Tíu svör til stjórnmálamanna sem styðja fóstureyðingar


Faðir Frank Pavone, framkvæmdastjóri Priests for Life:

Ef þú hefur skrifað bréf til stjórnmálamanns um réttinn til lífsins, muntu að öllum líkindum fá svarbréf þar sem gripið er til einhverra af eftirfarandi mótrökum sem gengið hafa sér til húðar. Við skulum íhuga þessi svör hér dálítið nánar.

1. “Ég virði afstöðu yðar, en er jafnframt fulltrúi alls almennings.” Svar okkar: “Það er einmitt þetta sem við erum að reyna að koma á framfæri við yður. Ef þér hirðið ekkert um óborin börn eruð þér ekki fulltrúi alls almennings. Dómur hæstaréttar í máli Roe gegn Wade svipti þau allri lagavernd (1973). Við krefjumst þess að þau njóti hennar. Þjónn almennings getur ekki horft fram hjá ákveðnum hluta almennings sem er tortímt.

2. “Persónulega er ég andstæðingur fóstureyðinga, en get ekki þröngvað afstöðu minni upp á aðra.” Svar okkar: Spurningin snýst ekki um afstöðu, heldur ofbeldi. Lögum er ætlað að vernda mannslíf, þrátt fyrir afstöðu þeirra sem vilja tortíma mannslífum.

3. “Stjórnvöld eiga ekki að blanda sér inn í eins persónulegt málefni sem fóstureyðing er.” [1] Svar okkar: Stjórnvöld “blönduðu” sér í fóstureyðingar þegar þau lýstu því yfir að þau hefðu vald til að svipta ákveðinn hóp einstaklinga lífinu. Stjórnarskráin mælir svo fyrir að stjórnvöldum sé ætlað að tryggja þau réttindi sem Skaparinn hefur sett, Þegar einhver “ákveður” að tortíma lífi einhvers annars, þá er þessi ákvörðun auk þess ekki lengur einungis einkamál hvers og eins.

4. “Löggjafarvaldið á ekki að hafa afskipti af læknisfræði.” Svar okkar: Við erum ekki að fara þess á leit við yður að stunda læknisfræði. Læknisfræðinni er gert að lúta margvíslegum lögum til verndar lífi sjúklinganna. Allt sem við förum fram á er að óborin börn njóti þessarar lagaverndar.

5. “Fóstureyðingar eru lögbundnar.” Svar okkar: Landslögum er unnt að breyta, rétt eins og þeim var breytt hvað varðar þrælahald og kynþáttamismunun. Forysta á sviði stjórnmála er fólgin í því að koma auga á það óréttlæti sem aðrir eru beittir og að hvetja fólk til að grípa til þeirra ráða sem nauðsynleg eru til að breyta lögum. [2]

6. “Ég styð kvenréttindi og rétt kvenna til heilbrigðisþjónustu.” Svar okkar: Það er einmitt af þessum sökum sem við verðum að kanna staðreyndir málsins, þá staðreynd að fóstureyðingar eru skaðlegar heilsu kvenna. Okkur ber að hlusta á þann vaxandi hóp kvenna sem hafa beðið líkamlegt tjón sökum fóstureyðinga. Það er af þessum ástæðum sem þér ættuð að hyggja að því, hvernig fóstureyðingariðnaðurinn heldur áfram að blekkja konur og misnota með ófullnægjandi og varhugaverðum fóstureyðingarstöðvum.

7. “Fóstureyðingar eru einungis hluti stærra máls. Ég aðhyllist siðgæðisafstöðu sem er sjálfri sér samkvæm í grundvallaratriðum.” Svar okkar: Grunnur hús er einungis hluti byggingarinnar, en nauðsynlegur svo að hinir hlutarnir geti risið. Því hafa kaþólsku biskuparnir endurtekið í sífellu, að í ósamkvæmri siðgæðisafstöðu krefjast fóstureyðingar “knýjandi forgangsathygli.”

8. “Áhersluþættir mínir í stjórnmálum snúast ekki um fóstureyðingar.” Svar okkar: Afstaða yðar til fóstureyðinga segir mikið um almenna afstöðu yðar. Ef þér eruð ekki reiðubúnir til að verja réttindi barna, hvað þá um réttindi okkar hinna?

9. “Við skulum vera sammála um að vera ósammála.” Svar okkar: Við virðum afstöðu þeirra sem eru okkur ósammála. En þegar fórnardýr sæta misþyrmingum, þá setjumst við ekki niður til “að vera sammála um að vera ósammála” kúgaranum. Miklu fremur grípum við til okkar ráða fórnardýrinu til varnar. Fóstureyðingar snúast ekki um afstöðu, heldur blóðsúthellingar. Þeir sem þarfnast verndar þarfnast hennar þrátt fyrir að aðrir kunni að vera slíku ósammála.

10. Að endingu skuluð þið nota það ráð sem gefst alltaf best: Ég er kjósandi!

[1]. Þetta er meðal annars afstaða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, þrátt fyrir að hún sé kaþólsk.
[2]. Fyrsta landið í Evrópu sem afnumdi að nýju rétt til fóstureyðinga af hagkvæmisástæðum er Pólland. Má furðu sæta hversu lengi stjórnvöld í ríkustu löndum heims hafa velt af sér félagslegri ábyrgð sinni gagnvart mæðravernd með fóstureyðingum, fordæmi sem finna má hjá ríkjum sósíalfasismans og Þriða ríkis Hitlers þar sem jafnvel andlega fötluðu fólki var fyrirkomið. Allt ber þetta vott um framsókn nýheiðninnar (new-paganism) meðal kristinna þjóða.

Íslensk þýðing: Jón Rafn Jóhannsson.

 

Greinin birtist upphaflega á heimasíðu kirkju.net.
Fleiri greinar eftir Jón Rafn Jóhannsson eru að finna á 
kirkju.net.

Sjá líka: Stjórnmálaflokkar spurðir.

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: