsa ekki um bróður sinn og neitar að taka á sig þá ábyrgð sem hver og einn hefur gagnvart öðrum. Við getum ekki annað en leitt hugann að þeirri tilhneigingu í dag að fólk skuli hafna því að taka á sig ábyrgð vegna bræðra sinna og systra. Einkenni í þessa átt felur í sér skort á samstöðu með veikustu meðlimum þjóðfélagsins – svo sem hinum öldruðu, hinum vanburða, innflytjendum og börnum – og tómlætið sem iðulega má finna í samskiptum milli þjóða heims jafnvel þegar grundvallargildi eins og sjálfsbjargarviðleitni, frelsi og frið er um að tefla.

9. En Guð getur ekki látið hjá líða að refsa fyrir glæpinn: af jörðinni þar sem því hefur verið úthellt, krefst blóð þess sem myrtur hefur verið að Guð iðki réttlæti (sbr. 1M 37:26; Jes 26:21; Esk 24:7-8). Það er frá þessum texta að kirkjan talar um “himinhróplegar syndir” – syndir sem hrópa til Guðs um réttlæti – og fyrst á meðal þeirra hefur hún sett morð að yfirlögðu ráði.[12] Hjá ætt Gyðinga, eins og á við um margar fornar þjóðir, er blóðið uppspretta lífs. Raunar er “blóðið … lífið” (5M 12:23) og lífið, sérstaklega mannlegt líf, tilheyrir engum nema Guði. Því er það að hver sá sem ræðst gegn mannlegu lífi ræðst á vissan hátt gegn Guði sjálfum.

Kain hlýtur bölvun frá Guði og einnig frá jörðinni sem mun neita honum um gróður sinn (sbr. 1M 4:11-12). Honum er refsað: hann mun lifa í óbyggðinni og eyðimörkinni. Grimmdarlegt ofbeldi breytir umhverfi mannsins með djúpstæðum hætti. Frá því að vera “aldingarðurinn Eden” (1M 2:15), staður allsnægta og samfelldra samskipta milli persóna, auk vináttu við Guð, verður jörðin að “landinu Nód” (1M 4:16), staði búskorts, einmanleika og aðskilnaðar frá Guði. Kain verður “landflótta og flakkandi á jörðinni” (1M 4:14): óvissa og eirðarleysi mun fylgja honum að eilífu.

Guð sem eigi að síður er ávallt miskunnsamur þegar hann refsar “setti Kain merki þess að enginn sem hitti hann skyldi drepa hann” (1M 4:15). Hann gaf honum þannig auðkennandi tákn, ekki til að sakfella hann öðrum til haturs, heldur til að vernda hann gegn þeim sem vildu drepa hann, enda þótt það væri til að hefna dauða Abels. Jafnvel morðinginn glatar ekki persónulegri tign sinni og Guð sjálfur heitir því að tryggja hana. Og það er einmitt hér að þversagnakenndur leyndardómur miskunnsams réttlætis Guðs birtist. Heilagur Ambrósíus skrifaði: “Þegar glæpur er játaður við sjálft upphaf þess syndsamlega verknaðar sem er föðurmorð á strax að rétta fram guðdómleg lög miskunnar Guðs. Ef refsingu hins ákærða er samstundis komið á þá hafa þeir menn sem iðka réttlætið alls ekki stundað langlyndi og hófsemi heldur hafa þeir dæmt þegar á stundinni sakborninginn til refsingar. … Guð rak Kain burt úr návist sinni og sendi hann í útlegð langt fjarri heimahögum sínum. Þannig fór hann frá lífi mannlegrar gæsku til þess konar lífs sem líktist frumstæðri tilveru villtrar skepnu. Guð sem kýs betrun fram yfir dauða syndarans vildi ekki að manndráp yrði refsað með kröfunni um annan manndrápsverknað.”[13]

 

“Hvað hefir þú gjört?” (1M 4:10): það sem varpar skugga á gildi lífsins

10. Drottinn sagði við Kain: “Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni” (1M 4:10). Blóðið sem mennirnir úthella heldur áfram að hrópa frá einni kynslóð til annarrar, ævinlega með nýjum og ólíkum hætti.

Spurningu Drottins: “Hvað hefir þú gjört?” sem Kain sleppur ekki við er einnig beint til fólks í dag til að fá það til að skilja umfang og alvöru árása gegn lífinu sem halda áfram að marka sögu mannsins; að fá það til að uppgötva hvað veldur þessum árásum og hvað það er sem nærir þær; og til að fá það til að hugleiða alvarlega hverjar þær afleiðingarnar eru fyrir tilveru einstaklinga og þjóða sem þessar árásir hafa í för með sér.

Sumar ógnir koma frá sjálfri náttúrunni en þær eru gerðar illu verri með vítaverðu tómlæti og vanrækslu þeirra sem gætu í sumum tilfellum bætt úr þeim. Aðrar ógnir eru afleiðingar þess umhverfis sem ofbeldi, hatur og andstæðir hagsmunir skapa en það fær fólk til að ráðast gegn öðru fólki með morði, stríði, blóðbaði og þjóðarmorði.

Og hvernig komumst við hjá því að hugleiða ofbeldið gegnvart lífinu sem bitnar á milljónum mannvera, sérstaklega börnum, sem dæmdar eru til fátæktar, vannæringar og hungurs vegna óréttlátrar dreifingar á auðlindum milli þjóða og milli stétta þjóðfélagsins? Og hvað með ofbeldið sem er eðlislægur þáttur ekki einungis stríðs heldur og þeirra smánarlegu viðskipta sem felast í hergagnasölu sem getur af sér fjölda hernaðarátaka er lita heiminn blóði? Hvað með útbreiðslu dauðans sem orsakast af tilraunum sem raska jafnvægi í vistkerfi jarðar, sem glæpsamleg dreifing eiturlyfja veldur eða slíkt dálæti á vissum kynferðislegum athöfnum sem, auk þess að vera siðferðilega óásættanlegar, fela einnig í sér alvarlega áhættu fyrir lífið? Ekki er kleift að skrásetja fullkomlega hið gríðarstóra safn af ógnunum við mannlegt líf því að þær birtast í dag í fjölmörgum gerðum annað hvort með greinilegum eða huldum hætti.

11. Hér skulum við þó einbeita okkur sérstaklega að öðrum þætti árása sem snerta lífið á upphafs- og lokastigum þess, árása sem hafa til að bera ný einkenni sé litið til fortíðar og vekja upp spurningar sem eru sérstaklega alvarlegar. Það er ekki einungis að almenn skoðun hafi þá tilhneigingu að líta ekki lengur á þessar árásir sem “glæp”; þótt undarlegt megi virðast hafa þær tekið á sig mynd náttúrlegra “réttinda” að því marki að ríkið er beðið um að gefa þeim lagalega viðurkenningu og að þær verði gerðar tiltækar fyrir ókeypis þjónustu starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar. Slíkar árásir hitta fyrir mannlegt líf þegar það er hvað brothættast, þegar það hefur engin ráð til að verja sig. Jafnvel enn alvarlegri er sú staðreynd að oftast eru þessar árásir gerðar í sjálfu hjarta fjölskyldunnar og með þátttöku hennar, en hún er samkvæmt eðli sínu kölluð til að vera “griðastaður lífsins”.

Hvernig gat slíkt ástandi komist á? Marga ólíka þætti verður að taka með í reikninginn. Í bakgrunn er djúpstæð menningarkreppa sem veldur efasemdum þegar kemur að sjálfum grunni þekkingar og siðferðis en það gerir það að verkum að æ erfiðara verður að skilja með greinilegum hætti merkingu þess hvað maðurinn er, merkingu réttinda hans og skyldna. Síðan eru alls konar tilvistarlegir erfiðleikar sem og erfiðleikar í samskiptum milli persóna sem ágerast vegna þess hversu þjóðfélagið er flókið og hvar einstaklingar, hjón og fjölskyldur eru látin ein um vandamál sín. Þá eru þær aðstæður fyrir hendi að ákafleg fátækt ríkir sem og kvíði eða angur og barátta er háð til að láta enda ná saman. Óbærilegar kvalir eða ofbeldisverk, sérstaklega gagnvart konum, gerir það val að verja og styðja lífið svo erfitt að það er nánast stundum hetjudáð.

Allt skýrir þetta að minnsta kosti að hluta til hvernig “skugga” er varpað á gildi lífsins í dag enda þótt samviskan hættir ekki að benda á að það hafi heilög og friðhelg gildi eins og er augljóst í þeirri tilhneigingu að fela vissa glæpi gegn lífinu á upphafs- og lokastigum þess með því að nota væg læknisfræðileg heiti sem beina athyglinni frá þeirri staðreynd að það sem er í húfi er rétturinn til lífs hjá raunverulegri mannlegri sál.

12. Enda þótt segja megi að útbreidd siðferðileg óvissa stafi af fjölbreytileika og alvöru félagslegra vandamála dagsins í dag, og það getur stundum mildað huglæga ábyrgð einstaklinga, þá er það ekki síður rétt að við stöndum andspænis jafnvel enn stærri veruleika sem lýsa má sem raunverulegu fyrirkomulagi syndar. Framkomin menning einkennir þennan veruleika sem hafnar samstöðu og hefur í mörgum tilfellum tekið á sig mynd raunverulegrar “menningar dauðans”. Valdamiklar menningarlegar, efnahagslegar og pólitískar stefnur hlúa með vikrum hætti að þessari menningu og ýta þær undir hugmynd um þjóðfélag sem er gengdarlaust umhugað um skilvirkni. Sé litið á ástandið út frá þessum sjónarhóli er að vissu leyti hægt að tala um stríð hinna voldugu gegn hinum vanburða: litið er á líf sem krefst meiri viðurkenningar, kærleika og umönnunar sem gagnslaust eða að það sé óþolandi byrði og því þannig hafnað með einum eða öðrum hætti. Sú persóna sem á við veikindi eða hreyfihömlun að stríða eða, svo málið sé einfaldað, á einungis tilveru, stofnar í hættu velferð eða lífsstíl þeirra sem njóta eftirlætis. Sú tilhneiging er fyrir hendi að líta á hana sem óvin sem veita eigi viðnám eða ryðja úr vegi. Með þessum hætti er leyst úr læðingi nokkurs konar “samsæri gegn lífinu”. Þetta samsæri snertir ekki einungis einstaklinga í persónulegum samskiptum sínum eða í samskiptum við fjölskyldu eða hópa heldur nær það miklu lengra að því marki að aflaga og skaða á alþjóðavettvangi samskipti þjóða og ríkja.

13. Í því skyni að greiða fyrir útbreiðslu fóstureyðinga hefur gífurlegum upphæðum verið varið (og er enn varið) í að framleiða lyf sem gera það kleift að drepa fóstur í móðurkviði án þess að leita þurfi læknisaðstoðar. Á þessu stigi er það nánast svo að vísindarannsóknir virðast vera algerlega bundnar við að þróa vörur sem verða æ einfaldari og fljótvirkari við að kefja lífið og er samtímis kleift að skjóta fóstureyðingum undan öllu eftirliti og félagslegri ábyrgð.

Því er iðulega haldið fram að getnaðarvarnir, ef þær eru gerðar öruggar og standi öllum til boða, séu árangursrík úrræði gegn fóstureyðingum. Kaþólska kirkjan er síðan ásökuð um að ýta í raun og veru undir fóstureyðingar vegna þess að hún af þrjósku sinni heldur áfram að kenna siðferðilegt ólögmæti getnaðarvarna. Ef litið er vandlega á þessi andmæli er ljóst að þau eru úr lausu lofti gripin. Vera má að sumt fólk noti getnaðarvarnir með það í huga að útiloka að það þurfi ekki að freistast til fóstureyðinga eftir á. En þau neikvæðu gildi sem eru eðlislæg “hugarfari getnaðarvarna” – sem er mjög ólíkt ábyrgu foreldrahlutverki, sem lifað er í virðingu við allan sannleikann um hjúskaparfar – eru slík að þau í raun staðfesta þessa freistingu þegar óvelkomið líf er getið. Raunar er fylgi við fóstureyðingar sérstaklega sterkt einmitt í þeirri menningu þar sem kenningu kirkjunnar um getnaðarvarnir er hafnað. Vissulega eru getnaðarvarnir og fóstureyðingar með tilteknum hætti ólík mein: það fyrra stangast á við allan sannleikann um kynferðislega athöfn sem eiginlega tjáningu á hjúskaparkærleikanum en hið síðara tortímir lífi mannlegrar veru; hið fyrra er andstætt dyggð hreinlífis í hjónabandinu, hið síðara er andstætt dyggð réttlætisins og brýtur með beinum hætti hið guðdómlega boðorð “Þú skalt ekki morð fremja”.

En þrátt fyrir að getnaðarvarnir og fóstureyðingar séu ólíkar að eðli og siðferðilegri alvöru eru náin tengsl með þeim líkt og með ávöxtum af sama trénu. Það er rétt að í mörgum tilfellum eru getnaðarvarnir og jafnvel fóstureyðingar iðkaðar undir þrýstingi sem stafar af erfiðleikum raunheimsins en það getur samt sem áður aldrei leyst neinn undan því að ásetja sér að heiðra lögmál Guðs að fullu. Hvað sem því líður eru slíkar iðkanir í mjög mörgum öðrum tilfellum rótfastar í hugarfari sældarhyggjunnar sem birtast í trega til að axla ábyrgð í kynferðislífi og leiðir af sér að frelsið er gert að hugtaki sjálfselskunnar er lítur á getnað sem hindrun á persónulegri fullnægju. Lífið sem gæti orsakast af kynferðislegu samlífi verður þannig að óvini sem ber að forðast með öllum tiltækum ráðum og fóstureyðing verður eina mögulega og óvíræða svarið við getnaðarvörnum sem heppnast ekki.

Hin nánu tengsl í hugarfari milli notkunar getnaðarvarna og fóstureyðinga verða æ augljósari. Kemur það fram með ógnvekjandi hætti í þróun á efnavörum, lykkjum og bóluefnum sem dreift er eins og venjulegum getnaðarvörnum en framkalla í raun og veru fóstureyðingu strax á upphafsstundum lífsþroska hinnar nýju mannveru.

14. Hinar ýmsu aðferðir við tæknifrjóvgun sem gætu virst vera til þjónustu við lífið og eru iðulega gerðar með það í huga, opna í raun og veru nýjum ógnum við lífið leið. Fyrir utan þá staðreynd að þær eru siðferðilega óásættanlegar þar sem þær aðskilja getnaðinn frá hinum fullkomna mannlega grunni hjúskaparfarsins[14]bregðast þessar tækniaðferðir í miklu mæli; þær bregðast ekki einungis við frjóvgunina heldur við eftirfarandi þroska fósturvísisins þegar hann er óvarinn fyrir hættum dauðans er gerist almennt innan tiltölulega stutts tíma. Ennfremur er fjöldi fósturvísa sem búinn er til oft meiri en þörf er á til að koma fyrir í skauti konunnar og þessum svokölluðu “vara fósturvísum” er síðan eytt eða þeir nýttir til rannsókna en það – undir fyrirslætti vísindalegrar eða læknisfræðilegar þróunar – smættar mannlegt líf til þess að vera “líffræðilegt efni” sem má losa sig við að vild.

Forburðarskoðun hefur ekki í för með sér neinar siðferðilegar mótbárur ef hún er gerð til að kanna hvort lækningar sé þörf á fyrir barnið í móðurkviði. Hún verður hins vegar allt of oft tilefni þess að ýta undir og framkvæma fóstureyðingu. Þetta er þannig fóstureyðing sem gerð er til að bæta erfðaeiginleika. Þetta réttlætir almenningsálitið á grundvelli hugarfars sem af misskilningi telur að það sé í samræmi við kröfur um “meðferðarúrræði” og viðurkennir þannig lífið einungis undir vissum skilyrðum – hafnar því ef það stríðir við einhverjar takmarkanir, er hreyfihamlað eða haldið sjúkdómi.

Verði þessari rökfærslu fylgt eftir er komið að þeim tímapunkti að börnum sem fædd eru verulega hreyfihömluð eða með alvarlega sjúkdóma verður neitað um grundavallarumönnun, jafnvel næringu. Þar að auki er það sem blasir við okkur í nútímanum að verða jafnvel enn skelfilegra sökum hugmynda sem komið er á framfæri á ýmsum stöðum um að réttlæta jafnvel barnsmorð en þar er sama röksemdin notuð sem réttlætir réttinn til fóstureyðinga. Með þessum hætti hverfum við aftur til þess ástands að búa við villimennsku sem maður hafði vonað að væri að baki um alla eilífð.

15. Ógnir sem eru ekki síður alvarlegar vofa yfir þeim sem haldnir eru ólæknandi sjúkdómum og þeim sem eru dauðvona. Í félagslegu og menningarlegu umhverfi þar sem æ erfiðara þykir að horfast í augu við þjáningar og sætta sig við þær verður freistingin æ meiri að ráða fram úr vandamáli þjáningarinnar með því útrýma henni við rætur hennar, með því að flýta fyrir dauðanum þannig að hann komi á þeirri stundu sem talin er henta best.

Margt rennur í gegnum hugann sem iðulega leiðir til slíkrar ákvörðunar en allt sameinast það í einni og sömu hræðilegu niðurstöðunni. Hjá sjúklingi getur sálarstríð, alvarlegur kvíði og jafnvel örvænting, sem áköf og löng þjáning veldur, ráðið úrslitum. Slíkt ástand getur ógnað ótraustu jafnvægi einstaklings hvort tveggja í persónulegu lífi og fjölskyldulífi. Annars vegar getur það haft þær afleiðingar að sjúklingurinn, þrátt fyrir æ virkari læknisfræðilega og félagslega aðstoð, telji sig yfirbugaðan af veikleika sínum. Og hins vegar gætu aðstandendur sjúklingsins hrærst af skiljanlegri meðaumkun enda þótt hún hefði ekki réttar forsendur. Allt er þetta gert illt verra með menningarlegu andrúmslofti sem getur ekki séð neina merkingu í því að þjást og telur þjáninguna ímynd hins illa sem beri að útrýma hvað sem það kostar. Þetta á sérstaklega við þar sem trúarleg viðhorf vantar en þau gætu hjálpað við að veita jákvæðan skilning á leyndardómi þjáningarinnar.

Á almennari grunni er fyrir hendi í menningu samtímans viss viðhorf í anda Prómeþeifiusar sem fær fólk til að halda að það geti stýrt lífi og dauða með því að taka í sínar eigin hendur ákvarðanir þar að lútandi. Það sem raunverulega gerist í slíku tilfelli er að einstaklingurinn er yfirbugaður og þrúgaður af dauðanum – sér engan tilgang eða von. Við sjáum sorgleg dæmi um þetta í útbreiðslu líknardrápa sem framkvæmd eru leynilega eða fyrir opnum tjöldum og jafnvel löglega. Þar að auki sökum vorkunnsemi sem byggð er á misskilningi þegar horft er á þjáningar sjúklingsins, er líknardráp stundum réttlætt með hugsun gagnsemishyggjunnar um að komast hjá kostnaði sem skilar engri arðsemi og hvílir þungt á þjóðfélaginu. Þannig hefur hún gert tillögu um að útrýma vansköpuðum börnum, alvarlega þroskaheftum, bækluðum, öldruðum, sérstaklega ef þeir geta ekki séð sér farborða, og þeim sem haldnir eru banvænum sjúkdómum. Og ekki getum við þagað gagnvart annarri lævíslegri gerð líknardrápa sem eru ekki síður alvarleg og raunveruleg. Þannig líknardráp gætu átt sér stað til dæmis með þeim hætti að þegar reynt er að auka framboð á líffærum til líffæraflutninga væru þau tekin án þess að virða hlutlæga og viðhlítandi mælikvarða til að sannreyna andlát gefandans.

16. Annað fyrirbæri nútímans sem iðulega er notað til að réttlæta ógnir og árásir gegn lífinu er hin lýðfræðilega spurning. Þessi spurning kemur upp með ýmsum hætti á hinum ýmsu stöðum í heiminum. Í ríkum og þróuðum löndum hefur tala fæðinga hrunið eða farið geigvænlega lækkandi. Hins vegar fer fólksfjöldi almennt vaxandi í fátækari löndum þar sem erfitt að framfleyta honum vegna lítillar efnahagslegrar og félagslegrar þróunar og þá einkum þar sem alvarleg vanþróun ríkir. Frammi fyrir offjölgun í hinum fátækari löndum eru stefnur lögleiddar sem eru andstæðar fæðingum í stað þess að hlutast til um málið með víðtækum hætti á alþjóðlegum grunni svo sem með því að koma á skynsamri stefnu í fjölskyldu- og félagsmálum, framkvæmdaáætlunum um menningarlega þróun og hæfilegri framleiðslu og úthlutun auðlinda.

Getnaðarvarnir, ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar eru vissulega að hluta til ástæða þess að fæðingum hefur skyndileg fækkað. Auðvelt er að finna til freistingar að fara sömu leið og nýta einnig sömu aðferðir til árása gegn lífinu þar sem þær aðstæður ríkja sem kalla má “lýðfræðilega sprengingu”.

Faraóarnir til forna höfðu áhyggjur af nærveru og sívaxandi fjölda Ísraelsbarna og hnepptu þau í alls kyns ánauð og mæltu svo fyrir að öll sveinbörn sem hebreskar konur fæddu skyldu drepin (sbr. 2M 1:7-22). Þeir eru ófáir við völd í heiminum í dag sem hegða sér með svipuðum hætti. Þeir hafa einnig áhyggjur af lýðfræðilegum vexti nú á dögum og eru uggandi um að frjóastar og fátækastar þjóðir séu ógn við velferð og frið þeirra eigin landa. Þar af leiðandi kjósa þeir að styðja og beita sér fyrir því að komið verið á umfangsmiklum áætlunum um takmörkun barneigna og nota til þess öll tiltæk meðöl í stað þess að horfast í augu við þessi alvarlegu vandamál og leysa þau af virðingu við tign einstaklinga og fjölskyldna og friðhelgs réttar hverrar persónu til lífs. Jafnvel sú efnahagsaðstoð sem þeir eru reiðubúnir að veita er með óréttmætum hætti háð skilyrðum um að sætta sig við stefnur sem eru andstæðar fæðingum barna.

17. Vissulega er það ógnvekjandi mynd sem mannkynið færir okkur ef við hugleiðum ekki einungis með hversu víðtækum hætti árásirnar á lífið breiðast út heldur einnig hversu tölulegt hlutfall þeirra er óheyrilega mikið. Og ekki getum við horft fram hjá þeirri staðreynd að þær fá útbreiddan og öflugan stuðning með almennu samþykki þjóðfélagsins. Þá njóta þær einnig víðtæks lagalegs stuðnings og eiga vísa þátttöku starfsfólks viss hluta heilbrigðisþjónustunnar.

Eins og ég sagði og lagði áherslu á í Denver á áttunda heimsdegi æskunnar “í gegnum árin hefur ekki dregið úr ógnarmættinum gegn lífinu. Umfang hans teygir sig víða. Ógnirnar koma ekki einungis að utan, frá náttúruöflum eða að það sé “Kain” sem drepi “Abel”; nei, þær eru ógnir sem fylgja vísindalegum og kerfisbundnum áætlunum. Tuttugasta öldin mun enda sem tímabil gífurlegra árása á lífið með endalausum stríðsrekstri og stöðugum aftökum á saklausu mannlegu lífi. Falsspámenn og falskennendur hafa átt mikilli velgengni að fagna”.[15] Fyrir utan ásetning sem getur verið af margvíslegum toga og virst jafnvel stundum sannfærandi, sérstaklega ef hann er sagður vera í nafni samstöðu, stöndum við í raun frammi fyrir fyrirhuguðu “samsæri gegn lífinu” jafnvel með þátttöku alþjóðlegra stofnanna sem eru iðnar við að hvetja til og hrinda af stað virku átaki til að getnaðarvarnir, ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar verði fáanlegar sem víðast. Ekki verður því heldur á móti mælt að oft eru fjölmiðlar meðsekir í þessum samblæstri með því að gera þeirri menningu hátt undir höfði sem boðar að það sé merki um framþróun og sé sigur frelsisins að gripið sé til getnaðarvarna, ófrjósemisaðgerða, fóstureyðinga og jafnvel líknardrápa en lýsa þeirri afstöðu sem óvini frelsis og þróunar sem stendur einarðlega með lífinu.

 

“Á ég að gæta bróður míns?” (1M 4:9): öfugsnúin hugmynd um frelsið

18. Þeirri sýn sem hér er lýst ber ekki að skilja einungis þannig að hún beri einkenni lífsfjandsamlegs fyrirbrigðis heldur einnig þeim skilningi að ýmsar orsakir grundvalli hana. Spurning Drottins: “Hvað hefir þú gjört?” (1M 4:10) virðist nánast vera beiðni til Kains um að líta út fyrir hina efnislegu hlið manndrápsverks hans í því skyni að hann geri sér grein fyrir alvöru þeirra hvata sem voru ástæða þess og þeim afleiðingum sem af því hlaust.

Ákvarðanir sem stríða gegn lífinu eru stundum orsök erfiðra eða jafnvel sorglegra aðstæðna djúpra þjáninga, einmannaleika, skorts á góðum horfum í fjármálum, þunglyndis og kvíða fyrir framtíðinni. Slíkar aðstæður geta mildað, jafnvel að verulegu marki, persónulega ábyrgð og eftirfarandi saknæmi þess sem á valið enda þótt það sé í sjálfu sér af hinu illa. En í dag nær vandamálið langt út fyrir óhjákvæmilega viðurkenningu á þessum persónulegu aðstæðum. Þetta er vandamál sem þrífst á menningarlegum, félagslegum og pólitískum vettvangi og þar afhjúpast ógnvekjandi og kvíðvænlegir þættir þess í þeirri tilhneigingu, ætíð með víðtæku samþykki, að túlka fyrrgreinda glæpi gegn lífinu sem lögmæta tjáningu á frelsi einstaklingsins sem beri að viðurkenna og vernda sem sönn réttindi.

Með þessum hætti og með sorglegum afleiðingum hafa orðið þáttaskil í langri sögulegri þróun. Þróunin sem eitt sinn leiddi til þess að hugmyndin um “mannréttindi” fæddist – réttindi sem hverri persónu eru eðlislæg og koma á undan nokkurri stjórnarskrá og löggjöf ríkis – er í dag mörkuð óvæntri mótsögn. Einmitt á tímum þegar friðhelg réttindi persónunnar eru kunngjörð með hátíðlegum hætti og gildi lífsins er staðfest með opinberum hætti er sjálfum réttinum til lífs hafnað eða traðkað á honum, sérstaklega á þýðingarmiklum stundum tilverunnar: andartaki fæðingar og andartaki dauðans.

Annars vegar hefur í ýmsum yfirlýsingum um mannréttindi og hugviti af ýmsu tagi, innblásnu þessum yfirlýsingum, verið sýnt fram á að á alheimsvettvangi er vaxandi siðferðilegur skilningur sem í felst meiri fúsleiki að viðurkenna gildi og tign hvers einstaklings án þess að gera nokkur greinarmun á kynþætti, þjóðerni, trú, pólitískum skoðunum eða stöðu í þjóðfélaginu.

Hins vegar er því miður gengið gegn þessum göfugu yfirlýsingum með sorglegri höfnun á þeim í verki. Þessi höfnun er þeim mun sársaukafyllri, raunar frekar hneykslanleg, einmitt vegna þess að hún á sér stað í þjóðfélagi sem gerir staðfestingu og vernd mannréttinda að grundvallarmarkmiði sínu og státar sig af því. Hvernig er hægt að koma endurteknum staðfestingum á þessari frumreglu heim og saman við stöðuga aukningu árása á mannlegt líf og útbreidda réttlætingu á þeim? Hvernig getum við komið þessum yfirlýsingum heim og saman við höfnunina að viðurkenna þá sem veikir eru og þurfandi, eða aldraðir, eða þá sem hafa nýlega verið getnir? Þessar árásir stríða með beinum hætti gegn virðingu fyrir lífinu og þær lýsa afdráttarlausri ógn gegn allri menningu mannréttinda. Þær eru að endingu ógn sem getur stofnað í hættu sjálfri merkingu þess að búa saman við frið í lýðræðislegri sambúð: í stað þess að vera þjóðfélög þar sem “fólk lifir sameiginlega” eru borgir okkar í þeirri hættu að verða að samfélögum fólks sem hefur verið hafnað eða gert að jaðarhópum, það uppflosnað og kúgað. Ef við lítum síðan á þetta í víðara alheimssamhengi getum við þá komist hjá því að líta svo á að sjálf staðfestingin á réttindum einstaklinga og þjóða, sem gerð er á virðulegum alþjóðlegum fundum, sé lítið annað en fánýtt orðagjálfur? Þetta verður greinilegt þegar afhjúpuð er eigingirni ríkari landa sem meina fátækari löndum aðgang að þróun eða gera slíkan aðgang háðan gerræðislegu banni við að fjölga sér – búa til árekstra milli þróunar og sjálfs mannsins? ættum við ekki að setja spurningamerki við efnahagslegar eftirlíkingar sem ríkin oft tileinka sér og er afleiðing alþjóðlegs þrýstings og röð skilyrða sem auka á og valda óréttlæti og ofbeldi hvar líf heilla þjóða er smánað og fótum troðið?

 

19. Hverjar eru ræturnar á þessari óvenjulegu mótsögn?

Við getum fundið þær með heildarmati á menningarlegri og siðferðilegri náttúru og byrjað á því hugarfari sem flytur hugtakið um huglægni til ystu marka og afskræmir það jafnvel og viðurkennir einungis þá persónu sem þiggjanda réttinda er nýtur fulls sjálfforræðis eða að minnsta kosti sjálfforræðis á upphafsstigum þess, og hættir að vera algjörlega háð öðrum. En hvernig getum við samrýmt þessa nálgun við þá upphefð mannsins að hann sé vera sem á að vera markið en ekki leið að því? Fræðikenningin um mannréttindi er byggð nákvæmlega á staðfestingunni um að hin mannlega persóna, ólíkt skepnum og hlutum, getur ekki verið undir aðra seld. Við verðum einnig að minnast á hugarfarið sem hefur tilhneigingu til að jafna persónulegri tign við getuna að eiga munnleg og skýr, eða að minnsta kosti skiljanleg, tjáskipti. Það er ljóst að á grunni þessara forsenda er ekkert rúm í heiminum fyrir neinn þann sem, líkt og þeir ófæddu og deyjandi, er veikur hlekkur í hinni félagslegu byggingu, eða fyrir nokkurn þann sem virðist vera algerlega á valdi annarra og háður þeim með gagngerum hætti og getur einungis átt samskipti fyrir hið þögla mál sem í felst djúpstæð deiling á bróðurkærleikanum. Í þessu tilfelli er það aflið sem verður að mælikvarða vals og aðgerða í samskiptum milli persóna og í hinu félagslega lífi. En þetta er nákvæmlega andstætt því sem réttarríkinu, sögulega séð, er ætlað að vera – samfélag þar sem skynsemin ræður yfir aflinu en ekki eins og hér er að aflið ráði yfir skynseminni.

Á öðrum vettvangi liggja rætur mótsagnar milli formlegrar staðfestingar mannréttinda og hörmulegrar höfnunar þeirra í verki í hugmynd um frelsi sem upphefur hinn staka einstakling með algerum hætti og gefur ekkert rúm til samstöðu, til einlægni við aðra og þjónustu við þá. Þótt rétt sé að dráp á ófæddu lífi eða lífi á lokastigum þess atvikast stundum ranglega vegna mannúðar og meðaumkunar, er ekki hægt að neita því að slík menning dauðans, sé litið á hana í heild sinni, afhjúpar algera einstaklingsbundna hugmynd um frelsið, sem á endanum verður að frelsi “hinna sterku” gegn hinum vanburða sem hafa ekki annan kost en að gefa eftir.

Það er nákvæmlega í þessari merkingu sem túlka má svar Kains við spurningu Drottins: “Hvar er Abel bróðir þinn?” og Kain svarar:“Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?” Já, hver maður á að “gæta bróður síns” vegna þess að Guð treystir okkur hvert fyrir öðru. Og það er í ljósi þessa trausts að Guð gefur öllum frelsi, frelsi sem í felst eðlisbundin venslatengsl. Þetta er mikil gjöf skaparans því að frelsið er sett til þjónustu við aðra og fullkomnast fyrir gjöf á sjálfum sér og einlægni við annað fólk. En þegar frelsið er gert algerlega einstaklingsbundið tæmist upprunalegur kjarni þess og þá er eiginlegri merkingu þess og sóma hafnað.

Jafnvel enn djúpstæðara sjónarmið er fyrir hendi sem leggja verður áherslu á: frelsið ónýtir og tortímir sjálfu sér og stuðlar að eyðileggingu annarra þegar það viðurkennir ekki lengur og virðir grunntengsl sín við sannleikann. Þegar frelsið, úr frá þeirri löngun að varpa af sér öllu formi siðvenju og yfirvalds, útilokar jafnvel augljósustu sannanir um hlutlægan og almennan sannleika – sem er grunnurinn að persónulegu og félagslegu lífi – verður það hlutskipti persónunnar að taka ekki lengur sannleikann um gott og illt sem hinn eina og óumdeilanlega mælikvarða þegar hún stendur frammi fyrir vali, heldur velur hún einungis úr frá huglægri og breytilegri skoðun sinni eða raunar eingingjörnum hagsmunum sínum og duttlungum.

20. Slík skoðun á frelsinu leiðir til alvarlegra truflana á þjóðfélagslífinu. Ef efling á einstaklingseðlinu er skilið þannig að það sé algert sjálfsforræði er óumflýjanlegt að það komi að því að fólk hafni hvert öðru – að litið verði á alla aðra sem óvini sem verði að verja sig gegn. Þannig verður þjóðfélagið að samansafni einstaklinga sem standa hlið við hlið án nokkurra gagnkvæmra tengsla. Vilji hvers og eins verður sá að láta til sína taka óháður öllum öðrum og raunar í þeim tilgangi að eigin hagsmunir hafi betur. Eigi að síður, andspænis hliðstæðum hagsmunum annars fólks, verður að leita nokkurs konar málamiðlunar ef áhugi er á þjóðfélagi þar sem hverjum einstaklingi er tryggt mesta mögulega frelsið. Með þessum hætti glatast öll vísbending um sameiginleg gildi og sannleika sem allir eru bundnir af og þjóðfélagslífið hættir sér út á ótraustan grunn gagngerrar afstæðishyggju. Þegar þannig er komið verður allt umsemjanlegt, allt mun ganga kaupum og sölum jafnvel frumrétturinn, rétturinn til lífs.

Þetta gerist einnig á vettvangi stjórnmála og ríkisstjórna: hinn upprunalegi og friðhelgi réttur til lífs er dreginn í efa eða hafnað á grundvelli atkvæðagreiðslu á þingi eða vilja eins hluta þjóðarinnar – þótt hann sé meirihluti. Þetta er hin óheillavænlega afleiðing afstæðishyggju sem fær að ríkja án nokkurrar andstöðu: “réttindin” hætta að vera réttindi vegna þess að þau hvíla ekki lengur á föstum grunni friðhelgrar tignar persónunnar heldur verða að lúta vilja hins sterkari hluta. Með þessum hætti mælir lýðræðið í móti meginreglum sínum og færist í raun í átt til alræðis. Ríkið er ekki lengur að þessu leyti “sameiginlegt heimili” þar sem allir geta lifað saman á grundvelli meginreglunnar um grundvallarjöfnuð heldur umbreytist það í harðstjórnarríki sem í nafni almannahagsmuna sölsar undir sig réttinn að losa sig við líf veikustu og varnarlausustu meðlimanna, allt frá ófæddum börnum til hinna eldri; en þegar til kastanna kemur eru þetta í rauninni ekkert annað en hagsmunir eins hluta. Ekki er látið hjá líða að sýna að farið sé fyllilega að lögum að minnsta kosti þegar lögin er heimila fóstureyðingar og líknardráp eru niðurstaða atkvæðagreiðslu á grunni þess sem almennt er litið á sem lýðræðisreglur. En það sem við höfum hér í raun og veru er lítið annað en sorgleg skopstæling á löggjafanum; lýðræðishugsjónin, sem er einungis sannarlega slík þegar hún viðurkennir og verndar tign hverrar mannlegrar persónu, er fölsuð á eiginlegum grunni sínum: “Hvernig er enn hægt að tala um tign hverrar mannlegrar persónu þegar dráp á hinum veikustu og saklausustu er leyft? Í nafni hvers réttlætis er óréttlátust mismunun iðkuð: sumir einstaklingar eru taldir verðskulda að þeir séu varðir en öðrum er neitað um þá tign?”[16] Þegar slíkt gerist er sú þróun hafin sem leiðir til hruns á hreinni mannlegri og friðsamlegri sambúð og sundrungu ríkisins.

Að krefjast réttinda til fóstureyðinga, barnsmorða og líknardrápa og viðurkenna þann rétt með lagasetningu þýðir að mannlegu frelsi er gefið siðspillt einkenni og einkenni hins vonda — að hafa algert vald yfir öðrum og gegn öðrum. Þetta er dauði sanns frelsis: “Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar” (Jh 8:34).

 

“Og ég verð að felast fyrir augliti þínu” (1M 4:14) skugga bregður yfir Guð og mann í vitundinni

21. Þegar leitað er að dýpstu rótum baráttunnar á milli “menningar lífs” og “menningar dauða” getum við ekki einskorðað okkur við rangsnúna hugmynd um frelsið sem minnst er á hér að ofan. Við verðum að fara í hjarta harmleiksins sem nútímamaðurinn fær að reyna: skugga bregður yfir Guð og mann í vitundinni sem er dæmigert fyrir félagslegt og menningarlegt andrúmsloft þar sem veraldarhyggja ræður ríkjum en með allsráðandi armi sínum reyna þau oft kristin samfélög. Þeir sem láta þetta andrúmsloft hafa áhrif á sig lenda auðveldlega í vítahring: þegar skynjunin á Guði glatast er einnig tilhneiging til að glata skynjuninni á manninn, á tign hans og líf. Kerfisbundið brot á siðalögmálinu, sérstaklega í þeim alvarlegu málum sem eru virðing fyrir mannlegu lífi og tign þess, veldur því að getan til að greina lifandi og frelsandi nærveru Guðs myrkvast stig af stigi.

Enn aftur getum við öðlast skilning af sögunni þegar Abel var myrtur af bróður sínum. Eftir bölvunina sem Guð lagði á Kain ávarpaði Kain Drottin með þessum hætti: “Sekt mín er meiri en svo, að ég fái borið hana. Sjá, nú rekur þú mig burt af akurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig mun drepa mig” (1M 4:13-14). Kain er sannfærður um að synd hans muni ekki fá fyrirgefningu Drottins og að óumflýjanlegt hlutskipti hans muni vera að “felast” fyrir honum. Ef Kain er fær um að játa að misgerð hans sé “meiri en svo að hann fái borið hana” er það vegna þess að hann er meðvitaður um að hann er í nærveru Guðs og frammi fyrir réttlátum dómi Guðs. Það er í raun einungis frammi fyrir Drottni að maðurinn getur gengist við synd sinni og viðurkennt fulla alvöru hennar. Þetta var reynsla Davíðs sem, eftir að “hafa syndgað frammi fyrir ásjónu Drottins” og eftir að Natan spámaður ávítaði hann, hrópaði upp yfir sig: “Ég þekki sjálfur afbrot mín og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum. Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum” (Sl 51:5-6).

22. Því er það að þegar skynjunin á Guð glatast er skynjunin á manninn einnig í hættu, hún spillist. Annað Vatíkanþingið lýsir þessu á gagnorðan hátt: “Án skaparans mundi sköpunin hverfa … Og þegar Guð gleymist verður sjálf sköpunin óljósari”.[17] Maðurinn er ekki lengur fær um að líta þannig á sjálfan sig að hann sé með leyndardómsfullum hætti ólíkur öðrum jarðneskum sköpunum; í hans augum er hann lítið annað en ein af mörgum lifandi verum, lífvera sem hefur í mesta lagi náð mjög hátt á þrepi fullkomnunar. Á vissan hátt smættar það manninn ef hann er innilokaður í þröngu sjónarsviði líkamlegrar náttúru sinnar, hann verður “hlutur” og getur ekki lengur áttað sig á “yfirnáttúrlegum” einkennum “tilveru sinnar sem maður”. Hann lítur ekki lengur á lífið sem stórkostlega gjöf Guðs, eitthvað sem er “heilagt” og honum falið til ábyrgðar og þannig einnig til kærleiksríkrar umönnunar og “virðingar”. Lífið sjálft verður lítið annað en “hlutur” sem maðurinn gerir tilkall til að sé sín einkaeign er verði að lúta að öllu leyti stjórn hans og meðhöndlun.

Þar af leiðandi stendur maðurinn frammi fyrir úrslitastundum í lífi sínu ,fæðingu og dauða, án þess að geta lengur borið fram spurninguna um sönnustu merkingu eigin tilveru sinnar og sætt sig við þær stundir og samlagast þeim af raunverulegu frelsi. Honum er einungis umhugað um “aðgerðir” og með því að nýta sér alls kyns tækni sekkur hann sér niður í áætlunargerð um stjórn og yfirráð yfir fæðingu og dauða. Fæðing og dauði eru ekki lengur reynsla sem ber fyrst og fremst að “lifa”; þess í stað er litið á hvorutveggja sem hluti er skal “náð undir sig” eða þeim “hafnað”.

Þegar öll skírskotun til Guðs er numin á brott kemur ekki á óvart að merking allra annarra hluta verði afar rangsnúin. Sjálf náttúran er minnkuð. Í stað þess að vera “mater” (móðir) er hún lítið annað en “efni” sem er ráðskast með að vild. Viss tækni- og vísindahugsun, sem er algeng í hugarfari dagsins í dag, virðist leita í þessa átt þegar hún hafnar þeirri hugmynd að til sé sannleikur um sköpunina sem beri að viðurkenna, eða fyrirætlun Guðs fyrir lífið sem verði að virða. Eitthvað álíka gerist þegar kvíði fyrir afleiðingum “frelsis án laga” leiðir sumt fólk til að taka andstæða afstöðu með “lögum án frelsis.” Þetta gildir til dæmis í hugmyndafræði sem telur það ólögmætt að trufla með nokkrum hætti náttúruna og gerir hana beinlínis “guðdómlega”. Aftur er hér ferðinni misskilningur um bindingu náttúrunnar við fyrirætlun skaparans. Þannig er það ljóst að missir á tengslum við spaklega ætlun Guðs er dýpsta rót uppnáms nútímamannsins, hvort tveggja þegar missir hans leiðir til frelsis án reglna og þegar hann veldur því að maðurinn er skilinn eftir í “ótta” um frelsi sitt.

Með því að lifa “eins Guð væri ekki til” missir maðurinn ekki einungis sjónar á leyndardómi Guðs, heldur einnig á leyndardómi heimsins og leyndardómi eigin verundar sinnar.

23. Þar eð skugga hefur brugðið yfir Guð og mann í vitundinni leiðir það óhjákvæmilega til hagnýtrar efnishyggju er elur af sér einstaklingshyggju, nytjahyggju og sældarhyggju. Hér sjáum við einnig varanlegt gildi orða Postulans: “Þar eð þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt” (Rm 1:28). Gildi þess að vera víkur fyrir gildum þess að hafa. Eina markmiðið sem telur er leit að eigin efnislegri velferð. Hin svokölluðu “lífsgæði” eru skýrð fyrst og fremst eða eingöngu sem efnahagsleg skilvirkni, hóflaus neysluhyggja, líkamleg fegurð og nautn, en dýpri þættir tilverunnar – gagnkvæm samskipti, andleg viðleitni og trú – eru vanræktir.

Þjáningin – óhjákvæmileg byrði mannlegrar tilveru sem getur eins verið þáttur í persónulegum þroska mannsins – er “strikuð út”, henni hafnað og hún sögð tilgangslaus, raunar andmælt á grunni þess að hún sé af hinu vonda er eigi ávallt forðast með öllum tiltækum ráðum. Þegar þjáningin er óumflýjanleg og væntingar um einhverja vellíðan á komandi tímum hverfur, þá er engu líkara en að lífið hafi glatað allri merkingu sinni og freistingin eykst í manninum að krefjast þeirra réttinda að binda enda á það.

Í þessu menningarlega andrúmslofti er ekki lengur litið á líkamann sem eiginlegan “persónulegan veruleika”, tákn og rúm samskipta við aðra, við Guð og heiminn. Hann er smættaður til að vera hreint efni – vera einfaldlega samsetning líffæra, athafna og atorkusemi sem nota á eingöngu eftir mælikvarða unaðar og skilvirkni. Þetta leiðir til þess að kynferðislíf verður einnig gert ópersónulegt og það misnotað: í stað þess að vera tákn, stund og tunga kærleikans, það er að segja, gjöf á sjálfum sér og viðtöku hins helmingsins í allri auðlegð hans sem persónu, verður það með auknum hætti tilefni og verkfæri sjálfsfremdar og eigingjarnrar fullnægingu persónulegra langana og eðlishvata. Þannig er hið upprunalega mikilvægi mannlegs kynferðislífs afskræmt og falsað, og tvennur tilgangur þess, sameining og getnaður, eðlislægur hinni eiginlegri náttúru hjúskaparfarsins, er aðskilinn með tilbúnum hætti: þannig er rofin tryggð við einingu hjúskaparins og frjósemi hans verður háð duttlungum makanna. Getnaður verður síðan að “óvini” sem ber að forðast í kynferðislegum athöfnum: ef getnaði er fagnað er það einungis vegna þess að hann tjáir löngun, eða raunar ásetning, að eignast barn “hvað sem það kostar” en ekki vegna þess að hann sé tákn um að í alla staði hafi verið tekið við hinum helminginum og feli því í sér næmleika fyrir þeirri auðlegð lífs sem barnið stendur fyrir.

Með þeirri efnishyggju sem hér hefur verið lýst eru samskipti milli persóna rýrð með tilfinnanlegum hætti. Fyrst til að verða fyrir skaða eru konur, börn, hinir sjúku eða þjáðu, og aldraðir. Persónuleg tign krefst virðingar, örlætis og þjónustu en nú hefur hún viðmiðun atorku, skilvirkni og nytsemi: ekki er litið á annað fólk fyrir það sem það “er” heldur fyrir það sem það “hefur, gerir og framleiðir”. Þetta leiðir af sér yfirráð hinna sterku yfir hinum veiku.

24. Það gerist í hjarta samviskunnar að skynjunin á Guði og manni er myrkvuð og hefur það ýmsar og banvænar afleiðingar í för með sér fyrir lífið. Umfram allt er þetta spurning um einstaka samvisku þar sem hún stendur ein frammi fyrir Guði í einlægni.[18] En þetta er ennfremur að einhverju leyti spurning um “siðferðilega samvisku” þjóðfélagsins: hún er einnig ábyrg að vissu leyti og ekki einungis vegna þess að hún umber og ýtir undir hegðun sem stríðir gegn lífinu, heldur einnig vegna þess að hún hvetur til “menningar dauðans” – skapar og styrkir sannkallað “fyrirkomulag syndar” sem gengur gegn lífinu. Hin siðferðilega samviska, hvorutveggja einstaklingsbundin og sameiginleg, er í dag undirorpin ákaflega alvarlegri og banvænni hættu sem eins má rekja til þess að hún er gegnsýrð áhrifum fjölmiðla: erfitt er að gera skil á milli góðs og ills einmitt í tengslum við frumréttinn til lífs. Stór hluti nútímaþjóðfélags hefur því miður ásjónu þess mannfélags sem Páll lýsir svo í bréfi sínu til Rómverja: það samanstendur af mönnum “er kefja sannleikann með rangsleitni” (1:18): með höfnun á Guði í þeirri trú að þeir geti reist hina jarðnesku borg án hans “hafa þeir gjörst hégómlegir í hugsunum sínum” þannig að “hið skynlausa hjarta þeirra hefur hjúpast myrkri” (1:22); þeir framkvæma verk sem heimilar dauðasekt en “samt fremja þeir þetta og gjöra að auki góðan róm að slíkri breytni hjá öðrum” (1:32). Þegar samviskan, þessi skínandi lampi sálarinnar (sbr. Mt 6:22-23), kallar “hið illa gott og hið góða illt” (Jes 5:20) er hún komin á slóð kvíðvænlegrar spillingar og mikillar siðferðilegrar blindu.

Eigi að síður, þrátt fyrir allar kröfur um dauðaþögn og alla viðleitni þar að lútandi, verður rödd Drottins sem ómar í samvisku hvers manns ekki bæld niður: það er ávallt frá þessum innsta helgidómi samviskunnar að ný leið kærleika, einlægni og þjónustu við mannlegt líf getur hafist.

 

“Þér eruð komnir til blóðsins sem hreinsar” (sbr. Heb 12:22, 24): tákn vonar og kall til hollustu

25. “Blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni” (1M 4:10). Það er ekki einungis blóð Abels, fyrsta saklausa mannsins sem var myrtur, sem hrópar til Guðs, uppsprettu og verndara lífsins. Eitt af öðru hefur blóð manna sem drepnir hafa verið eftir Abel sömuleiðis hrópað til Drottins. Eins og höfundur Hebreabréfsins minnir okkur á er það með algerlega einstökum hætti að blóð Krists hrópar til Guðs en í sakleysi sínu gaf Abel fyrirboð um það: “Þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda … til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels” (12:22, 24).

Þetta er blóðið sem hreinsar. Merki og spámannleg tákn þess höfðu verið blóðfórnir gamla sáttmálans en með þeim hafði Guð lýsti vilja sínum að miðla til manna eigin lífi sínu með því að hreinsa og helga þá (2M 24:8; 3M 17:11). Nú hefur allt þetta verið uppfyllt og látið í ljós í Kristi: hans er hið hreinsandi blóð sem endurleysir, skírir og frelsar; það er blóð meðalgangara nýs sáttmála sem er “úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda” (Mt 26:28). Þetta blóð, sem rennur út úr gegnumstunginni síðu Krists á krossinum (sbr. Jh 19:34), “talar kröftuglegar” en blóð Abels; það lætur í ljós og krefst fullkomnara “réttlætis” og umfram allt sárbiður það um miskunn[19], það biður meðbræðrum sínum árnaðar frammi fyrir Föðurnum (sbr. Heb 7:25) og það er uppspretta fullkominnar endurlausnar og gjöf nýs lífs.

Blóð Krists, sem opinberar hversu mikill kærleikur Föðurins er, sýnir fram á hversu dýrmætur maðurinn er í augum Guðs og hversu ómetanlegt gildi líf hans hefur. Pétur postuli minnir okkur á þetta þegar hann segir: “Þér vitið að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar, heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists” (1Pt 1:18-19). Einmitt með því að hugleiða dýrmætt blóð Krists, táknið um sjálfsgjöf hans á kærleikanum (sbr. Jh 13:1), lærir sá sem trúir að játa og meta tign hverrar mannveru sem nánast er guðleg og hann getur stöðugt hrópað upp yfir sig og undrast í þakklæti sínu: “Hversu dýrmætur hlýtur maðurinn að vera í augum skaparans úr því að hann “verðskuldaði slíkan og svo voldugan endurlausnara” (Exsultet páskavökunnar) og úr því að Guð “gaf sinn einkason” til þess að maðurinn “glatist ekki heldur hafi eilíft líf” (sbr. Jh 3:16)!”.[20]

Ennfremur opinberar blóð Krists manninum að mikilfengleiki hans, og þannig einnig köllun hans, felst í því að gefa einlæglega af sjálfum sér. Einmitt vegna þess að því er úthellt sem gjöf lífsins er blóð Krists ekki lengur tákn um dauðann, um skýran aðskilnað frá meðbræðrum sínum, heldur verkfæri samneytis sem í felst ríkidómur lífs öllum til handa. Hver sá sem í sakramenti evkaristíunnar drekkur blóð Jesú og dvelur í honum (sbr. Jh 6:56), dregst inn í kraft kærleika hans og lífsgjafar til að geta fært til fullnustu hina upprunalegu köllun að elska, sem öllum er gefin (sbr. 1M 1:27; 2:18-24).

Það er frá blóði Krists sem allir sækja styrk sinn til að helga sig því að efla lífið. Það er nákvæmlega þetta blóð sem er kraftmesta uppspretta vonarinnar – það er raunar grunnurinn að hinni algeru vissu um að í fyrirætlun Guðs muni lífið sigra. “Og dauðinn mun ekki framar til vera” heyrist frá raust mikilli sem kemur frá hásæti Guðs í hinni himnesku Jerúsalem (Opb 21:4). Og heilagur Páll fullvissar okkur um að núverandi sigur yfir syndinni sé táknið og eftirvæntingin um algeran sigur yfir dauðanum þegar “rætast mun orð það, sem ritað er: “Dauðinn er uppsvelgdur í sigur”. Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?”” (1Kor 15:54-55).

26. Í raun er enginn skortur á táknum í okkar þjóðfélagi og menningu sem vísa til þessa sigurs enda þótt þau séu mjög mörkuð af “menningu dauðans”. Því væri verið að gefa einhliða mynd, er gæti leitt til kjarkleysis og stöðnunar, ef við fordæmingu á því sem ógnar lífinu yrði ekki jafnframt minnst á þau jákvæðu tákn sem er að finna við núverandi aðstæður mannsins.

Því miður er oft erfitt að koma auga á og þekkja þessi jákvæðu tákn. Ef til vill stafar það af því að þau fá ekki nægjanlega umfjöllun í fjölmiðlum. En margar áætlanir hafa komið fram af þeim toga að hjálpa og styðja það fólk sem er veikt og varnarlaust því að fyrir viðleitni einstaklinga, hópa, hreyfinga og félagssamtaka af ýmsum rótum eru þessar áætlanir enn að koma fram í kristnum samfélögum og í borgaralegu þjóðfélagi, á vegum sveitar og ríkis og á alþjóðavettvangi!

Enn má finna mörg hjón búin göfugri ábyrgðartilfinningu sem eru reiðubúin að taka við börnum sem “æðstu gjöf hjónabandsins”.[21] Ekki skortir heldur fjölskyldur sem, umfram dags daglega þjónustu sína við lífið, eru fús til að taka við yfirgefnum börnum, drengjum og stúlkum, unglingum í vandræðum, hreyfihömluðum og öldruðum körlum og konum, sem hafa verið skilin ein eftir. Margar miðstöðvar til stuðnings lífinu, eða svipaðar stofnanir, njóta fjárhagsstuðnings frá einstaklingum og hópum. Þær veita af lofsverðum fórnarvilja mæðrum siðferðilegan og efnislegan stuðning sem eiga við erfiðleika að stríða og glíma við þá freistingu að fara í fóstureyðingu. Í auknu mæli má finna á mörgum stöðum hópa sjálfboðaliða sem eru reiðubúnir að veita því fólki hlýju sem á engan að, sem býr við ástand sem er sérstaklega slæmt eða þarfnast þess að búa við aðstæður sem veita þeim stuðning við að sigrast á skaðlegri fíkn og uppgötva á ný merkingu lífsins.

Þökk sé stöðugu framlagi rannsóknarmanna og sérfræðinga að læknavísindin halda stöðugt áfram að uppgötva lækningar sem verða sífellt betri: meðferðir sem eitt sinn voru taldar óhugsandi, en gefa nú mikil fyrirheit um framtíðina, eru í dag í þróun fyrir hina ófæddu, hina þjáðu og þá sem eiga við bráða eða banvæna sjúkdóma að stríða. Ýmsar góðgerðarstofnanir og félagssamtök kosta kapps um að lönd sem búa við alvarlega fátækt og smitsjúkdóma njóti góðs af háþróuðum lyfjum. Með svipuðum hætti er verið að stofna þjóðleg og alþjóðleg samtök lækna í því skyni að veita þeim þjóðum tafarlausa aðstoð sem eru þjakaðar vegna náttúruharmfara, farsótta og stríða. Enda þótt enn sé langt í land með að réttlát alþjóðleg skipting á læknisfræðilegum úrræðum komist á, getum við ekki annað en viðurkennt að í þeim skrefum sem þegar hafa verið tekin má sjá tákn um vaxandi samstöðu meðal þjóða – lofsvert mannlegt og siðferðilegt tilfinninganæmi og æ meiri virðingu fyrir lífinu.

27. Í ljósi laga sem hafa heimilað fóstureyðingar auk átaks á einstökum stöðum sem hafa ýtt undir það að líknardráp eru lögleg, hafa hreyfingar risið upp víðsvegar í heiminum sem átt hafa frumkvæði að því að vekja samfélagið til vitundar um lífsvernd. Þegar slíkar hreyfingar starfa af einurð eftir meginreglum sínum en grípa ekki til ofbeldis, ýta þær undir að breiðari og djúpstæðari skilningur ríkir um gildi lífsins og stuðla að því að það sé varið af enn meiri ásetningi.

Ekki getum við heldur leitt hjá okkur að minnast á það sem má sjá daglega: einlægni, fórnarlund og óeigingjarna umönnun sem mikill fjöldi fólks innir af hendi af ástúð í fjölskyldum, á spítölum, barnahælum, elliheimilum eða á öðrum stöðum eða samfélögum sem verja lífið. Með því að fylgja breytni Jesú “miskunnsama Samverjans” (sbr. Lk 10:29-37) og studd styrk hans hefur kirkjan ávallt verið í fremstu röð við að veita hjálp af örlæti: mörg af sonum og dætrum hennar, sérstaklega fólk í klausturreglum, hafa staðfastlega helgað líf sitt Guði, hvort heldur í hefðbundnum eða sífellt nýjum búningi. Þau hafa fúslega gefið af sjálfu sér vegna kærleika síns til náungans, sérstaklega þeim sem eru veikir og þurfandi. Þessi verk styrkja grunninn á “siðmenningu kærleika og lífs” en án hennar glatar líf einstaklingsins og þjóðfélagsins mestum og sönnustum mannkostum sínum. Jafnvel þótt þessum verkum sé ekki veitt eftirtekt og að þau séu hulin flestu fólki, fullvissar trúin okkur um að Faðirinn “sem sér í leynum” (Mt 6:6) muni ekki einungis umbuna þessi verk heldur lætur hann þau hér og nú bera ávöxt sem varir öllum til hagsbótar.

Meðal tákna vonar sem við ættum einnig að líta til er að nú breiðist víða út almenn skoðun meðal almennings: ný samkennd sem í vaxandi mæli sýnir mótstöðu gegn stríði – að það geti greitt úr átökum milli þjóða – og hallast æ meir að því að finna virkar en “friðsamlegar” leiðir til að svara vopnuðum árásarher. Sé horft frá þessum sama sjónarhóli eru vísbendingar um vaxandi andstöðu meðal almennings gegn dauðrefsingum, jafnvel þegar litið er á slíka refsingu sem eins konar “lögmæta refsingu” af hálfu þjóðfélagsins. Nútímaþjóðfélag hefur raunar virkar leiðir til að halda glæpum í skefjum með því að gera glæpamenn hættulausa án þess að neita þeim algerlega um tækifæri að betrumbæta sig.

Annarri vísbendingu sem vert er að fagna er sú vaxandi athygli sem beint er að lífsgæðum og vistfræði sérstaklega í þróaðri þjóðfélögum þar sem væntingar fólk beinast ekki lengur að því að lifa af heldur að því að almennt verði breytingar til batnaðar á lífskilyrðum. Sérstaklega táknræn er endurvakning á siðferðilegri íhugun á málefnum er snerta lífið. Tilkomin þróun á lífsiðfræði sem smám saman breiðist út stuðlar að íhugun og samræðum – milli trúaðra og ótrúaðra sem og milli fylgjenda mismunandi trúarbragða – um siðferðileg vandamál þar með talin grundvallarmálefni er varða mannlegt líf.

28. Þetta ástand, þar sem skiptist á ljós og skuggi, ætti að gera okkur að fullu ljóst að við stöndum frammi fyrir gífurlega afdrifaríkum átökum milli góðs og ills, dauða og lífs, milli “menningar dauða” og “menningar lífs”. Við sjáum að við stöndum ekki einungis “andspænis” þessum átökum heldur erum við í “miðju” þeirra: við erum öll viðriðin málið og við eigum öll hlut í því með þeirri óumflýjanlegu ábyrgð að velja að standa skilyrðislaust með lífinu. Hvatning Móse gildir einnig fyrir okkur: “Sjá, ég hefi í dag lagt fyrir þig líf og heill, dauða og óheill … ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina; veldu þá lífið til þess að þú og niðjar þínir megi lifa (5M 30:15, 19). Þessi hvatning á við okkur sem erum kölluð dagsdaglega til þeirrar skyldu að velja á milli “menningar lífs” og “menningar dauða”. En kallið í 5. Mósebók fer jafnvel dýpra því að það brýnir okkur að velja á sönnum grunni trúar og siðferði. Þetta er spurning um að gefa eigin tilveru okkar grundvallarafstöðu og lifa stöðugt eftir lögmáli Drottins Guðs okkar: “Ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag að elska Drottin Guð þinn, ganga á hans vegum og varðveita skipanir hans, lög og ákvæði, þá munt þú lifa. … Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa, með því að elska Drottin Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn” (30:16, 19-20).

Hið skilyrðislausa val að kjósa lífið fær sína fullu trúarlegu og siðferðislegu merkingu þegar það streymir út frá, mótast og fær næringu sína af trú á Krist. Til að horfa með jákvæðum hætti á átökin milli dauða og lífs, þar sem við eigum þátt, er ekki til meiri hjálp en trúin á Son Guðs sem gerðist maður og bjó meðal manna til “að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð” (Jh 10:10). Þetta snýst um trú á hinn upprisna Drottin, sem hefur sigrað dauðann; trú á blóð Krists sem “talar kröftuglegrar en blóð Abels” (Heb 12:24).

Með ljósi og styrk þessarar trúar, þegar kirkjan stendur frammi fyrir áskorun þessa daga, er hún sér æ betur meðvituð um náðina og ábyrgðina sem Drottinn gefur henni til að kunngjöra, hafa um hönd og þjóna guðspjalli lífsins.

 

 

II. KAFLI:

 

ÉG ER KOMINN TIL ÞESS AÐ ÞEIR HAFI LÍF

 

Boðskapur kristninnar um lífið

 

“Lífið var opinberað og vér höfum séð það” (1Jh 1:2): vér einblínum á Krist “Orð lífsins”

29. Manninum kann að finnast hann hafa ekki nægan kraft þegar hann stendur andspænis þeim óteljandi og alvarlegu ógnum gegn lífinu sem finna má í heiminum í dag: að það góða geti aldrei verið nógu kraftmikið til að sigra hið illa!

Á slíkum tímum er lýður Guðs, eða með öðrum orðum, allir trúendur, kallaður til að játa af auðmýkt og hughreysti trú sína á Jesúm Krist, “Orð lífsins” (1Jh 1:1). Guðspjall lífsins er ekki einföld, ný og djúpstæð íhugun um mannlegt líf. Og ekki er það heldur villandi fyrirheit um betri framtíð. Guðspjall lífsins er eitthvað áþreifanlegt og persónulegt því að í því felst boðun á sjálfri persónu Jesú Krists. Jesús gerði sjálfan sig kunnan Tómasi postula, og í honum sérhverri persónu, með þessum orðum: “Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið” (Jh 14:6). Hann talaði einnig með þessum hætti við Mörtu, systur Lasarusar: “Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja” (Jh 11:25-26). Jesús er Sonurinn sem frá eilífð til eilífðar meðtekur líf frá Föðurnum (sbr. Jh 5:26) og hefur komið á meðal mannanna til að gera þá hluttakendur í gjöf sinni: “Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð” (Jh 10:10).

Fyrir orð og athafnir og eigin persónu Jesú er manninum gefinn sá möguleiki að “þekkja” hinn fullkomna sannleika um gildi mannlegs lífs. Það er einkum frá þessari “uppsprettu” að hann fær getuna til að “uppfylla” þennan sannleika fullkomlega (sbr. Jh 3:21), það er að segja, að takast á hendur fulla og algera ábyrgð á því að elska og þjóna, verja og styrkja mannlegt líf. Í Kristi er guðspjall lífsins kunngjört með algerum hætti og að fullu gefið. Þetta guðspjall, sem var til staðar í opinberun Gamla testamentisins, og sem einnig er letrað í hvert hjarta allra kvenna og karla, hefur endurómað í hverri samvisku alveg “frá upphafi”, allt frá dögun sköpunarinnar, með slíkum hætti að þrátt fyrir neikvæðar afleiðingar syndarinnar má eins þekkja það í grundvallareinkennum sínum með aðstoð mannlegrar skynsemi. Eins og annað Vatíkanþingið kennir: Kristur “fullkomnaði opinberunina, hann uppfyllti hana fyrir verk sitt að gera sjálfan sig nærverandi og vitna um sjálfan sig, fyrir orð sín og verk, tákn sín og jarteikn, en sérstaklega fyrir dauða sinn og dýrlega upprisu frá dauðum og lokasendingu Anda sannleikans. Ennfremur staðfesti hann með guðlegum vitnisburði það sem opinberunin kunngjörði: að Guð er með okkur til að frelsa okkur frá myrkri syndar og dauða og að reisa okkur upp til eilífs lífs.”[22]

30. Þess vegna einblínum við á Drottin Jesúm til að geta heyrt frá honum enn einu sinni “Guðs orð” (Jh 3:34) og hugleitt á ný guðspjall lífsins. Í fyrsta bréfi sínu gerir Jóhannes postuli að upphafsorðum sínum hina dýpstu og upprunalegustu merkingu þessarar hugleiðslu um hvað opinberunin segir okkur um mannlegt líf: “Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem vér höfum heyrt, það sem vér höfum séð með augum vorum, það sem vér horfðum á og hendur vorar þreifuðu á, það er orð lífsins. Og lífið var opinberað, og vér höfum séð það og vottum um það og boðum yður lífið eilífa, sem var hjá Föðurnum og var opinberað oss. Já, það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag við oss” (1Jh 1:1-3).

Í Jesú, “Orði lífsins“, er eilíft líf Guðs þannig boðað og gefið. Þökk sé þessari boðun og gjöf að líkamlegt og andlegt líf okkar, einnig er víkur að jarðneskum þætti þess, öðlast fullt gildi og merkingu því að eilíft líf Guðs er í raun og veru takmarkið sem vera okkar í þessum heimi beinist að og er kallað til. Með þessum hætti felur guðspjall lífsins í sér allt sem mannleg reynsla og skynsemi segir okkur um gildi mannlegs lífs – við því er tekið, það hreinsað og upphafið og uppfyllt.

 

“Drottinn er styrkur minn og lofsöngur” (2M 15:2): lífið er ávallt það góða

31. Fylling boðskapar guðspjallsins um lífið var undirbúið í Gamla testamentinu. Það var einkum í þeim atburði sem var brottförin úr Egyptalandi – kjarnanum í trúarreynslu Gamla testamentisins – að Ísraelsmenn uppgötvuðu dýrmæti lífs síns í augum Guðs. Þegar Ísraelmenn virtust dæmdir til útrýmingar vegna þeirrar ógnar sem vofði yfir öllum nýfæddum sveinbörnum þeirra (sbr. 2M 1:15-22) opinberaði Drottinn sig þeim sem frelsara þeirra er hefði mátt til tryggja öllum þeim framtíð sem voru án vonar. Þannig komust Ísraelsmenn til skýrrar þekkingar á því að tilvera þeirra var ekki háð miskunn einhvers Faraóa sem gat hagnýtt sér þá eftir eigin geðþótta harðstjórnar sinnar. Þvert á móti var líf Ísraels það sem mildur og ákafur kærleikur Guðs beindist að.

Frelsi frá þrældómi þýddi að séreinkenni voru fengin – viðurkenning á varanlegri tign og upphaf á nýrri sögu þar sem uppgötvun á Guði helst í hendur við að uppgötva sjálfan sig. Brottförin úr Egyptalandi var þeim grundvallarreynsla og dæmi fyrir framtíðina. Fyrir hana komust Ísraelsmenn að raun um að í hvert skipti sem tilveru þeirra var ógnað þurftu þeir einungis að snúa sér til Guðs af endurnýjuðu trausti til að finna í honum virka hjálp: “Ég hefi skapað þig til að vera þjón minn, þú, Ísrael, munt mér aldrei úr minni líða” (Jes 44:21).

Við að þekkja þannig gildi eigin tilveru sinnar sem þjóðar, vex Ísrael einnig í skilningi sínum á merkingu og gildi lífsins. Nánar tiltekið þróast þessi íhugun í spekiritunum á grundvelli daglegrar reynslu um óvissu lífsins og skilningi á þeim ógnunum sem ásækja það. Frammi fyrir andstæðum lífsins er trúin krafin til svara.

Meir en nokkuð annað er trúnni áskorun það vandamál sem felst í þjáningunni og þar er hún reynd. Kemst nokkur hjá því að verða snortinn af hinni almennu sálarkvöl mannsins þegar við íhugum Jobsbók? Saklausi maðurinn yfirbugaður af þjáningu er skiljanlega að velta fyrir sér: “Hví gefur Guð ljós hinum þjáðu og líf hinum sorgbitnu þeim sem þrá dauðann, en hann kemur ekki, sem grafa eftir honum ákafara en eftir fólgnum fjársjóðum?” (3:20-21). En jafnvel þegar það er svartamyrkur bendir trúin á “leyndardóminn” í trausti og tilbeiðslu: “Ég veit, að þú megnar allt, og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga” (Jb 42:2).

Smám saman lætur opinberunin hinn fyrsta vísi að eilífu lífi, sett af skaparanum í hjarta mannsins, koma fram af æ meiri skýrleika: “Allt hefir hann gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra” (Pd 3:11). Þessi fyrsti vísir heilleika og fyllingar bíður þess að vera kunngerður í kærleika og færður til fullkomnunar með frírri gjöf Guðs fyrir hlutdeild í eilífu lífi hans.

“Nafn Jesú gjörði þennan mann … styrkan” (P 3:16): Jesús færir merkingu lífsins til fyllingar í óvissu mannlegs lífs

32. Reynsla lýðs sáttmálans endurnýjast í reynslu allra hinna “fátæku” sem mæta Jesú frá Nasaret. Líkt og Guð, sem “elskar allt sem lifir” (SS 11:26), hafði róað Ísraelsmenn þegar þeir bjuggu við hættu kunngerir Sonur Guðs nú öllum sem telja sér ógnað og aftrað að líf þeirra sé einnig gott og að kærleikur Föðurins gefi því merkingu og gildi.

“Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi” (Lk 7:22). Með þessum orðum spámannsins Jesaja (35:5-6, 61:1) setur Jesús fram merkingu erindis síns: allir sem þjást vegna þess að líf þeirra er á einhvern hátt “skert” heyra frá honum “fagnaðarerindið” um umhyggju Guðs fyrir þeim og þeir vita fyrir víst að líf þeirra er einnig gjöf sem í höndum Föðurins er vandlega gætt (sbr. Mt 6:25-34).

Umfram allt eru það hinir “fátæku” sem Jesús mælir til með prédikunum sínum og athöfnum. Fjöldi hinna sjúku og útskúfuðu sem fylgja honum og leita hann uppi (sbr. Mt 4:23-25) finna í orðum hans og athöfnum opinberun á því hversu mikið gildi líf þeirra hefur og hversu von þeirra um hjálpræði er traust.

Þetta sama hefur gerst í erindi kirkjunnar frá upphafi. Þegar kirkjan boðar Krist sem hann sem “ gekk um, gjörði gott og græddi alla sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum” (P 10:38) er henni ljóst að hún er flytjandi hjálpræðisboðskapar sem hljómar í öllum ferskleika sínum einmitt þar sem mannlegt líf líður þrautir og örbirgð. Pétur læknaði lamaða manninn sem daglega betlaði við “Fögrudyr” á musterinu í Jerúsalem og sagði: “Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk” (P 3:6). Með trú á Jesúm, “höfðingja lífsins” (P 3:15), endurheimtir lífið, sem er eitt og yfirgefið og hrópar á hjálp, sjálfsvirðingu og fulla tign.

Orð og athafnir Jesú og sömuleiðis kirkju hans eru ekki eingöngu ætluð þeim sem eru sjúkir eða þjáðir eða þeim sem þjóðfélagið hefur á einhvern hátt vanrækt. Þau hafa á dýpri grunni áhrif á sjálfa merkingu lífs hverrar persónu hvað snertir siðferðilega og andlega þætti þess. Einungis þeir sem viðurkenna að líf þeirra sé markað af illsku syndarinnar fá uppgötvað með fundi sínum við Jesúm frelsarann sannleikann um tilveru sína og hversu áreiðanleg hún er. Jesús segir sjálfur: “Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara til iðrunar” (Lk 5:31-32).

En líkt og ríki landeigandinn í dæmisögum guðspjallsins er sú persóna að blekkja sjálfa sig sem heldur að hún geti gert líf sitt óhult með því safna einungis að sér efnislegum gæðum. Líf hennar líður smám saman að lokum og brátt missir hún það án þess að hafa nokkru sinni fengið að skilja raunverulega merkingu þess: “Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það sem þú hefur aflað?” (Lk 12:20).

33. Allt frá upphafi til loka eigin lífs Jesú finnum við einstaka “díalektík” á milli reynslunnar af óvissu mannlegs lífs og staðfestingar á gildi þess. Líf Jesú er markað óvissunni alveg frá þeirri stundu að hann fæðist. Við honum er vissulega tekið af hinum réttlátu sem enduróma jáyrðið sem María gaf hiklaust og af fögnuði (sbr. Lk 1:38). En einnig er um að ræða frá upphafi höfnun af hálfu heimsins sem gerist fjandsamlegur og leitar að barninu til að “fyrirfara því” (Mt 2:13); þetta er heimur sem er eftir sem áður skeytingarlaus og áhugalaus um að uppfylla leyndardóm lífsins sem kemur í heiminn: “eigi var rúm handa þeim í gistihúsi” (Lk 2:7). Í þessari andstæðu á milli ógna og óöryggis annars vegar og krafts gjafar Guðs hins vegar skín ljómandi geisladýrð frá húsinu í Nasaret og jötunni í Betlehem: þetta líf sem er fætt öllu mannkyninu til hjálpræðis (sbr. Lk 2:11).

Jesús sætti sig að fullu við hættur og mótsagnir í lífinu: “Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans” (2Kor 8:9). Fátæktin sem Páll talar um felst ekki einungis í því að vera sviptur guðlegum forréttindum heldur einnig að eiga hlut í mest auðmýkjandi og varnarlausasta ástandi mannlegs lífs (sbr. Fl 2:6-7). Jesús bjó við þessa fátækt allt sitt líf, allt til lokastundarinnar á krossinum: “Hann … lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra” (Fl 2:8-9). Það er einmitt með dauða sínum að Jesús opinberar alla dýrðina og öll gildin sem felast í lífinu þar eð sjálfsfórn hans á krossinum verður uppspretta nýs lífs fyrir alla menn (sbr. Jh 12:32). Á vegferð Jesú, innan um mótsagnir lífsins og þegar hann glatar sjálfu lífi sínu, er hann leiddur af þeirri vissu að líf hans sé í höndum Föðurins. Þar af leiðandi getur hann sagt við hann á krossinum: “Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!” (Lk 23:46), það er að segja, líf mitt. Sannarlega hlýtur gildi mannlegs lífs að vera mikið ef Sonur Guð íklæddist því og gerði það að verkfæri hjálpræðis fyrir allt mannkyn!

 

“Kallaðir … til þess að líkjast mynd Sonar síns” (Rm 8:28-29): Dýrð Guðs skín á ásjónu mannsins

34. Lífið er ávallt gott. Þetta byggir hvort tveggja á innsæi og reynslu og maðurinn er kallaður til að skilja hina djúpstæðu ástæðu sem liggur þar á baki.

Hvers vegna er lífið gott? Þessa spurningu má finna allt í gegnum Biblíuna en þegar á fyrstu blaðsíðum hennar fær spurningin kraftmikið og undravert svar. Lífið sem Guð gefur manninum er allt annað en líf allrar annarrar lifandi sköpunar þar eð maðurinn, þótt hann sé myndaður af moldu jarðar (sbr. 1M 2:7, 3:19; Jb 34:15; Sl 103:14, 104:29), er birting á Guði í heiminum, tákn um nærveru hans, vottur af dýrð hans (sbr. 1M 1:26-27; Sl 8:6). Þetta er það sem Íreneus frá Lyon vildi leggja áherslu á í sinni frægu skilgreiningu: “Maður, lifandi maður, er dýrð Guðs.”[23] Manninum hefur verið gefin háleit tign sem grundvallast á hinum nánum böndum er sameina hann skapara hans: í manninum ljómar endurskin af sjálfum Guði.

Sköpunarsagan staðfestir þetta en maðurinn er þegar í fyrstu frásögn hennar af sköpuninni sagður hátindurinn á sköpunarstarfi Guðs, kóróna þess, hámark þróunar sem frá óskilmerkilegum glundroða verður fullkomnust allra skapanna. Allt í sköpuninni er ákvarðað manninum til handa og allt er honum undirgefið: “Uppfyllið jörðina og gjörið ykkur undirgefið … allt sem hrærist á jörðinni” (sbr. 1:28); þetta er boð Guðs til karlsins og konunnar. Jafnframt má finna svipaðan boðskap í frásögninni af sköpuninni: “Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans” (1M 2:15). Hér sjáum við skýra staðfestingu á því að maðurinn er æðri hlutunum; þeir eru settir undir hann og honum er falið að annast þá með ábyrgum hætti; en aftur á móti getur hann ekki undir neinum kringumstæðum verið undir aðra menn seldur – verið nánast dreginn niður á það svið að vera hlutur.

Í frásögn Biblíunnar kemur munurinn á milli mannsins og annarrar sköpunar umfram allt fram í þeirri staðreynd að einungis sköpun mannsins er sögð vera afleiðing sérstakrar ákvörðunar af hálfu Guðs – ásetnings um að sérstök og tiltekin tengsl við skaparann komist á: “Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss” (1M 1:26). Lífið sem Guð býður manninum er gjöf þar sem Guð deilir eitthvað af sjálfum sér með sköpun sinni.

Ísrael átti eftir að hugleiða merkingu þessara sérstöku tengsla milli manns og Guðs. Í Síraksbók er það einnig viðurkennt að með því að skapa mennina veitti Guð þeim “hlutdeild í mætti sínum og skapaði þá í sinni mynd” (17:3). Þessi ritningarhöfundur sér hluta þessarar myndar ekki einungis með þeim hætti að maðurinn hafi yfirráð yfir heiminum heldur einnig yfir þeim andlegu gáfum sem auðkenna hann eins og skynsemi, greiningu á milli góðs og ills og frjálsum vilja: “Drottinn fyllti þá þekkingu og skilningi og kenndi þeim að greina gott og illt” (Sr 17:7). Getan til að öðlast sannleikann og frelsið eru manninum forréttindi þar sem hann er skapaður í mynd skapara síns, Guðs, sem er sannur og réttlátur (sbr. 5M 32:4). Meðal allrar sýnilegrar sköpunar er maðurinn einn “fær um að þekkja og elska skapara sinn”.[24] Lífið sem Guð gefur manninum er miklu meira en stundleg tilvist. Það dregur hann til fullnustu lífs; það er sæði tilveru sem fer út fyrir takmarkanir tímans: “Guð skapaði manninn til óforgengileika og gjörði hann mynd veru sinnar” (SS 2:23).

35. Í frásögn Jahvesinnans af sköpuninni kemur fram þessi sama sannfæring. Þessi ævaforna frásögn talar um guðlegan andardrátt sem blásið er í manninn til að hann fái líf: “Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leir jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál” (1M 2:7).

Hinn guðlegi uppruni þessa lífsanda útskýrir hina ævarandi ófullnægju sem maðurinn finnur til allt í gegnum daga hans á jörðinni. Vegna þess að maðurinn er skapaður af Guði og ber hið innra með sér óafmáanlegt merki hans, dregst hann ósjálfrátt að Guði. Þegar hann gefur gaum að dýpstu löngunum hjarta síns verður hann að gera að sínum orð sannleikans sem heilagur Ágústínus lét í ljós: “Þú hefur skapað oss handa þér og hjarta vort er órótt uns það hvílist í þér”.[25]

Hversu táknræn er ekki óánægja mannsins sem markar líf hans í Eden þegar hann hefur einungis plöntur og dýr til að miðað sig við (sbr. 1M 2:20). Aðeins tilkoma konunnar; hold af hans holdi og bein af hans beinum (sbr 1M 2:23), en í henni lifir einnig andi Guðs skaparans, getur fullnægt þörfinni fyrir samræður á milli persóna sem eru svo brýnar fyrir tilvist mannsins. Í hinu þeirra, hvort sem það er karlinn eða konan, endurspeglast Guð sjálfur, sem er hverri persónu endanlegt mark og fylling.

“Hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?” (Sl 8:5). Miðað við óendanleika alheimsins er maðurinn afar smár en eigi að síður opinberar þessi andstæða mikilleika hans: “Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann” (Sl 8:6). Dýrð Guðs skín á ásjónu mannsins. Í manninum finnur skaparinn hvíld sína eins og heilagur Ambrósíus lét ummælt af lotningu: “Sjötta deginum er lokið og sköpun heimsins endar með myndun þess meistaraverks sem maðurinn er, en hann ræður yfir öllum lifandi sköpunum og er að vissu leyti kóróna alheimsins og mesta fegurð allra skapaðra vera. Vissulega eigum við að halda lotningarfulla þögn úr því að Drottinn hvílist frá öllu starfi sem hann tók sér fyrir hendur í heiminum. Hann hvíldist þá í djúpi mannsins, hann hvíldist í huga mannsins og í hugsunum hans; hann hafði jú skapað og gætt hann skynsemi sem gat breytt eftir honum, líkt eftir dyggð hans og hungri hans eftir himneskum náðargjöfum. Guð hvílist í þessum gjöfum sínum og segir: “Hvar er sá staður sem verið geti bústaður minn? … Þeir sem ég lít til eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu” (Jes 66:1-2). Ég færi Drottni Guði þakkir sem hefur skapað slíkt unaðslegt verk sem hann tekur sér hvíld í”.[26]

36. Því miður var einstakri fyrirætlun Guðs spillt með tilkomu syndarinnar í söguna. Fyrir syndina rís maðurinn upp gegn skapara sínum og endar á því að tilbiðja skapanir: “Þeir hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni og göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans” (Rm 1:25). Afleiðingin er ekki einungis sú að hann afskræmir mynd Guðs í sinni eigin persónu heldur freistast hann jafnframt til að misgjöra gegn henni í öðrum mönnum; í stað samskipta sem byggja á nánu samfélagi ríkir viðhorf vantrausts, tómlætis, fjandskapar og jafnvel banvæns haturs. Þegar Guð er ekki játaður sem Guð er rofin hin djúpstæða merking mannsins og samneyti milli fólks skaðast.

Í lífi mannsins skín mynd Guðs á ný og opinberast í allri sinni fullnustu með komu Sonar Guðs í mannlegu holdi. “[Kristur] er ímynd hins ósýnilega Guðs” (Kól 1:15), “hann sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans” (Heb 1:3). Hann er hin fullkomna mynd af Föðurnum.

Sú fyrirætlun lífsins sem gefin var hinum fyrsta Adam finnur að endingu fyllingu sína í Kristi. Þar eð óhlýðni Adams hafði spillt fyrir og ónýtt fyrirætlun Guðs fyrir líf mannsins og leitt dauðann inn í heiminn, var endurlausnarhlýðni Krists uppspretta náðar sem úthellt er yfir mannkynið og opnar öllum upp á gátt hliðin að konungsríki lífsins (sbr. Rm 5:12-21). Eins og Páll postuli segir: “Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál, hinn síðari Adam að lífgandi anda” (1Kor 15:45).

öllum sem skuldbinda sig til að fylgja Kristi er gefin fullnusta lífs: hin guðlega mynd er endurreist, endurnýjuð og færð til fullkomnunar í þeim. Fyrirætlun Guðs fyrir mennina er að þeir “líkist mynd Sonar síns” (Rm 8:29). Einungis með þeim hætti, í ljóma þessarar myndar, getur maðurinn frelsast undan ánauð skurðgoðadýrkunar, endurreist glataða vináttu og fundið á ný sitt sanna einstaklingseðli.

 

“Hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja” (Jh 11:26): gjöf eilífs lífs

37. Lífið sem Sonur Guð kom til að gefa manninum er ekki hægt að smætta þannig að það verði lítið annað en eintóm stundleg tilvist. Lífið sem var ávallt “í honum” sem er “ljós mannanna” (Jh 1:4) felst í því að vera getinn af Guði og eiga hlut í fullnustu kærleika hans: “En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans. Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir” (Jh 1:12-13).

Stundum þegar Jesús vísar til þessa lífs sem hann kom til að gefa, talar hann einfaldlega um “lífið” og hann segir að það sé nauðsynlegt skilyrði að vera fæddur af Guði ef maðurinn á að öðlast þann endi sem Guð skapaði hann til: “Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju” (Jh 3:3). Raunverulegt markmið erindis Jesú er að gefa þetta líf: hann er sá sem “stígur niður af himni og gefur heiminum líf” (Jh 6:33). Þannig getur hann sannarlega sagt: “Sá sem fylgir mér mun … hafa ljós lífsins” (Jh 8:12).

Í önnur skipti talar Jesús um “eilíft líf”. Hér gerir lýsingarorðið meira en að kalla fram sýn sem er handan tímans. Lífið sem Jesús gefur fyrirheit um og veitir er “eilíft” vegna þess að það er full þátttaka í lífi ”hins Eilífa”. Hver sá sem trúir á Jesúm og gengur til samneytis við hann hefur eilíft líf (sbr. Jh 3:15; 6:40) vegna þess að hann heyrir frá Jesú þau einu orð sem opinbera og miðla verund hans fullnustu lífs. Þetta eru “orð eilífs lífs” sem Pétur staðfestir með trúarjátningu sinni: “Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs” (Jh 6:68-69). Í ávarpi Jesú til Föðurins í hinni merku æðstaprestsbæn lýsir hann því yfir hvað felist í eilífu lífi: “En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesúm Krist” (Jh 17:3). Að þekkja Guð og Son hans þýðir að meðtaka leyndardóminn um elskandi samneyti Föðurins, Sonarins og hins Heilaga Anda í líf sitt sem jafnvel nú er opið fyrir eilífu lífi vegna þess að það á hlut í lífi Guðs.

38. Eilíft líf er því líf Guðs sjálfs og samtímis er það líf Guðs barna. Þeir sem trúa komast ekki hjá því að fyllast undrun og ómældri gleði þegar þeir hugleiða þennan óvænta og ólýsanlega sannleika sem kemur til okkar frá Guði í Kristi. Þeir geta tekið undir með Jóhannesi postula: “Sjáið hvílíkan kærleika Faðirinn hefur auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs börn. Og það erum vér. … Þér elskaðir, nú þegar erum vér Guðs börn, og það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum, að þegar hann birtist, þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er” (1Jh 3:1-2).

Hér verður hinn kristni sannleikur um lífið mikilfenglegastur. Tign þessa lífs tengist ekki einungis upphafi þess, þeirri staðreynd að það kemur frá Guði, heldur einnig lokum þess, þess hlutskiptis að eiga vináttu við Guð í þekkingu og kærleika til hans. Í ljósi þessa sannleika afmarkar heilagur Íreneus og fullgerir lof sitt um manninn: “Dýrð Guðs” er vissulega “hinn lifandi maður”, en “ líf mannsins er fólgið í því að hafa sýn á Guði.”[27]

Það sem þetta hefur í för með sér snertir beint líf mannsins í sínu jarðneska ástandi sem, ef því er að skipta, geymir í sér eilíft líf sem þegar sprettur upp og byrjar að vaxa. Enda þótt maðurinn kunni að unna ósjálfrátt lífinu vegna þess að það er gott, mun elska hans til þess finna enn frekari innblástur og styrk, og nýja vídd og dýpt, í hinum guðlegu þáttum þessa góða. Á svipaðan hátt verður elskan sem hver maður ber til lífsins ekki dregin niður á það stig að vera tóm löngun til að hafa nægt svigrúm til sjálfstjáningar og að stofna til sambands við annað fólk; hún fremur þroskast í fagnandi skilningi um að lífið geti orðið að þeim “stað” þar sem Guð gerir sjálfan sig merkjanlegan, þar sem við hittum hann og göngum til samneytis við hann. Lífið sem Jesús veitir dregur engan veginn úr gildi stundlegrar tilvistar; það tekur það og beinir því til endanlegs hlutskiptis síns: “Ég er upprisan og lífið. … Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja” (Jh 11:25-26).

 

“Af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins” (1M 9:5): lotning fyrir og kærleikur til hvers mannlegs lífs

39. Líf mannsins kemur frá Guði, það er gjöf hans, mynd hans og merki, hlutdeild í lífsanda hans. Guð er þess vegna eini Drottins þessa lífs: maðurinn getur ekki gert það sem honum sýnist. Guð sjálfur gerir Nóa þetta ljóst eftir syndaflóðið: “Yðar eigin blóðs mun ég hins vegar krefjast … og af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins” (1M 9:5). Í þessum texta Biblíunnar er lögð rík áhersla á hvernig heilagleiki lífsins á grundvöll sinn í Guði og í skapandi athöfnum hans: “Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn” (1M 9:6).

Líf og dauði mannsins er þannig í höndum Guðs, falin mætti hans: “Í hans hendi er líf alls hins lifanda og andi sérhvers mannslíkama” hrópar Job upp yfir sig (12:10). “Drottinn deyðir og lífgar, færir til Heljar niður og leiðir upp þaðan” (1S 2:6). Hann getur einn sagt: “Ég deyði og ég lífga” (5M 32:39).

En Guð notar ekki mátt sinn með gerræðislegum eða ógnandi hætti heldur er hann hluti af aðgæslu hans og elskandi umhyggju fyrir sköpunum sínum. Sé það rétt að mannlegt líf sé í höndum Guðs er það ekki síður rétt að þær eru elskandi hendur, líkar þeim sem móðirin hefur sem tekur við, elur upp og annast barn sitt: “Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér” (Sl 131:2; sbr. Jes 49:15; 66:12-13; Hs 11:4). Þannig telur Ísrael ekki að saga þjóða og hlutskipti einstaklinga séu afleiðingar einskærra duttlunga örlaganna heldur fremur afleiðingar elskandi fyrirætlunar þar sem Guð sameinar allt sem lifir gegn mætti dauðans sem syndin veldur: “Guð er ekki valdur að dauðanum og gleðst ekki yfir að líf deyr. Guð skapaði allt til þess að það lifði” (SS 1:13-14).

40. Heilagleiki lífsins er orsök friðhelgi þess sem er letrað frá upphafi í hjarta mannsins, samvisku hans. Spurningin sem Guð beindi til Kains eftir að hann drap bróður sinn Abel, “hvað hefir þú gjört?” (1M 4:10) túlkar reynslu allra manna: í djúpum samvisku sinnar er maðurinn ávallt minntur á friðhelgi lífsins – eigin lífs og lífs annarra – að það sé nokkuð sem sé ekki hans eigið, vegna þess að það er eign og gjöf Guðs, skapara okkar og Föður.

Boðorðið um friðhelgi mannlegs lífs ómar í kjarna “tíu boðorða” sáttmálans á Sínaí (sbr. 2M 34:28). Í fyrsta lagi bannar boðorðið morð: “Þú skalt ekki morð fremja” (2M 20:13); “ver eigi valdur að dauða saklauss manns og réttláts” (2M 23:7). En eins og seinna kom fram í löggjöf Ísraels bannar það einnig allan miska gegn öðrum mönnum (sbr. 2M 21:12-27). Vissulega verðum við að viðurkenna að í Gamla testamentinu hefur þessi tilfinning fyrir lífsgildum, þótt þau séu þá þegar skýr, ekki enn hlotið þá siðfágun sem finna má i fjallræðunni. Þetta sést greinilega í einstökum þáttum gildandi refsilaga sem kveða á um alvarlegar gerðir líkamsrefsinga og jafnvel dauðadóm. En hinn almenni boðskapur sem Nýja testamentið mun færa til fullkomnunar er kröftugt ákall um að virða friðhelgi líkamslegs lífs og heilleika persónunnar. Það nær hámarki sínu í hinu jákvæða boðorði sem skyldar okkur að vera ábyrga fyrir náunga okkar eins og sjálfum okkur: “Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig” (3M 19:18).

41. Boðorðið “Þú skalt ekki morð fremja“ felur í sér fulla tjáningu á hinu jákvæða boði um að elska náunga sinn og er það ítrekað af endurnýjuðum krafti af Drottni Jesú. Við unga ríka manninn sem spyr hann: “Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?”svarar Jesús: “Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin” (Mt 19:16, 17). Og fyrst þeirra telur hann upp: “Þú skalt ekki morð fremja” (Mt 19:18). Í fjallræðunni krefst Jesús réttlætis af lærisveinum sínum sem tekur fram réttlæti fræðimannanna og faríseanna og einnig hvað varðar virðingu fyrir lífinu: “Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: “Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur, skal svara til saka fyrir dómi.” En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi” (Mt 5:21-22).

Með orðum sínum og gjörðum sýnir Jesús enn frekar fram á jákvæðar kröfur boðorðsins um friðhelgi lífsins. Þessar kröfur voru þegar fyrir hendi í Gamla testamentinu þar sem lögin snerust um að vernda og verja lífið þegar það var veikt og bjó við ógnir: í tilviki útlendinga, ekkja, munaðarleysingja, sjúkra, og fátækra almennt, þar með talin börn í móðurkviði (sbr. 2M 21:22; 22:20-26). Með Jesú fá þessar jákvæðu kröfur nýjan kraft og mikilvægi og þær opinberast í vídd sinni og dýpt: frá því að bera umhyggju fyrir lífi bróður síns (hvort sem hann er tengdur honum blóðböndum, er sömu þjóðar og hann, eða útlendingur sem býr í Ísraelslandi), til þess að sýna aðkomumanni umhyggju jafnvel að því marki að elska óvin sinn.

Aðkomumaður er ekki lengur ókunnugur þeim manni sem ber að gerast náungi einhvers í neyð að því marki að taka á sig ábyrgð fyrir lífi hans eins og dæmisagan um miskunnsama Samverjann sýnir svo greinilaga (sbr. Lk 10:25-37). Jafnvel óvinur er ekki lengur óvinur þess manns sem er skyldugur að elska hann (sbr. Mt 5:38-48; Lk 6:27-35), “gjöra honum gott” (sbr. Lk 6:27, 33, 35) og bregðast tafarlaust við brýnustu þörfum hans án þess að vænta nokkurs í staðinn (sbr. Lk 6:34-35). Hámark þessa kærleika er að biðja fyrir óvini sínum. Gerum við það erum við samhljóma forsjárlegum kærleika Guðs: “En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður, svo að þér reynist börn Föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta” (Mt 5:44-45; sbr. Lk 6:28, 35).

Þannig er dýpsti þáttur boðorðs Guðs um að verja mannlegt líf sú krafa að sýna hverri persónu virðingu og kærleika og einstöku lífi hverrar persónu. Þetta er kennsla Páls postula sem endurómar orð Jesú þegar hann ávarpar kristna menn í Róm: “Boðorðin: “Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,” og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: “Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.” Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn fylling lögmálsins” (Rm 13:9-10).

 

“Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna” (1M 1:28): ábyrgð mannsins gagnvart lífinu

42. Að verja og efla lífið, sýna því virðingu og kærleika, er verkefni sem Guð felur hverjum manni; hann kallar hann sem sína lifandi mynd til að eiga hlut í yfirráðum hans yfir heiminum: “Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: “Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni”” (1M 1:28).

Texti Biblíunnar sýnir með skýrum hætti vídd og dýpt þeirra yfirráða sem Guð veitir manninum. Það sem hér um ræðir er fyrst og fremst drottnun yfir jörðinni og yfir hverri lifandi sköpun eins og látið er skýrt í ljós í Speki Salómons: “Guð feðranna og Drottinn miskunnarinnar, þú sem hefur … gjört manninn svo af speki þinni að hann drottni yfir öllu sem þú hefur skapað og stýri heiminum af heilagleik og réttlæti” (SS 9:1, 2-3). Sálmaskáldið lofsyngur einnig það sem manninum er gefið til að ríkja yfir og segir það tákn um dýrð og heiður frá skapara hans: “Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans: sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar, fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu” (Sl 8:7-9).

Maðurinn er kallaður til að yrkja og gæta garðs heimsins (sbr. 1M 2:15). Sem slíkur hefur hann ákveðna ábyrgð gagnvart umhverfinu þar sem hann býr, gagnvart sköpuninni sem Guð hefur sett til þjónustu við persónulega tign hans, við líf hans, ekki eingöngu í nútíð heldur fyrir komandi kynslóðir. Þetta hin vistfræðilega spurning – allt frá friðun náttúrulegra kjörlenda ýmissa tegunda dýra og annarra tegunda lífs til “mannlegrar vistfræði” í eiginlegum skilningi[28] – sem finnur í Biblíunni skýra og siðferðilega leiðsögn sem leiðir til úrlausnar er virðir hina miklu gæsku sem lífið – hvert líf – er. Raunar eru yfirráðin sem skaparinn veitir manninum ekki algjör völd og ekki felast þau í frelsi að “nota og misnota” eða ráðstafa hlutum að eigin geðþótta. Sú takmörkun sem sett var í upphafi af sjálfum skaparanum og látin var í ljós á táknrænan hátt með banninu að “eta af ávöxtum trésins” (sbr. 1M 2:16-17) sýnir með afar skýrum hætti að hvað viðvíkur náttúrunni verðum við ekki einungis að lúta lögmáli líffræðinnar heldur einnig siðferðislögmálinu sem ekki verður brotið gegn að skaðlausu.[29]

43. Ákveðin hlutdeild mannsins í yfirráðum Guðs kemur einnig skýrt fram í hinni tilteknu ábyrgð sem honum er gefin gagnvart mannlegu lífi sem slíku. Þetta er ábyrgð sem nær hámarki sínu þegar karl og kona í hjónabandi geta nýtt líf. Eins og annað Vatíkanþingið kennir: “Guð sjálfur sem sagði, “eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall” (1M 2:18) og “gjörði [manninn] frá upphafi karl og konu” (Mt 19:4) vildi deila með manninum einn tilgreindan þátt í sköpunarverki sínu. Því blessaði hann karlinn og konuna og sagði: “Verið frjósöm [og]margfaldist”” (1M 1:28).[30]

Með því að tala um “einn tilgreindan þátt” karls og konu í “sköpunarverki” Guðs vill þingið benda á að barnseign er atburður sem hefur djúpa mannlega og fulla trúarlega merkingu að því leyti að báðir makarnir koma þar að máli – þeir mynda “eitt hold” (1M 2:24) – og Guð sem gerir sjálfan sig nærverandi. Eins og ég skrifaði í Bréfi til Fjölskyldna: “Þegar ný persóna fæðist fyrir hjúskapareiningu hjónanna, tekur hún með sér í heiminn sérstaka mynd og líkingu af Guði sjálfum: ætterni persónunnar er letrað í hinni eiginlegu lífræði ættliðsins. Með því að staðfesta að hjónin, sem foreldrar, eigi samstarf við Guð, skaparann, við að geta og ala nýjan einstakling, erum við ekki eingöngu að tala um lögmál líffræðinnar. Svo sannarlega viljum við leggja áherslu á að Guð sjálfur er í mennsku faðerni og móðerni á allt annan hátt en hann er í öllum öðrum tilvikum getnaðar “á jörðu”. Raunar er það Guð einn sem er uppspretta þeirrar “myndar og líkingar” er hæfir mannlegri veru og eins og það var meðtekið við sköpunina. Getnaður er framhald sköpunarinnar.”[31]

Þetta er það sem Biblían kennir á opinskáu og hrífandi máli þegar hún segir frá gleðihrópi fyrstu konunnar, “móður allra sem lifa” (1M 3:20). Eva skynjar íhlutun Guðs og hrópar upp yfir sig: “Sveinbarn hefi ég eignast með hjálp Drottins” (1M 4:1). Með getnaði berst þannig fyrir miðlun lífs frá foreldrum til barns eigin mynd og líking Guðs þökk sé sköpun hinnar ódauðlegu sálar.[32] Í upphafi “bókarinnar um ættarskrá Adams” er hún sögð með þessum hætti: “Þegar Guð skapaði Adam, gjörði Guð hann sér líkan. Hann skóp þau mann og konu og blessaði þau og nefndi þau menn er þau voru sköpuð. Adam lifði hundrað og þrjátíu ár. Þá gat hann son í líking sinni, eftir sinni mynd, og nefndi hann Set” (1M 5:1-3). Það er einmitt í hlutverki þeirra sem samstarfsmenn Guðs sem ber mynd sína til hinnar nýju sköpunar að við sjáum mikilleika hjónanna því að þau eru reiðubúin “að starfa með kærleika skaparans og frelsarans sem fyrir þau mun auka og auðga sína eigin fjölskyldu dag frá degi”.[33] Þetta er ástæða þess að Amfílókíus biskup vegsamaði “heilagt hjónaband, útvalið og upphafið yfir allar aðrar jarðneskar gjafir” því það er “getandi mannkyns, skapari mynda Guðs”.[34]

Þannig eru karl og kona sameinuð í hjónabandi þátttakendur í guðlegri framkvæmd: fyrir getnað þeirra er gjöf Guðs meðtekin og nýju lífi opnast leið inn í framtíðina.

Að undanskildu hinu sérstaka erindi foreldranna er það verkefni allra að taka við og þjóna lífinu og þetta verkefni verður umfram allt að uppfyllast gagnvart lífinu þegar það er veikast. Kristur minnir okkur sjálfur á þetta þegar hann biður um að hann sé elskaður og honum þjónað í bræðrum sínum og systrum sem þjást með einhverjum hætti: hinum hungruðu, þyrstu, nöktu, sjúku, og þeim sem eru gestkomandi eða sitja í fangelsi … allt sem þeim er gjört er gjört Kristi sjálfum (sbr. Mt 25:31-46).

 

“Því að þú hefir myndað nýru mín” (Sl 139.13): tign hins ófædda barns

44. Mannlegt líf er varnarlausast þegar það kemur í heiminn og þegar það yfirgefur hinn stundlega vettvang og heldur inn í eilífðina. Orð Guðs áréttar iðulega kallið um að sýna beri lífinu umhyggju og virðingu, umfram allt þegar úr því er dregið vegna sjúkdóma eða elli. Enda þótt það séu engar beinar eða afdráttarlausar hvatningar um að vernda mannlegt líf strax frá upphafi þess, má auðveldlega skýra það með þeirri staðreynd að möguleikinn að skaða, ráðast á og raunar hafna lífinu við þær kringumstæður var algerlega framandi trúar og menningarhugsun lýðs Guðs.

Í Gamla testamentinu er litið á ófrjósemi sem bölvun en aftur á móti eru margir niðjar taldir blessun: “Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun” (Sl 127:3; sbr. Sl 128:3-4). Þessi trú byggir einnig á þeirri vitund Ísraelsmanna að þeir væru þjóð sáttmálans og kallaðir til að fjölga sér í samræmi við fyrirheitið sem gefið var Abraham: “Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær. … Svo margir skulu niðjar þínir verða” (1M 15:5). Það sem hér um ræðir er fyrst og fremst sú vissa að lífið sem foreldrarnir flytja eigi uppruna sinn í Guði. Við sjáum þetta staðfest í mörgum ritningarköflum þar sem talað er af virðingu og ástúð um getnaða, um myndun lífs í móðurkviði, um fæðingu og hin nánu tengsl á milli upphafsstundar lífs og athafnar Guðs skaparans.

“Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig” (Jer 1:5): líf hvers einasta einstaklings, strax frá upphafi þess, er hluti af fyrirætlun Guðs. Þar sem hann er djúpt í sársauka sínum dregur Job sig í hlé til að hugleiða verk Guðs sem á yfirnáttúrlegan hátt myndaði líkama hans í móðurkviði. Hann finnur hér traustan grunn og hann lætur í ljós trú sína að til sé guðleg fyrirætlun um líf hans: “Hendur þínar hafa skapað mig og myndað mig, allan í krók og kring, og samt ætlar þú að tortíma mér? Minnstu þó þess, að þú myndaðir mig sem leir, og nú vilt þú aftur gjöra mig að dufti. Hefir þú ekki hellt mér sem mjólk og hleypt mig sem ost? Hörundi og holdi klæddir þú mig og ófst mig saman úr beinum og sinum. Líf og náð veittir þú mér, og umsjá þín varðveitti andardrátt minn” (Jb 10:8-12). Í Sálmunum má sjá aftur og aftur hvernig sagt er með lotningu og undrun frá íhlutun Guðs í líf barns í móðurkviði.[35]

Hvernig getur nokkur maður haldið að jafnvel ein einasta stund þessarar dásamlegu þróunar, þegar lífið afhjúpast, geti verið aðskilið frá skynsömu og elskandi verki skaparans og falið duttlungum mannsins? Þetta var vissulega ekki hugsun móður bræðranna sjö þegar hún játaði trú sína á Guð, uppsprettu og tryggingu lífs strax frá getnaði, og grundvöll vonar nýs lífs handan dauðans: “Ég veit ekki hvernig þið urðuð til í lífi mínu. Ekki var það ég sem gaf ykkur líf og anda og ekki kom ég skipan á frumefnin sem þið eruð úr. Það er skapari heimsins sem mótar manninn þegar hann verður til og ákvarðar tilurð allra hluta. Þess vegna mun hann í miskunn sinni gefa ykkur anda og líf að nýju fyrir það að fórna ykkur fyrir lögmál hans” (2Mkk 7:22-23).

45. Opinberun Nýja testamentisins staðfestir óumdeilanlega viðurkenningu á gildi lífsins strax frá byrjun þess. Gleði og áköf eftirvænting í orðum Elísabetar þegar hún gengur með barni er ómur þess hversu hátt frjósemin er metin og lífið sem í vændum er: “Þannig hefur Drottinn gjört við mig, er hann leit til mín að afmá hneisu mína í augum manna” (Lk 1:25). Gildi persónunnar frá andartaki getnaðar er jafnvel enn betur í heiðri haft þegar María mey og Elísabet hittast og börnin tvö sem þær voru þungaðar af. Það eru einmitt börnin sem opinbera komu Messíasartímabilsins: þegar þau eiga mót verður endurlausnarkraftur nærveru Sonar Guðs fyrst virkur. Eins og heilagur Ambrósíus skrifaði: “Heimsókn Maríu og blessun nærveru Drottins verða fljótt kunn. … Elísabet var fyrst til að heyra röddina en Jóhannes var fyrstur til að reyna náðina. Hún heyrði eftir leiðum náttúrunnar hann tók viðbragð vegna leyndardómsins. Hún bar kennsl á komu Maríu; hann á komu Drottins. Konan bar kennsl á komu konunnar, barnið á komu barnsins. Konurnar tala um náð, börnin gera hana virka innan frá konunum til gagns og innblása þeim með tvöföldu kraftaverki að spá. Ungbarnið tekur viðbragð, móðirin var fyllt Andanum. Móðirin var ekki fyllt á undan syninum heldur eftir að sonurinn var fylltur Heilögum Anda fyllti hann einnig móður sína.”[36]

 

“Ég trúði þó ég segði: “Ég er mjög beygður”” (Sl 116:10): líf í ellinni og á þjáningartímum

46. Hvar varðar síðustu stundir lífsins væri það tímaskekkja að vænta þess að finna í opinberun Biblíunnar skýra tilvísun til málefna dagsins í dag um að virða beri hina öldruðu og sjúku eða fordæmingu á greinilegum tilraunum til að flýta fyrir lokum lífs þeirra og neyta til þess aflsmunar. Menningarlegur og trúarlegur grunnur Biblíunnar snertir á engan hátt slíkar freistingar; þvert á móti eru í þessu sambandi speki og reynsla hinna eldri viðurkenndar sem einstök uppspretta til auðgunar fjölskyldunni og þjóðfélaginu.

Hár aldur gefur sæmd og ber vott um göfugleika (sbr. 2Mkk 6:23). Hinn réttláti maður leitar þess ekki að vera leystur undan ellinni og byrðum hennar; þvert á móti er bæn hans á þessa leið: “Þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku. … Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð” (Sl 71:5, 18). Í hugsjóninni um Messíasartímabilið er það sagt vera tímaskeið þegar “eigi skal þar framar vera … nokkurt gamalmenni, sem ekki nái fullum aldri” (Jes 65:20).

Hvernig á að horfast í augu við óhjákvæmilega hnignun lífsins í ellinni? Hvernig á að bregðast við frammi fyrir dauðanum? Hinn trúaði veit að líf hans er í höndum Guðs: “Þú, Drottinn, er hlutskipti mitt” (sbr. Sl 16:5) og hann viðurkennir nauðsyn þess að deyja: “Drottinn bjó þessi örlög öllum mönnum, hví skyldir þú rísa gegn því er hinum Hæsta þóknast?” (Sr 41:4). Maðurinn er ekki herra lífsins og ekki er hann herra dauðans. Í lífi og dauða hefur hann falið sig fyllilega því sem “hinum Hæsta þóknast”, falið sig elskandi fyrirætlun hans.

Maðurinn er einnig kallaður á sjúkdómsstundum að hafa sama traust á Drottni og að endurnýja grundvallartrú á hann sem “læknar öll þín mein” (Sl 103:3). Þegar öll von um góða heilsu virðist fjara út þannig að það fær manninn til að hrópa: “Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras” (Sl 102:12) – jafnvel þá er hinn trúandi maður staðfastur í óbilandi trú á lífgandi mátt Guðs. Sjúkdómur fær ekki slíkan mann til að örvænta og leita dauðans heldur fær hann til að hrópa upp yfir sig í von: “Ég trúði, þó ég segði: “Ég er mjög beygður”” (Sl 116:10); “Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig. Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar” (Sl 30:3-4).

47. Erindi Jesú og hinar mörgu lækningar sem hann gerði sýna mikla umhyggju Guðs jafnvel fyrir líkamlegu lífi mannsins. Jesús sem er “læknir af líkama og anda”[37] var sendur af Föðurnum til að kunngjöra fátækum fagnaðarboðskapinn og græða þá sem hafa sundurmarið hjarta (sbr. Lk 4:18; Jes 61:1). Seinna þegar hann sendi lærisveina út í heiminn gaf hann þeim erindi, erindi þar sem lækning hinna sjúku helst í hendur við prédikun guðspjallsins: “Farið og prédikið: “Himnaríki er í nánd.” Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda (Mt 10:7-8; sbr. Mk 6:13; 16:18).

Fyrir hinn trúaða mann eru vissulega hin algeru gæði ekki fólgin í líkamlegu lífi hans á jörðu sérstaklega vegna þess að hann gæti verið beðinn um að leggja líf sitt í sölurnar fyrir enn meiri gæði. Eins og Jesús sagði: “Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins, mun bjarga því” (Mk 8:35). Nýja testamentið gefur mörg mismunandi dæmi um þetta. Jesús hikar ekki við að fórna sjálfum sér og hann gefur fúslega líf sitt sem fórnargjöf Föðurnum til handa (sbr. Jh 10:17) og þeim til handa sem tilheyra honum (sbr. Jh 10:15). Dauði Jóhannesar skírara, undanfara frelsarans, er einnig vitnisburður um að í jarðneskri tilveru felast ekki alger gæði; enn mikilvægara er að vera trúr orði Drottins jafnvel þótt það setji eigið líf í hættu (sbr. Mk 6:17-29). Stefán, sem glataði jarðnesku lífi sínu vegna þess að hann var trúfastur vottur um upprisu Drottins, fetar í fótspor Meistarans og mætir þeim sem grýta hann með fyrirgefningarbæn á vör (sbr. P 7:59-60). Hann verður þannig hin fyrsti af óteljandi fjölda píslarvotta sem kirkjan hefur heiðrað allt frá upphafi. Enginn getur hins vegar valið að eigin geðþótta hvort hann lifi eða deyi; hinn algildi herra yfir slíkum ákvörðunum er skaparinn einn en “ í honum lifum, hrærumst og erum vér” (P 17:28).

 

“Allir sem halda sér fast við hana munu lifa” (Br 4:1): frá lögmálinu á Sínaí til gjafar Andans

48. Með óafmáanlegum hætti er lífið markað eigin sannleika. Með því að taka við gjöf Guðs er maðurinn skyldugur að viðhalda lífinu í þessum sannleika sem er því grundvallaratriði. Að losa sig við þennan sannleika er að fyrirdæma sjálfan sig til tilgangsleysis og óhamingju og hugsanlega til þess að verða ógn við tilveru annarra manna þar sem þær hömlur sem tryggja virðingu fyrir lífinu og eru því vörn við allar kringumstæður hafa verið brotnar niður.

Boðorð Guðs opinberar sannleikann um lífið. Orð Drottins sýnir með áþreifanlegum hætti hvaða stefnu lífið verður að taka ef það á að virða eigin sannleika og varðveita eigin tign sína. Verndun lífsins er ekki einungis tryggð með hinu tilgreinda boðorði “Þú skalt ekki morð fremja” (2M 20:13; 5M 5:17); allt lögmál Drottins þjónar því að vernda lífið vegna þess að það opinberar þann sannleika þar sem lífið finnur fulla merkingu sína.

Ekki kemur því á óvart að sáttmáli Guðs við þjóð sína hafi slík náin tengsl við lífssýnina og einnig hvað varðar líkamlega þætti hennar. Í þeim sáttmála er boðorð eða skipanir Guðs gefin sem lífsleið: “Sjá, ég hefi í dag lagt fyrir þig líf og heill, dauða og óheill. Ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, að elska Drottin Guð þinn, ganga á hans vegum og varðveita skipanir hans, lög og ákvæði, þá munt þú lifa og margfaldast, og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í landi því, er þú heldur inn í til þess að taka það til eignar” (5M 30:15-16). Það sem er í húfi er ekki einungis Kanaanland og tilvist Ísraelsþjóðar heldur einnig heimurinn í dag og framtíðin, og tilvera alls mannkyns. Raunar er það allsendis ómögulegt að viðhalda sönnu og fullu lífi þegar það er slitið frá hinu góða; og hvað víðvíkur hinu góða er það í eðli sínu bundið boðorðum Drottins, það er að segja, “lögmálinu sem leiðir til lífs” (Sr 17:11). Hið góða sem gera á eru ekki byrðar á lífið því til íþyngingar þar sem þetta góða er sjálfur tilgangur lífsins og lífið eflist eingöngu með framkvæmd þess.

Þess vegna er lögmálið í heild sinni mannlegu lífi fullkomin vernd. Þetta skýrir hvers vegna erfitt er að vera trúr boðorðinu “Þú skalt ekki morð fremja” þegar önnur “lifandi orð” (sbr. P 7:38) sem þetta boðorð er bundið eru ekki í heiðri höfð. Slitið frá þessari heildarmynd verður boðorðið að litlu öðru en skyldu sem kemur utanfrá og þar sem fljótt er hafist handa við að finna takmarkanir þess og mildandi þátta og undanþága leitað. Einungis þegar fólk er opið fyrir fullnustu sannleikans um Guð, mann og söguna, munu orðin “Þú skalt ekki morð fremja” skína hátt svo þau verði enn á ný til góða fyrir manninn sjálfan og tengsla hans við aðra menn. Það er frá þessum sjónarhóli að við getum öðlast skilning á fullum sannleika kafla fimmtu Mósebókar sem Jesús endurtekur þegar hann bregst við fyrstu freistingunni: “Maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur … á sérhverju því er fram gengur af munni Drottins” (5M 8:3; sbr. Mt 4:4).

Það er með því að hlýða á orð Drottins að okkur er kleift að lifa í tign og af réttlæti. Það er með því að halda í heiðri lögmál Guðs að okkur er kleift að leiða í ljós ávexti lífsins og hamingju: “Allir sem halda sér fast við hana munu lifa, hinir sem yfirgefa hana munu deyja” (Br 4:1).

49. Saga Ísraels sýnir fram á hversu erfitt það er að vera trúr lögmáli lífsins sem Guð hefur letrað í mannleg hjörtu og hann gaf þjóð sáttmálans á Sínaí. Þegar þjóðin leitar leiða í lífinu sem hunsa fyrirætlun Guðs eru það einkum spámennirnir sem minna hana kröftuglega á að það er Drottinn einn sem er sönn uppspretta lífs. Þannig skrifar Jeremía: “Tvennt illt hefir þjóð mín aðhafst: Þeir hafa yfirgefið mig, uppsprettu hins lifandi vatns, til þess að grafa sér brunna, brunna með sprungum sem ekki halda vatni” (2:13). Spámennirnir benda ásakandi á þá sem sýna lífinu lítilsvirðingu og brjóta gegn réttindum fólks. “Þeir fíkjast í moldarkornin á höfði hinna snauðu” (Am 2:7); “þeir fylltu þennan stað blóði saklausra manna” (Jer 19:4). Og meðal þeirra er það spámaðurinn Esekíel sem iðulega fordæmir Jerúsalemborg og kallar hana “blóðseka borg” (22:2; 24:6, 9), “borg sem úthelli blóði innan borgarveggja sinna” (22:3).

En þótt spámennirnir fordæmi misgjörðir gegn lífinu er þeim umfram allt annt um að vekja upp von um nýja lífsreglu sem kæmi á endurnýjuðum samskiptum við Guð og aðra menn og opnaði nýjar og óvæntar leiðir til að komast til skilnings á og inna af hendi allar þær kröfur sem fylgja guðspjalli lífsins. Þetta verður mögulegt þökk sé gjöf Guðs sem hreinsar og endurnýjar: “Ég mun stökkva hreinu vatni á yður svo að þér verðið hreinir, ég mun hreinsa yður af öllum óhreinindum yðar og skurðgoðum. Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst” (Esk 36:25-26; sbr. Jer 31:34). Þetta “nýja hjarta” gerir það mögulegt að vera þakklátur fyrir og öðlast hina dýpstu og sönnustu merkingu lífsins: að vera gjöf sem fullkomnast með gjöf á sjálfum sér. Þessi stórkostlegi boðskapur um gildi lífsins kemur til okkar frá þjóni Drottins: “Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi. … Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast” (Jes 53:10, 11).

Með komu Jesú frá Nasaret er lögmálið uppfyllt og nýtt hjarta er gefið fyrir Anda hans. Jesús hafnar ekki lögmálinu heldur uppfyllir hann það (sbr. Mt 5:17): lögmálið og spámennirnir eru dregin saman í hinni gullnu reglu um gagnkvæman kærleika (sbr. Mt 7:12). Í Jesú verður lögmálið í eitt skipti fyrir öll “guðspjallið”, fagnaðarerindið um herradóm Guðs yfir heiminum sem færir allt líf til róta sinna og upphaflegs tilgangs. Þetta er nýja lögmálið “lögmál lífsins anda … í Kristi Jesú” (Rm 8:2) en grundvallartjáning þess, eftir dæmi Drottins sem lagði líf sitt í sölurnar fyrir vini sína (sbr. Jh 15:13), er gjöfin á sjálfum sér í þágu bræðra sinna og systra: “Vér vitum að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins af því að vér elskum bræður vora” (1Jh 3:14). Þetta er lögmál frelsis, fagnaðar og blessunar.

 

“Þeir munu horfa til hans, sem þeir stungu” (Jh 19:37): guðspjall lífsins er fært til fullnustu á krossins tré

50. Þegar komið er að lokum þessa kafla þar sem við höfum hugleitt hinn kristna boðskap um lífið langar mig til að staldra við með hverju ykkar og íhuga hann sem var stunginn og sem dregur alla til sín (sbr. Jh 19:37; 12:32). Með því að virða fyrir sér krossinn (Lk 23:48) munum við uppgötva í þessu dýrlega tré uppfyllingu og algera opinberun á öllu guðspjalli lífsins.

Snemma síðdegis á föstudaginn langa “var myrkur um allt land … því sólin missti birtu sinnar. En fortjald musterisins rifnaði sundur í miðju” (Lk 23:44, 45). Þetta er merki um mikla ókyrrð í alheimsgeiminum og gífurleg átök milli máttarafla góðs og ills, milli lífs og dauða. Í dag erum við í miðju afdrífaríkra átaka milli “menningu dauða” og “menningu lífs”. En dýrð krossins verður ekki sigruð með þessu myrkri; dýrðarljómi hennar skín jafnvel enn skærar og hún opinberast sem miðja, merking og takmark allrar sögu og sérhvers mannlegs lífs.

Jesús er negldur á krossinn og lyft upp frá jörðu. Hann fær eitt augnablik að reyna mesta “vanmátt” sinn en líf hans virðist algerlega ofurselt háði andstæðinga hans og valdi böðla hans: hann er hæddur, úthúðaður og niðurlægður (sbr. Mk 15:24-36). Eigi að síður, einmitt þegar allt þetta dynur yfir, eftir að hafa séð hann taka síðasta andardráttinn, hrópar rómverski hundraðshöfðinginn upp yfir sig: “Sannarlega var þessi maður Sonur Guðs!” (Mk 15:39). Því er það að á andartaki mesta veikleika hans er það opinberað hver Sonur Guðs er: á krossinum verður dýrð hans sýnileg.

Með dauða sínum varpar Jesús ljósi á merkingu lífs og dauða hverrar mannveru. Áður en hann deyr biður Jesús til Föðurins um fyrirgefningu til handa þeim sem ofsóttu hann (sbr. Lk 23:34); og ræningjanum sem bað hann um að minnast sín í konungsríki hans, svarar hann: “Sannarlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís” (Lk 23:43). Eftir dauða hans “opnuðust grafir og margir líkamar helgra látinna manna risu upp” (Mt 27:52). Frelsunin sem Jesús kom til leiðar er gjöf lífs og upprisu. Allt í gegnum jarðneskt líf sitt hafði Jesús vissulega veitt frelsun með lækningum og gert öllum gott (sbr. P 10:38). En kraftaverk hans, lækningar og jafnvel uppvakning dauðra voru tákn um aðra frelsun, frelsun sem í felst fyrirgefning syndanna, það er að segja, að gera manninn frjálsan af mesta sjúkdómi sínum og reisa hann til sjálfs lífs Guðs.

Á krossinum er kraftaverkið um höggorminn sem Móse hóf upp í eyðimörkinni (Jh 3:14-15; sbr. 4M 21:8-9) endurnýjað og fært til algerrar og endanlegrar fullnustu. Einnig í dag, með því að líta upp til hans sem var stunginn, getur hver maður sem hefur lífi sínu ógnað fundið styrk í voninni um að finna frelsi og endurlausn.

51. En það er einn annar sérstakur atburður sem snertir mig djúpt þegar ég hugsa um hann. “Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: “Það er fullkomnað.” Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann” (Jh 19:30). Seinna stakk rómverski hermaðurinn “spjóti sínu í síðu hans og rann jafnskjótt út blóð og vatn” (Jh 19:34).

Með þessu hafði allt náð algjörri fullnustu. Að “gefa upp” andann er lýsing á dauða Jesú sem er dauði líkt og hjá hverri annarri mannveru en hún virðist samtímis ýja að “gjöf Andans” en með honum leysir Jesús okkur úr haldi dauðans og opnar okkur nýtt líf.

Það er eigið líf Guðs sem nú er deilt með manninum. Þetta líf er gefið Guðs börnum án afláts fyrir sakramenti kirkjunnar – táknuð með blóði og vatni sem flæddi úr síðu Krists – en það gerir þau að þjóð nýja sáttmálans. Það er af krossinum, uppsprettu lífs, að “lífsins þjóð” fæðist og fjölgar.

Þannig leiðir íhugun um krossinn okkur til sjálfs kjarna alls þess sem fram hefur farið. Jesús, sem sagði þegar hann kom í heiminn: “Sjá, Guð minn, ég er kominn til að gjöra vilja þinn” (sbr. Heb 10:9), gerðist hlýðinn Föðurnum í öllu og “elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá, uns yfir lauk” (Jh 13:1), hann gaf sjálfan sig fullkomlega í þágu þeirra.

Hann sem hafði ekki komið “til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga” (Mk 10:45) náði á krossinum æðstu hæðum kærleikans: “Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína” (Jh 15:13). Og hann dó fyrir okkur meðan við vorum enn syndarar (sbr. Rm 5:8).

Með þessum hættir kunngerir Jesús að lífið finnur kjarna sinn, merkingu og fyllingu þegar það er gjöf.

Þegar hér er komið verður íhugun okkar að lof- og þakkargjörð og hvetur okkur samtímis að breyta eftir Kristi og feta í fótspor hans (sbr. 1Pt 2:21).

Við erum einnig kölluð til að leggja líf okkar í sölurnar fyrir bræður okkar og systur og öðlast þannig í fullnustu sannleikans merkingu og tilgang tilveru okkar.

Oss auðnast að gera þetta vegna þess að þú, Drottinn, hefur sett oss fordæmið og gefið oss kraft Anda þíns. Oss verður kleift að gera þetta hvern dag ef vér, með þér og lík þér, erum hlýðin Föðurnum og gerum vilja hans.

Gef því að vér megum hlusta með opnu og örlátu hjarta á hvert orð sem gengur fram af munni Guðs. Þannig munum vér læra ekki einungis að gegna boðorðinu um að drepa ekki mannlegt líf heldur einnig að vegsama lífið, elska það og næra.

 

 

III. KAFLI:

 

ÞÚ SKALT EKKI MORÐ FREMJA

Heilagt lögmál Guðs

 

“Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin” (Mt 19:17): guðspjall og boðorð

52. “Þá kom til hans maður og spurði: “Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?”” (Mt 19:16). Jesús svaraði: “Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin” (Mt 19:17). Meistarinn talar um eilíft líf, það er að segja, hlut í sjálfu lífi Guðs. Þetta líf öðlast maðurinn með því að halda í heiðri boðorð Drottins þar með talið boðorðið “Þú skalt ekki morð fremja”. Það er fyrsta lífsregla tíyrðanna sem Jesús vitnar í þegar ungi maðurinn spyr hann hvaða boðorð hann skuli halda: “Jesús sagði:“Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela…”” (Mt 19:18).

Boðorð Guðs er aldrei slitið úr tengslum við kærleika hans: það er ávallt gjöf sem ætluð er manninum til þroska og gleði. Sem slíkt táknar það grundvallar- og ómissandi þátt guðspjallsins – verður raunar sjálft að “guðspjalli” – gleðilegu fagnaðarerindi. Guðspjall lífsins er hvort tveggja mikil gjöf Guðs og kröfuhart verkefni fyrir mannkynið. Það orsakar undrun og þakklæti í þeirri persónu sem hefur þá náð að eiga frelsi, og til þess er ætlast að við því sé tekið, það varðveitt og heiðrað af djúpri ábyrgðartilfinningu. Með því að gefa manninum líf krefst Guð þess af honum að hann elski, virði og efli lífið. Þannig verður gjöfin að boðorði en boðorðið sjálft er gjöf.

Maðurinn, sem lifandi mynd Guðs, er herra og drottnandi að vilja skapara hans. Heilagur Gregoríus frá Nyssa skrifaði: “Guð gaf manninum getu til að framkvæma hlutverk sitt sem konungur yfir jörðinni. … Maðurinn var skapaður í mynd þess sem stýrir alheiminum. Allt er til merkis um að frá upphafi hafi náttúra mannsins verið mörkuð konungstign. … Maðurinn er konungur. Skapaður til að hafa yfirráð yfir heiminum var honum gefin mynd konungs alheimsins, hann er hin lifandi mynd sem á grunni tignar sinnar tekur þátt í að fullkomna hina guðlegu frumgerð.”[38] Kallaður til að vera frjósamur og að margfaldast, gera jörðina sér undirgefna og drottna yfir öðrum lægri sköpunum (sbr. 1M 1:28) er maðurinn ekki einungis herra og drottnari yfir hlutum heldur einkum yfir sjálfum sér[39] og í vissum skilningi yfir lífinu sem hann hefur meðtekið og getur látið ganga áfram með getnaði sem gerður er af kærleika og virðingu fyrir fyrirætlun Guðs. Yfirráð mannsins eru hins vegar ekki skilyrðislaus, þau fela í sér þjónustu: þau endurspegla með raunverulegum hætti óviðjafnanleg og takmarkalaus yfirráð Guðs. Þess vegna verður maðurinn að iðka þau af speki og kærleika, eiga hlutdeild í takmarkalausri speki og kærleika Guðs. Allt gerist þetta með hlýðni við heilagt lögmál Guðs: frelsandi og fagnandi hlýðni (sbr. Sl 119) sem fæðist og nærist af skilningi á því að lífsreglur Drottins er náðargjöf sem falin er manninum, honum ávallt og eingöngu til góðs og til að viðhalda persónulegri tign hans og hamingjuleit.

Maðurinn ekki skilyrðislaus herra og endanlegur dómari hvað snertir hluti og heldur ekki hvað snertir lífið, hann er fremur – og í því liggur óviðjafnanlegur mikilleiki hans – “þjónn þeirrar fyrirætlunar sem skaparinn kom á”.[40] Manninum er treyst fyrir lífinu sem fjársjóði sem má ekki sólunda, eða sem talentu sem verður að nýta vel. Maðurinn verður að gera herra sínum reikningsskil (sbr. Mt 25:14-30; Lk 19:12-27).

 

“Af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins” (1M 9:5): mannlegt líf er heilagt og friðhelgt

53. “Mannlegt líf er heilagt vegna þess að strax frá byrjun er það snert sköpunarmætti Guðs og hefur að eilífu sérstök tengsl við skaparann, en hann einn er takmark þess. Aðeins Guð er Drottinn lífsins frá því það hefst og þar til því lýkur. Enginn maður getur undir neinum kringumstæðum tekið sér þann rétt að drepa með beinum hætti saklausa mannveru.”[41] Með þessum orðum sínum setur tilsögnin Donum Vitae fram hvert er grundvallarinnihald opinberunar Guðs um heilagleika og friðhelgi mannlegs lífs.

Heilög ritning kemur raunar á framfæri lífsreglunni “Þú skalt ekki morð fremja” sem guðlegu boðorði (2M 20:13; 5M 5:17). Eins og ég hef þegar lagt áherslu á er þetta boðorð að finna í tíyrðunum, í hjarta sáttmálans sem Drottinn gerði við sína útvöldu þjóÐ en það var þegar innifalið í hinum upprunalega sáttmála milli Guðs og manna eftir hina hreinsandi refsingu syndaflóðsins, sem útbreiðsla syndar og ofbeldis ollu (sbr. 1M 9:5-6).

Guð kunngjörir að hann sé hinn algeri Drottinn lífs mannsins, sem er mótaður í mynd hans og líkingu (sbr. 1M 1:26-28). Mannlegu lífi er þannig gefið heilög og friðhelg auðkenni sem endurspeglar friðhelgi sjálfs skaparans. Einmitt af þessari ástæðu mun Guð dæma hart hvert brot gegn boðorðinu “Þú skalt ekki morð fremja”, boðorðinu sem er grundvöllur alls sameiginlegs lífs í þjóðfélaginu. Hann er “goel”, verjandi hinna saklausu (sbr. 1M 4:9-15; Jes 41:14; Jer 50:34; Sl 19:14). Þannig sýnir Guð að hann gleðst ekki yfir dauða þeirra sem lifa (sbr. SS 1:13). Einungis Satan getur glaðst í þeim efnum: því að fyrir öfund hans kom dauðinn inn í heiminn (sbr. SS 2:24). Hann sem er “manndrápari frá upphafi” er einnig “lygari og lyginnar faðir” (Jh 8:44). Hann blekkir manninn og leiðir hann til syndar og dauða, lætur hvort tveggja virðast vera markmið og ávöxt lífs.

54. Eins og hún er beint sett fram er lífsreglan “Þú skalt ekki morð fremja” neikvæð í þrengstu merkingu: hún gefur til kynna ystu mörk þess sem aldrei má fara út fyrir. Hins vegar hvetur hún á óbeinan hátt til þeirrar jákvæðu afstöðu að lífið beri að virða afdráttarlaust; hún leiðir til þess að lífið eflist og þroskast eftir leiðum kærleikans sem gefur, meðtekur og þjónar. Þjóð sáttmálans þroskaðist smám saman í þessa átt, þótt það gerðist hægt og ekki án einhvers trega, en þannig undirbjó hún hinn mikla boðskap Jesú um að boðorðið að elska náunga sinn væri líkt boðorðinu að elska Guð: “á þessum tveimur boðorðum hvíldi allt lögmálið og spámennirnir” (sbr. Mt 22:36-40). Heilagur Páll leggur áherslu á að “boðorðið … “þú skalt ekki morð fremja” … og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: “Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig”” (Rm 13:9; sbr. Gl 5:14). Tekið upp aftur og fært til fullnustu sinnar í nýja lögmálinu verður boðorðið “Þú skalt ekki morð fremja” nauðsynlegt skilyrði þess að “ganga inn til lífsins” (sbr. Mt 19:16-19). Frá sama sjónarhóli eru orð Jóhannesar postula afdráttarlaus: “Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér” (1Jh 3:15).

Allt frá upphafi hefur hin lifandi erfikenning kirkjunnar endurtekið afdráttarlaust boðorðið “Þú skalt ekki morð fremja” eins og sjá má í Didache, elsta kristna ritverkinu sem ekki er af biblíulegum toga: “Til eru tvær leiðir: leið lífsins og leið dauðans og er mikill munur á þessum tveimur leiðum. Annað boðið í kenningunni þýðir: Fremdu eigi morð … legg eigi stund á … fóstureyðingar eða ungbarnadráp. … Leið dauðans er sem hér segir: … þeir aumkva sig ekki yfir fátæka eða láta þá sig neinu skipta sem eru í neyð. Ekki er í þeim þekking á skapara sínum; þeir láta eyða börnum sínum og afmynda ímynd Guðs; þeir vísa þeim frá sem eru þurfi og kúga hina þjökuðu; þeir styrkja hina ríku og hvetja þá en fyrirdæma einhliða fátæka; þeir eru gjörsamlega og að öllu leyti bundnir fjötrum siðleysis. Flýið börnin mín frá öllu þessu!”[42]

Í gegnum aldirnar hefur erfikenning kirkjunnar ávallt verið stöðug í kennslu sinni um algert og óumbreytanlegt gildi boðorðsins “Þú skalt ekki morð fremja”. Það er kunn staðreynd að á fyrstu öldunum var litið á morð sem eina af þremur alvarlegustu syndunum – jafngilti fráfalli frá trúnni og hórdómi – og krafðist einkar þungrar og langrar opinberrar yfirbótar áður en hinn iðrandi syndari gat öðlast fyrirgefningu og fengið endurupptöku í kirkjusamfélagið.

55. Þetta ætti ekki að vekja undrun: að drepa mannveru sem ber mynd Guðs er sérstaklega alvarleg synd. Einungis Guð er herra lífsins! Eigi að síður hefur í kristinni hugsun verið leitað allt frá upphafi að fyllri og dýpri skilningi á því hvað boðorð Guðs banni og fyrirskipi þegar hún hefur horfst í augu við mörg og oft hörmuleg tilfelli sem gerst hafa í lífi einstaklinga og þjóðfélaga.[43] Raunar eru til aðstæður þegar gildin sem lögmál Guðs setur fram virðast geyma í sér hreina þversögn. Þetta gerist til dæmis í tilfellum lögmætrar varnar þegar erfitt er að samrými í verki réttinn til að verja eigið líf og skylduna að skaða ekki líf annars manns. Vissulega er eðlisbundið gildi lífsins og skyldan að elska sjálfan sig í engu minna mæli en aðra menn grunnurinn að sönnum rétti til sjálfsvarnar. Í sjálfu hinu kröfuharða boðorði að elska náungann, sem sett er fram í Gamla testamentinu og staðfest af Jesú, er gengið út frá því að það að elska sjálfan sig sé grunnurinn að því að þetta sé sett að jöfnu: “Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig” (Mk 12:31). Af þessu leiðir að enginn má afsalað sér réttinum til sjálfsvarnar vegna skorts á kærleika til lífsins eða til sjálfs sín. Það verður einungis gert í krafti djarfs kærleika sem dýpkar og umbreytir kærleikanum til sjálfs sín í gagngera fórnargjöf á sjálfum sér í anda guðspjalls sæluboðanna (sbr. Mt 5:38-40). Göfugasta fordæmi þessarar sjálfsgjafar á sjálfum sér er sjálfur Drottinn Kristur.

Þar að auki er “lögmæt vörn ekki einungis réttur heldur alvarleg skylda þess sem ber ábyrgð á lífi annarra. Varðveisla almannaheilla krefst þess að óréttmætur árásaraðili sé gerður skaðlaus”.[44] Því miður veldur nauðsyn þess að gera árásaraðila skaðlausan stundum því að hann glatar lífinu. Í tilfelli sem slíku er dauðsfallið rakið til árásaraðilans sem kom því til leiðar með aðgerðum sínum enda þótt hann kynni að bera enga siðferðilega ábyrgð vegna skorts á rökum skynseminnar.[45]

56. Líta verður á vandann um dauðarefsingar í þessu samhengi. Í þessu máli er vaxandi tilhneiging – hvort tveggja í kirkjunni og borgaralegu samfélagi – að krefjast þess að þeim sé beitt með afar takmörkuðum hætti eða jafnvel að þær verði aflagðar með öllu. Líta verður á vandamálið innan ramma refsiréttar sem í auknu mæli er samstiga mannlegri tign og þannig að endingu fyrirætlun Guðs fyrir manninn og þjóðfélagið. Megintilgangur refsinga sem þjóðfélagið krefst er að “lagfæra þá röskun sem afbrotið hefur valdið”.[46]Opinberum yfirvöldum ber að bæta úr brotum gegn persónulegum og félagslegum réttindum og dæma lögbrjótinn til hæfilegrar refsingar fyrir glæpinn sem skilyrði fyrir því að hann endurheimti frelsi sitt. Með þessum hætti efna yfirvöld einnig þann ásetning að verja opinbera reglu og tryggja öryggi íbúanna en hvetja samtímis lögbrjótinn og bjóða honum hjálp til að breyta framferði sínu sem stuðli að betrun hans.[47]

Ljóst er að til að áformin gangi eftir verður að meta vandlega og ákvarða eðli og umfang refsingarinnar. Henni á að beita innan marka skynseminnar og ekki lífláta lögbrjótinn nema í þeim tilfellum þegar það er alger nauðsyn: með öðrum orðum, þegar ekki er hægt að verja þjóðfélagið með öðrum hætti. Vegna stöðugra framfara í réttarkerfinu eru slík tilfelli í dag mjög sjaldgæf ef ekki beinlínis úr sögunni.

Hvað sem öðru líður er reglan sem sett er fram í Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar áfram í gildi: “Ef hins vegar óbanvænar aðferðir nægja til að vernda öryggi borgaranna og verja þá gegn árásaraðila, ber yfirvöldum að halda sig við þær aðferðir þar sem þær eru betur í samræmi við raunhæf skilyrði almannaheilla og samræmast öllu heldur virðingu mannsins.“[48]

57. Ef sýna verður slíka aðgát við að virða sérhvert líf, jafnvel líf glæpamanna eða óréttlátra árásaraðila, hefur boðorðið “Þú skalt ekki morð fremja” algert gildi þegar það á við um saklausa persónu. Og þetta á enn frekar við þegar í hlut eiga veikar og varnarlausar mannverur sem hafa enga aðra vörn gegn stærilæti og duttlungum annarra manna nema í hinum algera skuldbindingarkrafti sem felst í boðorði Guðs.

Í raun er algert friðhelgi saklauss mannlegs lífs siðferðilegur sannleikur sem Heilög ritning kennir skýrlega, sem erfikenning kirkjunnar hefur samfellt varið og kennsluvald hennar stöðugt sett fram. Þessi stöðuga kennsla er augljós afleiðing “yfirnáttúrlegs trúarskynbragðs” sem, innblásið og viðhaldið af Heilögum Anda, verndar Guðs lýð frá villu þegar hann er með almennum hætti “sammála í trúar- og siðalögmálsefnum”.[49]

Hægt er að mæla, hvort tveggja í samvisku einstaklingsins og þjóðfélagsins sem slíks, vaxandi skort á tilfinningu fyrir því algera og alvarlega siðferðilega ólögmæti að binda með beinum hætti enda á allt saklaust mannlegt líf. Í síauknu mæli hefur kennsluvald kirkjunnar talað hátt og skýrt gegn þessu til varnar heilagleika og friðhelgi mannlegs lífs. Kennsluvald páfans hefur verið sérstaklega eftirgangshart í þessu sambandi og hafa biskuparnir ávallt veitt því fulltingi sitt með fjölda ítarlegra skjala hvort tveggja kenningarlegum og hirðislegum sem annað hvort biskuparáðstefnur eða einstakir biskupar hafa gefið út. Annað Vatíkanþingið tók einnig á málinu með kröftugum hætti í stuttum en ótvíræðum kafla.[50]

Þess vegna, með því valdi sem Kristur gaf Pétri og eftirmönnum hans, og í einingu við biskupa kaþólsku kirkjunnar, staðfesti ég að beint dráp á saklausri mannlegri veru að yfirlögðu ráði er ávallt alvarlegt siðferðisbrot. Þessi kenning sem byggir á þeim óskrifuðu lögum sem maðurinn finnur í ljósi skynseminnar að eru rituð í hjarta sér (sbr. Rm 2:14-15) og Heilög ritning sýnir í reynd, er borin áfram af erfikenningu kirkjunnar og kennd af hinu hefðgróna og almenna kennsluvaldi.[51]

Sá vísvitandi ásetningur að svipta saklausa mannveru lífinu er ávallt siðferðilegur bölvaldur og getur aldrei verið lögmætur hvorki sem markmið í sjálfu sér né aðferð til að ná góðu markmiði. Hann er í raun alvarleg óhlýðni við siðferðislögmálið og raunar við Guð sjálfan, sem setur þetta lögmál og ábyrgist það. Slíkur ásetningur stríðir gegn grundvallargildum réttlætis og kærleika.

“Ekkert og enginn getur á nokkurn hátt leyft dráp á saklausri mannlegri veru, hvort sem þar um ræðir fóstur eða fósturvísi, ungbarn eða fullorðinn, roskinn einstakling eða þann sem þjáist af ólæknandi sjúkdómi eða einstakling sem bíður dauðans. Ennfremur er engum leyfilegt að biðja um slíkt dráp annað hvort fyrir sig sjálfan eða fyrir aðra persónu sem honum hefur verið falið að annast og ekki heldur getur nokkur samþykkt að framkvæma það, hvorki beint né óbeint. Og ekki getur nokkurt stjórnvald mælt með því með lögmætum hætti eða leyft slíka aðgerð.”[52]

Hvað réttinn til lífs varðar er sérhver saklaus mannvera jöfn öllum öðrum mönnum með afdráttarlausum hætti. Þetta jafnrétti er grunnurinn að öllum sönnum félagslegum samskiptum en til að það teljast með réttu slíkt getur það einungis byggst á sannleika og réttlæti sem viðurkennir og verndar hvern karl og konu sem persónu en ekki sem nytjahlut. Frammi fyrir þeirri siðferðisreglu sem bannar beint dráp á saklausri mannveru “hefur enginn forréttindi eða undanþágu. Ekki skiptir neinu máli hvort viðkomandi er herra heimsins eða “snauðastur meðal hinna fátæku” á yfirborði jarðar. Frammi fyrir kröfum siðferðis eru við öll fyllilega jöfn”.[53]

 

“Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni” (Sl 139:16): ólýsanlegur glæpur fóstureyðinga

58. Meðal allra þeirra glæpa sem hægt er að fremja gegn lífinu bera fóstureyðingar auðkenni sem gera þær alvarlegar og sorglegar. Annað Vatíkanþingið segir fóstureyðingar, ásamt með barnsmorðum, vera “ólýsanlega glæpi”.[54]

Hins vegar hefur í dag skynjunin á alvarleika hans smám saman myrkvast í samvisku margs fólks. Jákvætt viðhorf til fóstureyðinga í huga almennings sem sýnir sig hvort tveggja í atferli og jafnvel í lögum er lýsandi dæmi um sérstaklega alvarlega kreppu siðgæðisvitundarinnar sem í síauknu mæli er ekki kleift að greina á milli góðs og ills, jafnvel þegar grundvallarrétturinn til lífs er í húfi. Við slíkar alvarlegar aðstæður verðum við að hafa hugrekki meir en nokkru sinni fyrr til að horfast í augu við sannleikann og kalla hlutina réttu nafni en ekki sætta okkur við þægilega málamyndun eða freistast til sjálfsblekkingar Í þessu sambandi er áminning spámannsins mjög beinskeytt: “Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri” (Jes 5:20). Notkun á óljósum hugtökum er sérstaklega útbreidd þegar kemur að fóstureyðingum. Má nefna í því sambandi að þegar rætt er um “stöðvun á þungun” er það gert í þeim tilgangi að fela rétt eðli fóstureyðinga og gera lítið úr alvarleika þeirra hjá almenningsálitinu. Ef til vill er þessi beiting tungunnar merki um óróleika samviskunnar. En ekkert orð getur breytt því sem í raunveruleikanum felst: fóstureyðing er vísvitandi beint dráp á mannlegri veru á upphafsstigi hennar sem nær frá getnaði fram að fæðingu. Skiptir þá ekki máli hvernig það er framkvæmt.

Siðferðilegur alvarleiki fóstureyðingar er greinilegur í öllum sínum sannleika ef við viðurkennum að við erum að fjalla um morð og sérstaklega þegar við hugleiðum þá sérstöku þætti sem hér um ræðir. Mannlegri sál er útrýmt þegar hún er að hefja sjálft líf sitt; þetta er með öðrum orðum alfarið saklaus mannvera. Með engum hætti er hægt að líta á þessa mannveru sem árásaraðila hvað þá heldur óréttmætan árásaraðila! Hún er veikburða, varnarlaus jafnvel að því marki að hana skortir þær lágmarksvarnir sem felst í áhrifamætti gráts og tára hjá nýfæddu barni. Hið ófædda barn er algerlega háð vernd og umönnun konunnar sem ber það í skauti sér. Eigi að síður er það stundum móðirin sjálf sem tekur ákvörðunina og biður um að barninu sé eytt og kemur því síðan í kring.

Rétt er að ákvörðunin að fara í fóstureyðingu felur oft í sér harm og kvöl fyrir móðurina að því leyti að ástæðan á bak við ákvörðunina um að losa sig við ávöxt getnaðarins sé ekki gerð eingöngu af sjálfselsku eða vegna þess að það sé hentugt, heldur vegna löngunar að vernda viss mikilvæg gildi eins og eigin heilsu eða mannsæmandi lífsgæði annarra fjölskyldumeðlima. Stundum er óttast að barnið sem kemur í heiminn muni lifa við slíkar aðstæður að það yrði betra að fæðingin ætti sér ekki stað. Samt sem áður geta þessar ástæður og aðrar líkar þeim, hversu alvarlegar og hörmulegar sem þær eru, aldrei réttlætt vísvitandi dráp á saklausri mannveru.

59. Jafnframt móðurinni er oft annað fólk sem einnig ákvarðar um dauða barns sem er í móðurkviði. Í fyrsta lagi er hugsanlega við föðurinn sé að sakast, ekki einungis þegar hann þrýstir á konuna að fara í fóstureyðingu heldur einnig þegar hann hvetur óbeint til slíkrar ákvörðunar af hennar hálfu með því að skilja hana eina eftir að takast á við meðgönguna:[55] með því er fjölskyldan lostin ólífissári og hún vanhelguð í náttúru sinni sem samfélag kærleikans og í köllun sinni að vera “griðastaður lífsins”. Ekki getur neinn heldur horft fram hjá þeim þrýstingi sem stundum kemur frá öðrum í fjölskyldunni og frá vinum. Stundum er konan undir það sterkum þrýstingi að sálfræðilega telji hún sig knúna til að fara í fóstureyðingu: í tilfellum sem þessum er vissulega hin siðferðilega ábyrgð einkum hjá þeim sem með beinum eða óbeinum hætti hafa neytt hana til að fara í fóstureyðingu. Læknar og hjúkrunarfræðingar eru einnig ábyrgir þegar þeir ljá dauðanum fagkunnáttu sína sem þeir hafa öðlast til að efla lífið.

En ábyrgðin lendir sömuleiðis á löggjöfum sem hafa stuðlað að og samþykkt fóstureyðingarlög og, að því marki að þeir hafi eitthvað um málið að segja, stjórnendur heilsugæslustöðva þar sem fóstureyðingar eru framkvæmdar. Almennari en ekki síður alvarleg ábyrgð er sömuleiðis hjá þeim sem hafa stuðlað að útbreiðslu á óábyrgu viðhorfi í kynferðismálum og því að ekki er lengur litið til móðernis af virðingu, og hjá þeim sem ættu að hafa komið á – en hafa ekki gert það – virkum stefnum í fjölskyldu- og félagsmálum til styrktar fjölskyldunni, einkum stærri fjölskyldum sem þurfa á stuðningi að halda í fjárhags- og uppfræðslumálum. Að lokum verður ekki litið framjá því neti samblásturs sem teygir sig til alþjóðlegra stofnanna, styrktarsjóða og samtaka sem kerfisbundið berjast fyrir lögleiðingu og útbreiðslu fóstureyðinga í heiminum. Í þessum skilningi er fóstureyðing öllu meiri en ábyrgðarhlutur einstaklinga og öllu meiri en skaðinn sem þeim er gerður – hún verður að félagslegum þætti. Þetta er sá allra alvarlegasti skaði sem gerður er þjóðfélagi og menningu þess og er það gert af sjálfu því fólki sem ætti efla og verja þjóðfélagið. Eins og ég skrifaði í Bréfi til fjölskyldna: “Við horfumst í augu við gífurlega ógnun við lífið: ekki einungis við líf einstaklinga heldur einnig sjálfrar siðmenningarinnar.”[56] Við stöndum andspænis því sem kalla má “skipulagningu syndar” og er andsnúið mannlegu lífi sem enn hefur ekki fæðst.

60. Sumir reyna að réttlæta fóstureyðingu með þeirri fullyrðingu að frjóvgað egg, að minnsta kosti innan vissra daga, geti ekki talist vera persónulegt mannlíf. En staðreyndin er sú að “frá þeim tíma þegar eggið frjóvgast hefur líf hafist sem er hvorki föðurins né móðurinnar; það er öllu heldur líf nýrrar mannveru sem hefur sinn eigin þroska. Það gæti aldrei orðið mannlegt ef það væri ekki þegar mannlegt. Þetta hefur ávallt legið ljóst fyrir og … sem nútíma erfðavísindi staðfesta greinilega. Sýnt hefur verið fram á að frá fyrsta augnabliki er komin á stofn þróunarferill sem leiðir til þess sem þessi lifandi vera mun vera: persóna, þessi einstaka persóna með auðkennandi þætti sína sem þegar eru vel mótaðir. Strax frá getnaði er áhættusöm langferð mannlegs lífs hafin og hver einstök starfsemi þess þarf á tíma að halda – frekar langan tíma – til að finna stöðu sína og hefja starfsemi sína”.[57] Jafnvel þótt ekki sé hægt að ákvarða nærveru andlegrar sálar eftir raunvísindalegum leiðum veita niðurstöður vísindarannsókna á mannlegum fósturvísum “gagnlega vísbendingu til að hægt sé með hjálp skynseminnar að glöggva sig á persónulegri nærveru á því augnabliki þegar mannlegt líf er til orðið: hvernig ætti mannlegur einstaklingur að vera annað en mannleg persóna?”[58]

Ennfremur er það sem í húfi er afar mikilvægt frá sjónarhóli siðferðilegrar skyldu því að einungis sá möguleiki að hér gæti verið um að ræða mannlega persónu myndi nægja til að réttlæta algjört og skýrt bann við hverri þeirri aðgerð sem hefur þann tilgang að drepa mannlegan fósturvísi. Einmitt af þessari ástæðu, óháð allri vísindalegri umræðu og heimspekilegum fullyrðingum sem kennsluvaldið hefur aldrei tekið beina afstöðu til, hefur kirkjan ávallt kennt og heldur áfram að kenna að ávexti mannlegs getnaðar, frá fyrsta andartaki tilveru hans, beri að tryggja þá skilyrðislausu virðingu sem er siðferðilegur réttur mannlegrar veru í heild sinni og einingu sem líkami og andi. “Koma á fram við og virða mannlega veru sem persónu frá andartaki getnaðar; og því verður að viðurkenna frá sama andartaki réttindi hennar sem persónu, en fremstur meðal þeirra er hinn friðhelgi réttur hverrar saklausrar mannveru til lífs.”[59]

61. Textar Heilagrar ritningar fjalla aldrei um vísvitandi fóstureyðingar og fordæma þær því ekki beint og afdráttarlaust. En þar er að finna svo mikla virðingu fyrir hinni mannlegu sál í móðurkviði að það er rökrétt niðurstaða að í þeim felist krafa um að boðorð Guðs “Þú skalt ekki morð fremja” nái sömuleiðis einnig til ófædds barns.

Mannlegt líf er heilagt og friðhelgt á öllum stundum tilveru sinnar þar með talið á upphaflegum stigum þess fyrir fæðingu. Allt frá veru þeirra í móðurkviði tilheyra mannlegar sálir Guði sem rannsakar og þekkir þær, mótar þær og vefur með sínum eigin höndum, horfir á þær þegar þær eru örsmáir og ómótaðir fósturvísar og sér þá þegar í þeim fullvaxta einstaklinga morgundagsins sem hafa ævidaga sína ákveðna og köllun sína jafnvel þá þegar skráða í “bók lífsins” (sbr. Sl 139:1, 13-16). Eins og fjölmargir ritningartextar bera vitni um[60] er maðurinn einnig viðfang kærleika Guðs og föðurlegrar forsjár hans þegar hann er enn í skauti móður sinnar.

Kristin erfikenning – eins og Yfirlýsingin frá Stjórnardeild trúarkenninga bendir svo vel á[61] – er skýr og ótvíræð allt frá upphafi til okkar daga í þeirri lýsingu sinni á fóstureyðingu að hún sé sérlega alvarleg siðferðileg röskun. Frá því að fyrsta kristna samfélagið komst í snertingu við grísk-rómverskan heim þar sem fóstureyðingar og barnsmorð voru stunduð með víðtækum hætti, kom það á framfæri í orði og verki algerri andstöðu sinni við þessa siði, sem iðkaðir voru óheftir í því þjóðfélagi, eins og ljóslega kemur fram í Didache sem fyrr var minnst á.[62] Meðal grísku kirkjufeðranna var það Aþenagoras sem ritaði að kristnir menn litu á þær konur sem morðingja er gripu til lyfja sem framkölluðu fóstureyðingar vegna þess að börnin, jafnvel þótt þau væru enn í móðurkviði, “njóta þegar verndar hinnar guðlegu forsjár”.[63] Meðal latnesku feðranna var það Tertúllíanus sem staðfesti að “það væri fyrirhugað morð að varna einhverjum að fæðast; litlu skipti hvort sál væri drepin sem þegar er borin eða hvort hún væri líflátin við fæðingu. Hann sem dag einn verður maður er þegar maður”.[64]

Allt í gegnum tvöþúsund ára sögu kristindómsins hefur þessi sama kennisetning verið stöðug kennsla kirkjufeðranna og hirða og fræðara kirkjunnar. Jafnvel vísindalegar og heimspekilegar umræður um hvenær maðurinn er nákvæmlega fylltur andlegri sál sinni hefur aldrei vakið upp efasemdir um að fóstureyðingar séu siðferðilega fordæmanlegar.

62. Nýlegra kennsluvald páfans hefur af krafti ítrekað þessa sameiginlegu kennisetningu. Píus XII, sérstaklega í heimsbréfi sínu Casti Connubii, hafnaði villandi réttlætingum fyrir fóstureyðingum.[65] Píus XII útilokaði alla beinar fóstureyðingar þ.e.a.s. sérhverja verknaði sem stefndu að beinni eyðingu mannlegs lífs í móðurlífi “hvort sem slík eyðing er fyrirhuguð sem takmark eða einungis leið að takmarki”.[66] Jóhannes XXIII ítrekaði að mannlegt líf væri heilagt því “alveg frá byrjun þess opinberar það skapandi hönd Guðs”.[67] Annað Vatíkanþingið, eins og fyrr er minnst á, fordæmdi harðlega fóstureyðingar: “Frá andartaki getnaðar verður að verja lífið af ýtrustu umhyggju. Hvort tveggja fóstureyðingar og barnsmorð eru ólýsanlegir glæpir.”[68]

Agavald kirkjunnar hefur frá fyrstu öldum sett refsilög gegn þeim sem gerst hafa sekir um fóstureyðingar. Þessi framkvæmd hefur verið varanleg á ýmsum tímum í sögunni og hafa hegningar verið meira og minna alvarlegar. Í kirkjulögum frá 1917 var kveðið á um bannfæringu vegna fóstureyðinga.[69] Í endurskoðuðum kirkjurétti er þessari hefð haldið og er þar lýst yfir að “sú persóna kallar yfir sig sjálfkrafa (latae sententiae) bannfæringu sem í raun og veru framkallar fóstureyðingu”.[70] Bannfæringin snertir alla þá sem fremja þennan glæp og er kunnugt um refsinguna sem hann hefur í för með sér. Þannig nær bannfæringin til þeirra vitorðsmanna sem með aðstoð sinni stuðla að því að glæpurinn er framinn.[71] Með ítrekun sinni á viðurlögunum lætur kirkjan það koma skýrt fram að fóstureyðingar eru mjög alvarlegir og hættulegir glæpir og á þann hátt hvetur hún þá sem fremja þá að leita tafarlauss afturhvarfs. Í kirkjunni er tilgangurinn með bannfæringunni sá að gera einstaklingnum fulla grein fyrir alvarleika vissrar syndar og hlúa að sönnum sinnaskiptum og iðrun.

Gefin slíkt einróma samþykki í kennisetningar- og agavaldi kirkjunnar var Páli VI kleift að lýsa því yfir að þessi hefð væri óbreytt og óbreytanleg.[72] Þess vegna með því valdi sem Kristur gaf Pétri og eftirmönnum hans, og í einingu við biskupana – sem hafa við ýmis tækifæri fordæmt fóstureyðingar og sem hafa í fyrrnefndu samráði sýnt órofa samstöðu um þessa kennisetningu þótt þeir séu dreifðir um allan heim – lýsi ég því yfir að bein fóstureyðing , það er fóstureyðing sem annaðhvort er markmið aðgerðar eða leið að því, felur ávallt í sér alvarlegan siðferðisbrest þar sem það er dráp af ásettu ráði á saklausri mannveru. Þessi kennisetning byggir á náttúrulögmálinu og á skrifuðu Orði Guðs sem erfikenning kirkjunnar lætur ganga áfram og er kennt af hinu hefðgróna og almenna kennsluvaldi.[73]

Engar aðstæður, engin markmið, engin lög geta nokkru sinni gert þá aðgerð lögmæta sem er í eðli sínu ólögmæt þar sem það stríðir gegn lögmáli Guðs sem letrað er í hvert mannlegt hjarta og er þekkjanlegt af skynseminni og prédikað af kirkjunni.

63. Þetta siðferðismat á fóstureyðingum á einnig að gilda um síðari tíma aðgerðir á mannlegum fósturvísum sem, enda þótt tilgangur þeirra sé í sjálfu sér lögmætur, hefur óhjákvæmilega í för með sér að þeir eru drepnir. Þetta gerist með tilraunum á fósturvísum sem eru orðnar æ algengari á sviði líf- og læknisfræðilegra rannsókna og lög í sumum löndum heimila. Þrátt fyrir að “staðfesta beri aðgerðir lögmætar sem framkvæmdar eru á mannlegum fósturvísum og virða líf og heilleika fósturvísisins og fela ekki í sér óþarfa áhættu fyrir hann heldur beinast að því að lækna hann, bæta heilbrigði hans eða bjarga lífi hans”,[74] verður eigi að síður að kveða upp úr um það að notkun á mannlegum fósturvísum eða fóstrum við það að ná markmiðum tilraunastarfsemi felur í sér glæp gegn tign þeirra sem mannlegar verur er hafi rétt á að njóta sömu virðingar og barn sem fætt er eða líkt og hver önnur persóna.[75]

“Siðferðileg fordæming þessi beinist einnig gegn þeim aðferðum þar sem mannlegir lifandi fósturvísar og fóstur eru misnotuð – stundum sérstaklega “framleidd” í þessu skyni með glasafrjóvgun – annað hvort til notkunar sem “líffræðileg efni” eða til að vera líffæri eða vefur til ígræðslu við meðhöndlun á vissum sjúkdómum. Dráp á saklausum mannlegum sköpunum, jafnvel þótt það sér gert til að hjálpa öðrum, er algerlega óásættanlegur verknaður.

Krefjast verður sérstakrar einbeitingar þegar lagt er siðferðilegt mat á tækni til forburðargreiningar sem gerir það kleift að greina snemma mögulegt afbrigði í hinu ófædda barni. Með hliðsjón af því hversu þessi tækni er margþætt er nauðsynlegt að við þær aðstæður ríki nákvæm og skýr siðferðileg vitund. Þessar tækniaðferðir eru siðferðilega lögmætar þegar þær hafa ekki í för með sér of mikla áhættu fyrir barnið eða móðurina og beinast að því að gera lækningu mögulega á fyrstu stigum lífsins eða jafnvel að auka vitneskju um ófætt barnið svo að því verði vel tekið. En þar sem möguleikarnir á forburðarlækningum eru enn í dag takmarkaðir er ekki óalgengt að þessar tækniaðferðir séu notaðar til að gera arfbætur þar sem ásættanlegt þykir að gera valdar fóstureyðingar í því skyni að koma í veg fyrir fæðingu barna sem haldin eru ýmsum göllum. Slíkt viðhorf er svívirðilegt og algerlega vítavert þar sem það gefur sér að forsendu að gildi mannlegs lífsins sé einungis mælanlegt innan marka líkamlegrar vellíðan og þess sem talið er “eðlilegt” en það opnar leiðina að því að lögleiða jafnframt barnsmorð og líknardráp.

Hugrekki og jafnaðargeði hjá svo mörgum af bræðrum okkar og systrum sem þjást vegna alvarlegrar fötlunar og hvernig þau lifa lífi sínu þegar þeim er sýnd viðurkenning og kærleikur er hrífandi vitnisburður um það sem gefur lífinu sannarlegt gildi og gerir það jafnvel við erfið skilyrði að einhverju sem er þeim og öðrum dýrmætt. Kirkjan er nátengd þeim hjónum sem taka af mikilli angist og þjáningu fúslega við alvarlega fötluðum börnum. Hún er einnig þakkát þeim fjölskyldum sem taka við börnum í fóstur sem hafa verið yfirgefin af foreldrum sínum vegna fötlunar eða veikinda.

 

“Ég deyði og ég lífga” (5M 32:39): harmleikur líknardráps

64. Á hinum enda litrófs lífsins horfast karlar og konur í auga við leyndardóm dauðans. Reynslan í dag af því að deyja er mörkuð nýjum einkennum í því menningarlega samhengi sem oft er ónæmt fyrir hinu yfirnáttúrlega og vegna framfara í læknisfræði. Þegar sú tilhneiging er ríkjandi að meta lífið einungis að því marki að það færi unun og vellíðan virðist þjáningin vera óbærilegt áfall, eitthvað sem verður að losa sig við hvað sem það kostar. Litið er á dauðann sem “tilgangslausan” ef hann ber skyndilega að dyrum þegar lífið blasir við með ný og áhugaverð tækifæri. En hann verður að “réttmætri frelsun” þegar lífið er ekki lengur talið hafa merkingu vegna þess að sárir verkir þjá það og í vændum er vægðarlaus dómur um jafnvel enn meiri þjáningu.

Þegar maðurinn hafnar ennfremur eða vanrækir grundvallarsamskipti sín við Guð, lítur hann á sjálfan sig sem sitt eigið vald og vog er hafi rétt til að krefjast þess af þjóðfélaginu að það tryggi honum leiðir til fulls og algjörs sjálfforræðis um það hvað hann gerir við líf sitt. Það eru einkum íbúar iðnríkja sem hegða sér með þessum hætti: þeir sækja uppörvun sína ekki síst til stöðugra framfara í læknisfræði og sífellt þróaðri tækni. Með því að nýta sér háþróuð kerfi og tæki geta þeir sem stunda vísinda- og læknastörf í dag ekki einungis sinnt tilfellum sem áður voru talin ólæknanleg og dregið úr eða eytt sársauka, heldur geta þeir einnig haldið fólki á lífi og jafnvel lengt líf þess enda þótt það sé ákaflega veikburða, endurlífgað með tilbúnum hætti sjúklinga sem hafa orðið fyrir því að líffræðileg grunnstarfsemi þeirra hrundi skyndilega, og nýtt sér sérstök ráð til að gera líffæri tiltæk til líffæraflutninga.

Það er í þessu samhengi að freistingin eykst að leita úrræða í líknardrápi, það er að segja, að stýra dauðanum og láta hann koma áður en tími hans er upp runninn – enda “mildilega” líf sitt eða líf annarra. Raunveruleikinn er sá að það sem virðist rökrétt og mannlegt er við nánari skoðun tilgangslaust og ómannlegt. Hérna stöndum við frammi fyrir einum af mest ógnvekjandi einkennum “menningar dauðans” sem sækir fyrst og fremst fram í velmegandi þjóðfélögum sem leggja ofurkapp á hugsunarhátt skilvirkni og líta á vaxandi fjölda eldri og óvinnufærra borgara sem óþolanlegt álag. Þessir borgarar eru mjög oft einangraðir í samskiptum við fjölskyldur sínar og þjóðfélagið sem er skipulagt nánast eingöngu á grundvelli mestrar mögulegrar afkastagetu en samkvæmt því á það líf ekkert gildi lengur sem sér fram á skerta starfsorku til frambúðar.

65. Til að leggja réttan siðferðilegan dóm á líknardráp verður í fyrsta lagi að liggja fyrir skýr skilgreining. Í þröngri túlkun er líknardráp þannig skilið að það sé aðgerð eða aðgerðarleysi sem í eðli sínu og af ásetningi orsakar dauða í þeim tilgangi að binda enda á allar þjáningar. “Ákvæði líknardráps er þannig að finna í ásetningi viljans og í þeim aðferðum sem beittar eru.”[76]

Gera verður greinarmun á líknardrápi og þeirri ákvörðun að hætta svokallaðri “ágengri læknismeðferð”, með öðrum orðum, læknisaðgerð sem er ekki lengur í samræmi við raunverulegt ástand sjúklingsins annað hvort vegna þess að hún er að svo komnu máli ekki í samræmi við niðurstöður sem vænst var eða vegna þess að aðgerðin leggur óhóflega miklar byrðar á sjúklinginn og fjölskyldu hans. Við slíkar aðstæður, þar sem dauðinn er greinilega yfirvofandi og óhjákvæmilegur, er hægt í fullri samvisku að “hafna hvers kyns meðferð sem mundi einungis leiða af sér ótrygga og þungbæra lengingu á lífinu, svo framarlega sem að eðlileg umönnun hliðstæð þeirri sem aðrir sjúklingar fá er ekki stöðvuð”.[77] Vissulega er sú siðferðlega skylda fyrir hendi að annast sjálfan sig eða leyfa öðrum að gera það, en þessi skylda verður að taka mið af raunhæfum kringumstæðum. Ákvarða verður hvort tiltæk meðferðarúrræði séu með hlutlægum hætti til samræmis við batahorfur. Að hætta við að leita óvanalegra og óhóflegra ráða jafngildir ekki sjálfsvígi eða líknardrápi; með því er fremur verið að viðurkenna mannlegt ástand frammi fyrir dauðanum.[78]

Í nútíma læknisfræði er aukin athygli beint að “líknardeildum” þar sem leitast er við að gera þjáningar bærilegri á lokastigum sjúkdómsins og tryggja að sjúklingurinn fái stuðning og fylgd í þrekraun sinni. Meðal þeirra spurninga sem vakna í þessu sambandi er hvort heimilt sé að nota ýmsar tegundir af verkjalyfjum og róandi lyfjum til að lina sársauka sjúklingsins ef það hefur þá hættu í för með sér að það stytti líf hans. Enda þótt lof kunni að falla þeim í skaut sem af fúsum vilja taka á sig að þjást með því að hætta meðferð með verkjalyfjum til að hafa fulla rænu og, séu þeir trúaðir, til að eiga vísvitandi hlut í píslum Drottins, er ekki hægt að líta svo á að slík “hetjulegt” atferli sé öllum skylt. Píus XII staðfesti að heimilt væri að lina verkjum með deyfilyfjum jafnvel þótt það hefði í för með sér að vitundin sljóvgaðist og lífið styttist “ef engar aðrar leiðir eru tiltækar og, að teknu tilliti til kringumstæðna, það hamli ekki að aðrar trúar- og siðferðilegar skyldur séu inntar af hendi”.[79] Í slíkum tilfellum er dauðinn ekki ásetningur eða hans leitað þó að vegna sanngjarnra ástæðna sé sú hætta fyrir hendi að þannig fari: einfaldlega er um að ræða ósk að draga á virkan hátt úr verkjum með því að nota þau verkjadeyfandi lyf sem læknisfræðin býður upp á. Samt sem áður “er ekki rétt að svipta deyjandi mann vitundinni án þess að alvarlegar ástæður liggi þar að baki”:[80] þegar dauðinn nálgast á fólki að vera kleift að uppfylla siðferðis- og fjölskylduskyldur sínar og umfram allt á því að vera kleift að undirbúa sig af fullri vitund undir endafund sinn við Guð.

Með hliðsjón af þessum atriðum og í samræmi við kennsluvald fyrirrennara minna[81] og í einingu við biskupa kaþólsku kirkjunnar, staðfesti ég að líknardráp er alvarlegt brot gegn lögmáli Guðs þar sem það er vísvitandi og siðferðilega óréttmætt dráp á mannlegri persónu. Þessi kennisetning byggir á náttúrulögmálinu og hinu skrifaða orði Guðs sem erfikenning kirkjunnar lætur ganga áfram og hið hefðgróna og almenna kennsluvald kirkjunnar kennir.[82]

 

Kringumstæður valda því hvort líknardráp feli í sér ódæðisverk sem sé hliðstætt sjálfsvígi eða morð

66. Sjálfsvíg er ávallt siðferðilega hneykslanlegt ekki síður en morð. Í erfðavenju kirkjunnar hefur því ávallt verið hafnað og það talið alvarlegur og illur kostur.[83] Jafnvel þótt viss sálfræðileg, menningarleg og félagsleg skilyrði kunni að orsaka það að einhver framkvæmi verknað sem á svo róttækan hátt stríðir gegn hinni meðfæddu tilhneigingu að varðveita lífið, og dregur þannig úr eða fjarlægir huglæga ábyrgð, er sjálfsvíg, þegar á það er litið með hlutlægum hætti, alvarlegur og siðlaus verknaður. Í raun er hann höfnun á því að elska sjálfan sig og afneitun á skyldunni að sýna náunga sínum réttlæti og kærleika, samfélaginu sem viðkomandi tilheyrir og þjóðfélaginu í heild sinni.[84] Í sinni dýpstu mynd er sjálfsvíg höfnun á algjöru veldi Guðs yfir lífi og dauða eins og prédikað er í bæn hins forna spekings í Ísrael: “Þú hefur líf og dauða á valdi þínu, færir oss niður að hliðum Heljar og leiðir oss upp þaðan” (SS 16:13; Tb 13:2).

Að samþykkja ásetning annarrar persónu að taka líf sitt og hjálpa við að framkvæma það með svokallaðri “sjálfsvígsaðstoð” merkir að eiga sinn hlut í – og stundum að vera raunverulegur fremjandi þess – ranglæti sem aldrei er hægt að afsaka jafnvel þótt þess sé óskað. Skýringar heilags Ágústínusar eiga hér sérstaklega við: “Aldrei er lögmætt að drepa annan mann jafnvel þótt hann óski þess, raunar krefjist þess þar sem hann er á mörkum lífs og dauða og sárbiður um hjálp að frelsa sálina í baráttu hennar við jarðnesk bönd í þrá sinni eftir lausn; og ekki heldur er það lögmætt jafnvel þegar hinn sjúki hefur ekki lengur kraft til að lifa.”[85] Enda þótt líknardráp sé ekki af völdum þeirrar eigingirni að láta ekki líf einhvers sem þjáist íþyngja sér, ber ávallt að líta á það sem falska miskunnsemi og raunar óásættanlegan “umsnúning” á miskunnseminni. Sönn “meðaumkun” leiðir til hlutdeildar í þjáningum annars manns en ekki til dráps á honum þótt þungbært sé að horfa á þjáningar hans. Þá er líknardráp enn ranglátara sé það gert af þeim, líkt og ættingjum, sem eiga að koma fram við fjölskyldumeðlim af umbyrðarlyndi og kærleika, eða af þeim, líkt og læknum, sem í krafti sérfræðiþekkingar sinnar eiga að annast hina sjúku jafnvel á sársaukafyllstu lokastigum lífs þeirra.

Ákvörðun um líknardráp verður mun alvarlegri þegar það tekur á sig þá mynd að vera morð á manni sem hefur ekki á nokkurn hátt óskað eftir því og hefur aldrei gefið samþykki sitt fyrir því. Hámarki slíks gjörræðis og ranglætis er náð þegar vissir menn, eins og læknar eða löggjafar, sölsa undir sig völdin til að ákvarða hver eigi að lifa og hver eigi að deyja. Enn og aftur stöndum við frammi fyrir freistingunni í Edensgarði: að vera sem Guð er “þekkir gott og illt” (sbr. 1M 3:5). Guð einn hefur mátt yfir lífi og dauða: “Ég deyði og ég lífga” (5M 32:39; sbr. 2Kon 5:7; 1S 2:6). En hann notar þennan mátt einungis samkvæmt fyrirætlun speki og kærleika. Þegar maðurinn hrifsar til sín þennan mátt, haldinn hugsunarhætti heimsku og eigingirni, er óumflýjanlegt að hann noti hann í þágu ranglætis og dauða. Þannig verður líf veikburða manns sett í hendur hinum sterka; í þjóðfélaginu glatast tilfinningin fyrir réttlætinu og grafið er undan gagnkvæmu trausti strax við rætur þess – grunni allra sannra persónusamskipta,.

67. Fullkomlega ólíkt þessu er leið kærleika og sannrar miskunnsemi sem sameiginlegt manneðli okkar kallar eftir og trú okkar á Krist endurlausnarann, sem dó og reis upp aftur, varpar sífellt nýju ljósi á. Óskin sem upp rís af mannlegu hjarta í hinum miklu átökum við þjáningu og dauða, sérstaklega þegar freistingin er nálæg að gefast upp í algerri örvæntingu, er umfram allt ósk um félagsskap, samkennd og stuðning á þrengingartímum. Þetta er bón um hjálp til að halda í vonina þegar allar mannlegar vonir bregðast. Eins og annað Vatíkanþingið minnir okkur á: “Það er gagnvart dauðanum sem gáta mannlegrar tilveru er mest” eigi að síður “fylgir maðurinn réttilega innsæi hjarta síns þegar hann hefur andstyggð á og hafnar hinni algeru eyðingu og fullu hvarfi eigin persónu sinnar. Maðurinn gerir uppreisn gegn dauðanum vegna þess að hann geymir í sjálfum sér eilíft fræ sem verður ekki rýrt og gert að tómu efni.”[86]

Þessi náttúrlega andúð gegn dauðanum og þessi frumvon um ódauðleika upplýsist og fullkomnast í kristinni trú sem hvort tveggja lofar og býður hlut í sigri hins upprisna Krists: þetta er sigur hans sem með endurlausnardauða sínum hefur gefið manninum frelsi frá dauðanum, “launum syndarinnar” (Rm 6:23), og hefur gefið honum Andann, pant upprisu og eilífs lífs (sbr. Rm 8:11). Vissan um komandi ódauðleika og vonin á hina fyrirheitnu upprisu varpar nýju ljósi á leyndardóm þjáningar og dauða og fyllir trúendur óvenjulegum krafti til að teysta fyllilega fyrirætlun Guðs.

Páll postuli útskýrir að þetta sé algerleg nýjung sem heyri fyllilega Kristi til, en hann lætur sig varða sérhverjar mannlegar aðstæður: “Því að enginn af oss lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér. Ef vér lifum, lifum vér Drottni, og ef vér deyjum, deyjum vér Drottni. Hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér Drottins” (Rm 14:7-8). Að deyja Drottni þýðir að reyna dauða sinn sem æðst allrar hlýðni við Föðurinn (sbr. Fl 2:8), vera reiðubúinn að mæta dauðanum á “stundinni” sem er að vilja og vali Föðurins (sbr. Jh 13:1) en það getur einungis þýtt þegar eigin vegferð á jörðu sem pílagrímur er lokið. Að lifa Drottni þýðir einnig að viðurkenna að þjáningin, enda þótt hún sé böl og prófraun, getur ávallt orðið að uppsprettu hins góða. Hún verður sem slík ef hún er reynd, studd dýrlegum gjöfum Guðs og af persónulegu og frjálsu vali, í þágu kærleikans og af kærleika með hlutdeild í þjáningum Krists krossfestum. Með þessum hætti mun sú persóna sem lifir við þjáningar sínar í Drottni vaxta til fyllri líkingar við hann (sbr. Fl 3:10; 1Pt 2:21) og tengjast enn nánar endurlausnarverki hans fyrir hönd kirkjunnar og mannkynsins.[87] Þetta var reynsla heilags Páls sem hver þjáður maður er kallaður til að endurlifa: “Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna. Það, sem enn vantar á þjáningar Krists, uppfylli ég með líkamlegum þjáningum mínum til heilla fyrir líkama hans, sem er kirkjan” (Kól 1:24).

 

“Framar ber að hlýða Guði en mönnum” (P 5:29): borgaraleg lög og siðalögmálið

68. Eitt af því sem auðkennir sérstaklega árásir á mannlegt líf nú á dögum – eins og margoft hefur verið sagt – er sú viðleitni að krefjast lögmætar réttlætingar á þeim eins og þar væri um að ræða réttindi sem ríkið, að minnsta kosti við vissar aðstæður, verði að viðurkenna að tilheyri borgurunum. Af þessum sökum er tilhneiging til þess að heimta að hægt verði að iðka þessi réttindi með öruggri og ókeypis aðstoð lækna og starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar.

Oft er fullyrt að líf ófædds barns eða alvarlega hreyfihamlaðs fólks sé einungis gott í afstæðum skilningi: samkvæmt þeim manni sem hefur hlutfallsverðmæti eða hreina útreikninga að leiðarljósi á að vega og meta þessi gæði í samanburði við önnur gæði. Því er jafnvel haldið fram að sá sem getur gefið sannarlegt mat og dæmt um gæðin sem í veði eru sé einungis sá sem er raunverulega og persónulega viðriðinn málið: af þeim sökum er einungis honum kleift að ákvarða um siðferði ákvörðunar sinnar. Því á ríkið, í þágu friðsamlegrar sambúðar í samfélaginu og félagslegrar samstöðu, að virða ákvörðun hans jafnvel að því marki að heimila fóstureyðingar og líknardráp.

Við önnur tækifæri er það fullyrt að borgaraleg lög geti ekki krafist þess að allir borgararnir lifi samkvæmt siðferðilegum mælikvarða sem er hærri en sá sem allir borgararnir viðurkenni og deili. Þar af leiðandi eigi lögin ávallt að láta í ljós skoðun og vilja meirihluta borgaranna og viðurkenna að þeir hafi, að minnsta kosti í vissum bráðum tilfellum, rétt jafnvel til fóstureyðingar og líknadráps. Ennfremur er sagt að bann og refsingar vegna fóstureyðinga og líknardrápa við slíkar aðstæður muni óhjákvæmilega leiða til þess að ólöglegar aðgerðir færðust í aukana: og að þær yrðu ekki undir nauðsynlegu eftirliti þjóðfélagsins og yrðu gerðar við læknisfræðilegar ótryggar aðstæður. Sú spurning kemur einnig upp hversu fast eigi að halda í lög sem í raun er ekki hægt að framfylgja, hvort það muni ekki á endanum grafa undan löggjafarvaldinu.

Að lokum eru uppi enn róttækari skoðanir sem ganga svo langt að halda því fram að í nútíma- og fjölhyggjusamfélagi eigi að leyfa fólki að hafa fullt frelsi til að ráðstafa sínu eigin lífi sem og lífi þeirra sem ófæddir eru: fullyrt er að það sé ekki hlutverk laganna að taka afstöðu til mismunandi siðferðilegra álitamála og því síður geta lögin knúið fram eitt tiltekið viðhorf á kostnað annarra.

69. Í öllu falli er sú almenna skoðun við lýði í lýðræðismenningu okkar tíma að réttarkerfi samfélagsins eigi að takmarka sig við og fallast á skoðun meirihlutans. Þannig á eingöngu að byggja á því sem meirihlutinn sjálfur telur vera siðferðilega rétt og hann stundar í raun og veru. Ef því er ennfremur trúað að ekki verði í raun og veru hægt að hafa hlutlægan sannleika sem allir deili, þá krefst virðing fyrir frelsi borgaranna – sem í lýðræðiskerfi eru taldir hinir sönnu stjórnendur – að sjálfræði einstakrar samvisku njóti viðurkenningar á réttarsviðinu. Af þessu leiðir að einungis ber að byggja á vilja meirihlutans – hver svo sem hann kann að vera – þegar þeim reglum er komið á sem eru að fullu nauðsynlegar til að friðsamleg sambúð ríki í samfélaginu. Þess vegna verður hver stjórnmálamaður í verkum sínum að skilja með skýrum hætti á milli persónulegrar samvisku og opinberrar stjórnunar. Afleiðingin er sú að við höfum, að því er virðist, sitt hvora tilhneiginguna sem eru gjörsamlega andstæðar. Annars vegar krefst einstaklingurinn sjálfum sér til handa algert valfrelsi er varðar siðferði og krefst þess að ríkið komi ekki á eða tileinki sér neina siðferðilega afstöðu heldur einskorði sig við það að tryggja að frelsi hvers einstaklings hafi eins mikið svigrúm og mögulegt er, með þeim einu takmörkunum að það gangi ekki gegn frelsi og rétti neins annars borgara. Hins vegar er því haldið fram að við iðkun á opinberum og faglegum skyldustörfum beri að huga að því að virðing fyrir valfrelsi annars fólks krefst þess að hver og einn leggi til hliðar skoðanir sínar í því skyni að fullnægja hverri þeirri kröfu borgaranna sem er viðurkennd og tryggð með lögum; þegar skyldustörf eru innt af hendi á eini siðferðilegi mælikvarðinn að vera sá sem lögin sjálf kveða á um. Ábyrgð einstaklingsins er þannig velt yfir á borgaraleg lög og persónuleg samviska er ekki talin gjaldgeng að minnsta kosti á opinberum vettvangi.

70. Siðferðileg afstæðishyggja er í grunni allra þessara tilhneiginga en hún auðkennir stærsta hluta nútímamenningar. Þeir eru til sem telja að slík afstæðishyggja sé frumskilyrði lýðræðis þar eð hún ein geti tryggt umburðarlyndi, gagnkvæma virðingu manna á meðal og að ákvörðun meirihlutans sé viðurkennd. Aftur á móti er litið á siðferðisreglur sem hlutlægar og bindandi er leiði til valdboðsstefnu og umburðarleysis.

En í þeim málefnum er snerta virðingu fyrir lífinu má einmitt sjá að í þessari afstöðu er hulin misskilningur og þversögn sem hefur í för með sér eiginlegar og skelfilegar afleiðingar.

Rétt er að sagan þekkir mörg tilfelli þar sem glæpir hafa verið framdir í nafni “sannleikans”. En jafn alvarlegir glæpir og gagnger höfnun á frelsi hafa einnig verið framin og er enn verið að fremja í nafni “siðferðilegrar afstæðishyggju”. Þegar meirihluti á löggjafarþingi eða í samfélaginu úrskurðar að það sé lögmætt, að minnsta kosti undir vissum kringumstæðum, að drepa ófætt mannlegt líf, er hann þá ekki í raun að taka ákvörðun í anda “harðstjórnar” að því er varðar hina veikustu og varnarlausustu af mannlegum sálum? Allir hafa réttilega í samvisku sinni hafnað þeim glæpum gegn mannkyni sem öldin okkar hefur haft sorglega reynslu af. En myndu þessir glæpir hætta að vera glæpir við það að hljóta löggildingu almenningsálitsins í stað þess að vera framdir af samviskulausum harðstjórum?

Ekki er unnt að upphefja lýðræðið að því marki að það komi í staðinn fyrir siðferði eða verði allra meina bót við siðleysi. Í grundvallaratriðum er lýðræði “kerfi” og sem slíkt er það leið en ekki markmið. “Siðferðisgildi” þess kemur ekki sjálfkrafa heldur ræðst það af aðlögun við siðalögmálið en líkt og hvert annað mannlegt atferli verður lýðræðið að lúta því: með öðrum orðum, siðferði þess ræðst af siðferði þeirra markmiða sem það sækist eftir og þeim leiðum sem það beitir. Ef nánast almenn eining um gildi lýðræðis er við líði í dag er það “tímanna tákn” sem er jákvætt eins og kennsluvald kirkjunnar hefur iðulega tekið fram.[88] En gildi lýðræðis stendur og fellur með þeim gildum sem það íklæðist og beitir sér fyrir. Sannarlega eru fyrir hendi gildi sem vissulega eru undirstöðuatriði og ekki má sjást yfir: tign hverrar mannlegrar persónu, virðing fyrir friðhelgi eðlisbundinna mannréttinda, og viðurkenning að almannahagur sé markmið og mælikvarði fyrir stjórnmálalífið.

Grunnurinn að þessum gildum getur ekki hvílt á skammvinnu og breytanlegu meirihlutaáliti heldur einungis á viðurkenningu á hlutlægu siðferðislögmáli sem borgaralegum lögum ber skylda til að hafa að forsendu eins og náttúrulögmálinu sem letrað í hið mannlega hjarta. Hætta er á að grunnur sjálfs lýðræðiskerfisins raskaðist ef hið hörmulega gerðist að hin sameiginlega siðgæðisvitund yrði óskýr og efahyggjunni tækist að gera grundvallarreglur siðferðislögmálsins að ágreiningsefni í kjölfar þess. Lýðræðiskerfið yrði þá að litlu öðru en gangverki sem stjórnaði mismunandi og andstæðum hagsmunum á grundvelli eintómrar reynsluhyggju.[89]

Sumir kunna að álíta að jafnvel slíkt fyrirkomulag eigi að vera til staðar finnst ekkert betra til að varðveita friðinn í þjóðfélaginu. Enda þótt finna megi einhvern sannleikskjarna í þessu er auðvelt að sjá að án hlutlægs siðferðisgrunns er jafnvel lýðræðinu ekki unnt að tryggja viðvarandi frið því að sá friður er einatt óraunhæfur sem ekki er byggður á þeim gildum að hver einasta persóna njóti tignar og að samstaða skuli ríki á meðal allra manna. Jafnvel í lýðræðislegu stjórnkerfi er stýring hagsmuna oft hinum sterku í hag þar sem þeir hafa ekki einungis mestu hæfni til að athafna sig á valdastiganum heldur einnig að móta almenningsálitið. Við slíkar aðstæður getur lýðræðið auðveldlega orðið orðin tóm.

71. Þannig er það brýn nauðsyn fyrir framtíð þjóðfélagsins og þróun lýðræðis að finna á ný hin lífsnauðsynlegu og eðlislægu mann- og siðferðisgildi sem spretta af sjálfum sannleikanum um manninn og láta í ljós og vernda tign persónunnar: gildi sem enginn einstaklingur, enginn meirihluti og ekkert ríki getur nokkru sinni skapað, breytt eða eytt, heldur einungis viðurkennt, virt og eflt.

Af þessu leiðir að þörf er á að endurheimta grunnþætti hugsunar um tengingu borgaralegra laga við siðalögmálið er kirkjan kemur á framfæri og sem er einnig hluti af föðurleifð hinnar merku lagahefðar mannkynsins.

Vissulega er tilgangur borgaralegra laga annar og takmarkaðri í umfangi sínu en siðalögmálið. En “á engu sviði lífsins geta borgaraleg lög tekið stöðu samviskunnar eða sett á reglur um hluti sem eru utan valdsviðs þess”[90] sem er að tryggja almannahag fólksins með viðurkenningu og vörnum á grundvallarréttindum þess og að efla frið og almennt siðgæði.[91] Raunverulegur tilgangur borgaralegra laga er að tryggja fasta félagslega og friðsamlega sambúð í sönnu réttlæti til að hver og einn fái “lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði” (1Tm 2:2). Einmitt af þessari ástæðu verða borgaraleg lög að tryggja að allir meðlimir þjóðfélagsins njóti þeirrar virðingar að hafa viss grundvallarréttindi sem tilheyra persónunni með eðlislægum hætti, réttindi sem öll sértæk lög verða að viðurkenna og ábyrgjast. Fyrstur meðal þeirra er að hver saklaus mannvera á hinn friðhelga grundvallarrétt til lífs. Þótt opinber yfirvöld geti stundum kosið að stöðva ekki eitthvað sem mundi valda enn alvarlegri skaða væri það bannað,[92] geta þau aldrei leyft sér að lögheimila sem réttindi einstaklinga – þótt um sé að ræða meirihlutameðlimi þjóðfélagsins – árásir gegn öðrum persónum sem orsakast af lítilsvirðingu gegn slíkum grundvallarrétti sem er rétturinn til lífs. Á engan hátt er hægt að fullyrða að lögleg viðurkenning á fóstureyðingu eða líknardrápi sé byggð á virðingu fyrir samvisku annarra, nákvæmlega vegna þess að þjóðfélagið hefur réttinn og skylduna að verja sig sjálft gegn misgjörðum sem kunna að gerast í nafni samviskunnar og undir yfirskini frelsis.[93]

Í heimsbréfinu Pacem in Terris benti Jóhannes XXIII á að það sé “almennt viðurkennt í dag að almannaheill er best gætt þegar persónuleg réttindi og skyldur eru tryggð. Opinberum yfirvöldum ætti aðallega að vera annt um að tryggja að þessi réttindi séu viðurkennd, virt, samræmd, varin og efld og að hverjum einstaklingi verði kleift að iðka skyldur sínar með auðveldari hætti. Því “að meginkvöð allra opinberra yfirvalda er verndun hinna friðhelgu réttinda hinnar mannlegu persónu og að henni sé gert auðvelt að efna skyldur sínar”. Því er það að ef einhver stjórnvöld neita að viðurkenna mannréttindi eða starfa í óvirðingu við þau, þá bregðast þau ekki einungis skyldu sinni – tilskipanir þeirra munu að öllu leyti skorta þann styrk að vera bindandi”.[94]

72. Kenningin um nauðsyn þess að borgaraleg lög samræmi sig siðalögmálinu er í samræmi við alla arfleifð kirkjunnar. Þetta kemur enn á ný skýrt fram í heimsbréfi Jóhannesar XXIII: “Stjórnvöld eru því forsenda hinnar siðferðilegu skipan og af Guði komin. Sett lög og tilskipanir sem fara þvert gegn hinni siðferðilegri skipan, og þess vegna gegn hinum guðdómlega vilja, geta þar af leiðandi ekki haft bindandi áhrif á samviskuna. … Vissulega grefur setning slíkra laga undan sjálfu eðli yfirvaldsins og endar í skammarlegri misnotkun.”[95] Þetta kennir heilagur Tómas með skýrum hætti er hann skrifar: “Lög mannsins eigi sér grundvallarforsendur að þeim skilyrðum uppfylltum að þau séu í samræmi við rétta skynsemi og sem slík eiga þau augljósar rætur að rekja til hins eilífa lögmáls. Lög mótstæð skynseminni eru að því leyti óréttlát og hafa ekki lengur grundvallarforsendur laga. Þau eru fremur ofbeldisverknaður”.[96] Og aftur segir hann: “Sérhver lög sem maðurinn setur má kalla lög að þeim skilyrðum uppfylltum að þau eigi rætur að rekja til náttúrulögmálsins. En stríði þau á einhvern hátt gegn náttúrulögmálinu þá eru þau í raun og veru ekki lög heldur fremur spillt útgáfa af lögmálinu.”[97]

Beiting þessarar kenningar er fyrst og fremst mest aðkallandi gagnvart mannlegum lögum sem óvirða grundvallarréttinn og uppsprettu allra annarra réttinda sem er rétturinn til lífs, réttur sem heyrir hverjum einstaklingi til. Þar af leiðandi eru lög sem lögleiða beint dráp á saklausri mannveru með fóstureyðingu eða líknardrápi í algerri andstöðu við hinn friðhelga rétt til lífs sem hver einstaklingur á með réttu, og þannig hafna þau að allir séu jafnir að lögum. Þau andmæli kunna að heyrast að slíkt eigi ekki við þegar líknardrápið er óskað eftir af þeirri persónu sem í hlut á og hún gerir það með fullri vitund. En hvert það ríki sem gerði slíka ósk lögmæta og heimilaði framkvæmd hennar væri að lögleiða það sem kalla mætti “sjálfsvígsmorð” sem stríðir gegn grundvallarreglum um algera virðingu fyrir lífinu og að sérhvert saklaust líf njóti verndar. Með þessum hætti legði ríkið sitt af mörkum til að dregið yrði úr virðingu fyrir lífinu og opnaði dyrnar til slíkra verknaða sem eru skaðlegir því trausti sem ríkja á í samskiptum manna á milli. Lög sem heimila og stuðla að fóstureyðingu og líknardrápi ganga þannig ekki einungis með gagngerum hætti gegn hag einstaklingsins heldur einnig gegn almannahag; sem slík skortir þau gersamlega sönn lagaleg gildi. Skeytingarleysið gagnvart réttinum til lífs dregur beint úr möguleikanum að efla almannahag einmitt vegna þess að það leiðir til dráps á þeirri persónu sem þjóðfélaginu, samkvæmt tilveru sinni, er gert að þjóna. Afleiðingin er sú að fyrir þá staðreynd að þau heimila fóstureyðingu og líknardráp hætta borgaraleg lög að vera sönn og siðferðilega bindandi lög.

73. Fóstureyðing og líknardráp eru þannig glæpir sem engin mannleg lög geta gert kröfu um að lögleiða. Slíkum lögum er engum manni skylt að fylgja í samvisku sinni heldur er alvarleg og skýr skylda að andmæla þeim af samviskuástæðum. Allt frá fyrstu tímum kirkjunnar hafa kristnir menn verið minntir á í hinum postullegu prédikunum að þeim beri að hlýða lögmætum opinberum yfirvöldum (sbr. Rm 13:1-7; 1Pt 2:13-14) en samtímis eru þeir varaðir við að “framar ber að hlýða Guði en mönnum” (P 5:29). Í Gamla testamentinu – einmitt í sambandi við ógnir gegn lífinu – finnum við táknrænt dæmi um andstöðu við óréttláta skipun þeirra sem sitja við stjórnvölinn. Eftir að faraó skipaði að öll nýfædd sveinbörn skyldu drepin neituðu hebresku ljósmæðurnar að gera það: “[Þær] gjörðu eigi það sem Egyptalandskonungur bauð þeim heldur létu sveinbörnin lifa” (2M 1:17). En taka ber sérstaklega eftir því hvað það var sem endanlega olli ákvörðun þeirra: “ljósmæðurnar óttuðust Guð” (sama). Það er nákvæmlega af hlýðni við Guð – en honum einum ber sá ótti sem í felst viðurkenning á algjöru drottinsvaldi hans – að fram kemur styrkurinn og hughreystið að standa á móti óréttmætum mannlegum lögum. Þetta er styrkur og hughreysti þeirra sem eru reiðubúin að sitja í fangelsi eða að falla fyrir sverði í þeirri vissu að það er þetta sem veldur “þolgæði og trú hinna heilögu” (Opb 13:10).

Þegar um er að ræða lög sem í sjálfu sér eru óréttlát, eins og lög sem heimila fóstureyðingu og líknardráp, er aldrei lögmætt að hlýða þeim eða “taka þátt í áróðursherferð í þágu slíkra laga eða greiða þeim atkvæði sitt”.[98]

Sérstakt samviskuvandamál gæti komið upp í þeim tilfellum að atkvæði í löggjafarsamkomu gæti ráðið úrslitum við lögleiðingu strangari laga sem beinast að því að takmarka fjölda leyfilegra fóstureyðinga í stað frjálslyndari laga sem þegar hafa verið sett eða bíða atkvæðagreiðslu. Slík tilfelli eru ekki óalgeng. Staðreyndin er sú að þótt á sumum stöðum í heiminum séu enn herferðir í gangi til að innleiða lög sem styðja fóstureyðingar, oft studdar valdamiklum alþjóðlegum stofnunum, gætir hjá öðrum þjóðum vaxandi tilhneigingar í þá átt að endurskoða þessi mál. Þetta á einkum við í þeim löndum sem þegar hafa fengið að kenna á bitrum ávöxtum slíkra frjálslyndra laga. Í tilfellum sem hér er gert að umræðuefni, þegar ekki er kleift að hnekkja eða afnema með öllu lög er heimila fóstureyðingar, getur kjörinn fulltrúi, sem hefur persónulega afstöðu sína gegn fóstureyðingum vel kunna, stutt með lögmætum hætti tillögur sem miða að því að takmarka skaðann sem slík lög hafa í för með sér og draga jafnframt úr neikvæðum afleiðingum á sviði almenningsálitsins og almenns siðferðis. Þetta er alls ekki dæmi um óleyfilega liðveislu við óréttmæt lög heldur fremur lögmæta og sanna tilraun að takmarka skaðlega þætti þeirra.

74. Liðveisla við afgreiðslu óréttlátra laga vekur oft upp alvarlega samviskuspurningu hjá því fólki sem er siðferðilega réttvíst enda hefur það þann rétt að vera ekki þvingað til að taka þátt í verknaði sem er siðferðilega af hinu vonda. Stundum er óhjákvæmilegt val erfitt því að það kann að kosta að háum stöðum verður að fórna eða gefa verður upp á bátinn góðar væntingar um starfsframa. Í öðrum tilfellum kann það að gerast að framkvæmd vissrar aðgerðar sem löggjafinn leyfir, en er almennt óréttmæt þótt hún í sjálfu sér sé lítilvæg eða jafnvel jákvæð, verði til varnar mannlegu lífi sem er ógnað. Hins vegar er ástæða til að óttast að viljinn til að framkvæma slíka aðgerð kunni ekki einungis valda hneykslun og veikja nauðsynlega andstöðu gegn árásum á lífið, heldur muni smám saman leiða til frekari uppgjafar gagnvart því hugarfari sem er fólgin í undanlátssemi.

Í því skyni að varpa ljósi á þessa erfiðu spurningu er nauðsynlegt að rifja upp hina almennu reglu varðandi þátttöku í aðgerðum sem eru af hinu vonda. Kristnir menn, líkt og allir menn með góðan vilja, eru kallaðir til þeirrar alvarlegu samviskuskyldu að veita engum framkvæmdum formlega liðveislu sem borgaraleg lög heimila en stríða gegn Guðs lögum. Út frá sjónarhóli siðferðis er vissulega aldrei lögmætt að eiga formlegt samstarf við það sem er af hinu vonda. Slíkt samstarf á sér stað þegar verknaður, annað hvort af sjálfu eðli sínu eða vegna þeirrar myndar sem hann tekur á sig við hlutbundnar aðstæður, verður skilgreindur sem bein þátttaka í verknaði gegn saklausu mannlegu lífi eða hluttaka í siðlausum ásetningi þeirrar persónu sem fremur hann. Aldrei er hægt að réttlæta þetta samstarf hvorki með því að vekja máls á virðingu fyrir frelsi annarra né að vísa til þeirrar staðreyndar að borgaraleg lög heimili það eða krefjist þess. Hver og einn einstaklingur ber í raun siðferðilega ábyrgð á þeim verknaði sem hann fremur í eign persónu; enginn getur verið undanþeginn þessari ábyrgð og á grunni hennar verða allir dæmdir af Guði sjálfum (sbr. Rm 2:6; 14:12).

Að neita þátttöku í að fremja óréttlæti er ekki einungis siðferðileg skylda, það er einnig grundvallarmannréttindi. Væri það ekki með þeim hætti mundi hinn mannlega persóna vera knúin til að framkvæma verk sem í eðli sínu væru ósamrýmanleg mannlegri tign en þannig yrði mannlegt frelsi fyrir gagngerum skaða því að eiginlega merkingu þess og tilgang er að finna í tilhneigingu þess til hins sanna og góða. Það sem er þannig í húfi er grunnréttur sem borgaraleg lög eiga að viðurkenna og verja einmitt fyrir þá staðreynd að hann er réttur. Því á sá möguleiki að vera tryggður læknum, heilsugæslufólki og forstjórum spítala, heilsugæslu- og endurhæfingarstöðva að neita að taka þátt í hinum ýmsu viðtölum eða undirbúningi og framkvæmd aðgerða gegn lífinu. Þá sem gera fyrirvara af samviskuástæðum ber að verja, ekki einungis gegn refsiákvæðum heldur einnig gegn öllum neikvæðum afleiðingum hvað varðar lög, aga, fjárhag og sérmenntun.

 

“Elska skalt þú … náunga þinn eins og sjálfan þig” (Lk 10:27): “Efla skalt þú” lífið

75. Boðorð Guðs kenna okkur leið lífsins. Hinar neikvæðu siðareglur sem segja að val á vissum verkum sé siðferðilega óásættanlegt hafa algert gildi fyrir mannlegt frelsi: þær gilda ávallt og alls staðar án undantekningar. Þær sýna fram á að val á vissum leiðum verknaðar er fullkomlega ósamrýmanlegt kærleika Guðs og tignar persónunnar sem sköpuð er í hans mynd. Aldrei er hægt að gera gott úr slíku vali með því að vísa til góðs ásetnings eða góðra afleiðinga. Það er í óbætanlegri andstöðu við það sem tengir mennina; það stríðir gegn þeirri grundvallarákvörðun að beina lífi sínu til Guðs.[99]

Að þessu leyti hafa hinar neikvæðu siðareglur afar mikilvægu og jákvæðu hlutverki að gegna. Hið skilyrðislausa “nei” sem þær krefjast gera hin óskoruðu mörk skýr sem frjáls einstaklingur getur ekki farið út fyrir. Samtímis láta þau í ljós hvert sé lágmark þess sem þeim beri að virða og sem þeim ber að ganga út frá í því skyni að segja “já” aftur og aftur, “já” sem mun smám saman gera sjónarhól hins góða að einum samfelldum sjóndeildarhring (sbr. Mt 5:48). Boðorðin, og einkum hinar neikvæðu siðareglur, eru upphafið og fyrsti nauðsynlegi áfanginn á vegferðinni til frelsis. Eins og heilagur Ágústínus skrifar: “Upphafið á frelsi er að vera frjáls af glæpum … eins og morði, hóri, saurlífi, þjófnaði, svikum, helgispjöllum og svo framvegis. Einungis þegar maður hættir að fremja þessa glæpi (sem enginn kristinn maður ætti að fremja) byrjar maður að lyfta höfðinu upp til frelsisins. En þetta er einungis upphafið á frelsinu, ekki fullkomið frelsi.”[100]

76. Boðorðið “Þú skalt ekki morð fremja” er þannig byrjun þess að hefja hið sanna frelsi. Það fær okkur til að efla lífið með virkum hætti og að þroska tilteknar athafnir og hugsunarhátt sem þjóna lífinu. Með þessum hætti iðkum við ábyrgð okkar gagnvart þeim persónum sem okkur hefur verið treyst fyrir og sýnum, í verkum og í sannleika, þakklæti okkar til Guðs fyrir hinar miklu gjafir lífsins (sbr. Sl 139:13-14).

Skaparinn hefur falið manninum mannlegt líf til ábyrgrar umönnunar – ekki til að fara með eftir eigin geðþótta heldur til að varðveita það af speki og annast það af elskandi trúmennsku. Líf hvers einstaklings er af Guði sáttmálans falið náunga hans, bræðrum hans og systrum, samkvæmt lögmálinu um gagnkvæm skipti – gjöf af sjálfum sér og viðtöku á öðrum mönnum. Í fullnustu tímans, með því að íklæðast holdi og gefa líf sitt fyrir okkur, sýndi Sonur Guðs hvaða hæðum og djúpum það nær þetta lögmál gagnkvæmra skipta. Með gjöf Anda síns gefur Kristur lögmáli gagnkvæmra skipta nýtt innihald og nýja merkingu – að okkur er treyst hvert fyrir öðru. Andinn sem byggir upp samneyti í kærleika, skapar meðal okkar nýtt bræðralag og samstöðu, sanna endurspeglun á leyndardómi hins gagnkvæma að “gefa” og “meðtaka” sem eiginlegt er hinni alhelgustu þrenningu. Andinn verður hið nýja lögmál sem gefur hinum trúuðu styrk og vekur upp í þeim ábyrgð að deila af sjálfum sér og að taka við öðrum þannig að það verði hlutdeild í takmarkalausum kærleika Jesú Krists.

77. Af þessu nýja lögmál fær boðorðið “Þú skalt ekki morð fremja” einnig anda og mynd. Fyrir kristinn mann felur það í sér algjöra nauðsyn þess að virða, elska og efla líf allra bræðra sinna og systra samkvæmt skilyrðum ríkulegs kærleika Guðs í Jesú Kristi. “Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna” (1Jh 3:16).

Boðorðið “Þú skalt ekki morð fremja” – jafnvel í jákvæðari þáttum sínum um að virða, elska og efla mannlegt líf – drottnar yfir hverjum einasta manni. Það ómar í samvisku allra manna sem bergmál af upprunalegum sáttmála Guðs skaparans við mannkynið. Allir geta þekkt það með ljósi skynseminnar og það má halda í heiðri þökk sé leyndardómsfullu starfi Andans, sem blæs þar sem hann vill (sbr. Jh 3:8) og kemur til og hefur áhrif á hverja einustu persónu sem lifir hér í heimi.

Þannig erum við öll skuldbundin af því að tryggja náunga okkar þjónustu kærleikans, tryggja að líf hans megi ávallt vera verndað og styrkt, sérstaklega þegar það er veikburða og býr við ógn. Umhyggjan sem okkur ber að rækta er ekki einungis persónuleg heldur einnig félagsleg: að láta sér annt um að skilyrðislaus virðing fyrir mannlegu lífi verði grundvöllur að endurnýjuðu þjóðfélagi.

Við erum beðin að elska og heiðra líf hvers karls og konu og að starfa af þolgæði og hugprýði til að okkar tímar sem auðkenndir eru af allt of mörgum táknum dauðans, megi loksins bera vitni um stofnun nýrrar menningar lífs, ávöxt menningar sannleika og kærleika.

 

 

IV. KAFLI:

 

ÞAÐ HAFIÐ ÞÉR GJöRT MÉR

 

Til nýrrar menningar mannlegs lífs

 

“Þér eruð … eignarlýður til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans, sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss” (1Pt 2:9): lýður lífsins og fyrir lífið

78. Kirkjan hefur tekið við guðspjallinu sem boðskap og uppsprettu fagnaðar og hjálpræðis. Hún hefur meðtekið það sem gjöf frá Jesú sem sendur var af Föðurnum að “flytja fátækum gleðilegan boðskap” (Lk 4:18). Fyrir postulana hefur hún meðtekið það en þá sendi Kristur út um allan heim (sbr. Mk 16:15; Mt 28:19-20). Borin af þessu evangelíska starfi heyrir kirkjan á hverjum degi óminn af varnaðarorðum heilags Páls postula: “Vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið” (1Kor 9:16). Eða eins og Páll VI skrifaði: “Boðun fagnaðarboðskapsins er náðargjöfin og köllunin sem er kirkjunni eiginleg, hennar dýpsta auðkenni. Hún varir til að prédika guðspjallið”.[101]

Boðun fagnaðarboðskapsins nær til allra hluta og er það framsækið starf. Með því á kirkjan hlut í spádómslegu, kennimannlegu og konunglegu erindi Drottins Jesú. Þannig er það bundið órjúfanlegum böndum prédikuninni, helgihaldi helgisiðanna og kærleiksþjónustunni. Boðun fagnaðarboðskapsins er með djúpum hætti kirkjuleg athöfn sem kallar alla hina mörgu verkamenn guðspjallsins til starfa, allt eftir einstökum náðargjöfum þeirra og þjónustu.

Þetta á einnig við hvað varðar boðun guðspjalls lífsins en Jesús Kristur sjálfur er óaðskiljanlegur hluti þess. Við erum til þjónustu við þetta guðspjall í þeim staðfasta skilningi að við höfum móttekið það sem gjöf og erum send til að prédika það öllu mannkyni “allt til endimarka jarðarinnar” (P 1:8). Af auðmýkt og þakklæti vitum við að við erum lýður lífsins og fyrir lífið og þannig stöndum við frammi fyrir heiminum.

79. Við erum lýður lífsins vegna þess að Guð, í skilyrðislausum kærleika sínum, hefur gefið okkur guðspjall lífsins og af þessu sama guðspjalli höfum við umbreyst og fengið sálubót. Við höfum verið endurkeypt af “höfðingja lífsins” (P 3:15) með verði hins dýrmæta blóðs (sbr. 1Kor 6:20; 7:23; 1Pt 1:19). Fyrir skírnarvatnið erum við grædd á hann (sbr. Rm 6:4-5; Kól 2:12) sem greinar er fá næringu sína og bera ávöxt á hinu eina tré (sbr. Jh 15:5). Endurnýjuð hið innra með náð Andans “sem er Drottinn og lífgari” höfum við orðið að lýð fyrir lífið og erum kölluð til verka samkvæmt því.

Við höfum verið send. Fyrir okkur sem erum í þjónustu lífsins er þetta ekkert til að státa sig af. Fremur er þetta skylda sem fæðist af skilningi okkar á því að vera “eignarlýður Guðs til að mega víðfrægja dáðir hans sem kallaði okkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss” (sbr. 1Pt 2:9). Á vegferð okkar njótum við leiðbeiningar og varðveislu af lögmáli kærleikans: kærleika er hefur sem uppsprettu sína og fordæmi Son Guðs er gerðist maður, sem “lífgaði heiminn með dauða sínum”.[102]

Við höfum verið send sem lýður. Allir hafa þeirri skyldu að gegna að vera til þjónustu við lífið. Þetta er í eiginlegri merkingu “kirkjuleg” ábyrgð sem krefst samstilltra og örlátra verka af hálfu allra meðlima og á öllum sviðum hins kristna samfélags. Skuldbinding þessa samfélags fjarlægir ekki eða dregur úr ábyrgð hvers einstaklings sem kallaður er af Drottni að “gerast náungi” allra: “Far þú og gjör hið sama” (Lk 10:37).

Saman skynjum við öll skyldu okkar að prédika guðspjall lífsins, halda það í helgisiðunum og í allri tilveru okkar, og að þjóna því með ýmsum áætlunum og framkvæmdum sem styðja og efla lífið.

 

“Það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig” (1Jh 1:3): boðun á guðspjalli lífsins

80. “Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem vér höfum heyrt, það sem vér höfum séð með augum vorum, það sem vér horfðum á og hendur vorar þreifuðu á, það er orð lífsins … það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag við oss” (1Jh 1:1, 3). Jesús er eina guðspjallið: við höfum ekkert frekar að segja og engan annan að vitna um.

Að kunngjöra Jesúm er einmitt að kunngjöra lífið. Því að Jesús er “orð lífsins” (1Jh 1:1). Það er í honum að “lífið var opinberað” (1Jh 1:2), hann sjálfur er “lífið eilífa sem var hjá Föðurnum og var opinberað oss” (1Jh 1:2). Okkur hefur verið veitt þetta sama líf með gjöf Andans. Jarðneskt líf hverrar persónu öðlast sína fullu merkingu með því að vera beint að lífinu í fullnustu sinni, til “eilífs lífs”.

Upplýst af þessu guðspjalli lífsins finnum við okkur knúin til að prédika það og bera vitni um dásamlega nýjung þess. Þar sem það er samhljóma Jesú sjálfum sem gerir alla hluti nýja[103] og sigrar hið “forna” sem á upphaf sitt í syndinni og leiðir til dauða,[104] er þetta guðspjall ofar öllum mannlegum væntingum og opinberar hversu hátt tign hinnar mannlegu persónu er lyft fyrir náðina. Þannig skildi heilagur Gregoríus frá Nyssa þetta: “Maðurinn er einskis virði sem vera; hann er mold, gras, hégómi. En um leið og hann fær barnarétt frá Guði alheimsins verður hann hluti af fjölskyldu þeirrar Veru sem hefur slíka fullkomnun og stórfengleika að enginn fær séð, heyrt né skilið. Hvaða orð, hugsanir eða hugdettur andans fá lofað ofurmagn þessarar náðar? Maðurinn gnæfir yfir náttúru sína: dauðlegur verður hann ódauðlegur; forgengilegur verður hann óforgengilegur; skammær verður hann eilífur; mannlegur verður hann guðlegur.”[105]

Þakklæti og fögnuður vegna hinnar óviðjafnanlegu tignar mannsins knýr okkur til að deila þessum boðskap með öllum: “það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag við oss” (1Jh 1:3). Okkur er þörf á því að gefa hjarta hvers karls og hverrar konu guðspjall lífsins og láta það gegnsýra alla hluta þjóðfélagsins.

81. Þetta felur umfram allt í sér að prédika kjarna þessa guðspjalls. Hann er að boða hinn lifanda Guð sem er nálægur okkur, sem kallar okkur til djúps samneytis við sig og vekur upp í okkur hina öruggu von um eilíft líf. Hann er að staðfesta órjúfanlega tengingu á milli persónunnar, lífs hennar og líkamlegrar heildar. Hann er að kynna mannlegt líf sem líf í tengslum við aðra, gjöf Guðs, ávöxt og tákn um kærleika hans. Hann er að boða að Jesús hafi einstakt samband við sérhverja persónu sem gerir okkur kleift að sjá í hverju mannlegu andliti ásjónu Krists. Hann er kallið að “gefa einlæglega af sjálfum sér” sem fullkomnustu leiðina til að öðlast persónulegt frelsi sitt.

Þetta felur einnig í sér að gera ljóst allt það sem þetta guðspjall hefur í för með sér. Það má draga saman á eftirfarandi hátt: mannlegt líf, sem gjöf Guðs, er heilagt og friðhelgt. Af þeim sökum eru fóstureyðing og líknardráp algjörlega óásættanleg. Mannlegt líf má ekki taka. Og ekki einungis það. Mannlegt líf ber að verja af kærleiksríkri umhyggju. Merkingu lífsins er að finna í því að gefa og meðtaka kærleikann og í þessu ljósi ná mannlegt kynferðislíf og getnaður sannri og fullri merkingu sinni. Kærleikurinn gefur einnig þjáningunni og dauðanum merkingu; þrátt fyrir að vera sveipuð leyndardómi geta þau orðið að frelsandi atburðum. Virðing fyrir lífinu krefst þess að vísindi og tækni séu ávallt til þjónustu við manninn og samfelldan þroska hans. Þjóðfélagið í heild sinni verður að virða, verja og efla tign hverrar mannlegrar persónu á hverju augnabliki og við hvert lífsskilyrði þeirrar persónu.

82. Til að vera að sönnu lýður til þjónustu við lífið verðum við að koma á framfæri þessum sannleika af stöðugleika og hugprýði allt frá fyrstu boðun guðspjallsins og eftir það í trúfræðslu, og með alls konar prédikunum, persónulegum samræðum og í öllum menntastörfum. Kennarar, trúfræðarar og guðfræðingar hafa það verkefni með höndum að leggja áherslu á þau mannfræðilegu rök sem virðingin fyrir öllu mannlegu lífi byggir á. Með þessum hætti, með því að láta nýjung guðspjalls lífsins skína, getum við einnig aðstoðað alla við að uppgötva í ljósi skynseminnar og persónulegrar reynslu hvernig hinn kristni boðskapur opinberar að fullu hvað maðurinn er og merkingu lífs hans og tilveru.

Frammi fyrir þetta mörgum sjónarmiðum og útbreiddri höfnun á traustri kenningu um mannlegt líf, getum við tekið til okkar beiðni Páls til Tímóteusar: “Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu” (2Tm 4:2). Þessi hvatning ætti að hljóma af sérstökum krafti í hjarta þeirra meðlima kirkjunnar sem taka með beinum hætti þátt, eftir mismunandi leiðum, í erindi hennar sem “kennari” sannleikans. Megi hún óma umfram allt í okkur sem erum biskupar: Við erum fyrstir kallaðir til linnulausrar prédikunar um guðspjall lífsins. Okkur er jafnframt falin sú ábyrgð að tryggja að kenningunni, sem enn á ný er sett fram í þessu heimsbréfi, sé komið samviskusamlega á framfæri, heilli og óspilltri. Við verðum að nota viðeigandi aðferðir til að verja hina trúuðu gegn öllum kenningum sem stríða gegn henni. Okkur ber að ganga úr skugga um að í öllum guðfræðideildum, prestaskólum og kaþólskum stofnunum sé traust kenning kennd, útskýrð og rannsökuð enn betur.[106] Megi hvatning Páls vekja viðbrögð hjá öllum guðfræðingum, sálnahirðum, kennurum og öllum þeim sem ábyrgir eru fyrir trúfræðslu og mótun samviskunnar. Megi þeir í fullvissu um sérstaka stöðu sína aldrei gerast svo gróflega óábyrgir að svíkja sannleikann og eigið erindi sitt með því að halda á lofti persónulegum hugsjónum sem stríða gegn guðspjalli lífsins eins og það er af trúmennsku sett fram og túlkað af kennsluvaldinu.

Við boðun þessa guðspjalls megum ekki óttast fjandsamleg viðbrögð eða óvinsældir og við verðum að hafna sérhverri málamiðlun eða óljósri túlkun sem gæti gert okkur sátta við hugsunarhátt heimsins (sbr. Rm 12:2). Okkur ber að vera í heiminum en ekki af heiminum (sbr. Jh 15:19; 17:16) og sækja styrk okkar til Krists sem með dauða sínum og upprisu hefur sigrað heiminn (sbr. Jh 16:33).

 

“Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður” (Sl 139:14): að halda guðspjall lífsins

83. Vegna þess að við höfum verið send í heiminn sem “lýður fyrir lífið” verður boðun okkar einnig að vera að sönnu helgihald guðspjalls lífsins. Þetta helgihald, með sínum látbrigðum, táknum og athöfnum, sem hafa leiðandi kraft, ætti að verða að dýrmætri og táknrænni umgjörð þar sem fegurð og mikilfengleika þessa guðspjalls er miðlað áfram.

Til að þetta megi gerast verðum við fyrst og fremst að rækta í okkur sjálfum og í öðrum djúphugað horf.[107]Slíkt horf rís upp af trú á Guð lífsins sem hefur skapað sérhvern einstakling sem “undursamlegan” (sbr. Sl 139:14). Þetta er horf þeirra sem sjá lífið í dýpri merkingu þess, sem skilja hreina gjafmildi þess, fegurð og kall þess til frelsis og ábyrgðar. Þetta er horf þeirra sem dirfast ekki að ná yfirráðum yfir veruleikanum heldur taka við honum sem gjöf, sem sjá í öllum hlutum endurspeglun af skaparanum og lifandi mynd hans í hverri persónu (sbr. 1M 1:27; Sl 8:6). Þetta horf leitar ekki uppgjafar andspænis sjúkum, þjáðum, burtreknum eða þeim sem eru við dauðans dyr. Við slíkar aðstæður víkur það sér ekki undan neinu og leitar þýðingar þess sem því mætir en einmitt við þær kringumstæður skynjar það kallið í ásjónu hverrar persónu að eiga kynni, samræður og samstöðu.

Kominn er tími til fyrir okkur öll að tileinka okkur þetta horf og uppgötva á ný af djúpri trúarlotningu eiginleika okkar að vegsama og heiðra hverja persónu eins og Páll VI bauð okkur að gera í einum af fyrstu jólaboðskap sínum.[108] Innblásinn þessu djúphuguðu horfi getur hinn nýi og endurleysti lýður ekki annað en svarað með fagnaðarsöngvum og lof- og fagnaðargjörðum hinni ómetanlegu gjöf sem er lífið og leyndardómi þess að hver einstaklingur er kallaður til að eiga, fyrir Krist, hlut í lífi náðarinnar og í þeirri tilveru sem er ævarandi samneyti við Guð, skapara okkar og Föður.

84. Að hafa um hönd guðspjall lífsins merkir að hafa um hönd Guð lífsins, þann Guð sem gefur líf: “Vér verðum að hafa um hönd hið eilífa Líf þaðan sem allt annað líf útgengur. Sérhver sköpun sem með einum eða öðrum hætti á hlut í lífinu meðtekur það frá þessu Lífi, allt eftir stöðu hennar. Þetta guðdómlega Líf sem er æðra öllu öðru lífi, gefur líf og viðheldur því. Sérhvert líf og allt það sem lifir og hreyfist gengur út frá þessu Lífi sem er hafið yfir allt líf og lögmál lífsins. Allar sálir skulda því óforgengileika sinn og af þess sökum eiga öll dýr og plöntur líf, en þau öðlast einungis minnsta vott lífs. Manninum, sem gerður er af anda og efni, veitir Lífið líf. Jafnvel þótt vér yfirgæfum Lífið mun það snúa okkur aftur til sín vegna takmarkalauss kærleika síns til mannsins. Þessu til viðbótar gefur það fyrirheit um að færa oss, á sál og líkama, til fullkomins lífs, til ódauðleika. Ekki dugar að segja að þetta Líf sé lifandi; það er Lífslögmálið, Orsök og einasti Gnægtabrunnur lífsins. Allt sem lifir verður að íhuga það og lofsyngja: Lífið sem er barmafullt af lífi.”[109]

Líkt og sálmaskáldið verðum við sömuleiðis í daglegum bænum okkar sem einstaklingar og sem samfélag að lofa og blessa Guð Föður okkar sem óf okkur í móðurlífi og sá okkur og elskaði þegar við vorum enn ómynduð (sbr. Sl 139:13, 15-16). “Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel” (Sl 139:14). Vissulega, “þrátt fyrir neyð, hulda leyndardóma, þjáningar og óhjákvæmilegan breyskleika þess, er þetta dauðlega líf ákaflega fagurt, undur sem er ætíð nýtt og hjartnæmt, atburður sem er verðugur að vera upphafinn í fögnuði og dýrð”.[110] Þar að auki birtist maðurinn og líf hans okkur ekki einungis sem eitt af mestu stórmerkjum sköpunarinnar: því að Guð hefur veitt manninum tign sem er litlu minni en guðdómleg (Sl 8:5-6). Í hverju barni sem fæðist og í hverri persónu sem lifir og deyr sjáum við mynd dýrðar Guðs. Við lofsyngjum þessa dýrð í hverri mannveru sem tákn um hinn lifanda Guð, helgimynd Jesú Krists.

Við erum kölluð til að dásama og þakka fyrir lífsgjöfina og að taka við, njóta og deila guðspjalli lífsins og ekki einungis í okkar persónulegu og samfélagslegu bæn, heldur umfram allt í helgihaldi kirkjuársins. Sérstaklega mikilvæg í þessu sambandi eru sakramentin, hin virku tákn um nærveru og frelsandi athöfn Drottins Jesú í kristilegu lífi. Sakramentin gera okkur að hluttakendum í guðlegu lífi og veita andlegan styrk sem er nauðsynlegur til að reyna lífið, þjáninguna og dauðann í fyllstu merkingu þeirra. Sannri enduruppgötvun á merkingu þessara helgiathafna og betri skilningi á þeim er því að þakka að helgihald helgisiðanna, sérstaklega helgihald sakramentanna, er betur í stakk búið að tjá fullan sannleikann um fæðingu, þjáningu og dauða, og mun það hjálpa okkur að lifa þessar stundir sem hluttöku í páskaleyndardómi hins krossfesta og upprisna Krists.

85. Þegar við höfum um hönd guðspjall lífsins þurfum við einnig að virða og nýta sem best þá auðlegð sem felst í látbrigðum og táknum sem hefðir og siðir hinna ýmsu menningarsvæða og þjóða geyma. Hjá ýmsum þjóðum og menningarsvæðum eru hafðir sérstakir tímar og leiðir farnar til að láta í ljós gleði yfir nýbornu lífi, yfir virðingu og vernd fyrir hverju mannlegu lífi, umönnun fyrir hinum þjáðu eða þurfandi, nánum tengslum við hina eldri og þá sem dauðvona eru, þátttöku í sorg þeirra sem syrgja, og von og þrá eftir ódauðleika.

Með þetta í huga og eftir hugmynd sem kardínálar á þingi sínu 1991 komu á framfæri geri ég það að tillögu minni að Dagur lífsins verði haldinn ár hvert í hverju landi eins og nokkrar biskuparáðstefnur hafa þegar gert. Hátíðarhöld þessa dags á að ráðgera og framkvæma með virkri þátttöku allra sviða staðarkirkjunnar. Megintilgangur dagsins er að þroska í hinni einstöku samvisku, í fjölskyldum, í kirkjunni, og í þjóðfélaginu skilning á merkingu og gildi mannlegs lífs á hverju stigi þess og við hverjar aðstæður. Sérstaka athygli ætti að beina að alvöru fóstureyðinga og líknardrápa án þess að vanrækja aðra þætti lífsins sem ber öðru hvoru að íhuga vandlega, eftir því sem tilefni og kringumstæður krefjast.

86. Sem hluta hinnar andlegu tilbeiðslu sem þóknanleg er Guði (sbr. Rm 12:1) á umfram allt að halda guðspjall lífsins heilagt í daglegu lífi þar sem sjálfsfórn og kærleikur til náungans ræður ríkjum. Með þessum hætti verður líf okkar að sannri og ábyrgri meðtöku á gjöf lífsins og hugheill söngur lofs og þakklætis til Guðs sem hefur gefið okkur þessa gjöf. Þetta gerist með ýmsum mismunandi og óeigingjörnum örlætisverkum sem karlar og konur, börn og fullorðnir, ungir og aldnir, heilbrigðir og sjúkir inna þegar af hendi.

Það er á þessum grunni sem hetjudáðir fæðast sem eru svo ríkar af mannlegu eðli og fylltar kærleika. Í þeim felst allra hátíðlegasta helgihald guðspjalls lífsins því að þær boða það með algjörri gjöf á sjálfum sér. Þær eru geislandi opinberun á æðstu gráðu kærleikans sem er að leggja líf sitt i sölurnar fyrir þann sem maður elskar (sbr. Jh 15:13). Þær eru hluttaka í leyndardómi krossins þar sem Jesús opinberar gildi hverrar persónu og það hvernig lífið öðlast fullnustu sína með því að gefa einlæglega af sjálfum sér. En auk slíkra framúrskarandi stunda eru það dags daglegar hetjudáðir þess að deila stóru og smáu sem byggja upp sanna menningu lífs. Sérstaklega lofsvert dæmi um slíkan verknað er líffæragjöf sem gerð er með siðferðilegum ásættanlegum hætti en með henni er sjúklingum oft boðið upp á tækifæri til heilbrigðis og jafnvel lífsins sjálfs þegar enga aðra von var að hafa.

Hluti af þessum daglegu hetjudáðum er hinn þöguli en virki og hrífandi vitnisburður allra þeirra “hugrökku mæðra sem helga sig fjölskyldu sinni án þess að hlífa sér, sem þjást við fæðingu barna sinna og sem eru reiðubúnar að gera allt sem í þeirra valdi stendur – færa hvaða fórn sem er – til að kenna börnum sínum það besta sem þær hafa fram að færa”.[111] Þar sem þær lifa eftir erindi sínu “fá þessar djarfhuga konur ekki alltaf stuðning frá umhverfi sínu. Þvert á móti eru þær menningarlegu fyrirmyndir sem iðulega er haldið á lofti og varpað fram af fjölmiðlum ekki ávallt hvetjandi fyrir móðernið. Í nafni framþróunar og nútímaviðhorfa eru gildi tryggðar, hreinlífis og fórnar sem fjöldi kristinna eiginkvenna og mæðra hafa borið og bera enn framúrskarandi vitni um, sögð vera gamaldags. … Við þökkum ykkur hugrökku mæður fyrir ósigrandi kærleika ykkar! Við þökkum ykkur fyrir ótrautt traust ykkar á Guð og kærleika hans. Við þökkum ykkur fyrir fórn lífs ykkar. … Í páskaleyndardóminum skilar Kristur aftur til ykkar gjöfinni sem þið gáfuð honum. Því að hann hefur máttinn til að gefa til baka lífið sem þig gáfuð honum sem fórn”.[112]

 

“Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk?” (Jk 2:14): að þjóna guðspjalli lífsins

87. Í krafti hlutdeildar okkar í konunglegu erindi Krists verður stuðningur okkar og efling á mannlegu lífi að felast í kærleiksþjónustunni sem birtist í persónulegum vitnisburði, ýmsum gerðum sjálfboðavinnu, félagslegum störfum og pólitískum afskiptum. Brýn þörf er á þessu, sérstaklega nú á tímum þegar “menning dauðans” er svo kröftuglega andstæð “menningu lífsins” og virðist oft hafa betur. En umfram allt er það þörfin sem sprettur af “trú sem starfar í kærleika” (Gl 5:6). Eins og áminnt er um í Jakobsbréfinu: “Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk? Mun trúin geta frelsað hann? Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi og einhver yðar segði við þau: Farið í friði, vermið yður og mettið! en þér gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það? Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin” (2:14-17).

Í kærleiksþjónustu okkar eigum við einnig að vera innblásin og leidd af sérstöku viðhorfi: við verðum að annast aðrar persónur sem Guð hefur gert okkur ábyrg fyrir. Sem lærisveinar Jesú erum við kölluð til að líta á alla menn sem náunga okkar (sbr. Lk 10:29-37) og sýna þeim sérstaka velþóknun sem eru fátækastir, mest einmana og í mestri nauð. Með því að hjálpa hinum hungruðu, þyrstu, aðkomandi, nöktu, sjúku og föngum – sem og barninu í móðurkviði og öldruðum sem þjást eða eru nærri dauðanum – höfum við tækifæri til að þjóna Jesú. Hann sagði sjálfur: “Það allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér” (Mt 25:40). Þess vegna komumst við ekki hjá því að telja okkur kölluð til ábyrgðar og dóms þegar við heyrum orð heilags Jóhannesar Krýsostomus sem hér eiga við: “Viljið þið heiðra líkama Krists? Ekki virða hann að vettugi þegar hann er nakinn. Ekki veita honum hollustu ykkar í musterinu klæddan silki aðeins til að vanrækja hann fyrir utan þar sem hann er kaldur og illa klæddur”.[113]

Þegar um líf er að ræða verður kærleiksþjónustan að vera samfelld allt í gegn. Hún getur ekki umborið hlutdrægni og mismunun því að mannlegt líf er heilagt og friðhelgt á öllum stigum þess og við allar aðstæður; í því felast óskiptanleg gæði. Við eigum því að sýna að okkur er annt um allt líf og um líf allra. Raunar eigum við að líta jafnvel enn dýpra og fara til rótar lífs og kærleika.

Það er þessi djúpi kærleikur í garð hvers karls og konu sem hefur í gegnum aldirnar skapað framúrskarandi sögu kærleikans, sögu sem hefur sett af stað í kirkjunni og þjóðfélaginu ýmsar gerðir þjónustu við lífið sem vekja aðdáun hjá öllum óvilhöllum áhorfendum. öll kristin samfélög verða að halda áfram og rita þessa sögu af endurnýjaðri ábyrgðartilfinningu og gera það með ýmsum hirðis- og félagslegum störfum. Með þetta að augnamiði verður að hrinda af stað hagkvæmum og virkum framkvæmdaáætlunum um stuðning við nýtt líf í sérstökum og nánum tengslum við mæður sem, jafnvel án aðstoðar feðranna, óttast ekki að koma barni sínu í heiminn og ala það upp. Ámóta umönnun verður að sýna lífi þeirra sem þjást eða sem búa á jaðri samfélagsins, sérstaklega á lokastigum þess.

88. Allt kallar þetta á þolinmótt og fölskvalaust uppfræðslustarf sem á að stuðla að því að allir sem einn beri hver annars byrðar (sbr. Gl 6:2). Það krefst þess að kölluninni til þjónustu sé haldið stöðugt á lofti sérstaklega á meðal hinna yngri. Það felur í sér að hrinda úr vör til langtíma hagnýtum framkvæmdum og verkefnum er sækja innblástur sinn til guðspjallsins.

Leiðin er margvísleg að þessu marki og hana verður að þróa af fagmennsku og eindreginni staðfestu. Þegar litið er til lífsins á fyrstu stigum þess ætti að setja á stofn stöðvar fyrir náttúrlega skipulagningu barneigna sem yrðu ábyrgum foreldrum í hlutverki þeirra gagnleg hjálp og þar sem eigin verðleikar allra persóna, fyrst og fremst barnsins, yrðu viðurkenndir og virtir og allar ákvarðanir leiddar af þeirri hugsjón af gefa einlæglega af sjálfum sér. Með fyrirbyggjandi og ráðgefandi starf sínu, þar sem þær nota mannfræði sem samræmist kristinni sýn á persónuna, hjúskapinn og kynferðislífið, veita hjúskapar- og fjölskylduráðgjafarþjónustur einnig gagnlega hjálp við að uppgötva á ný merkingu kærleika og lífs og við að styrkja og fylgja hverri fjölskyldu í erindi hennar sem “griðastaður lífs”. Heimili eða stöðvar til að styrkja nýtt líf taka einnig við og þjóna nýfæddum börnum. Það er starfi slíkra stöðva að þakka að margar ógiftar mæður og makar í vandræðum er kleift að öðlast nýja von og finna aðstoð til að sigrast á erfiðleikum og óttanum að taka við lífi sem nýlega er getið eða er nýkomið í heiminn.

Þegar lífið lendir í mótstöðu vegna erfiðleika, aðlögunarörðugleika, sjúkdóms eða höfnunar er önnur starfsemi tiltæk sem gefur von: samfélög sem meðhöndla eiturlyfjafíkn, heimili fyrir ófullveðja eða geðfatlaða, umönnunar- og hjálparstöðvar fyrir alnæmissjúklinga og félagssamtök einkum fyrir hreyfihamlaða – allt er þetta talandi dæmi um hvað náungakærleikurinn getur látið af sér leiða til að allir geti haft von og hagnýta möguleika í lífi sínu.

Og þegar dregur að lokum jarðneskrar tilveru er það enn og aftur náungakærleikurinn sem finnur bestu leiðina til að hinir öldruðu, sérstaklega þeir sem geta ekki lengur sinnt sjálfum sér, og dauðvona sjúklingar njóti líknsamrar umönnunar og fái aðstoð sem svari til þarfa þeirra en sérstaklega þegar að þeim sækir angist og einmanleiki. Í þeim tilfellum er hlutverk fjölskyldunnar ómissandi; eigi að síður geta fjölskyldurnar þegið mikla hjálp frá félagslegri þjónustu og, sé þess nauðsynlegt, geta þær leitað til líknardeilda – notfært sér þá læknis- og félagslegu þjónustu sem boðið er upp á í stofnunum eða á heimilinu.

Sérstök þörf er á að endurskoða hlutverk spítala, heilsugæslustöðva og hressingarhæla. Þetta eiga ekki eingöngu að vera stofnanir sem bjóða upp á umönnun fyrir hina sjúku og deyjandi. Umfram allt ættu þær að vera staðir þar sem þjáningar, kvalir og dauði eru virt og skilin í sinni mannlegu og sérstaklega kristnu merkingu. Þetta verður að vera einkum sýnilegt og virkt í þeim stofnunum sem mannaðar eru fólki í trúreglum eða eru á einhvern hátt tengdar kirkjunni.

89. Stofnunum og miðstöðvum sem þjóna lífinu og öllu framtaki sem verkar til stuðnings og samstöðu eins og kringumstæður bjóða upp á hverju sinni, verður að vera stýrt af fólki sem er örlátt í þátttöku sinni og hefur fullan skilning á mikilvægi guðspjalls lífsins fyrir hag einstaklinga og þjóðfélagsins.

Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar hefur einstakri ábyrgð að gegna: læknar. lyfjafræðingar, hjúkrunarfræðingar, sjúkrahúsprestar, reglubræður og –systur, stjórnendur og sjálfsboðaliðar. Í starfi sínu er það kallað til að vernda og þjóna mannlegu lífi. Við menningarlegar og félagslegar aðstæður dagsins í dag, þegar vísindin og læknisfræðin eiga á hættu að missa sjónar á eðlislægum siðferðisþáttum sínum, er sterk freisting fyrir fagfólk heilbrigðisþjónustunnar að ráðskast með lífið eða ganga jafnvel erinda dauðans. Frammi fyrir þessari freistingu hefur ábyrgð þess í dag vaxið mikið. Dýpsta hvatning þess og sterkasti stuðningur liggur í eiginlegum og óhrekjandi siðferðisþáttum heilbrigðisþjónustunnar sem þegar eru viðurkenndir í hinum forna Hippokratesareiði sem gildir enn og krefst þess af hverjum lækni að hann skuldbindi sig til gagngerrar virðingar við mannlegt líf og heilagleika þess.

Alger virðing fyrir hverju saklausu lífi krefst þess einnig að andmæli af samviskuástæðum séu ástunduð í tengslum við fóstureyðingar og líknardráp. “Að valda dauða” verður aldrei talið hluti af lækningu jafnvel þótt ásetningurinn sé einungis sá að fara að óskum sjúklingsins. Það er þvert á móti andstætt heilsugæslustarfinu sem ætlað er að staðfesta lífið með áköfum og óbilandi hætti. Líf- og læknisfræðirannsóknir – vettvangur sem gefur fyrirheit um mikla bót fyrir mannkynið – verða ávallt að hafna tilraunum, rannsóknum eða notkunaraðferðum sem skeyta ekkert um friðhelga tign hins mannlega lífs og hætta þannig að vera til þjónustu við fólkið en verður þess í stað að leiðum, undir því yfirskyni að verið sé að hjálpa fólki, sem skaðar það í raun og veru.

90. Sjálfboðaliðar hafa sérstöku hlutverki að gegna: samlögun þeirra á faglegri hæfni og örlátum og óeigingjörnum kærleika er dýrmætt framlag til þjónustu lífsins. Guðspjall lífsins er þeim hvatning að lyfta gæsku sinni í garð annarra til sömu hæðar og náungakærleiki Krists. Það gera þeir með þeim hætti að endurnýja hvern dag, í striti sínu og mæðu, skilning sinn á tign hverrar persónu, finna hverjar þarfir fólks eru og, þegar nauðsyn ber til, að fara inn á nýjar slóðir þar sem þörfin er meiri en umönnun og stuðningur minni.

Ef náungakærleikurinn á að vera virkur og með raunverulegum hætti kefst hann þess að guðspjalli lífsins verði einnig komið á eftir vissum leiðum félagslegrar starfsemi og með pólitískum skuldbindingum er stuðli að því að verja og efla gildi lífsins í æ flóknara og fjölhyggjulegra þjóðfélagi. Einstaklingar, fölskyldur, hópar og félagssamtök – þótt það sé af mismunandi ástæðum og með ólíkum hætti – hafa öll þá ábyrgð að móta þjóðfélagið og þróa verkefni á sviði menningar, efnahags, stjórnmála og laga sem, með tilliti til allra og í samræmi við lýðræðislegar reglur, munu stuðla að byggingu þjóðfélags þar sem tign hverrar persónu er viðurkennd og vernduð og líf allra er varið og bætt.

Þetta viðfangsefni er einkum á ábyrgð borgaralegra leiðtoga. Kallaðir til að þjóna fólkinu og almannahag hafa þeir þeirri skyldu að gegna að sýna djörfung í vali sínu að verja lífið sérstaklega með lagaákvæðum. Í lýðræðiskerfi þar sem lög eru sett og ákvarðanir teknar á grundvelli samkomulags margra getur tilfinning fyrir persónulegri ábyrgð veikst í samvisku þeirra einstaklinga sem fara með völdin. En enginn getur nokkru sinni afsalað sér þessari ábyrgð og einkum ef sá hinn sami hefur umboð til ákvörðunartöku og lagasmíðar og verður að svara frammi fyrir Guði um samvisku sína og frammi fyrir öllu þjóðfélaginu um val sem stríða kann gegn almannaheill. Enda þótt lögin séu ekki eina leiðin til að vernda mannlegt líf gegna þau eigi að síður mjög mikilvægu og stundum afgerandi hlutverki við að móta hugsun og hegðun. Ég endurtek enn á ný að lög sem brjóta gegn náttúrlegum rétti persónunnar til lífs eru óréttmæt og sem slík hafa þau ekkert lagagildi. Af þessum sökum bið ég enn aftur pólitíska leiðtoga sárlega að setja ekki lög sem lítilsvirða tign persónunnar og veikja þar með sjálfar undirstöður þjóðfélagsins.

Kirkjan veit fullvel að erfitt er að sækja virka lagavernd lífsins í fjölflokkalýðæði vegna þess að til staðar eru sterkir menningarstraumar sem hafa annað viðhorf. En í þeirri vissu að ekki verði undan því vikið að fundið verði með djúpum hætti fyrir hinum siðferðilega sannleika í hverri samvisku, hvetur kirkjan pólitíska leiðtoga – og byrjar á þeim sem eru kristnir – að gefa ekki eftir heldur velja þær leiðir sem, að teknu tilliti til hverju sé raunverulega unnt að ná, stuðla að því að réttlát skipan verði grundvölluð á ný til varnar og eflingar á gildi lífsins. En hér verður að gæta að því að ekki nægir að afnema óréttmæt lög. Eyða verður undirliggjandi orsökum fyrir árásum á lífið sérstaklega með því að tryggja sannan stuðning við fjölskyldur og móðernið. Fjölskyldustefna á að vera hornsteinn og drifkraftur í allri félagslegri stefnu. Af þeim sökum er nauðsynlegt að haft sé félagslegt og pólitískt frumkvæði sem skapi foreldrum skilyrði til að eiga sannarlegt valfrelsi í hlutverki sínu. Þá er nauðsynlegt að íhuga upp á nýtt stefnur í atvinnumálum, borgar- og búsetumálum og félagsþjónustu til að samræma vinnustundir við þann tíma sem er aflögu fyrir fjölskyldna svo að hægt sé í raun og veru að sinna börnunum og hinum öldruðu.

91. Í dag er fólksfjölgun mikilvægur hluti stefnunnar í þágu lífsins. Opinber yfirvöld hafa vissulega þá ábyrgð “að grípa inn í til að hafa áhrif á mannfjöldaþróun”.[114] En slík íhlutun verður ávallt að taka tillit til og virða grunn- og ófrávíkjanlega ábyrgð hjóna og fjölskyldna og yfirvöld geta ekki tekið upp aðferðir sem virða ekki persónuna og grundvallarmannréttindi og skal þar fyrstan telja réttinn til lífs hjá hverri saklausri mannlegri sál. Því er það siðferðilega óásættanlegt að hvetja til, hvað þá að knýja á um, notkunar á þeim aðferðum sem eru getnaðarvörn, ófrjósemi og fóstureyðing í því skyni að hafa stjórn á fæðingum. Leiðirnar til að leysa fólksfjölgunarvandamálið eru allt aðrar. Stjórnvöld og hinar ýmsu alþjóðlegu stofnanir verða umfram allt að leita leiða við að skapa efnahagsleg, félagsleg og menningarleg skilyrði auk heilbrigðisskilyrða sem gera hjónum kleift að taka sína eigin ákvörðun um getnað af fullu frelsi og sannri ábyrgð. Þau verða síðan að gera sér far um að tryggja “fleiri tækifæri og réttlátari skiptingu auðsins til að allir geti átt sanngjarnan hlut í gæðum sköpunarinnar. Leita verður lausnar á alþjóðavettvangi til að koma á fót sönnum efnahagi sem byggir á samfélagi um gæði og samnýtingu þeirra hvort tveggja í þjóðlegri og alþjóðlegri skipan”.[115] Þetta er eina leiðin til að virða tign persóna og fjölskyldna sem og sannan menningararf þjóða.

Þjónusta guðspjalls lífsins er þannig gríðarstórt og margþætt verkefni. Þessi þjónusta er í vaxandi mæli dýrmætt og frjósamt svið til að eiga jákvætt samstarf um við bræður okkar og systur sem tilheyra öðrum kirkjum og kirkjusamfélögum og er hún í samræmi við hina raunhæfu samkirkjustefnu sem annað Vatíkanþingið hvatti til af myndugleika sínum.[116] Að vilja forsjónarinnar virðist þetta einnig vera vettvangur samræðna og sameiginlegs átaks með fylgjendum annarra trúarbragða og öllum mönnum sem hafa góðan vilja. Enginn einn maður eða hópur hefur einokun á því að verja og efla lífið. Þetta er sameiginlegt verkefni og á ábyrgð allra. Þegar dregur að þriðju þúsöldinni er áskorunin ströng sem blasir við okkur: einungis samstillt átak allra þeirra sem trúa á gildi lífsins getur afstýrt afturkippi sem hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir siðmenninguna.

 

“Börn þín verða sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt” (Sl 128:3): fjölskyldan sem “griðastaður lífs”

92. Hjá því fólki sem er “af lífinu og fyrir lífið” skiptir ábyrgð fjölskyldunnar sköpum. Þessi ábyrgð kemur af sjálfri náttúru hennar sem samfélag lífs og kærleika og er grundvallað á hjónabandinu og af erindi hennar að “halda vörð um, opinbera og miðla kærleikanum”.[117] Hér er um að ræða eigin kærleika Guðs sem foreldrarnir starfa með og túlka að vissu leyti þegar þeir breiða út lífið og ala það upp samkvæmt föðurlegri fyrirætlun hans.[118] Þetta er kærleikurinn sem verður óeigingjarn, einlægur og að gjöf. Innan fjölskyldunnar er hver meðlimur viðurkenndur, virtur og heiðraður einmitt vegna þess að hann er persóna; og ef einhver fjölskyldumeðlimur þarfnast meiri hjálpar verður umönnunin sem hann fær náin og umhyggjusöm.

Fjölskyldan hefur sérstöku hlutverki að gegna alla ævi meðlima sinna, allt frá vöggu til grafar. Hún er sannur “griðastaður lífs: staðurinn þar sem lífið – gjöf Guðs – er boðið velkomið með eiginlegum hætti og er varið gegn mörgum árásum sem það stendur berskjaldað gegn og þar sem það getur þroskast í samræmi við það sem felur í sér sannan mannlegan vöxt”.[119] Því er það að hlutverk fjölskyldunnar skiptir sköpum við að byggja menningu lífs og er ekkert sem leysir hana af hólmi í því hlutverki.

Sem heimiliskirkja er fjölskyldan kölluð til að kunngjöra, hafa um hönd og þjóna guðspjalli lífsins. Þetta er ábyrgð sem hvílir fyrst af öllu á hjónunum sem eru kölluð til að vera lífgjafar á grundvelli æ betri skilnings á merkingu getnaðar sem einstökum atburði er opinberi skýrt að mannlegt líf er gjöf sem tekið er við jafnframt því að vera gjöf sem gefin er. Með því að gefa nýju lífi uppruna sinn sjá foreldrarnir að barnið, “sem er ávöxtur gagnkvæms kærleiksgjafar þeirra, er og gjöf til þeirra beggja, gjöf sem sprettur af eigin gjöf þeirra”.[120]

Það er umfram allt í uppeldi barnanna að fjölskyldur uppfylla erindi sitt að kunngjöra guðspjall lífsins. Í orði og verki, í daglegum samskiptum og ákvörðunum, og með raunhæfum athöfnum og táknum, leiða foreldrarnir börnin sín til sannarlegs frelsis sem er raungert í einlægri gjöf af sjálfum sér, og þau rækta í þeim virðingu fyrir öðrum, tilfinningu fyrir réttlæti, alúðlega einlægni, talmál, örláta þjónustu, samstöðu og öll önnur gildi sem hjálpa fólki að lifa lífinu sem gjöf. Í uppeldi barnanna verða kristnir foreldrar að láta sér annt um trú barna sinna og hjálpa þeim að uppfylla köllunina sem Guð hefur gefið þeim. Erindi foreldranna sem uppfræðara felur einnig í sér að fræða börn sín um sanna merkingu þjáningar og dauða og gefa þeim fordæmi þar að lútandi. Þetta er þeim kleift að gera ef þeir eru næmir á alls kyns þjáningar í nánasta umhverfi sínu og jafnvel enn frekar ef þeim tekst að ala með sér það viðhorf sem felst í að vera nálægir, aðstoða og eiga samfélag með sjúkum eða eldri meðlimum fjölskyldunnar.

93. Fjölskyldan hefur guðspjall lífsins um hönd með daglegum bænum, hvort tveggja með einstakri bæn og fjölskyldubæn. Fjölskyldan biður í því skyni að færa Guði þakkir fyrir gjöf lífsins og hún sárbiður um ljós hans og styrk til að mæta erfiðleikum og þjáningum án þess að glata voninni. En helgihaldið sem gefur allri annarri gerð bænar og tilbeiðslu merkingu má finna í daglegu lífi fjölskyldunnar þar sem hún er saman komin í kærleika og fórnfýsi.

Þetta helgihald verður þannig að þjónustu við guðspjall lífsins og birtist það í samstöðu innan og umhverfis fjölskylduna sem lifuð er af umhyggju, nærgætinni og elskandi umönnun í litlum og venjulegum atburðum hversdagsins. Sérstök táknræn tjáning sem lýsir samstöðu milli fjölskyldna er viljinn að ættleiða eða taka í sína umsjá börn sem yfirgefin hafa verið af foreldrum sínum vegna mikilla erfiðleika. Sönn foreldraást vílar ekki fyrir sér að fara út fyrir mörk holds og blóðs í því skyni að taka við börnum frá öðrum fjölskyldum og bjóða þeim allt sem er nauðsynlegt velferð þeirra og fullum þroska. Meðal hinna ýmsu gerða ættleiðinga ætti að leiða hugann að “ættleiðingu úr fjarlægð” sem er æskileg í þeim tilfellum þegar sár fátækt fjölskyldu barnsins yrði eina ástæðan fyrir því að gefa barnið. Með slíkri ættleiðingu yrði foreldrunum gefin aðstoð sem þau þurfa á að halda til að ala upp börn sín án þess að þau séu rifin upp með rótum frá náttúrlegu umhverfi sínu.

Samstaða sem felst í “staðfastri og viðvarandi ákvörðun um að skuldbinda sig í þágu almannahags”[121]verður einnig að ástunda með þátttöku í félagslegu og pólitísku lífi. Að þjóna guðspjalli lífsins þýðir þannig að fjölskyldan, sérstaklega fyrir aðild sína að félagssamtökum fjölskyldna, starfar að því að tryggja að lög og stofnanir ríkisins brjóti ekki á nokkurn hátt gegn réttinum til lífs, allt frá getnaði til náttúrlegs dauða, heldur verndi hann og efli.

94. Sérstakan gaum verður að gefa hinum öldruðu. Þótt þeir séu á sumum menningarsvæðum hluti af fjölskyldunni og gegna þar virku og mikilvægu hlutverki, eru eldri borgarar á öðrum menningarsvæðum álitnir byrði og til einskis nýtir og skildir einir eftir. Það er við slíkar aðstæður að freistingin getur hæglega komið upp að grípa til líknardráps.

Ekki er hægt að umbera að hinir öldruðu séu vanræktir eða þeim hreinlega hafnað. Nærvera þeirra í fjölskyldunni, eða að minnsta kosti náin tengsl þeirra við hana þegar takmarkað húsrými eða aðrar ástæður koma í veg fyrir hana, hefur grundvallarmikilvægi við að skapa gagnkvæm samskipti og auðga samneyti milli mismunandi aldurshópa. Þess vegna er mikilvægt að varðveita eins konar “sáttmála” milli kynslóða eða endurreisa hann þar sem hann hefur glatast. Með þeim hætti geta foreldrar á sínum efri árum þegið frá börnum sínum viðurkenningu og samstöðu sem þeir sjálfir gáfu börnum sínum þegar þeir fæddu þau inn í þennan heim. Þetta felst í kröfunni um hlýðni við boðorðið að heiðra föður sinn og móður (sbr. 2M 20:12; 3M 19:3). En þetta er ekki allt. Ekki á einungis að líta á hina öldruðu sem viðfang umhyggju okkar, einlægni og þjónustu. Þeir hafa sjálfir dýrmætt framlag fram að færa til guðspjalls lífsins. Þökk sé auðugum fjársjóði reynslunnar sem aldraðir hafa öðlast í gegnum árin, geta og verða þeir að vera uppspretta speki og vottar um von og kærleika.

Enda þótt rétt sé að “framtíð mannkyns liggi eftir leiðum fjölskyldunnar”[122] verður að viðurkenna að félagsleg, efnahagsleg og menningarleg skilyrði í dag gera verkefni fjölskyldunnar að þjóna lífinu æ erfiðara og meira krefjandi. Í því skyni að hún geti uppfyllt köllun sína sem “griðastaður lífs” – sem frumeining þjóðfélagsins er elskar lífið og býður það velkomið – er brýnt að fjölskyldan sé aðstoðuð og styrkt. Samfélög og ríki verða að tryggja allan þann stuðning, meðtalin efnahagslegan stuðning, sem fjölskyldan þarf á að halda til að mæta vandamálum sínum með sönnum mannlegum hætti. Fyrir sitt leyti verður kirkjan að halda án afláts á lofti áætlun um hirðislega umönnun fyrir fjölskyldur sem getur fengið hverja fjölskyldu til að enduruppgötva og lifa af fögnuði og hugrekki erindi sitt að breiða út guðspjall lífsins.

 

“Hegðið yður eins og börn ljóssins” (Ef 5:8): að stuðla að menningarumskiptum

95. “Hegðið yður eins og börn ljóssins. … Metið rétt, hvað Drottni þóknast. Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af” (Ef 5:8, 10-11). Við núverandi þjóðfélagslegar aðstæður, sem markast af dramatískri baráttu milli “menningar lífs” og “menningar dauða”, er þörf á að þróa djúpann og gagnrýnan skilning sem getur greint sönn gildi og óumdeilanlegar þarfir.

Brýnt er að virkja almenna samvisku til sameinaðs siðferðisátaks svo að hrinda megi af stað miklu átaki til stuðnings lífinu. öll saman verðum við að byggja nýja menningu lífs: hún er ný vegna þess að henni verður kleift að horfast í augu við og leysa þau fordæmislausu vandamál sem hrjá mannlegt líf í dag því að allir kristnir menn munu taka hana upp af dýpri og kraftmeiri sannfæringu og hún verður ný vegna þess að hún mun geta stuðlað að nýtum og djörfum menningarsamræðum milli allra aðila. Þótt þessi brýna nauðsyn á menningarlegri umbreytingu tengist sögulegum aðstæðum dagsins í dag, á hún einnig rætur í erindi kirkjunnar að boða fagnaðarboðskapinn. Tilgangur guðspjallsins er í raun og veru að“umbreyta mannkyninu innan frá og gera það nýtt”.[123] Líkt og súrdeiginu sem sýrir allt mæli mjölsins (sbr. Mt 13:33) er guðspjallinu gert að gegnsýra hvarvetna alla menningu og gefa henni líf innan frá[124] til að hún megi tjá fullan sannleikann um hina mannlegu persónu og um mannlegt líf.

Við verðum að byrja á því að endurreisa menningu lífsins innan samfélaga kirkjunnar. Það gerist allt of oft að trúendur, jafnvel þeir sem taka virkan þátt í lífi kirkjunnar, skilja á milli kristinnar trúar sinnar og siðferðilegra krafna sem snerta lífið en það veldur því að þeir falla í siðferðilega afstæðishyggju og að því leyti í visst ótækilegt hátterni. Við verðum að spyrja af mikilli einlægni og hugrekki hversu útbreidd menning lífsins er í dag meðal einstakra kristinna manna, fjölskyldna, hópa og samfélaga í biskupsdæmum okkar. Með samsvarandi skýrleika og staðfestu verðum við að þekkja skrefin sem við erum kölluð til að taka í því skyni að þjóna lífinu í öllum sannleika þess. Samtímis verðum við að efla alvarlegar og ýtarlegar umræður við alla, þar með talda ótrúaða, um grundvallarmálefni mannlegs lífs og gera það meðal hópa menntamanna, ýmissa starfsgreina og í daglegu lífi fólks.

96. Fyrsta og grundvallarskrefið til þessara menningarumskipta felst í að móta samviskuna þess efnis að virði hvers mannlegs lífs er óviðjafnanlegt og friðhelgt. Eitt allra mikilvægast er að endurreisa grundvallartengslin milli lífs og frelsis. Þau eru óaðskiljanleg gæði: ekki verður annað sívirt án þess að hitt verði einnig að lokum smánað. Sannarlegt frelsi er ekki til staðar þar sem lífið er ekki velkomið og elskaÐ og það er engin fullnusta lífs nema í frelsi. Hvort tveggja lífið og frelsið hafa það til að bera sem er þeim eðlislægt og sérstakt og tengir þau óleysanlegum böndum: köllunina að elska. Kærleikurinn, sem einlæg gjöf af sjálfum sér,[125] er það sem gefur lífi og frelsi persónunnar sína sönnustu merkingu.

Eigi er síður mikilvægt við mótun samviskunnar að endurheimta hin nauðsynlegu tengsl á milli frelsis og sannleika. Eins og ég hef iðulega sagt er ómögulegt að staðfesta persónuleg réttindi á föstum og skynsömum grunni hafi frelsið skilist við hlutlægan sannleika; og þá hindrar ekkert að þjóðfélagið lúti valdi óhefts vilja einstaklinga eða kúgandi alræði opinberra yfirvalda.[126]

Þess vegna er brýnt að maðurinn viðurkenni eðlisbundið ástand sitt – að hann sé sköpun sem Guð hefur veitt verund og líf sem gjöf og skyldu. Einungis með því að játa meðfætt ósjálfstæði sitt getur maðurinn lifað og notað frelsi sitt til fulls og samtímis virt líf og frelsi allra annarra manna. Hér má sjá, að “í kjarna hverrar menningar hvílir viðhorfið sem maðurinn hefur til mesta leyndardómsins: leyndardóms Guðs”.[127] Þar sem Guði er hafnað og fólk lifir eins og hann sé ekki til, eða boðorð hans ekki virt, er tign persónunnar og friðhelgi mannlegs lífs á endanum einnig hafnað eða skaðað.

97. Uppfræðslustarfið tengist náið mótun samviskunnar en það hjálpar einstaklingum að vera mannlegri, leiðir þá til sannleikans, innrætir hjá þeim vaxandi virðingu fyrir lífinu, og þjálfar þá til að eiga rétt félagsleg samskipti.

Einkum er þörf á uppfræðslu um gildi lífsins allt frá sjálfu upphafi þess. Það er tálsýn að halda að við getum byggt sanna menningu mannlegs lífs ef við aðstoðum ekki þá ungu að skilja og reyna kynferði sitt, kærleikann og lífið í heild sinni samkvæmt sannri merkingu þeirra og náinni samtengingu. Kynferðið sem auðgar persónuna alla “sýnir sína dýpstu merkingu þegar það leiðir persónuna til gjafar á sjálfri sér í kærleika”.[128] Lítillækkun á kynferðislífi er meðal mikilvægustu orsaka þess að nýtt líf er lítilsvirt. Einungis sannur kærleikur getur varið lífið. Ekki er hægt að víkja sér undan þeirri skyldu að gefa einkum unglingum og ungu fólki sanna uppfræðslu í kynferðislífi og kærleika, uppfræðslu sem felist í menntun um að hreinlífi sé dyggð er stuðli að þroska persónunnar og geri henni kleift að virða “hjúskaparlega” merkingu líkamans.

Uppfræðslustarf í þágu lífsins felur í sér að mennta hjónin í ábyrgum getnaði. Í sinni sönnustu merkingu krefst ábyrgur getnaður þess af hjónunum að þau séu hlýðin kalli Drottins og verki sem tryggir túlkendur fyrirætlunar hans. Þetta gerist þegar fjölskyldan er í göfuglyndi sínu opin fyrir nýju lífi og hjónin hafa það viðhorf að sýna lífinu einlægni og þjónustu jafnvel ef, sökum alvarlegra ástæðna og af virðingu við siðalögmálið, þau velja að koma í veg fyrir nýjan getnað um stundarsakir eða fyrir fullt og allt. Siðalögmálið skyldar þau í hverju tilfelli að hafa stjórn á bráðri eðlishvöt og ástríðu og bera virðingu fyrir lögmáli líffræðinnar sem letrað er í þau. Þegar verið er að þjóna ábyrgum getnaði er það einmitt þessi virðing sem gerir náttúrlegar aðferðir lögmætar við að stjórna barnsfæðingum. Frá vísindalegu sjónamiði hafa þessar aðferðir orðið æ nákvæmari og gert það kleift í verki að ákvarða val í samræmi við siðferðileg gildi. Heiðarleg mat á virkni þeirra ætti að hrekja vissa fordóma sem eru enn við líði og ætti að sannfæra hjón, sem og starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar og félagsstofnanna, um mikilvægi réttrar menntunar í þessum efnum. Kirkjan er þakklát öllum þeim sem hafa með persónulegum fórnum sínum og oft vanmetnu framlagi helgað sig rannsóknum og útbreiðslu á þessum aðferðum, sem og eflingu á fræðslu í siðferðilegum gildum sem þær ganga úr frá.

Í uppfræðslustarfinu er ekki hægt að leiða hjá sér að hugleiða þjáningu og dauða. Hvort tveggja er hluti af mannlegri tilveru og það er tilgangslaust ef ekki beint villandi að reyna að fela eða hunsa þau. Þvert á móti verður að hjálpa fólki að skilja djúpstæðan leyndardóm þeirra í öllum sínum óvægna veruleika. Hver kvöl og þjáning hafa merkingu og gildi þegar þær eru reyndar í sambandi við kærleikann sem gefinn er og meðtekinn. Í þessu sambandi hef ég látið í ljós ósk mína að heimsdagur sjúklinga verið haldinn hátíðlegur árlega þar sem lögð verði áhersla á að “lausnareðli fórnfæringar þjáningarinnar, þegar hún er reynd í samneyti við Krist, heyrir til sjálfum kjarna endurlausnarinnar”.[129] Dauðinn er í sjálfu sér allt annað en atburður án vonar. Hann er dyrnar sem opnast upp á gátt fyrir eilífðinni og hjá þeim sem lifa í Kristi er hann reynslan að eiga hluttöku í leyndardómi dauða hans og upprisu.

98. Í stuttu máli má segja að menningarbreytingin sem við erum að kalla eftir krefjist þess að allir hafi kjark til að laga sig að nýjum lifnaðarháttum sem felist í því að eiginlegt val – á persónulegum, fjölskyldulegum, félagslegum og alþjóðlegum vettvangi – byggist á réttu mati á gildum: að það að vera hafi yfirburði yfir það að hafa,[130] og að persónan hafi yfirburði yfir hluti.[131] Þessir endurnýjuðu lifnaðarhættir fela í sér að horfið sé frá tómlæti til umhyggju fyrir náunganum, frá höfnun til viðurkenningar á honum. Annað fólk er ekki keppinautur sem við verðum að vernda okkur gegn. Það er bræður okkar og systur sem ber að styðja og elska þeirra vegna. Nærvera þeirra er okkur til auðgunar.

Enginn á að telja sig útilokaðan frá þessari kvaðningu til nýrrar menningar lífsins: allir hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Einkum er það gagnlegt sem kennarar og uppfræðarar ásamt fjölskyldum hafa fram að færa. Mikið hvílir á þeim ef ungu fólki, menntuðu í sönnu frelsi, á að vera kleift að varðveita fyrir sig og kunngjöra öðrum sannar lífshugsjónir, og ef það á að þroskast í virðingu fyrir öllum öðrum persónum og í þjónustu við þær, í fjölskyldunni og í þjóðfélaginu.

Menntamenn geta einnig lagt mikið af mörkum við að byggja nýja menningu mannlegs lífs. Sérstaklega reynir á kaþólska menntamenn en þeir eru kallaðir til að vera nærverandi og virkir á leiðandi stöðum þar sem menningin er mótuð, í skólum og háskólum, á rannsóknarstofnum vísinda og tækni, á stöðum listsköpunar og rannsóknar á manninum. Með því að láta gáfur sínar og athafnir nærast á hinum lifanda krafti guðspjallsins eiga þeir að setja sig til þjónustu við hina nýju menningu lífsins með því að setja fram íhugul ráð studd gögnum sem í krafti verðleika sinna munu hljóta almenna virðingu og áhuga. Einmitt af þessari ástæðu setti ég á stofn Lífsakademíu Páfagarðs og fól henni það verkefni að “rannsaka og veita upplýsingar og menntun um grundvallarvandamál laga og líf- og læknisfræði að því er snertir eflingu lífs og einkum hvað viðvíkur bein tengsl þeirra við kristið siðferði og fyrirmæli kennsluvalds kirkjunnar”.[132] Háskólar verða einnig að leggja þessu lið með tilteknum hætti, einkum kaþólskir háskólar, og miðstöðvar, stofnanir og samtök á sviði lífsiðfræði.

Mikilvæg og alvarleg ábyrgð heyrir þeim til sem starfa við fjölmiðla og eru þeir kallaðir til að tryggja að boðskapurinn sem þeir breiða út með svo áhrifaríkum hætti styðji menningu lífs. Þeir eiga að sýna göfugar fyrirmyndir lífsins og gefa jákvæðum og stundum kjarkmiklum vitnisburði um kærleika fólks í garð annarra rúm. Þeir eiga einnig að koma á framfæri af virðingu jákvæðum gildum kynferðislífs og mannlegs kærleika en ekki leggja alla áherslu á það sem saurgar og lítillækkar mannlega tign. Þegar þeir túlka atburði ættu þeir ekki að leggja áherslu á neitt það sem gefur til kynna eða ýtir undir tilfinningar eða viðhorf tómlætis, fyrirlitningar eða höfnunar á lífinu. Af skyldurækni við sannleika byggðum á staðreyndum eru þeir kallaðir til að samhæfa upplýsingafrelsið virðingunni fyrir hverri persónu og djúpri tilfinningu fyrir manneðlinu.

99. Við að umbreyta menningunni á þann hátt að hún styðji lífið hafa konur einstakri og afgerandi stöðu að gegna í hugsun og verki. Það hvílir á þeim að efla “nýjan femínisma” sem hafnar þeirri freistingu að breyta eftir fyrirmyndum “karllegrar yfirdrottnunar” en hefur að tilgangi að viðurkenna og staðfesta sanna snilligáfu kvenna á öllum sviðum þjóðfélagslífsins og sigrast á allri mismunun, ofbeldi og misnotkun.

Ég geri lokaorð annars Vatíkanþingsins að mínum þegar ég sný mér til kvenna með þessu brennandi ákalli: “Sættið þjóðirnar með lífinu.”[133] Þið eruð kallaðar til að bera vitni um merkingu sanns kærleika, þess að gefa af sjálfri sér og þeirrar viðurkenningar á öðrum sem á sér stað á sérstakan hátt í samskiptum eiginmanns og eiginkonu en ætti einnig að vera í hjarta allra annarra félagslegra samskipta. Reynslan af því að vera móðir gerir það að verkum að þið berið sterkt skynbragð á aðrar persónur og veitir það ykkur samtímis tiltekið verkefni: “Móðernið felur í sér sérstakt samneyti við leyndardóma lífsins þar sem það þroskast í móðurskauti. … Þessi einstaka snerting við nýja mannveru sem þroskast hið innra í henni orsakar afstöðu mót mannverum, ekki einungis gagnvart eigin börnum hennar heldur öllum mönnum og markar það persónuleika konunnar með djúpum hætti”.[134] Móðir fagnar og ber hið innra í sér aðra mannveru og gerir henni kleift að vaxa inni í sér, gefur henni rými og virðir hana í því sem gerir hana frábrugðna. Konur læra fyrst og kenna síðan öðrum að mannleg samskipti eru sönn ef í þeim felst að vera reiðubúin að meðtaka hina persónuna: persónu sem er viðurkennd og elskuð vegnar þeirrar tignar sem leiðir af því að vera persóna en ekki vegna annarra þátta eins og nytsemi, afls, gáfu, fegurðar og heilbrigði. Hér er grunnurinn að því framlagi sem kirkjan og mannkynið væntir af konum. Og það er nauðsynleg forsenda fyrir sannri menningarbreytingu.

Það er ósk mín að segja nokkur orð við konur sem hafa farið í fóstureyðingu. Kirkjan gerir sér grein fyrir þeim mörgu þáttum sem gætu hafa haft áhrif á ákvörðun ykkar, og hún er ekki í vafa um að í mörgum tilfellum var þetta sársaukafull og þung ákvörðun. Sárið í hjarta ykkar er jafnvel ekki enn gróið. Vissulega var og er það sem gerðist skelfilegt mein. En verið ekki ráðþrota og glatið ekki voninni. Reynið frekar að skilja hvað gerðist og horfist í augu við það af hreinskilni. Leitið iðrunar af auðmýkt og trausti ef þið hafið ekki gert það nú þegar. Faðir miskunnsemdarinnar er reiðubúinn að veita ykkur fyrirgefningu og frið sinn í iðrunarsakramentinu. Þið verðið að skilja að ekkert hefur að eilífu glatast og að ykkur er einnig mögulegt að biðja barn ykkar fyrirgefningar, sem nú býr hjá Drottni. Með vinalegri og faglegri hjálp og ráðum annars fólks, og í framhaldi af ykkar eigin sársaukafullu reynslu, gætuð þið orðið meðal málsnjöllustu verjanda rétts allra til lífs. Fyrir skuldbindingu ykkar í þágu lífsins, hvort sem það verður með fæðingu annarra barna eða með því að taka á móti og annast þá sem þurfa mest á því að halda að einhver sé nærri þeim, munuð þið hafa forgöngu um að litið verði með nýjum hætti á mannlegt líf.

100. Í þessari miklu viðleitni að skapa nýja menningu lífs fáum við innblástur og staðfestu af því trausti sem fæst með þeirri vissu að guðspjall lífsins, líkt og sjálft konungsríki Guðs, vex og ber ríkulegan ávöxt (sbr. Mk 4:26-29). Vissulega er fyrir hendi gríðarlegur munur á milli alls þess auðs sem tiltækur er þeim öflum sem halda á lofti “menningu dauðans” og þeim leiðum sem eru til ráðstöfunar þeim sem starfa í þágu “menningar lífs og kærleika”. En við vitum að við getum reitt okkur á hjálp Guðs sem ekkert er um megn (sbr. Mt 19:26).

Fylltur þessari vissu og hrærður af djúpri umhyggju fyrir hlutskipti sérhvers karls og konu endurtek ég það sem ég sagði við þær fjölskyldur sem inna af hendi kröfuhart erindi sitt mitt í þessum mörgu erfiðleikum:[135]brýn nauðsyn er á mikilli bæn fyrir lífinu, bæn sem upp rís alls staðar í heiminum. Megi fyrir sérstakt frumkvæði og daglegar bænir upp rísa brennandi bón til Guðs, skaparans og elskanda lífsins, frá hverju kristnu samfélagi, frá hverjum hópi og félagi, frá hverri fjölskyldu og frá hjarta hvers þess sem trúir. Jesús hefur sjálfur sýnt okkur með fordæmi sínu að bæn og fasta eru fyrstu og áhrifaríkustu vopnin gegn illum öflum (sbr. Mt 4:1-11). Eins og hann kenndi lærisveinum sínum verða sumir árar ekki reknir út með öðrum hætti (sbr. Mk 9:29). Við skulum því finna á ný auðmýktina og hughreystið að biðja og fasta til að mátturinn af hæðum muni brjóta niður múra lyga og blekkinga: múrana sem byrgja svo mörgum af bræðrum okkar og systrum sýn á illsku þeirrar iðkunnar og laga sem eru fjandsamleg lífinu. Megi þessi sami máttur snúa hjarta þeirra til að þau öðlist staðfestu og takmark sem siðmenning lífs og kærleika mun blása þeim í brjóst.

 

“Þetta skrifum vér til þess að fögnuður vor verði fullkominn” (1Jh 1:4): guðspjall lífsins er ætlað öllu þjóðfélagi mannsins

101. “Þetta skrifum vér til þess að fögnuður vor verði fullkominn” (1Jh 1:4). Opinberun guðspjalls lífsins eru gæði sem okkur eru gefin til að deila með öllum mönnum: til að allir karlar og konur megi eiga samfélag við okkur og við þrenninguna (sbr. 1Jh 1:3). Fögnuður okkar yrði ekki fullkominn ef við brygðumst því að deila þessu guðspjalli með öðrum og hefðum það eingöngu fyrir okkur sjálf. Guðspjall lífsins er ekki aðeins fyrir þá sem trúa: það er fyrir alla. Málefni lífs og vernd þess og efling er ekki einungis umhyggjuefni kristinna manna. Þó að trúin veiti sérstakt ljós og styrk kemur þessi spurning upp í samvisku hvers manns sem leitar sannleikans og ber umhyggju fyrir framtíð mannkynsins. Lífið hefur vissulega gildi sem er heilagt og trúarlegt en það gildi er með engum hætti einungis umhyggjuefni þeirra sem hafa trú. Gildið sem er í veði er gildi sem hver mannleg sál fær skilið í ljósi skynseminnar og er það því óhjákvæmilega umhyggjuefni allra.

Þess vegna mælumst við til þess allt það sem við gerum sem “lýður lífsins og fyrir lífið”, sé túlkað með réttum hætti og að við því sé tekið af velþóknun. Þegar kirkjan lýsir því yfir að skilyrðislaus virðing fyrir réttinum til lífs hjá hverri saklausri persónu – frá getnaði til náttúrulegs dauðdaga – sé einn af þeim máttarstólpum sem hvert siðmenntað þjóðfélag hvílir á, vill hún “einfaldlega styrkja ríki mannsins, ríki sem viðurkennir að það að verja grunnrétt hinnar mannlegu persónu, sérstaklega þeirra sem veikastir eru, sé frumskylda þess”.[136]Guðspjall lífsins er ætlað öllu þjóðfélagi mannsins. Virkur stuðningur við lífið á sinn þátt í að endurnýja þjóðfélagið með því að efla almannaheill. Ekki verður stuðlað að vexti almannaheilla án þess að viðurkenna og verja réttinn til lífs en á honum hvíla og af honum þróast öll önnur óafsalanleg réttindi einstaklinga. Þjóðfélag skortir traustan grunn þegar það annars vegar heldur á lofti gildum eins og tign persónunnar, réttlæti og friði, en starfar hins vegar með gagngerum hætti á móti þeim með því að leyfa eða umbera ýmsar leiðir þar sem mannlegt líf er vanvirt og fótum troðið, sérstaklega þar sem það er veikt eða er á jaðri samfélagsins. Einungis virðing fyrir lífinu getur verið grunnurinn og tryggingin fyrir dýrmætustu og brýnustu gæðum þjóðfélagsins eins og lýðræði og friði.

Ekki verður neitt raunverulegt lýðræði án viðurkenningar á tign hverrar persónu og án virðingar fyrir réttindum hennar.

Og ekki verður heldur neinn sannur friður nema lífið sé varið og eflt. Eins og Páll VI benti á: “Hver glæpur gegn lífinu er árás á friðinn, sérstaklega ef hann heggur að siðferðilegri breytni fólksins. … En þar sem mannréttindi eru sannarlega játuð og opinberlega viðurkennd og varin, verður friðurinn hið fagnandi og virka andrúmsloft lífs í þjóðfélaginu.”[137]

“Lýður lífsins” gleðst yfir því að geta deilt skuldbindingum sínum með svo mörgu öðru fólki. Megi “lýður lífsins” þannig vaxa stöðugt af fjölda og megi ný menning kærleika og samstöðu þróast til sanns hags fyrir allt mannlegt samfélag.

 

 

NIÐURLAG

102. Við lok þessa heimsbréfs er eðlilegt að við lítum aftur til Drottins Jesú, “barnsins sem oss er fætt” (sbr. Jes 9:6), til að við megum íhuga í honum “Lífið” sem “var opinberað” (1Jh 1:2). Í leyndardómi fæðingar Krists á sér stað mót Guðs við manninn og jarðnesk vegferð Sonar Guðs hefst, vegferð sem mun ná hámarki í gjöf hans á lífi sínu á krossinum. Með dauða sínum mun Kristur sigra dauðann og verða öllu mannkyni uppspretta nýs lífs.

Hún sem tók við “Lífinu” í nafni allra og í þágu allra var María, meymóðirin; hún er þannig með nánustum og persónulegustum hætti tengd guðspjalli lífsins. Jáyrði Maríu við boðunina og móðerni hennar eru við sjálft upphaf leyndardóms lífsins sem Kristur kom til að úthella yfir mannkynið (sbr. Jh 10:10). Fyrir meðtöku hennar og elskandi umhyggju á lífi hins holdtekna Orðs hefur mannlegu lífi verið bjargað frá því að vera fyrirdæmt til endanlegs og eilífs dauða.

Af þessum sökum er María, “líkt og kirkjan sem hún er fyrirmynd, móðir allra þeirra sem eru endurfæddir til lífsins. Hún er raunveruleg móðir Lífsins eftir hverju allt lifir og þegar hún ól það í heiminn, endurfæddi hún á vissan hátt alla þá sem skulu lifa af því Lífi”.[138]

Þegar kirkjan íhugar móðerni Maríu finnur hún merkingu eigin móðernis og hvernig hún á að láta það í ljós. Samtímis leiðir reynsla kirkjunnar af móðerninu til mjög djúps skilnings á reynslu Maríu sem hin óviðjafnanlega fyrirmynd þess hvernig fagna beri lífinu og annast það.

 

“Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni” (Opb 12:1): móðerni Maríu og kirkjunnar

103. Hið gagnkvæma samband á milli leyndardóms kirkjunnar og Maríu birtist skýrlega í “tákninu mikla” sem lýst er í Opinberunarbókinni: “Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar, og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum” (12:1). Í þessu tákni þekkir kirkjan mynd eigin leyndardóms; nærverandi í sögunni veit hún að hún teygir sig út fyrir mörk sögunnar að því leyti að hún myndar á jörðu “fyrsta frjóangann” að Guðs ríki.[139] Kirkjan sér leyndardóm þennan uppfylltan fullkomlega í Maríu á þann hátt að til eftirbreytni er. Það er í henni, konu dýrðarinnar, að fyrirætlun Guðs þróast til fullkomnunar.

Opinberunarbókin segir okkur að konan “klædd sólinni” hafi verið “þunguð” (12:2). Kirkjan veit fullvel að hún ber hið innra frelsara heimsins, Krist Drottin. Hún veit að hún er kölluð til að færa Krist heiminum til að endurfæða konur og karla inn í eigið líf Guðs. En kirkjan gleymir því ekki að það var móðerni Maríu sem gerði erindi hennar mögulegt því að hún gat og bar hann sem er “Guð af Guði”, “sannur Guð af sönnum Guði”. María er sannarlega móðir Guðs, Þeotokos; í móðerni hennar er kallið að gerast móðir, sem Guð hefur veitt hverri konu, lyft upp á sitt hæsta stig. Þannig verður María fyrirmynd kirkjunnar, kölluð til að vera hin “nýja Eva”, móðir trúenda Krists, móðir “lifenda” (sbr. 1M 3:20).

Andlegt móðerni kirkjunnar hlýst einungis – og þetta þekkir kirkjan – með sársauka og “hörðum hríðum” barnsburðar (sbr. Opb 12:2), það er að segja, hún er í stöðugri baráttu gegn illum öflum sem enn hvarfla um veröldina og hafa áhrif á mannlegt hjarta til að rísa gegn Kristi: “Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því” (Jh 1:4-5).

Líkt og kirkjan fékk María ekki að lifa móðerni sitt án þjáningar: “Þessi sveinn er settur til … tákns, sem móti verður mælt, og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar” (Lk 2:34-35). Orð Símeons sem hann beindi til Maríu strax við upphaf jarðnesks lífs frelsarans dregur saman og segir fyrir um höfnunina á Jesú, og með honum á Maríu, höfnun sem nær hámarki sínu á Kalvaríufjalli. Þar “hjá krossi Jesú” (Jh 19:25) á Maríu hlut í fórnfæringu Sonarins á sjálfum sér: hún býður fram Jesúm, lætur hann af hendi, getur hann allt til enda fyrir okkar sök. Jáyrðið sem María mælti á boðunardaginn verður fullþroska á krossdeginum þegar tíminn er upp runninn fyrir hana að taka við og geta sem börn sín alla þá sem gerast lærisveinar, úthella yfir þá hinni frelsandi elsku Sonar hennar: “Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: Kona, nú er hann sonur þinn” (Jh 19:26).

 

“Drekinn stóð frammi fyrir konunni … til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt” (Opb 12:4): lífinu ógnað af illum öflum

104. Í Opinberunarbókinni birtist með “tákninu mikla” um “konuna” (12:1) “annað tákn … á himni: mikill dreki rauður” (12:3) sem stendur fyrir Satan, hinn persónulega mátt hins illa, jafnt sem mátt hins illa að störfum í sögunni og er berst gegn erindi kirkjunnar.

Einnig hér varpar María ljósi á samfélag trúaðra. Fjandskapur illra afla er í raun og veru lævís aðför að móður Jesú áður en hún beinist að lærisveinum hans. Til að bjarga lífi Sonar síns undan þeim sem óttast hann og telja að af honum stafi ógn verður María ásamt Jósefi að flýja til Egyptalands með hann (sbr. Mt 2:13-15).

Þannig hjálpar María kirkjunni til að skilja að lífið er ávallt í miðju mikillar baráttu milli góðs og ills, milli ljóss og myrkurs. Drekinn ætlar sér að gleypa “barnið þá er það hafði fæðst” (sbr. Opb 12:4), en það er mynd Krists sem María fæddi “þegar fylling tímans kom” (Gl 4:4) og kirkjan verður látlaust að koma á framfæri við fólk á öllum tímum. En á vissan hátt er barnið einnig mynd hverrar persónu, hvers barns, sérstaklega varnarlauss barns sem hefur lífi sínu ógnað, vegna þess – eins og Vatíkanþingið minnti okkur á – að “með holdtekju sinni sameinaði Sonur Guðs sig á vissan hátt hverjum manni”.[140] Það er einmitt í “holdi” hverrar persónu að Kristur heldur áfram að opinbera sig og á félag við okkur. Þannig er höfnun á mannlegu lífi, í hvaða mynd sem slík höfnun gerist, í raun og veru höfnun á Kristi. Þetta er hinn undursami en einnig kröfuharði sannleikur sem Kristur opinberar okkur og sem kirkja hans prédikar linnulaust: “Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér” (Mt 18:5); “Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér” (Mt 25:40).

 

“Og dauðinn mun ekki framar til vera” (Opb 21:4): dýrð upprisunnar

105. Boðun engilsins til Maríu fylgja þessi hughreystandi orð: “Óttast þú eigi, María” og “Guði er enginn hlutur um megn” (Lk 1:30, 37). Allt líf meymóðurinnar er raunar markað þeirri vissu að Guð er nærri og að hann fylgir henni í forsjálegri umönnun sinni. Þetta sama á við um kirkjuna sem finnur stað “sem Guð hefur búið henni” í eyðimörkinni (Opb 12:6), stað þrenginga en einnig stað birtingar á elsku Guðs til lýðs síns (sbr. Hs 2:15). María er lifandi huggunarorð fyrir kirkjuna í baráttu hennar gegn dauðanum. Kirkjan fullvissar okkur um að máttur dauðans hefur þegar verið sigraður með því að sýna okkur Soninn: “Dauði og líf háðu undursamlegt einvígi, leiðtogi lífsins, látinn, ríkir lifandi.”[141]

Lambið hið slátraða er ber merki píslanna lifir í dýrð upprisunnar. Hann einn er herra yfir öllum atburðum sögunnar: hann leysir “innsigli” hennar (sbr. Opb 5:1) og kunngjörir í tímanum og handan hans mátt lífsins yfir dauðanum. Í hinni “nýju Jerúsalem”, þeim nýja heimi þangað sem öll mannkynssagan er á vegferð, mun “dauðinn ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið” (Opb 21:4).

Og við, lýður Guðs á vegferð sem pílagrímur, lýður lífsins og fyrir lífið, finnum af öryggi leið okkar þangað sem er að finna “nýjan himin og nýja jörð” (Opb 21:1), og við lítum til hennar sem er okkur “tákn öruggar vonar og huggunar”.[142]

Ó, María,
skínandi dögun nýs heims,
Móðir allra sem lifa,
þér felum vér málstað lífsins:
Lít niður og sjá, vor Móðir,
fjölmennan hóp barna
sem fá ekki að fæðast,
fátæka sem gert er erfitt að lifa,
og karla og konur
fórnarlömb grimmilegs ofbeldis.
Sjá aldraða og sjúka sem eru drepnir
sökum tómlætis eða villandi miskunnar.
Veit að allir sem hafa trú á Son þinn
megi prédika guðspjall lífsins
af heiðarleika og kærleika
öllum mönnum vorra tíma.
Gef að þeir öðlist náðina
að meðtaka þetta guðspjall
sem nýja gjöf,
meðtaki fögnuðinn
að halda það af þakklæti
allt sitt líf,
og hafi hughreysti
til að bera því stöðugt vitni
til að geta reist,
ásamt öllum mönnum með góðan vilja,
siðmenningu sannleika og kærleika
til lofs og dýrðar Guði,
elskanda lífsins og skapara þess.

Gert í Péturskirkjunni í Róm á stórhátíð boðunar Drottins
þann 25. mars 1995 á sautjánda ári mínu á páfastóli

Þýðing © Reynir K. Guðmundsson 2005

 


[1] Heitið “guðspjall lífsins” er sem slíkt ekki að finna í heilagri Ritningu en er í samræmi við grundvallarþátt boðskapar Biblíunnar.
[2] Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 22.
[3] Sbr. Jóhannes Páll II, heimsbréf Redemptor hominis (4. mars 1979), 10: AAS 71 (1979), 275.
[4] Sbr. sama, 14: Loc. cit., 285.
[5] Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 27.
[6] Sbr. Bréf til allra bræðra minna á biskupsstóli um “guðspjall lífsins” (19. maí 1991): Insegnamenti XIV, 1 (1991), 1293-1296.
[7] Sama, loc. cit., s. 1294.
[8] Bréf til fjölskyldna, Gratissimam sane (2. febrúar 1994), 4: AAS 86 (1994), 871.
[9] Jóhannes Páll II, heimsbréf Centesimus annus (1. maí 1991), 39: AAS 83 (1991), 842.
[10] Nr. 2259.
[11] Sbr. heilagur Ambrósíus, De Noe, 26:94-96: CSEL 32, 480-481.
[12] Sbr. Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, nr. 1867 og 2268.
[13] De Cain et Abel, II, 10, 38: CSEL, 32, 408.
[14] Sbr. Stjórnardeild trúarkenninga, tilsögn í virðingu fyrir mannlegu lífi við upphaf þess og verðleika getnaðar Donum vitae: AAS 80 (1988), 70-102.
[15] Ávarp við bænavöku á áttunda heimsdegi æskunnar, Denver 14. ágúst 1993, II, 3: AAS 86 (1994), 419.
[16] Jóhannes Páll II, ávarp til þátttakenda á rannsóknarráðstefnu um “Réttinn til lífs í Evrópu”, 18. desember 1987: Insegnamenti, X, 3 (1987), 1446-1447.
[17] Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 36.
[18] Sbr. sama, 16.
[19] Sbr. heilagur Gregoríus mikli, Moralia in Job, 13, 23: CCL 143A, 683.
[20] Jóhannes Páll II, heimsbréf Redemptor hominis (4. mars 1979), 10: AAS 71 (1979), 274.
[21] Annað Vatíkanþingið, Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 50.
[22] Reglugerð um hina guðlegu opinberun, Dei verbum, 4.
[23] “Gloria Dei vivens homo”: Adversus haereses, IV, 20, 7: SCh 100/2, 648-649.
[24] Annað Vatíkanþingið, Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 12.
[25] Játningar, I, 1: CCL 27, 1.
[26] Exameron, VI, 75-76: CSEL 32, 260-261.
[27] “Vita autem hominis visio Dei”: Adversus haereses, IV, 20, 7: SCh 100/2, 648-649.
[28] Sbr. Jóhannes Páll II, heimsbréf Centesimus annus (1. maí 1991), 38: AAS 83 (1991), 840-841.
[29] Jóhannes Páll II, heimsbréf Sollicitudo rei socialis (30. desember 1987), 34: AAS 80 (1988), 560.
[30] Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 50.
[31] Bréf til fjölskyldna Gratissimam sane (2. febrúar 1994), 9: AAS 86 (1994), 878; sbr. Píus XII, heimsbréf Humani generis (12. ágúst 1950): AAS 42 (1950), 574.
[32] “Animas enim a Deo immediate creari catholica fides nos retinere iubet”: Píus XII, heimsbréf Humani generis (12. ágúst 1950): AAS 42 (1950), 575.
[33] Annað Vatíkanþingið, Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 50; sbr. Jóhannes Páll II, postulleg hvatning eftir synódus Familiaris consortio (22. nóvember 1981), 28: AAS 74 (1982), 114.
[34] Homilies, II, 1; CCSG 3, 39.
[35] Sjá til dæmis Sálmana 22:10-11; 71:6; 139:13-14.
[36] Expositio Evangelii secundum Lucam, II, 22-23: CCL, 14, 40-41.
[37] Heilagur Ignatíus frá Antíokkíu, Bréf til Efesusmanna, 7, 2: Patres Apostolici, ritst. F. X. Funk, II, 82.
[38] De Hominis opificio, 4: PG 44, 136.
[39] Sbr. heilagur Jóhannes frá Damaskus, De fide orthodoxa, 2, 12: PG 94, 920.922, haft eftir af heilögum Tómasi frá Akvínó í Summa theologiae, I-II, formála.
[40] Páll VI, heimsbréf Humanae vitae (25. júlí 1968), 13: AAS 60 (1968), 489.
[41] Stjórnardeild trúarkenninga, tilsögn í virðingu fyrir mannlegu lífi við upphaf þess og verðleika getnaðar Donum vitae (22. febrúar 1987), inngangur nr. 5: AAS 80 (1988), 76-77; sbr. Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, nr. 2258.
[42] Didache, I, 1; II, 1-2; V, 1 og 3: Patres Apostolici, ritst. F.X. Funk, I 2-3, 6-9, 14-17; sbr. Bréf Barnabasar, XIX, 5: loc. cit., 90-93.
[43] Sbr. Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, nr. 2263-2269, sbr. einnig Trúfræðslurit kirkjuþingsins í Trent III §§ 327-332.
[44] Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, nr. 2265.
[45] Sbr. heilagur Tómas frá Akvínó, Summa theologiae II-II, sp. 64, a. 7; heilagur Alfonsíus frá Liguori, Theologia moralis, I, III, tr. 4, c. 1, dub. 3.
[46] Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, nr. 2266.
[47] Sbr. sama.
[48] Nr. 2267.
[49] Annað Vatíkanþingið, Kenningarbundin reglugerð um kirkjuna Lumen gentium 12.
[50] Sbr. annað Vatíkanþingið, Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 27.
[51] Sbr. annað Vatíkanþingið, Kenningarbundin reglugerð um kirkjuna Lumen gentium 25.
[52] Stjórnardeild trúarkenninga Yfirlýsing um líknardráp Iura et Bona (5. maí 1980), II: AAS 72 (1980), 546.
[53] Jóhannes Páll II, heimsbréf Veritatis splendor (6. ágúst 1993), 96: AAS 85 (1993), 1209.
[54] Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 51: “Abortus necnon infanticidium nefanda sunt crimina.”
[55] Sbr. Jóhannes Páll II, postullegt bréf Mulieris dignitatem (15. ágúst 1988), 14: AAS 80 (1988), 1686.
[56] Nr. 21: AAS 86 (1994), 920.
[57] Stjórnardeild trúarkenninga, Yfirlýsing um fóstureyðingar (18. nóvember 1974), nr. 12-13: AAS 66 (1974), 738.
[58] Stjórnardeild trúarkenninga, tilsögn í virðingu fyrir mannlegu lífi við upphaf þess og verðleika getnaðar Donum vitae (22. febrúar 1987), I, nr. 1: AAS 80 (1988), 78-79.
[59] Sama, loc. cit., 79.
[60] Þetta segir Jeremía spámaður: “Orð Drottins kom til mín: “Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig. Ég hefi ákvarðað þig til að vera spámann þjóðanna!”” (1:45). Sálmaskáldið ávarpar Drottin með þessum orðum: “Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt” (Sl 71:6; sbr. Jes 46:3; Jb 10:8-12; Sl 22:10-11). Við höfum einnig hina mikilfenglegu frásögn Lúkasar guðspjallamanns af fundi mæðranna tveggja, Elísabetar og Maríu, og sona þeirra Jóhannesar skírara og Jesú sem enn voru huldir í skauti mæðra sinna (sbr. 1:39-45). Lúkas leggur áherslu á að jafnvel fyrir fæðingu sína gátu hinir örsmáu drengir haft samskipti hvor við annan: barnið þekkir komu Barnsins og tekur viðbragð af fögnuði.
[61] Sbr. Yfirlýsing um fóstureyðingar (18. nóvember 1974), nr. 7: AAS 66 (1974), 740-747.
[62] “Legg eigi stund á … fóstureyðingar eða ungbarnadráp”: V, 2: Patres Apostolici, ritst. F.X. Funk, I, 17.
[63] Apologia on behalf of the Christians (Trúvörn af hálfu kristinna manna),35: PG 6, 969.
[64] Apologeticum, IX, 8: CSEL 69, 24.
[65] Sbr. heimsbréf Casti connubii (31. desember 1930), II: AAS 22 (1930), 562-592.
[66] Ávarp til Líf- og læknisfræðisamtakanna “San Lucia” (12. nvóvember 1944): Discorsi e Radiomessaggi, VI (1944-1945), 191; sbr. ávarp til samtaka kaþólskra ljósmæðra á Ítalíu (29. október 1951), nr. 2: AAS 43 (1951), 838.
[67] Heimsbréf Mater et Magistra (15. maí 1961), 194: AAS 53 (1961), 447.
[68] Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 51.
[69] Kanón 2350, § 1.
[70] Kirkjuréttur, kanón 1378; sbr. kirkjuréttur fyrir austurkirkjurnar, kanón 1450 § 2.
[71] Sbr. sama, kanón 1329, sjá einnig kirkjurétt fyrir austurkirkjurnar, kanón 1417.
[72] Sbr. ávarp til þjóðarþings ítalskra lögmanna (9. desember 1972): AAS 64 (1972), 777; heimsbréf Humanae vitae (25. júlí 1968), 14: AAS 60 (1968), 490.
[73] Sbr. annað Vatíkanþingið, Kenningarbundin reglugerð um kirkjuna, Lumen gentium, 25.
[74] Stjórnardeild trúarkenninga, tilsögn í virðingu fyrir mannlegu lífi við upphaf þess og verðleika getnaðar Donum vitae (22. febrúar 1987), I, 3: AAS 80 (1988), 80.
[75] Sbr. Réttindaskrá fjölskyldunnar (22. október 1983), grein 4b.
[76] Stjórnardeild trúarkenninga, Yfirlýsing um líknardráp Iura et Bona (5. maí 1980), II: AAS 72 (1980), 546.
[77] Sama, IV: loc. cit., 551.
[78] Sbr. sama.
[79] Píus XII, Ávarp til alþjóðlegs hóps lækna (24. febrúar 1957); III: AAS 49 (1957), 147; sbr. Stjórnardeild trúarkenninga, Yfirlýsing um líknardráp Iura et Bona (5. maí 1980), II: AAS 72 (1980), 547-548.
[80] Píus XII, Ávarp til alþjóðlegs hóps lækna (24. febrúar 1957); III: AAS 49 (1957), 145.
[81] Sbr. Píus XII, Ávarp til alþjóðlegs hóps lækna (24. febrúar 1957); III: AAS 49 (1957): loc. cit., 129-147; Stjórnardeild embættisins helga, Decretum de directa insontium occisione (2. desember 1940): AAS 32 (1940), 553-554; Páll VI, Orðsending til franska sjónvarpsins: “Sérhvert líf er heilagt” (27. janúar 1971): Insegnamenti IX (1971), 57-58; Ávarp til alþjóðlegs félagshóps handlækna (1. júní 1972): AAS 64 (1972), 432-436; Annað Vatíkanþingið, Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 27.
[82] Sbr. annað Vatíkanþingið, Kenningarbundin reglugerð um kirkjuna Lumen gentium, 25
[83] Sbr. heilagur Ágústínus, De Civitate Dei I, 20: CCL 47, 22; heilagur Tómas frá Akvínó, Summa theologiae, II-II, sp. 6, a. 5.
[84] Stjórnardeild trúarkenninga, Yfirlýsing um líknardráp Iura et Bona (5. maí 1980), I: AAS 72 (1980), 545; Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, nr. 2281-2283.
[85] Ep. 204, 5: CSEL 57, 320.
[86] Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 18.
[87] Sbr. Jóhannes Páll II, postullegt bréf Salvifici doloris (11. febrúar 1984), 14-24: AAS 76 (1984), 214-234.
[88] Sbr. Jóhannes Páll II, heimsbréf Centesimus annus (1. maí 1991), 46: AAS 83 (1991), 850; Píus XII, jólaboðskapur (24. desember 1944): AAS 37 (1945), 10-20.
[89] Sbr. Jóhannes Páll II, heimsbréf Veritatis splendor (6. ágúst 1993), 97 og 99: AAS 85 (1993), 1209-1211.
[90] Stjórnardeild trúarkenninga, tilsögn í virðingu fyrir mannlegu lífi við upphaf þess og verðleika getnaðar Donum vitae (22. febrúar 1987), III: AAS 80 (1988), 98.
[91] Sbr. annað Vatíkanþingið, Yfirlýsing um trúfrelsi Dignitaris humanae, 7.
[92] Sbr. heilagur Tómas frá Akvínó, Summa theologiae I-II, sp. 96, a 2.
[93] Sbr. annað Vatíkanþingið, Yfirlýsing um trúfrelsi Dignitaris humanae, 7.
[94] Heimsbréf Pacem in terris (11. apríl 1963), II: AAS 55 (1963), 273-274. Tilvitnun í Píus XII, útvarpserindi á hvítasunnu 1941 (1. júní 1941): AAS 33 (1941), 200. Um þetta atriði vitnar heimsbréfið í: Píus XI, heimsbréf Mit brennender Sorge (14. mars 1937): AAS 29 (1937), 159; heimsbréf Divini redemptoris (19. mars 1937), III: AAS 29 (1937), 79; Píus XII, útvarpserindi á jólum (24. desember 1942); AAS 35 (1943), 9-24.
[95] Heimsbréf Pacem in terris (11. apríl 1963), II: loc. cit., 271.
[96] Summa theologiae, I-II, sp. 93 a. 3, ad 2um.
[97] Sama, I-II, sp., 95, a 2. Tómas vitnar í heilagan Ágústínus: “Non videtur esse lex, quae iusta non fuerit”, De Libero Arbitrio, I, 5, 11: PL 32, 1227.
[98] Stjórnardeild trúarkenninga, Yfirlýsing um fóstureyðingar (18. nóvember 1974), nr. 22: AAS 66 (1974), 744.
[99] Sbr. Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, nr. 1753-1755; Jóhannes Páll II, heimsbréf Veritatis splendor (6. ágúst 1993), 81-82: AAS 85 (1993), 1198-1199.
[100] In Iohannis Evangelium Tractatus 41, 10: CCL 36, 363; sbr. Jóhannes Páll II, heimsbréf Veritatis splendor (6. ágúst 1993), 13: AAS 85 (1993), 1144.
[101] Postulleg hvatning Evangelii nuntiandi (8. desember 1975), 14: AAS 68 (1976), 13.
[102] Sbr. rómversk kaþólska messubókin, bæn prestsins fyrir bergingu.
[103] Sbr. heilagur Íreneus: “Omnem novitatem attulit, semetipsum afferens, qui fuerat annuntiatus”, Adversus haereses: IV, 34, 1: SCh 100/2, 846-847.
[104] Sbr. heilagur Tómas frá Akvínó: “Peccator inveterascit, recedens a novitare Christi”, In Psalmos Davidis Lectura: 6, 5.
[105] De Beatitudinibus, Oratio VII: PG 44, 1280.
[106] Sbr. Jóhannes Páll II, heimsbréf Veritatis splendor (6. ágúst 1993), 116: AAS 85 (1993), 1224.
[107] Sbr. Jóhannes Páll II, heimsbréf Centesimus annus (1. maí 1991), 37: AAS 83 (1991), 840.
[108] Sbr. jólaboðskapur 1967: AAS 60 (1968), 40.
[109] Skrök-Díónýsíus Areopagus, Um hin guðdómlegu nöfn, 6, 1-3: PG 3, 856-857.
[110] Páll VI, Pensiero alla Morte, Instituto Paolo VI, Brescia 1988, 24.
[111] Jóhannes Páll II, hómilía við upptöku á Isidore Bakanja, Elisabetta Canori Mora og Gianna Beretta Molla til tölu blessaðra (24. apríl 1994): L ‘Osservatore Romano, 25-26. apríl 1994, 5.
[112] Sama.
[113] In Matthaeum, Hom. L, 3: PG 58, 508.
[114] Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, nr. 2372.
[115] Jóhannes Páll II, ávarp til fjórðu almennu ráðstefnu biskupa frá Rómönsku Ameríku í Santo Domingo (12.október 1992), nr. 15: AAS 85 (1993), 819.
[116] Sbr. Tilskipun um samkirkjustarf Unitatis redintegratio, 12; Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans Gaudium et spes, 90.
[117] Jóhannes Páll II, postulleg hvatning eftir synódusfund Familiaris consortio (22. nóvember 1981), 17: AAS 74 (1982), 100.
[118] Sbr. annað Vatíkanþingið, Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans Gaudium et spes, 50.
[119] Jóhannes Páll II, heimsbréf Centesimus annus (1. maí 1991), 39: AAS 83 (1991), 842.
[120] Jóhannes Páll II. Ávarp til þátttakenda á sjöunda málþingi evrópskra biskupa undir yfirskriftinni “Nútímaviðhorf gagnvart lífi og dauða: áskorun um að boða fagnaðarboðskapinn” (17. október 1989), nr. 5: Insegnamenti XII 2 (1989), 945. Samkvæmt biblíuhefð eru börnin einmitt sögð vera gjöf Guðs (sbr. Sl 127:3) og eru þau tákn um blessun hans til þeirra er ganga á vegum hans (sbr. Sl 128:3-4).
[121] Jóhannes Páll II, heimsbréf Sollicitudo rei socialis (30. desember 1987), 38: AAS 80 (1988), 565-566.
[122] Jóhannes Páll II, postulleg hvatning eftir synódusfund Familiaris consortio (22. nóvember 1981), 86: AAS 74 (1982), 188.
[123] Páll VI, postulleg hvatning Evangelii nuntiandi (8. desember 1975), 18: AAS 68 (1976), 17.
[124] Sbr. sama, 20: loc. cit., 18.
[125] Sbr. annað Vatíkanþingið, Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans Gaudium et spes, 24.
[126] Sbr. Jóhannes Páll II, heimsbréf Centesimus annus (1. maí 1991), 17: AAS 83 (1991), 814. heimsbréf Veritatis splendor (6. ágúst 1993), 95-101: AAS 85 (1993), 1208-1213.
[127] Jóhannes Páll II, heimsbréf Centesimus annus (1. maí 1991), 24: AAS 83 (1991), 882.
[128] . Jóhannes Páll II, postulleg hvatning eftir sýnódus Familiaris consortio (22. nóvember 1981), 37: AAS 74 (1982), 128.
[129] Stofnsetningarbréf heimsdags sjúklinga (13. maí 1992), nr. 2: Insegnamenti XV, 1 (1992), 1410.
[130] Sbr. annað Vatíkanþingið, Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 35.; Páll VI, heimsbréf Populorum progressio (26. mars 1967), 15: AAS 59 (1967), 265.
[131] Sbr. Jóhannes Páll II, Bréf til fjölskyldna, Gratissimam sane (2. febrúar 1994), 13: AAS 86 (1994), 892.
[132] Jóhannes Páll II, Motu Proprio Vitae Mysterium (11. febrúar 1994), 4: AAS 86 (1994), 386-387.
[133] Lokaávarp Vatíkanþingsins (8. desember 1965): Til kvenna.
[134] Jóhannes Páll II, postullegt bréf Mulieris dignitatem (15. ágúst 1988), 18: AAS 80 (1988), 1696.
[135] Sbr. Jóhannes Páll II, Bréf til fjölskyldna, Gratissimam sane (2. febrúar 1994), 5: AAS 86 (1994), 872.
[136] Jóhannes Páll II, ávarp til þátttakenda á rannsóknarráðstefnu um “Réttinn til lífs í Evrópu”, 18. desember 1987: Insegnamenti, X, 3 (1987), 1446.
[137] Boðskapur fyrir Heimsfriðardaginn 1977: AAS 68 (1976), 711-712.
[138] Blessaður Guerric frá Igny, In Assumptione B. Mariae, Sermo I, 2: PL 185, 188.
[139] Annað Vatíkanþingið, Kenningarbundin reglugerð um kirkjuna Lumen gentium 5.
[140] Hirðisreglugerð um kirkjuna í heimi nútímans, Gaudium et spes, 22.
[141] Rómversk kaþólska messubókin, sekvensía fyrir páskadag.
[142] Annað Vatíkanþingið, Kenningarbundin reglugerð um kirkjuna Lumen gentium 68.

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: