Rangfærslur í fóstureyðingabæklingi

Í bæklingi einum um fóstureyðingar, (sjá hér), sem kvennasvið Landspítalans gefur út, er að finna mikið um staðreyndavillum og beinum áróðri fyrir fóstureyðingum. Hér hef ég reynt að svara þeim eftir bestu getu. Það sem er skáletrað og með rauðu letri er úrdráttur úr þessum bæklingi og það sem kemur fyrir neðan, með sama málsgreina-númeri, er mitt svar.

1. Þær hugmyndir eru að vissu leyti enn við lýði í samfélaginu að fóstureyðing beri vitni um að konan hafi gerst sek um ábyrgðarleysi og mistök. Konur virðast því gjarnan upplifa að skömm sé fylgjandi því vali að binda endi á þungun með fóstureyðingu. Viðhorf sem þessi eru líkleg til að auka á vanlíðan kvenna sem standa frammi fyrir því að velja fóstureyðingu og þau ala á tilfinningum eins og sektarkennd.

1. Þarna er reynt að láta líta út eins og sektarkennd kvenna sem hafa farið í fóstureyðingu sé andstæðingum fóstureyðinga að kenna. Vissulega mun sektarkennd einhverra brjótast upp á yfirborðið við umræðuna, en við því getum við ekkert gert. Við sækjumst ekki eftir að valda sektarkennd, heldur að forða konum frá því að fara í fóstureyðingu, bjarga barni þeirra frá dauða og þeim sjálfum frá því að upplifa þessa sektarkennd, áður en það er of seint.

2. Fóstureyðingar eru málefni sem oft eru rædd á neikvæðan hátt og frekar á tilfinningalegum nótum en vitrænum.

2. Fylgismenn fóstureyðinga eru líka gjarnir á að ræða á tilfinningalegum nótum, en ekki vitrænum, samanber setninguna hér að ofan (1). Enda eiga þeir ekki mörg rök fyrir því að heimilt skuli að eyða ófæddum börnum, og grípa því oft til tilfinningaþrungins málflutnings. Það virðist líka ganga betur. Fólk tekur frekar mark á tilfinningum sínum en nokkru öðru.

3. Annar kostur er að láta eyða fóstri ólöglega. Konurnar taka þá mikla áhættu vegna þess að ólögleg fóstureyðing er oft gerð við ófullkomnar aðstæður.

3. Þarna er enn spilað á tilfinningar, en er ekki rökrétt í sjálfu sér. Ef fóstureyðingar væru ólöglegar þá væri það afbrot að fara í fóstureyðingu. Stundum er hættulegt að fremja afbrot. Og hvað þá? Á að lögleiða öll afbrot þar sem afbrotamaður gæti lent í hættu við að fremja afbrot? Þarna er einnig algerlega hunsuð sú staðreynd að lögleg fóstureyðing er líka skaðleg og hættuleg konunni (og banvæn barninnu).

4. Er fóstureyðing rétt eða röng? Svarið veltur á því siðferðilega viðmiði sem við höfum og það er mismunandi frá einum til annars.

4. Svarið, hvort fóstureyðing, eða eitthvað annað sé rangt, veltur auðvitað ekki á svari hvers og eins. Ef svo væri, þá væri ekki hægt að segja að neitt sé rangt, því alltaf væri hægt að finna einhverja sem fyndist það vera rétt.

5. Hvenær hefst líf? Því er ekki hægt að svara á grunni læknavísinda. Spurningin er í eðli sínu siðferðileg. Hægt er að draga mörkin ýmist við frjóvgun eggsins eða allt fram til þess að fóstrið er orðið að lífvænlegu barni.

5. Þetta er einfaldlega rangt. Þvi er vel hægt að svara á grunni læknavísinda og þar er það viðurkennt að lífið hefjist við getnað. Það eru svo sjálfsögð sannindi. Vísindi geta leitt í ljós að fósturvísir hefur, frá getnaði, þau erfðaefni sem hann mun hafa alla ævi, og þau erfðaefni eru ekki þau sömu og erfðaefni móðurinnar. Það er vísindaleg staðreynd. Allt annað er smekkur hvers og eins. Á smekkur eins einstaklings að ákveða hvenær annar einstaklingur hefur lífsrétt?

6. Á fyrstu vikum meðgöngunnar á sér stað visst val náttúrunnar, því u.þ.b. þriðjungur þeirra fósturvísa, sem verða til, visna upp og deyja.

6. Þetta er líka röng fullyrðing. Hlutfallið er um 8% en ekki þriðjungur (33%). Og hvað þetta kemur málinu við veit ég ekki. Ef einhver hópur manna á sér takmarkaðar lífslíkur, þýðir það að þeir sem eru í þeim hóp hafa ekki lífsrétt ef einhver ákveður að það henti sér ekki að þeir fái að lifa?

7. Andstæðingar fóstureyðinga gera minna úr rétti konunnar, en meira úr rétti fóstursins. Þannig leggja þeir rétt fóstursins til lífs að jöfnu við rétt konunnar. Á þeim grunni væri ekki rétt að binda endi á meðgöngu jafnvel þótt það ógnaði lífi konunnar, þar sem hennar líf væri ekki mikilvægara en líf fóstursins.

7. Takið eftir orðalaginu, sem er valið af kostgæfni: “að binda enda á meðgöngu”. Það er ekki sagt “að eyða fóstrinu”. Þarna er enn verið að spila á tilfinningar. Fóstrið er ekki manneskja heldur „meðganga“. En ég geri ekki athugasemdir við þetta mat á andstæðingum fóstureyðinga en bendi á að móðirinn er heimilt að leita sér lækninga við sjúkdómum sínum en hver er sá sjúkdómur þar sem bein fóstureyðing er eina lausnin? Þeir tveir sem helst koma til greina eru
1. utanlegsfóstur þar sem fóstrið vex í eggjaleiðara en ekki legi. Þar er nauðsynlegt að taka eggjaleiðarann burtu. Bein fóstureyðing er ekki nauðsynleg.
2. Krabbamein í legi: þar þyrfti að nema burt legið. Bein fóstureyðing er ekki nauðsynleg. Sumir gætu spurt hver munurinn sé á þessum aðgerðum og beinni fóstureyðingu, þar sem fóstrið deyr við þessar aðgerðir. Svarið er að það væri ekki það sama vegna þess að bein fóstureyðing er vísvitandi dráp á manneskju, en óbein fóstureyðing er óviljandi dauði sem sé afleiðing lögmætrar læknisaðgerðar. Annað er siðlaust, hitt ekki.

8. Fóstrið hefur þó ekki endilega sama rétt og lifandi manneskja.

8. Mín spurning er: Hver ákveður það og hver gefur honum/henni rétt til þess?

9. Afleiðingar þess að banna fóstureyðingar verður að skoða frá sjónarhóli konunnar. Kona sem er þunguð og vill ekki ganga með, stendur frammi fyrir tveimur kostum: Annað hvort að fara í ólöglega fóstureyðingu eða að ganga í gegnum erfiða meðgöngu og fæðingu.

9. Afleiðingar þess að leyfa fóstureyðingar verður að skoða frá sjónahóli konunar, sem mun að öllum líkindum þjást ævilangt af sektarkennd, frá sjónarhóli barnsins sem týnir lífi sínu og frá sjónarhóli föðurins, afans, ömmunar, frændans og frænkunni sem mun aldrei kynnast þessu barni. Það er sjálfsagt rétt að meðganga og fæðing er erfið en slíkt tekur enda eftir nokkra mánuði og eftir það er hægt að gefa barnið með ættleiðingu, setja það í fóstur tímabundið eða ala það upp.

10. Ótímabær þungun getur verið konu mikið áfall og valdið henni og aðstandendum hennar kvíða og áhyggjum. Streitan getur verið nánast óbærileg og valdið konunni líkamlegri og andlegri vanlíðan. Það að geta valið að binda endi á óvelkomna þungun á löglegan og öruggan hátt með fóstureyðingu dregur úr streitunni. Frjálsleg fóstureyðingalöggjöf er því mikilvæg fyrir andlegt og líkamlegt heilbrigði kvenna og er talin með nauðsynlegum réttindum í flestum þjóðfélögum.

10. Það er hægt að vinna bug á streitu og kvíða með ýmsum leiðum. Ef um er að ræða líkamlega og andlega vanlíðan, eins og höfundur þessa bæklings lýsir, er þá ekki ráð að leita sér hjálpar við því? Fóstureyðing er ekki leið til að leysa vandamál, heldur skapar vandamál. Það getur valdið miklum sálarkvölum að hafa gert þetta og of seint að taka það til baka þegar það er búið.

11. Aukaverkanir eins og sýkingar eru afar sjaldgæfar og eru í mesta lagi 0.1% líkur á að ófrjósemi verði í kjölfar sýkinga eftir fóstureyðingu.

11. Þetta er ein önnur röng fullyrðing. Reyndin er að 3-5% kvenna sem fara í fóstureyðingu verða ófrjóar. Auk þess eru konur sem hafa farið í fóstureyðingu 5 til 8 sinnum líklegri til að fá utnalegsþungun síðar. Sköddun á leghálsi vegna áður framkvæmdra fóstureyðinga, auka ennfremur líkurnar á fósturláti, fæðingu fyrir tímann og öðrum erfiðleikum við fæðingu við seinni þunganir um 300 til 500 prósent.

12. Niðurstöður margra rannsókna gefa til kynna að fóstureyðing sé ekki líkleg til að valda alvarlegum sálrænum erfiðleikum. Líðan kvenna sem ganga í gegnum óvelkomna þungun og fóstureyðingu líkist viðbrögðum við öðrum streituvaldandi atburðum í lífinu. Skoðun konunnar á réttmæti fóstureyðinga, stuðningur frá barnsföður og öðrum nákomnum og upplifun af aðgerðinni eru allt þættir sem hafa áhrif á viðbrögð konunnar við óvelkominni þungun og fóstureyðingu. Meiri líkur eru á að konum líði illa í kjölfar fóstureyðingar ef þær hafa lítinn félagslegan stuðning, eru mjög ungar, trúarskoðanir þeirra fordæma fóstureyðingar, ef þær hafa átt í sálrænum erfiðleikum fyrir aðgerðina, eiga í mikilli togstreitu varðandi ákvörðunina eða fara í aðgerðina eftir 12. viku meðgöngu.

12. Enn ein röng fullyrðing í þessum bækling. Reyndin er þveröfug. Niðurstöður margra rannsókna gefur einmitt til kynna að fóstureyðing sé líkleg til að valda alvarlegum sálrænum erfiðleikum. Rannsóknir á fyrstu vikunum eftir fóstureyðingu hafa leitt í ljós að milli 40 og 60 prósent af konum sem spurðar voru, skýra frá neikvæðum viðbrögðum. Innan við 8 vikum eftir fóstureyðingu sína lýstu 55% sektarkennd, 44% kvörtuðu um kvíðaröskun, 36% höfðu upplifað svefntruflanir, 31% iðruðust ákvörðunar sinnar og 11% höfðu fengið ávísað geðlyfjum af fjölskyldulæknum sínum.

Sjá einnig svör við fleiri mótbárum fylgismanna fóstureyðinga.


© Magnús Ingi Sigmundsson

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: