Dauðarefsing


Kaþólska kirkjan er á móti dauðarefsingum, nema þar sem ekki eru til önnur ráð til þess að vernda almenning fyrir hættulegum glæpamönnum. Ég er líka á móti dauðarefsingum. Það er margt sem mælir gegn þeim. Ein ástæðan er að dauðarefsingar gefa fólki þá ranghugmynd að hægt sé að leysa vanda með því að deyða fólk, og að manndráp af yfirlögðu ráði, séu einhvern tíman réttlætanleg. Baráttan gegn fóstureyðingum og líknardrápi er líka einmitt barátta gegn þess háttar ranghugmyndum. Það er því eðlilegt fyrir lífsverndarsinna að vera einnig á móti dauðarefsingum.

Sem betur fer eru engar dauðarefsingar lengur hér á Íslandi, en engu að síður er nauðsynlegt að mótmæla þeim þar sem þær eru enn gerðar í heiminum. Þær hefðbundnu réttlætingar sem hafa verið færðar fyrir dauðarefsingum eru: bætur fyrir glæpinn, fælingarmáttur og verndun samfélagsins.

Bætur fyrir glæpinn
Það er óviðunandi og ósanngjarnt að afbrotamönnum sé ekki refsað. En þær refsingar eiga ekki að snúast um að skaða afbrotamanninn líkamlega eða drepa hann. Jafnvel þótt hann hafi pyntað og drepið fórnalamb sitt, á samfélagið ekki að pynta og drepa hann í staðinn. Það gæti ef til vill fullnægt einhverri hefndarþrá sem við fyndum til, en það væri ekki kristileg nálgun á refsingu glæpamanna.

Fælingarmáttur
Það hefur verið sýnt fram á það með mörgum rannsóknum að dauðarefsingar fæla ekki glæpamenn frá því að fremja glæpi, né fækka þeim.
Sjá nánar

Verndun samfélagsins
Ef það væri ekki hægt að vernda samfélagið á annan hátt en að taka hættulegan glæpamann af lífi, þá væri það réttlætanlegt. Jóhannes Páll páfi II bendir hins vegar á í riti sínu, Evangelium Vitae (grein 56): “Á okkar dögum aftur á móti, vegna stöðugra endurbóta á fangelsiskerfinu, eru slík tilvik mjög sjaldgæf ef ekki beinlínis úr sögunni.” Jóhannes Páll II páfi og kardínálar hans hafa oft talað fyrir afnámi dauðarefsinga. Ég tek heilshugar undir það.

Ég vil hins vegar taka skírt fram, til að forðast misskilning, að fóstureyðing er mikið alvarlegri glæpur en dauðarefsing, því litla barnið er algerlega saklaust. Fóstureyðing er aldrei réttlætanleg og er alltaf alvarleg synd án tillits til aðstæðna. En dauðarefsingu er þó hægt að réttlæta á einn hátt, en það er ef það er eina ráðið til að vernda almenning fyrir hættulegum glæpamönnum.

© Magnús Ingi Sigmundsson

Fleiri greinar
Úr trúfræðsluriti Kaþólsku kirkjunnar varðandi dauðarefsingar

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: