Ættleiðing – ekki fóstureyðing


Hæ, ég heiti Denise. Ég hef reynt bæði ættleiðingu og fóstureyðingu. Ég var 18 ára og í menntaskóla þegar ég komst að því að ég var þunguð. Ég hafði stundað kynlif án getnaðarvarna og hafði aldrei dottið í hug að ég yrði ófrísk. Ég var farin að heiman og allt gekk mér í hag. Foreldrar mínir borguðu skólavist mína og ég bjó ein.

Allt sem ég gat hugsað um þá, var að ég vildi ekki missa neitt sem ég hafði. Ég vildi vera frjáls og ekki bundin neinu eða neinum. Ég var sjálfhverf, eins og flestar stelpur eru á þessum aldri. Ég hugsaði aðeins um sjálfa mig. Ég var alin upp í trú á Guð, en hafði ekki farið í kirkju í mörg ár og átti ekkert persónulegt samband við hann. Ég fór í Planned Parenthood til þess að fá ókeypis þungunarpróf. Ráðgjafi fór yfir niðurstöðuna með mér. Hún útskýrði að þar sem þetta væri greinilega óundirbúin þungun og mér gengi allt í haginn, væri eini kosturinn fóstureyðing. Þar sem ég var svo sjálfhverf og einföld, trúði ég henni. Ég fékk fóstureyðingu, komin um 6 vikur á leið.

Stuttu eftir fóstureyðinguna sökk ég í djúpt þunglyndi. Ég hætti í skóla og reifst við foreldra mína. Ég átti ofbeldisfullann og svikulan kærasta og ég var vansæl. Mér var orðið sama um sjálfa mig. Ég hafði sjálfsmorðshugsanir og var kaldlynd. Tveimur mánuðum seinna varð ég þunguð á ný (í þetta skipti á pillunni). Ég gat ekki einu sinni hugsað mér að ganga í gegn um sársaukann og þjáninguna, sem önnur fóstureyðing hefði í för með sér. Það var erfitt að segja foreldrum mínum að ég væri ólétt. Þau höfðu aldrei vitað (og vita ekki enn) um fyrri þungunina. Þegar ég sagði föður mínum þetta, leit hann á mig með tilfinningaríkum augum (og faðir minn var ekki vanur að sýna neinar tilfinningar) og sagði: “ekki gera neitt svo hræðilegt eins og að fara í fóstureyðingu”. Ég fékk hnút í magann. Kærasti minn hótaði að drepa mig ef ég gengi með barnið, svo hótaði hann að drepa mig ef ég héldi barninu. Allir “vinir” mínir (já, hvar eru þeir núna?) hvöttu mig til að fara í fóstureyðingu. Ég talaði við eina sem notaði fóstureyðingu sem eins konar getnaðarvörn. Mig langaði til að æla við tilhugsunina um hana gera það. Svo hitti ég samstarfskonu mína sem vildi segja mér svolítið frábært. Hún dró upp mynd af lítilli stúlku sem var um þriggja ára gömul. Hún sagði: “þetta er dóttir mín. Ég gaf hana til ættleiðingar við fæðingu.”

“Ættleiðing?”, hugsaði ég. Já, af hverju hafði mér ekki dottið það í hug fyrr. Ég var jú sjálf ættleidd. Móðir mín hafði elskað mig nóg til að gefa mér líf, eins og Guð hafði ætlast til! Þá gerði ég upp hug minn. Það var ekki auðvelt. Um það bil einum mánuði eftir að ég komst að því að ég var þunguð var ég kominn með nýjan yndislegan kærasta. Hann bauðst til að vera með mér og jafnvel hjálpa mér að ala upp barnið ef ég vildi. Ég sagði honum að ég væri allt of óþroskuð og ístöðulaus til að ala upp barn þá. Ég áleit líka að barn þyrfti tvo foreldra ef það væri mögulegt og þar sem við vorum bara nýbyrjuð saman gat ég ekki skuldbundið mig þannig. Ég fann mér lögfræðing og byrjaði að leita að foreldrum. Ég var ættleidd í lokaðri ættleiðingu, en nú getur þú valið mjög opna ættleiðingu og tekið allar ákvarðanir sjálf. Ég leit á nokkrar umsóknir og valdi par sem ég hélt að mundi verða mjög góðir foreldrar. Ég hitti þau og við töluðum saman í síma nokkrum sinnum á meðan meðgöngunni stóð. Þau hjálpuðu til fjárhagslega af því að kærasti minn var í mjög illa launaðri vinnu og ég var á öryrkjabótum. Þau vildu vera viss um að ég færi í allar mæðraskoðanirnar og borðaði hollan mat. (Ég borðaði OF hollan mat, ég þyngdist um 95 pund). Ég var nokkrum sinnum ásökuð (sérstaklega af ungum mæðrum) um að ég væri að selja barnið mitt og ég væri hræðileg manneskja. Ég hélt höfði, ég vissi að ég væri að gera rétt.

Þann 7. maí, 1990 fæddi ég fallegt 8 punda stúlkubarn. Kjörforeldrarnir komu eins fljótt og þeir gátu. Þau þökkuðu mér af öllu hjarta fyrir að gefa þeim tækifæri til að eignast loksins sitt eigið barn. Mér leið yndislega!!! Kærasti minn og ég giftum okkur nokkru síðar. Nú eru liðin tíu ár og við eigum tvo yndislega drengi. Ég mun alltaf iðrast þess að vera ábyrg fyrir að hafa tekið líf fyrsta barns míns (fóstureyðing). Ég hef aldrei iðrast þess að hafa gefið líf til hjóna sem verðskulduðu það. Ég fæ myndir á hverju ári og þar sem þetta var opin ættleiðing getum við alltaf náð til hvors annars ef það skyldi reynast nauðsynlegt. Ég vildi að ekki væri svona litið niður á ættleiðingar. Ég vildi að það væri boðið upp á það, á stöðum eins og Planned Parenthood, jafn fúslega og þeir bjóða fóstureyðingar. ættleiðing skilur ekki eftir sig iðrun, en það gerir fóstureyðing. Svo einfalt er það! Að stunda ábyrgt kynlíf eða halda sig frá því fram að hjónabandi myndi líka hjálpa til! Lofum Guð fyrir að leyfa mér ekki að gera sömu mistökin tvisvar!!

Takk fyrir að hlusta. Þetta er í fyrsta skipti sem ég segi þessa sögu. Mér líður vel eftir það. Ég vona að ég geti hjálpað einhverjum þarna úti…

Denise
niecee11@hotmail.com
Mars 1999


Upprunalega greinin á ensku, ásamt fleiri frásögnum

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: