Fóstureyðingar og frjálshyggjumenn

 

Eitt af fáum málum sem frjálshyggjumenn eru ekki sammála um er hvort banna eigi fóstureyðingar.

Frjálshyggjumenn trúa því að allir eigi að fá að gera það sem þeir vilja svo framarlega sem þeir skaði ekki aðra og að þá reglu megi einungis brjóta til að vernda hana.

Í þessari ágætu setningu eru því miður nokkur skilgreiningarvandamál.

Hvað er átt við með að skaða?
Er í lagi að strjúkast upp við einhvern í strætó, gefa ókunnugum olnbogaskot eða hreyta í aðra fúkyrðum?

Hverjir eru þessir aðrir sem maður má ekki skaða?
Á að taka dýr inn í skilgreiningunni á öðrum. Hvað með ófædd börn?

Þó fæstir viðurkenni það eru hugtökin skilgreind eftir hentisemi hverju sinni. T.a.m. hentar það illa að taka aðrar dýrategundir inn í skilgreininguna því kjöt er svo gott á bragðið. Að sama skapi er sterk hefð nú fyrir því í vestrænum samfélögum að konur fái að deyða ófædd börn sín. Því finnst flestum óþægilegt að hugsa um fóstur sem
fullveðja einstaklinga.

Til að réttlæta þá siði sem menn hafa alist upp við ráðast þeir í tæknilega umræðu um hvenær fóstur verður að einstaklingi.

Greinarhöfundur er á þeirri skoðun að barn verði til við getnað.
Fjölmargir telja sig hins vegar komast hjá því að vera ósamkvæmir sjálfum sér með því að halda því fram að barnið verði til (og fái réttindi) þegar mænan eða heilinn verður til. Getur verið að sú röksemdafærsla sé valin því tímasetning hentar betur? Hægt er að nefna fjölmargar aðrar tímasetningar sem einnig eru mikilvægar og mögulegt væri að hengja réttindi til lífs við með samsvarandi rökum. T.a.m. þegar líkami barna getur fundið sársauka, við sjálfa fæðinguna, þegar börnin eru vanin af brjósti, þegar þau byrja að tjá sig eða skríða o.s.frv.

Fylgendur fóstureyðinga færa sumir þau rök fyrir máli sínu að barnið geti ekki lifað sjálfstæðu lífi án móðurinnar. Því eigi umræðan að snúast um yfirráðarétt konunnar yfir líkama sínum. Greinarhöfundi finnst þau rök ekki vega þungt þar sem hið sama mætti segja um ungabarn sem mundi vitaskuld látast án umönnunar foreldris.

En það væri erfitt að banna þennan sið. Samkvæmt opinberum tölum er þriðja hvert barn á Íslandi og helmingur grænlenskra barna drepin fyrir fæðingu. Nú til dags eru ungar konur aldar upp við að fóstureyðing sé eðlileg getnaðarvörn sem sé allt í lagi að beita ef tímasetningin hentar ekki til barneigna.

Ljóst er að ef fóstureyðingar yrðu bannaðar á Íslandi færu þungaðar konur erlendis í aðgerð eða það sem verra er yrðu aðgerðirnar líklega framkvæmdar í bílskúrum af ófaglærðu fólki með skítugum tækjum og
hættulegum lyfjum.

Því er líklega farsælast að leggja höfuðáherslu á að höfða til siðgæðis samferðafólks okkar með yfirveguðum umræðum og kennslu.

© Lýður Þór Þorgeirsson 1998.
Uppfært árið 2011 að beiðni höfundar “til að lagfæra unggæðingslegt orðalag”.

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: