Grein herra Jóhannesar Gijsen, Reykjavíkurbiskups

sem birtist í Kaþólska kirkjublaðinu, janúar 2005

 

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum undir merki lífsréttinda

Hvaða þýðingu hafa þær fyrir Evrópu?

Að öllum jafnaði fjöllum við ekki um pólitíska atburði í Kirkjublaðinu okkar af því að þeir hafa yfirleitt ekki bein áhrif á lífið samkvæmt trúnni. En þegar kemur að forsetakosningunum í Bandaríkjunum á þessu ári, var greinilega annað uppi á teningnum. Þar urðu ótvíræðar og mikilvægar einstefnuskoðanir trúaðra kjósenda öðrum frambjóðandanum stuðningur til sigurs og það þeim sem var þessum skoðunum sammála og var reiðubúinn að lögfesta þær. Þetta var óvenjulegt um þjóð sem frá upphafi hafði haldið fast við aðskilnað ríkis og kirkju – eða trúar – og vill ekki hrófla við því ákvæði. Við það var staðið þrátt fyrir vandamálið sem deilt var um í forsetakosningunum og hafði svo mikil áhrif á þær, en það var vernd lífsins sem byggðist á trúarskoðunum sem höfðu svo gagnger áhrif, og sú staðreynd ætti helst að koma okkur Evrópumönnum til að halda vöku okkar og hvetja okkur til að segja skoðanir okkar vafningalaust og beita okkur fyrir ótvíræðu svari við því vandamáli sem byggt sé á trú okkar. En hvernig eigum við að koma því i framkvæmd?

1. Málið snýst um vernd hvers einstaklings sem varnarlaus er

Fyrirsjáanlegt var að hinir hræðilegu atburðir 11. september 2001, svo og baráttan gegn hinni alþjóðlegu hryðjuverkastarfsemi sem á eftir þeim fylgdu, mundu verða miðlægir í kosningabaráttunni. En um það var enginn ágreiningur því að báðir frambjóðendurnir voru sama sinnis um að vernda borgarana eftir því sem unnt væri og koma í veg fyrir athafnir hryðjuverkamanna utan þeirra eigin landa. Jafnvel stríðið í Írak, sem tengdist þessari baráttu, var eiginlega ekkert ágreiningsefni því að talsmenn beggja frambjóðendanna töldu að því ætti að halda áfram, þótt þeir væru ef til vill ekki sammála um aðferðir. Að svo miklu leyti sem vernd lífsins snerti „lífsgæði“ var áreiðanlega mikill munur á áformum þeirra að bæta þau, sérstaklega efnahagslega og félagslega, og þau snertu kjósendur tvímælalaust en voru þegar öllu var á botninn hvolft ekki mikilvægasta ástæðan fyrir ákvörðunum þeirra.

Fjölmörgum lá þungt á hjarta vernd ófæddra barna, gamalmenna og dauðveikra, svo og vernd lífsins á frumstigi, jafnvel þótt ekki væri um nema fóstur að ræða. Mörgum fannst þessi vernd vera svo þung ámetunum að frambjóðendur voru metnir eftir því hversu einbeittir þeir voru í stuðningi sínum við hana. Kjósendur ýttu oft öllum öðrum vangaveltum til hliðar og vildu annað hvort ótvíræð lög til eflingar þessari vernd eða að ríkjandi „frjálslyndisstefnu“ yrði haldið.

Eftirtektarvert var að talsmenn strangari lífsverndar fyrir varnarlaust fólk bar fyrir sig trúarástæður. Þeir litu svo á að Guð væri „Drottinn lífsins“. Þeir sögðu að enginn maður mætti skerða líf meðbróður síns eða systur, hvort sem hann væri ófullveðja eða veikburða, og ekki heldur þótt umönnun slíks lífs hefði í för með sér byrðar og örðugleika fyrir fjölskylduna.

Oft var þess krafist að ásamt með vernd lífsins væri fjölskyldan vernduð – faðirinn, móðirin og börnin – og væri sú vernd trygging fyrir því að fólk vildi eignast börn og ala önn fyrir gömlu fólki. Í því máli var einnig skírskotað til boðorða Guðs og var því þess vegna alveg vísað á bug að stofna mætti til „hálfgildings“ hjónabands fólks af sama kyni.

2. Þýðing þessarar ákvörðunar

Þýðing kosninganna í Bandaríkjunum snertir fyrst og fremst það mál sem ákvörðunin snerti: Lífsvernd varnarlauss fólks.

Áratugir eru síðan flest svonefnd „menningarríki“ í Evrópu og Ameríku slökuðu á löggjöf sinni um bann við fóstureyðingum og líknardrápi eða létu að minnsta kosti í rauninni niður falla refsingar fyrir þær. Mikilvægustu rökin fyrir því eru helst að velferð og góðum efnahag fólks sé stefnt í hættu ef það á von á barni sem það hefur ekki óskað að eignast eða ber þungar byrðar fyrir vegna forsjár gamallar og hjálparlausrar manneskju sem ekki á sér lengur neins að vænta af lífinu. Slík börn og aldrað fólk eru gerð bókstaflega réttindalaus. Þeirri staðreynd er þó jafnan skýlt bak við fegrandi hugmyndir sem virðast í fljótu bragði skynsamlegar, en í raun og veru er þetta staðreyndin. Og það veit fólkið líka. Ef einhver mælir gegn þessu háttalagi eða reynir að stöðva þróun í þessa átt og taka upp aðra stefnu, er sagt að hann sé „afturhaldssamur“ og „óréttlátur“. Jafnvel margir kristnir menn eru komnir á þá skoðun að í svona málum verði að gefa hverjum og einum „ákvörðunarfrelsi“ og að sérstaklega megi ríkið ekki takmarka þetta frelsi. Það hefur leitt til þess að sífellt fleiri mannslífum er stefnt í hættu. Jafnvel börnum, sem augljóslega eru komin á það þroskastig að geta lifað utan líkama móðurinnar, er eytt og nærri því hverjum sem mikið þjáist eða er alvarlega þroskaheftur er gefin banvæn sprauta. Það getur jafnvel komið fyrir fólk sem ekki er slíku lífláti fylgjandi. Og það án þess að ríkisvaldið reyni að hindra það. Það gefur auga leið að menn sem aðhyllast slíkar skoðanir þykjast frjálsir að því að ráðstafa mannsfóstrum, þar sem þeir halda því fram að mönnum eigi að vera heimilt að notfæra sér þau til þess að auka möguleikana á því að lækna þá sem sjúkir eru. Að loksins skyldi koma til mótmæla gegn þessari þróun og að – voldugur – forseti mikilvægs ríkis skyldi vilja taka þátt í þessum mótmælum er hið mikilsverðasta og gleðilegasta sem gerst hefur í þessu máli fram að þessu.

En jafn mikilvægt og gleðilegt er að þessi mótmæli skuli vera rökstudd með skírskotun til trúarinnar á Guð og að forsetinn skuli leggja áherslu á það. Viðurkennt er á ný að Guð sé Drottinn lífsins. Og það er ekki einkaskoðun manna heldur skoðun ríkisins. Og um það gildir að það eru ekki mennirnir sem eiga að ákveða hvað satt sé og rétt heldur er það fyrirfram ákveðið af Guði og eftir því á hver og einn maður að fara.

Það voru einkum hinir „endurfæddu“ kristnu menn sem tóku afstöðu með því að stranglega skyldi vernda hvert varnarlaust líf. Þetta fólk – kristið fólk allra trúarjátninga – studdist við að taka bæri alvarlega orð heilagrar Ritningar. Þeir líta svo á að í Biblíunni sé að finna öll gild boðorð Guðs. Þeir reyna að fara eftir þeim, hver út af fyrir sig og fjölskyldan sameiginlega. Lífsverndin er einn af hornsteinum þessa lögmáls. En hún snýst ekki aðeins um „að drepa ekki saklausa“, heldur líka um hinn sanna kærleika til náungans, allra fátæklinga, nauðstaddra og aðkomumanna. Og hún krefst samfélags sem virðir Guð og menn og tekur tillit til þeirra. Það samfélag er „borið uppi“ af fjölskyldunni, hinu staðfasta samfélagi föður, móður og barna. Lögmál Guðs gildir líka fyrir fjölskyldulífið. Það byggist á kærleika karls og konu, kærleika sem ekki rofnar og er staðfastur til dauðadags, eins og fyrir kemur. Hann útlokar frá upphafi samband sem líkist hjónabandi, sérstaklega fólks af sama kyni, en einnig samband karls og konu sem ekki er ætlað að vera varanlegt og ekki miðar að barngetnaði.

Þetta merkir að afdráttarlaus afstaða með lífsvernd varnarlausra manneskja er fast tengd afstöðu með fjölskyldulífinu og iðkun þess sem sé grundvöllur félagslífsins. Það er líka fagnaðarefni því aðeins með þeim hætti getur ný sýn til framtíðar samfélags manna brotið sér braut. Ef þetta er raunverulega rótfest í löggjöf ríkjanna, birtist framtíð heimsins í nýju ljósi, því að þetta tryggir „menningu lífsins“ sem Guð heldur uppi og ákvarðar, í staðinn fyrir „menningu dauðans“ .

3. Hvað getur þetta þýtt – og á að þýða – fyrir Evrópu?

Þó að baksvið forsetakosninganna á þessu ári hafi verið jákvætt fyrir lífsvernd saklausra manna og þótt við getum gengið úr skugga um að það styðjist við nýja viðurkenningu á Guði sem „Drottni lífsins“ og viðtöku lögmáls hans, einnig á sviði ríkisins, merkir það enn sem komið er engin „straumhvörf“ í ríkjandi hugarfari manna í Evrópu, því að í fyrsta lagi hefur Evrópa, sennilega að meira leyti en Ameríka, losað sig frá kristilegum rótum sínum. Í öðru lagi eru öfl markvissrar endurnýjunar hugarfarsins í Evrópu miklu átakaminni og veiklaðri en í Ameríku. Eiginlega er páfinn einn hinn mikli áminnandi, sem látlaust hvetur menn til innri íhugunar og endurnýjunar hinna kristnu lífsgilda.

Og allt fram að þessu í rauninni árangurslaust. Honum lánaðist jafnvel ekki að fá sambandsins við Guð og minningarinnar um kristilegar rætur álfunnar getið í grundvallarlögum Evrópubandalagsins. Og löggjöf ríkjanna þokast að mestu leyti frekar í áttina til áframhaldandi slökunar á lífsverndinni og niðurrifs hjúskaparins og fjölskyldunnar en í hina áttina.

Þrátt fyrir það eigum við Evrópubúar – og þar með okkar eigin landsmenn – að efla „menningu lífsins“. Til þess að geta það verðum við fyrst sjálf að temja okkur sanna virðingu fyrir lífinu. Líf okkar sjálfra á að bera vitni um það: með einlægu sambandi við Guð, með stöðugu fjölskyldulífi og með þjónustu okkar við náungann, sérstaklega börn og gamalmenni. Samtímis eigum við líka að notfæra okkur allar leiðir sem geta leitt til raunverulegrar hugarfarsbreytingar, í samfélaginu og einnig í stjórnmálunum. Þannig byrjuðu „hinir endurfæddu kristnu menn“ líka í Ameríku. Tökum saman höndum við þá sem eru sama sinnis og tökum þátt í að byggja upp nýja Evrópu á jákvæðan hátt.

Páfinn hvatti til þess í bréfi sínu „Evangelium Vitae“. Hann segir: „Mestu máli skiptir að boða fyrst aðalatriði fagnaðarerindisins. Það merkir boðun lifandi og nálægs Guðs sem kallar okkur til djúprar einingar við sig og opnar okkur fyrir hinni öruggu von um eilíft líf; það merkir að halda fram hinu órjúfanlega samhengi sem er milli mannsins, lífs hans og holdveruleika hans, það merkir túlkun mannlífsins sem lífs tengslanna, sem Guðs gjöf, sem ávöxt og tákn kærleika hans, það merkir boðun hinna óvenjulegu tengsla Jesú við hvern og einn mann sem gerir honum mögulegt að þekkja auglit Krists í hverju mannsandliti, það merkir að sýna hina sönnu sjálfsfórn sem hlutverk og stað þar sem alger framkvæmd eigin frelsis á sér stað.

Samtímis er áríðandi að sýna fram á allar afleiðingar sem fylgja þessu fagnaðarerindi og við getum dregið saman í eitt eins og hér segir: Mannlífið, dýrmæt Guðsgjöf, er heilagt og óskerðanlegt og þess vegna eru einkum fóstureyðing af ásettu ráði og líknardráp með öllu óaðgengileg; það á ekki aðeins að vera óleyfilegt að slökkva mannlíf, heldur er skylt að vernda það með hverskonar kærleiksríkri nærfærni: tilgangur lífsins felst í hinum þáða og auðsýnda kærleika og á sviði hans nær kynlíf og tímgun manna markmiði sínu í fullum sannleika. Í þessum kærleika hafa bæði þjáning og dauði tilgang og geta, þó að leyndardómurinn sem þau umlykur haldist áfram, leitt til frelsandi atburða sem virðing fyrir lífinu krefst, sem vísindi og tækni eru sífellt að vinna að fyrir manninn og alhliða þróun hans, og allt samfélagið verður að virða, vernda og styðja reisn hvers og eins manns á hvaða augnabliki sem er og við hvaða aðstæður sem er“ (81).

Megi þessar hugleiðingar og kröfur verða okkur „stefnuskrá“ nýja ársins. Þá verður það áreiðanlega „ár Drottins“. Og hann lætur það bera ávexti.

Þess óskar ykkur af hjarta

Biskupinn ykkar,
Jóhannes Gijsen

Reykjavík, 30. desember 2004

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: