Fóstureyðing


  1. Það er rangt að drepa mannveru.
  2. Fóstur er mannvera.
  3. Það er rangt að drepa fóstur.

Þeir sem eru fylgjandi því að fóstureyðingar séu jafn frálsar og þær eru, mótmæla gjarnan síðari forsendunni. Að fóstur sé ekki mannvera. Oft ræða þeir um “frumuklasa” til að leggja áherslu á þá skoðun sína og fyrtast þegar notuð eru orðin “ófætt barn”. En þótt sýnt sé fram á að fóstur sé mannvera frá getnaði virðist það stundum ekki hafa nein áhrif á þá sem eru búnir að ákveða að fylgja fóstureyðingum. Stundum finnst manni eins og sumir séu jafnvel ósammála fyrstu forsendunni líka, að það sé rangt að drepa mannveru. Þá er nánast útilokað að sannfæra viðkomandi.

Hver er þá skilgreining á því hvenær fóstur verður að mannveru? Sumir segja þegar fóstur nær einhverju vissu þroskastigi sem þeir telja skilji að það sem þeir kalla “frumuklasa” annars vegar og fóstur hinsvegar (ca 1 mánuður), aðrir þegar heilastarfsemi verður mælanleg (ca 1½ mánuður), aðrir þegar barnið er orðið nógu þroskað til að geta lifað utan líkama móður sinnar (ca 6 mánuðir). Enn aðrir segja þegar barn fæðist. Allt er þetta úr lausu lofti gripið og bollaleggingar hvers og eins. Ekki er hægt að rökstyðja af hverju þeirra mat, en ekki annara eigi að skera úr um þetta. Hin raunverulega spurning er: Hver hefur siðferðilegan rétt til að dæma um slíkt?

Hefur móðirin þann siðferðilega rétt? Það er mjög líklegt að sá dómur myndi endurspegla hennar eigin aðstæður og hvaða áhrif tilvist barns muni hafa á hennar líf, en að það væri ekki hlutlaust mat á hvort barnið sé mannvera. Það er ekki hægt að láta slíkt ráða því hvort einhver einstaklingur dæmist vera mannvera eða ekki.

Hefur meirihluti samfélags rétt fyrir sér? Sum samfélög hafa lögbundið mikið óréttlæti, eins og til dæmis þar sem konur eru grýttar til bana fyrir ýmis skírlífisbrot. Það er líka hægt að nefna önnur dæmi, svo sem um lögbundin mismunun kynþátta sem er samþykktur af viðkomandi samfélagi, og margt fleira. Það er ekki hægt að fullyrða að eitthvað sé siðferðilega réttlátt, þótt meirihluti samfélags telji svo vera, eða láti það að minnsta kosti óáreitt.

Eru það þá vísindamenn sem geta skorið úr um það? Þeir geta sagt okkur allt um hvenær okfruma festist við slímhúð legsins, hvenær útlimir og höfuð verður greinanlegt, hvenær hjarta byrjar að slá, hvenær heilastarfsemi verður mælanleg, o.s.f. Þeir geta þó ekki tekið sér það siðferðislega vald að dæma um það hvenær fóstrið verður að mannveru.

Niðurstaðan er að enginn hefur siðferðilegan rétt til að ákveða slíkt. Enginn getur tekið það sér vald í hendur. Þá er aðeins rökrétt að þar sem líffræðilegt upphaf fósturs er getnaður, að upphaf “mannverunar” sé þar líka. Það er ekki hægt að staðsetja neinn annan tímapunkt þegar mannvera verður til.

 

  1. Líffræðilegt upphaf fósturs er getnaður
  2. Enginn hefur siðferðilegan rétt til að staðsetja upphaf mannveru annars staðar en við líffræðilegt upphaf.
  3. Upphaf mannveru er getnaður
  4. Fóstur er alltaf mannvera.

Ef við erum komin á þá niðurstöðu að fóstur sé mannvera, þá fylgir næsta niðurstaða óhjákvæmilega á eftir:
Það er rangt að drepa fóstur. (Það er að segja ef viðkomandi er sammála að það sé rangt að drepa mannveru)

Fyrir þá sem enn eru í vafa um að þetta sé rétt ályktun býð ég að hugsa þetta á eftirfarandi hátt: Þar sem líffræðilegt upphaf ófædds barns er getnaður, þá er upphaf mannveru líklega það sama. Ófætt barn erlíklega alltaf mannvera og þá er aðeins siðferðilega réttlátt að láta vafann liggja þeim megin að ekki sé bundinn endi á líf sem líklega er líf mannveru.

Ófædda barnið hefur sama rétt til að lifa og allar aðrar mannverur og er rangt að drepa það. Aðstæður móður þess skiptir ekki máli. Meintir fæðingargallar skipta ekki máli. Engar ástæður skipta máli. Það er engin leið að réttlæta eyðingu á barni út frá kringumstæðum móðurinnar, alveg sama hversu mikla samúð maður hefur með henni. Alveg sama hversu það kæmi henni illa ef það fengi að lifa.

Til dæmis þótt barn sé getið í nauðgun, þótt barnið verði vanskapað eða fatlað, þótt móðirin væri óhæf til að annast það. Ef menn skoða málin út frá sjónarmiði ófædda barnsins, skiptir allt þetta engu máli. Ef réttur barnsins til að vera mannvera, með rétt til að lifa, er virtur skiptir allt hitt engu máli. Allt hitt er hvort sem hægt að leysa á einhvern hátt annan en með fóstureyðingu.

Þegar móðirin er að uppgötva að hún sé komin fram yfir á blæðingum og tekur þungunarprófið, þá er litla hjartað farið að slá og heilastarfsemi komin í gang. Hjartað byrjar að slá um það bil þremur vikum eftir getnað og heilastarfsemi mælist eftir sex vikur. Nýr einstaklingur, sem er einstakur í heiminum, hefur byrjað líf sitt. Hann fæðist ekki aftur. Ef hann fær að halda lífi verður hann einn daginn fullorðinn maður eða kona.

 

Flestar fóstureyðingar á Íslandi eiga sér stað á seinni hluta 2. mánaðar eða á þriðja mánuði. Þær eru leyfðar fyrstu fjóra mánuði meðgöngu og jafnvel enn seinna ef miklar líkur séu á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.

Nokkrar tölulegar staðreyndir:

Á árunum 1971 til 1975 voru að meðaltali 203 fóstrum eytt á hverju ári eða 4% af öllum fóstrum.
Á árunum 1981 til 1985 var hlutfallið komið upp í 14% eða 670 fóstureyðingar ári.
Á árinu 1999 voru 945 fóstrum eytt hér á Íslandi, eða 19% . Það eru 18 fóstur á hverri viku.

Nokkrar vísindalegar staðreyndir:

10 dagar: Fósturvísir festist við slímhúð legs
22 dagar: Hjartsláttur finnst.
40 dagar: Heilastarfsemi verður mælanleg.
2 mánaða: öll líkamsstarfssemi er virk. Börn á þessu aldursstigi hafa sést sjúga þumalfingurinn í sónartæki.
3 mánaða: Barnið getur heyrt.
4-5 mánaða: Barnið getur sparkað nógu fast til að móðir þess finni það.

Ef einhver les skrif mín sem er að hugsa um að fara í fóstureyðingu þá segi ég þetta við hana:

Vísaðu þessari hugmynd frá þér strax og hugsaðu ekki einu sinni um þetta sem möguleika til lausnar vanda þínum. Þú ert ófrísk og ekkert við því að gera. Þú getur ekki annað gert en að ganga með þetta barn og eiga það. Þá getur þú gefið það til ættleiðingar, eða reynt að ala það upp sjálf. Hlutirnir eru oft ekki eins erfiðir og maður ímyndar sér. En að gera þetta ætti ekki að koma til greina. Þú munt sjá eftir því alla ævi. En ef þú eignast barnið muntu stundum horfa á það og gleðjast yfir að hafa ekki gert þetta.

 


© Magnús Ingi Sigmundsson

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: