Meira um líknarmord

“Við segjum aldrei nei.”

– Hreyfingin um réttinn til að deyja flettir ofan af markmiði sínu –

eftir Wesley J. Smith

Það hefur gætt ákveðinnar tvískinnungs í áróðrinum fyrir því að hjálpa fólki til að deyja sem hljómar eitthvað líkt þessu: “Að hjálpa einhverjum til að deyja” (eins og fylgjendur líknarmorða orða þetta) er einungis ætlað að vera sem öryggisventill, síðasta tiltæka úrræðið fyrir deyjandi sjúkling þegar ekkert annað er unnt til að létta þjáningar hans.

En nú er svo komið að stofnandi svissnesku líknarmorðastofnunarinnar Dignitas er hættur að fara leynt með það hvað fyrir honum vakir. Enska Lúndúnablaðið the Sunday Times Magazine greinir frá því að stofnandi Dignitast, Ludwig Minelli, hyggist koma á fót eins konar keðju dauðastöðva “til að binda enda á líf fólks sem er sjúkt og þjáist af krónísku þunglyndi.”

Minelli trúir því að öllum þeim sem hyggjast fremja sjálfsmorð eigi að veita upplýsingar um heppilegustu leiðina til að deyða sjálfa sig og samkvæmt því sem Times greinir frá: “Ef þeir kjósa fremur að deyja, þá ber að hjálpa þeim til þess á réttan hátt.” Dignitas viðurkennir að stofnunin hafi aðstoðað marga sem voru ekki sjúkir til langframa. Eða eins og Minelli orðar það: “Við segjum aldrei nei.”

Afstaða Minellis varpar ljósi á viðloðandi hugmyndafræði líknardrápahreyfingarinnar: Að við eigum okkar eiginn líkama og því sé um grundvallarmannréttindi að tefla þegar tíminn, leiðin og aðferðin til að deyða okkur sjálf er ákveðin, hvaða ástæður sem svo búa því að baki.

Þetta er einmitt til samræmis við það sem önnur stórstjarna hinnar alþjóðlegu líknarmorðahreyfingar, ástralski læknirinn Phillip Nitschke, lítur á málið. Nitschke ferðast um allan heim til að veita ráðgjöf um það hvernig koma skal á fót sjálfsmorðsstöðvum. Fyrir nokkrum árum greiddi Hemlock Society (sem nú hefur runnið saman við áróðurssamtökin Compassion and Choices) honum þúsundir dollara fyrir að setja saman lyfjasull sem blandað var saman úr efnum sem finna má á heimilum manna (ólyfjan sem hann nefnir “Friðarpilluna”).

Rétt eins og Minelli er Nitschke hreinskilinn í tali um það sem fyrir honum vakir. Í viðtali við National Review Online árið 2001 þegar hann var inntur nánar eftir “Friðarpilluna,” svaraði hann svo til:

“Persónuleg afstaða mín mótast af því að ég trúi því að ef við höfum rétt til lífs, þá verðum við einnig að samþykkja réttinn til að eyða þessu lífi þegar okkur þykir henta . . . Þannig eru allir þess umkomnir að hrinda þessu í framkvæmd, en ekki einungis þeir sem búa yfir sérþekkingu eða hafa aðgang að aðferðum til að “tortíma” lífi sínu. Og einhver verður að miðla þessari þekkingu, sérþjálfun eða aðferðum sem nauðsynlegar eru öllum þeim sem þarfnast slíks, þar á meðal þunglyndissjúklingum, hinum eldri og vanræktu og táningum sem horfast í augu við vandamál.”

Afstaða þeirra Nitschkes og Minellis á sér mikinn hljómgrunn meðal þeirra sem trúa á líknarmorð. Raunin er sú að í gegnum árin hefur hreyfingin látið eftir sig fjölmörg ummæli sem gefa til kynna, að sjálfsmorð með aðstoð annarra er ekki einungis ætluð þeim einum til handa sem horfast í augu við dauðann.

Tökum sem dæmi Zürichyfirlýsinguna sem sem World Federation of Right to Die Societise gaf út 1998 (WFRD er regnhlifarsamtök sem samanstendur af 37 samtökum sem hvetja til líknarmorða, meðal annars Compassion and Choices og samtökum stofnanda Hemlocks, Derek Humphry: Euthanasia Research and Guidance Organization, or ERGO). Þar er komist svo að orði:

Við trúum því að við höfum miklum skyldum að gegna til að tryggja að öllu fullorðnu fólki verði gert kleift með lagasetningu að fá aðstoð til að deyja sem þjáist af alvarlegu og langvarandi þunglyndi, ef þetta er einlæg og skynsamleg ósk þess. Við tökum fram að slíkt er nú þegar heimilt í Hollandi, Sviss og Oregon í BNA.

Taka ber fram að sá sem “þjakaður er af alvarlegu og langvarandi þunglyndi” er ekki staddur í lífshættu.

STUÐNINGUR VIÐ VÍÐTæKAN OG FRJÁLSAN AÐGANG að sjálfsmorðum nær langt út fyrir raðir virkra meðlima í líknarmorðasamtökum. Sumt fólk á sviði geðlækninga fagnar slíku, en þar hefur verið rætt um orðasambandi “sjálfsmorð af skynsamlegum ástæðum” í sérfræðitímaritum, bókum og á ráðstefnum.

Dæmigert fyrir þessa afstöðu er grein eftir James W. Werth sem birtist í tímaritinu Crisis undir hinni kaldhæðnislegu fyrirsögn: “Að grípa til sjálfsmorða af skynsamlegum ástæðum til að koma í veg fyrir óyfirveguð sjálfsmorð.” Werth leggur áherslu á að starfsfólk við geðsjúkrahús ætti ekki ávallt að leitast við að bjarga lífi sjálfsmorðssjúklinga, heldur fremur að veita viðkomandi lið án allra fordóma. Ef sérfræðingurinn samþykkir að skynsamlegar ástæður búi að baki lönguninni til að deyja, þá ætti að heimila sjálfsmorðið, eða jafnvel veita aðstoð við framkvæmd þess.

Til þess að teljast hæfur til að fremja sjálfsmorð af skynsamlegum ástæðum yrði sjúklingurinn að sýna sérfræðingi geðsjúkrahúss fram á að “ástand hans væri vonlaust.” Werth skilgreinir þetta sem “langvarandi veikindi, alvarlega líkamlega eða geðræna vanlíðan, líkamlegar eða huglægar og óásættanlegar aðstæður eða hrakandi heilsufar, eða þá að lífsgæðin séu einstaklingnum ekki lengur viðunanleg.” Hér er farið í kringum málið eins og köttur kringum heitan graut. Ef einhver elur með sér sjálfsmorðshugsanir eru lífsgæði hans ekki lengur viðunandi.

Það kemur því ekki heldur á óvart að sjálfsmorð af skynsamlegum ástæðum eru þegar samþykkt í Hollandi þar sem hæstiréttur féllst á að læknir veitti konu sem glímdi við þunglyndi aðstoð til að deyja vegna þess að börn hennar voru dáin.

Sama jákvæða afstaðan til sjálfsmorða er iðulega látin í ljós meðal stórs hóps líffræðinga, ekki einungis hjá Peter Singer við Princeton háskólann. Þannig leggur Margaret Pabst Battin við háskólann í Utah til “að sjálfsmorð megi kjósa af skynsamlegum ástæðum” til að “forðast sársauka og þjáningar í langvarandi sjúkdómstilfellum” sem “sjálfsfórn af raunhæfum ástæðum” eða þegar um er að ræða “sjálfsmorð sökum heiðurs og af prinsippástæðum.” Julian Savulescu, sem er rísandi stjarna í alþjóðlegu samfélagi líffræðinga hugsar á svipuðum nótum og heldur því fram að virðing fyrir frelsi einstaklingsins krefjist þess að samfélagið heimili sjálfsmorð jafnvel þegar hæfileikafólk eigi hlut að máli, jafnvel þegar það tjáir “órökstudda löngun til að deyja.”

“Stundum er frelsið þess virði að saklausu lífi sé fórnað” komst Savulescu að orði í einum kaflanum í bókinni Assisted Suicide. “Frelsið til að binda enda á líf sitt þegar og hvernig sem við kjósum okkur það, tel ég jafn mikils virði og allt annað frelsi.”

Rétturinn til að njóta aðstoðar við sjálfsmorð hvaða ástæða sem svo býr slíku að baki, er afar vinsæll meðal sjálfskipaðar “fríhugsuða” og húmanista. Þannig skrifaði Tom Flynn, útgefandi Free Inquiry og málpípu Council for Secular Humanism í vorútgáfu blaðsins árið 2003, að trúin á frelsi einstaklingsins yrði að fela í sér rétt til að deyja án nokkurra takmarkana: “Þrátt fyrir að sjálfsmorð hafi aldrei beinlínis notið almennra vinsælda, er nýtt áhlaup á rétt okkar til sjálfsmorða í gerjun. Þetta er eitthvað sem veraldlegur húmanismi ætti að berjast gegn.” Hvers vegna? Vegna þess að Flynn (og aðrir húmanistar) trúa því ákaft að rétturinn til sjálfsmorða sé einn grundvallarþátta mannréttinda:

“Það sem málið snýst í raun og veru um hér er sú gamla kredda að fólk eigi ekki sitt eigið líf. Sjálfsmorð með aðstoð læknis er einungis hluti málsins. Ef við treystum samborgurum okkar til að velja sér starfsvettvang, að fylgja pólitískri sannfæringu sinni eftir og móta sér afstöðu til trúarbragða, hvers vegna eigum við þá ekki einnig að verja rétt þeirra til að hafna dýrmætustu eign sinni – lífi sínu – jafnvel þegar slíkt felur í sér að binda endi á það?”

Það eiga sér jafnvel stað umræður meðal líffræðinga um að sumu fólki beri siðræn skylda til að fremja sjálfsmorð. Þannig lagði heimspekingurinn John Hardwig það til í aðalgreininni í hinu virta líffræðitímariti Hastings Center Report árið 1997 að ekki sé einungis um rétt að ræða, heldur einnig “skyldu til að deyja:”

“Skyldan til að deyja vegur enn þyngra þegar áframhaldandi líf felur í sér áþreifanlega byrði – tilfinningalega eða krefst umtalsverðrar umönnunar, hefur neikvæð áhrif á líf annarra, já, felur í sér fjárhagslegar byrðar á fjölskyldu þína eða ástvini. Þetta er sú grundvallarforsenda sem býr skyldunni til að deyja að baki.

Skyldan til að deyja verður því meiri eftir því sem þú verður eldri. Þegar við eldumst verður það léttvægara að sjá að baki lífinu . . . Það ber vott um siðferðisbrest að hafa náð því að verða segjum sjötíu og fimm ára eða áttrætt án þess að vera reiðubúin til að deyja, lifa lífi sem stangast á við raunveruleika lífsins.”

Líffræðingurinn Battin styður einnig hugmyndina um skylduna til að deyja fyrir þá sem lifa í auðugum löndum, ekki einungis til að forða ástvinum okkar frá óþarfa byrðum, heldur til að skapa jöfnuð um allan heim. Þannig komst hún svo að orði í einum kaflanna í bók sem heitir “Global Expectancies and the Duty to Die,” að sá tími kunni að koma að við verðum að horfast í augu við þá siðferðisskyldu “að létta byrðinni af heilbrigðiskerfinu með langtímameðferð og binda enda á líf okkar með beinum hætti” til þess að “tryggja heilbrigðisþjónustu og lífslíkur” sem verða jafnari um allan heim.

ÞRÁTT FYRIR ÞESSA YFIRVOFANDI AFSTÖÐU svartnættis líknarmorða, halda flestir talsmenn líknarmorða með hjálp annarra því fram í Bandaríkjunum, að “allt” sem þeir keppi eftir sé að flýta fyrir dauðastund langveikra.

Í augum sumra er hér einungis um pólitíska baráttuaðferð að ræða. Endanlegt takmark felist í víðtækum heimildum til líknardrápa. Enn aðrir halda vafalaust fram að þetta beri að einskorða við langsjúkt fólk í von um að “takmörkuð” líknarmorð með hjálp annarra leiði til víðtækra viðurkenndra manndrápa (líkt og í Hollandi), eftir að slíkt hefur verið samþykkt á annað borð.

Hvora herbúðina sem menn telja svo draga upp sannverðugri mynd á líknarmorðahreyfingunni í heild skiptir ekki höfuðmáli. Eftir að líknarmorð með hjálp hafa verið samþykkt á annað borð með hliðsjón af lagasetningum og menningarviðhorfum munu fyrirheitin um róttækt sjálfræði og heimildin til manndrápa til að lina mennskar þjáningar fallast í hendur og leysa úr læðingi kalda rökhyggju sem mun óhjákvæmilega beina okkur til nirvana dauðans með hliðsjón af eftirspurn.

Wesley J. Smith er heiðursmeðlimur í the Discovery Institute og lögfræðingur fyrir the International Task Force on Euthanasia and Assisted Suicide og sérstakur ráðgjafi the Center for Bioethics and Culture. Vefsíðu hans má finna á: Tengill

Jón Rafn Jóhannsson

Greinin birtist upphaflega á Vefrit Karmels

önnur grein um líknarmorð.

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: