Má bjóða þér fósturgreiningu?


ÉG HITTI góða ljósmóður reglulega vegna þess að ég er ófrísk. Það eru tilmæli frá landlækni til ljósmæðra að öllum mæðrum sé boðið upp á fósturgreiningu eða snemmsónar eins og það er líka kallað, til að hægt sé að athuga hvort barnið sé heilbrigt. Þessar upplýsingar fékk ég hjá ljósmóðurinni minni.

Svo vill til að ég er búin að kynna mér vel fósturgreiningu. Fósturgreining sem bendir til að barnið sé fatlað á einhvern hátt leiðir nær undantekningarlaust til þess að fóstrinu er eytt. Þetta veit landlæknir. Þess vegna særði þetta „boð“ mig mjög. Það er mín skoðun að þær konur sem vilja fara í fósturgreiningu geti beðið um hana sjálfar. Ég kæri mig ekki um svona viðbrögð við því að ég sé ófrísk. Barnið sem nú er ófætt í leginu mínu er einfaldlega hluti af fjölskyldunni minni og ég kann mjög illa við að mér sé boðið að athuga hvort það sé heilbrigt svo ég geti „tekið upplýsta ákvörðun um hvort ég ætli að binda enda á meðgönguna“ eins og það er orðað á pólitískt réttan hátt.

Svona boð bera ekki vitni um virðingu gagnvart hinu ófædda barni. Af hverju er verið að bjóða mæðrum upp á slíka greiningu að fyrra bragði af landlækni? Er honum svona umhugað um mæðurnar eða er e.t.v. verið að stuðla að sparnaði í kerfinu? Það er ekki ódýrt fyrir þjóðfélagið að hugsa um fatlað fólk með því t.d. að byggja sambýli og reka þau.

Það væri nær að landlæknir beindi þeim tilmælum til ljósmæðra að upplýsa mæður um alla þá aðstoð sem er í boði fyrir fjölskyldur fatlaðra barna og fyrir hinn fatlaða einstakling á fullorðinsárunum. Ég hef unnið með fötluðum og það er mín reynsla að fatlaðir á Íslandi eru oftast hamingjusamir, þeir auðga líf allra í kringum sig og þeir geta vel spjarað sig með góðri hjálp.

© Melkorka Kristinsdóttir

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: