Vernd lífsins

Hirðisbréf Kaþólskra biskupa á Norðurlöndum

18. október 1999

Kæru bræður og systur í Kristi. Kæru samborgarar á Norðurlöndum.

Á þeirri öld, sem líður nú að lokum, höfum við Norðurlandabúar orðið sammála um að allt fólk hafi jafnan rétt til lífs, frelsis, menntunar, hjúkrunar og félagslegs öryggis. Þótt við gerum okkur ljóst að velferðinni séu viss takmörk sett, er óhætt að halda því fram við við höfum tekið miklum framförum í baráttunni við fátækt og óréttlæti. Nú á dögum teljast lönd okkar til þeirra landa á jörðinni sem mestum árangri hafa náð og njóta lífsskilyrða sem ekki eiga sér hliðstæðu í mannkynssögunni. Þó er ennþá til óréttlæti í samfélögum okkar sem kemur illa heim við hugsjónir okkar og við verðum að ráða bót á.

Í þessu hirðisbréfi viljum við, eins og í yfirlýsingu okkar frá 1971, “Fóstureyðing og kristin ábyrgð”, vekja athygli á hver staða hins ófædda barns er og gera grein fyrir því, hvers vegna leyfi til fóstureyðinga eru ósamrýmanleg viðleitninni til þess að koma á réttlátara samfélagi. Sem kaþólskir biskupar á Norðurlöndum viljum við beina þessum orðum fyrst og fremst til systra okkar og bræðra í kristinni trú og útskýra kenningu kirkjunnar í ljósi fagnaðarerindisins, og þar sem kröfur um siðgæði og siðlega hegðun eiga við allt fólk, hvaða trú eða lífsskoðun sem það játar, viljum við hefja með þessu bréfi viðræður við alla sem keppa að því heilshugar að byggja upp betri heim, enda þótt þeir aðhyllist ekki okkar trú eða gildismat okkar.

Þetta hirðisbréf er þrískipt: Fyrst er kristilegt viðhorf til lífsins kynnt og útskýrt. Í öðrum hlutanum reynum við að fjalla um þau vandamál og spurningar varðandi fóstureyðingar sem dæmigerð eru fyrir lönd okkar. Að síðustu beinum við nokkrum hvatningarorðum til manna og stingum upp á hlutlægum athöfnum sem vonandi gætu orðið máli barnsins ófædda til framdráttar, ef þeim væri beitt.

1. Mannlífið í ljósi kristinnar trúar

1.1. Fundur við Guð lífsins

Veigamesti grundvöllur allrar lífreynslu okkar er sá skilningur, að við höfum fengið lífið að gjöf. Kristnir menn og aðrir geta verið sammála um það. Við kusum ekki að verða til heldur erum við í heiminn komin fyrir atbeina annarra. Við vorum varnarlausar verur þegar við fæddumst og það var umhyggju foreldra okkar og annarra að þakka að við uxum upp og þroskuðumst. Smám saman komst sá skilningur inn hjá okkur að við eigum öðrum líf okkar og mannlega þróun að þakka. Og þar sem við höfum fengið lífið að gjöf, er okkur ljóst að við berum einnig ábyrgð á velferð annarra. Það skýrir líka hvers vegna við viljum ósjálfrátt vernda lífið og höfum andstyggð á að því sé spillt eða það sé slökkt.Margir af samtíðarmönnum okkar skýra tilurð okkar þannig að hún leiði af tilviljun í þróun náttúrunnar. Í þeim skilningi eigum við líf okkar “náttúrunni” eða “tilviljuninni” að þakka. Við kristið fólk teljum samt að bak við það sem virðist gerast af tilviljun í náttúrunni, felist stærri leyndardómur, sem sé lífgandi vilji Guðs. Maðurinn er ekki bara einhver vera og líf okkar er ekki aðeins árangur af líffræðilegu ferli. Það er hlutdeild í lífi Guðs sjálfs og eilífðin er takmarkið sem það stefnir að.

Þegar á fyrstu síðu Biblíunnar er Guð leiddur okkur fyrir sjónir sem skapari og lífgari. “Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð” (1M 1.1). Og þegar hann hafði skapað eitthvað úr engu vildi hann skapa einhvern úr þessu einhverju, þ.e. persónu. Í Biblíunni segir síðan á snjöllu myndmáli: “Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál” (1M 2.7). Guð vildi frá upphafi tímanna vera í sambandi við okkur, vera virkur í sögu okkar, elska okkur þannig að við gætum aftur á móti elskað Guð og átt hlutdeild í dýrð hans. Þess vegna kom hann á sérstöku sambandi við eina þjóð. Ísrael átti að verða allra fyrsta þjóðin á jörðinni til að læra að umgangast Guð og öðlast þá frelsun sem síðar átti að standa öllu mannkyninu til boða. Þegar sáttmálinn milli Guðs og hinnar útvöldu þjóðar hans var gerður, var lagt fyrir Ísrael að velja sér leið í grundvallarsiðgæði sem enn er í fullu gildi. “Sjá, ég hef í dag leitt fyrir þig líf og heill, dauða og óheill. Ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, að elska Drottinn Guð þinn, ganga á hans vegum og varðveita skipanir hans, lög og ákvæði, þá munt þú lifa og margfaldast og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í landi því, er þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar” (5M 30. 15-16).

Engu að síðu átti þessi frásögn að sýna að Ísrael vildi ekki alltaf ganga leið lífsins. Þess ístað kaus þjóð Guðs að dýrka dauða hjáguði og rjúfa með öðrum hætti sáttmálann sem gerður hafði verið. En Guð yfirgaf aldrei þjóð sína heldur auðsýndi henni ævinlega miskunn sína. Hann beið þolinmóður eftir því að Ísrael kysi á ný “líf og heill”. Í frægum spádómi, gagnteknum af von, lætur hann svo um mælt fyrir munn Esekíels spámanns: “Sjá, ég vil opna grafir yðar og láta yður rísa upp úr gröfum yðar, þjóð mín, og flytja yður inn í Ísraelsland… Og ég vil láta Anda minn í yður, til þess að þér lifnið við aftur, og ég skal koma yður inn í yðar land, og þér skuluð viðurkenna að ég er Drottinn. Ég hef talað það og mun framkvæma það, segir Drottinn (Esk. 37. 12-14).

1.2. Hið nýja líf í Kristi

En það þurfti miklu meira til svo að Ísrael skildi hversu vítæk orðin “fagnaðarboðskapur um líf” voru. Þess vegna kaus Guð í óendanlegri miskunn sinni að taka sjálfur á sig lífskjör jarðarbúa. Upphaf lífsins tók sjálft á sig sýnilega mynd, fæddist af konu og var “á allan hátt eins og vér en án syndar” (sbr. Heb. 4. 15). Þar sem Guð varð þannig maður í Jesú Kristi, staðfestist á óræðan hátt gæska lífsins og göfgi mannsins og sérstaða hans meðal alls sem lifir.Kristur endurreisti hið fallna líf með boðun fagnaðarerindisins, kraftaverkum sínum og þó framar öllu öðru með dauða sínum og upprisu. Hann birtist mönnunum raunverulega sem lífið sem “var ljós mannanna” (Jh 1.4). Allt sem okkur hafði áður sýnst vera vonlaust, hneigð okkar til syndar, harmurinn sem okkur virtist stundum engan enda taka, veikleiki líkama okkar og loks líkamlegur dauði okkar verður læknað og endurreist í honum. Eins og segir í helgisiðum okkar: “Fátækum boðaði hann hjálpræði, föngum endurlausn, sorgmæddum gleði. En til þess að uppfylla áform þitt, gaf hann sig dauðanum á vald, gerði hann að engu og endurreisti lífið með því að rísa upp aftur” (4. efstabæn). Í Jóhannesarguðspjalli dregur Jesú fagnaðarboðskap sinn þannig saman: “Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð” (Jh 10.10). Eftir upprisu og himnaför Krists vorum við ekki skilin ein eftir. Eins og Jesú hafði heitið (sbr. Jh 15.26) sendi Faðirinn okkur Heilagan Anda. Í Kristi og fyrir Heilagan Anda höfum við kristnir menn þegið nýtt líf, líf Guðs sjálfs, sem er pantur þeirrar dýrðar sem bíður okkar á himnum. Páll postuli, sem sjálfur fékk mjög skyndilega og áþreifanlega að reyna þessa frelsun, skrifaði kristnu fólki í Róm: “Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var uppvakinn frá dauðum fyrir dýrð Föðurins… Ef vér erum með Kristi dánir trúum vér því að vér og munum með honum lifa” (Rm 6. 4-8). Í bréfum sínum til safnaðanna hvetur Páll hina frumkristnu til að vera trúir þessu nýja lífi, sem okkur hefur verið gefið í Kristi, fjársjóði sem vissulega er geymdur í leirkerum (sbr. 2Kor 4. 7) en er þó sterkari en veikleiki og dauði. Páll skrifar, hugfanginn af þessum mikla leyndardómi: “Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað mun geta gert oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum” (Rm 8. 38-39).

1.3. Ábyrgð mannsins á lífinu

Þetta líf sem Faðirinn hefur skapað, Sonurinn endurleyst og Andinn helgað, er ekki okkar eign. “Hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér Drottins” (Rm 14. 8B). Lífið er eign Guðs. Að vísu höfum við fengið það að gjöf og að vísu getum við hagnýtt okkur það og ráðið í stórum dráttum yfir því. En þegar öllu er á botninn hvolft hefur Guð umráðarétt frumkvöðulsins yfir verki sínu, þar sem hann skapaði okkur eftir sinni mynd og lík sér (Sbr. 1M 1. 26-27). Maðurinn er eina raunverulega myndin sem til er af Guði.Þessum skyldleika Guðs og mannanna fylgja mikilvægar afleiðingar hvað siðgæði snertir. Fyrst og fremst leiðir af honum friðhelgi mannsins. Ef við særum mann er það sama og að vanhelga Guð, því að maðurinn var skapaður eftir hans mynd. En Guð lét sér það ekki nægja, heldur gerðist sjálfur maður til þess að umbreyta manninum og gæða hann ennþá meiri líkingu við sig (sbr. safnbæn í 3. jólamessu): “Þú gafst manneðlinu tign sína á undursamlegan hátt og með ennþá undursamlegri hætti endurbættir þú hana…”). En vegna þess að maðurinn er skapaður Guði líkur, ber hann einnig þá ábyrgð að vera samverkamaður Guðs í sköpuninni. Þar sem við höfum frjálsan vilja og skynsemi, getum við byggt upp líf, verndað það og eflt. En við getum líka misnotað frjálsan vilja okkar og skynsemi með því að rífa niður, deyða og eyðileggja. Sálmaskáldið stendur undrandi frammi fyrir möguleikum mannsins: “Hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess? Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann. Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans” (Sl 8. 5-7).

Andspænis þeirri ábyrgð, sem við höfum fengið í arf, að ráða fyrir handaverkum Guðs, þurfum við ekki að líta svo á að við séum með öllu ráðalaus. Guð hefur gefið hverju og einu okkar þekkingu á náttúrulögmálinu, einskonar innsæi í siðgæði sem allir menn hafa aðgang að, hvað sem líður trú þeirra eða lífsskoðun, og það segir okkur hvað sé rétt og rangt (sbr. Rm 2. 14-16). Ef við förum eftir því lögmáli með því að gera það sem gott er og forðast hið illa, eflum við athöfn Guðs á jörðinni. En það gerist ósjaldan að við mennirnir séum ósammála um hvað þetta náttúrulögmál segi okkur eiginlega á herðar í ákveðnum málum og einstökum tilvikum. Og þar sem uppeldi okkar og umhverfi hafa sín áhrif á okkur, reynist okkur oft erfitt, ef ekki ómögulegt, að ná samstöðu um þessi vandamál, ekki síst í fjölhyggjuþjóðfélögum nútímans.

Fyrir okkur kristið fólk er heilög Ritning, Biblían, sem kirkjan túlkar samkvæmt kennivaldi sínu, áreiðanlegasti mælikvarðinn til skilgreiningar og túlkunar á því sem náttúrulögmálið hefur inni að halda. Hún er leiðarljósið í öllum íhugunum um siðgæði. Bæði heilög ritning og náttúrulögmálið eiga sér sama upphaf, þótt á mismunandi hátt sé, sem er Guð… Ný þekking í vísindum, eindregin almenn skoðun á einhverju ákveðnu viðfangsefni eða margræð og flókin viðhorf nútímalífsins geta þó leitt til endurskoðunar á hefðbundinni sannfæringu í siðgæðismálum. Þótt það liggi í augum uppi að hver kynslóð verði að túlka tilveruna í ljósi aukinnar þekkingar á náttúru og menningu, er engu síður nauðsynlegt nú á dögum, ekki síst þar sem um vernd mannlegs lífs er að ræða, að taka upp vörn gegn gagnrýnislausri aðögun að skoðunum almennings.

Við megum ekki gleyma því að 20. öldin verður skráð í sögunni sem blóði drifnasta öld allra alda, svo að ekki er um neina hliðstæðu að ræða, öldin þar sem vísindaleg geta, skrifræði og hugsjónaeldmóður störfuðu samhliða í þjónustu eyðileggingarinnar og andleg fátækt og blindaðar skoðanir almennings gáfu þögult samþykki sitt. Boðorði Biblíunnar, “Þú skalt ekki morð fremja” (2M 20. 13; 5M 5.17), virðist ekki aðeins eiga ótvírætt við með þennan bakgrunn í huga, heldur vera með öllu óhjákvæmilegt ef við eigum að geta vonast til að geta einhvern tíma komið á réttlátara samfélagi.

1.4. Gildi hins ófædda barns í kristinni trúarhefð og kenningu

Kaþólska kirkjan hefur hugleitt grandgæfilega friðhelgi mannlífsins, bæði frá guðfræðilegu og heimspekilegu sjónarmiði, og að því gerðu kennt og lagt mikla áherslu á að sú friðhelgi hefjist við getnað. [1] Þessi kenning, sem kaþólska kirkjan heldur fast við, hefur myndast í aldalangri rás guðfræðilegra og heimspekilegra hugleiðinga og er svar við þeirri vaxandi ógnun sem vofir yfir mannkyninu.Heilög ritning vitnar ófrávíkjanlega um gildi hins ófædda barns. Þegar í Gamla testamentinu lætur Drottinn Jeremía spámann segja: “Áður en ég myndaði þig í móðurkviði, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig” (Jer 1. 5). Í Sálmunum er sagt á skáldlegan hátt frá upphafi manns í móðurlífi: “Því að þú hefur myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi. Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel. Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gerður í leyni, myndaður í djúpum jarðar. Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn” (Sl 139. 13-16).

Frá þessari lotningu fyrir mannlegu lífi í Gamla testamentinu þróaðist hin kristilega skoðun. Sannfæringu kristinnar trúar fylgir að maðurinn hafi áður öðlast fullkomið gildi sitt fyrir það að Guð gerðist maður og tók á sig okkar eðli. Mannlegt líf er heilagt af því að það er nú órjúfanlega sameinað eðli Guðs sjálfs.

Þessi sannfæring og afstaða til hins ófædda lífs varð til þess að hinir frumkristnu litu svo á frá upphafi að ekki mætti deyða ófædd eða nýfædd börn. Hvort tveggja tíðkaðist almennt meðal Miðjarðarhafsþjóða. Í Didaché, skjali frá tímum postulanna (kringum árið 100), segir ótvírætt: “Þú skalt ekki deyða barn með fósturmorði: Þú skalt ekki láta nýfætt barn farast” [2]. Sömu skoðanir koma fyrir nokkru síðar í bréfi Barnabasar og bréfinu til Diogenets. Litið var á fóstureyðingu sem móðgun við Guð af því að með henni væri því eytt af ásettu ráði sem hann hefði skapað. Í ritum kirkjufeðranna er sömu sannfæringu að finna. [3] Á síðari öldum efldist þessi skoðun á gildi fóstursins í trúarlegum athöfnum kirkjunnar. [4]

Kirkjan lætur enn á okkar dögum til sín heyra til þess að standa vörð um gildi hins ófædda barns og rétt þess til lífs. Allir kaþólskir biskupar heimsins, sem saman voru komnir á 2. Vatikanþinginu (1962-1965), skrifuðu: “Guð, sem er Drottinn lífsins, hefur trúað manninum fyrir því veglega hlutverki að standa vörð um lífið og það á hann að gera á mannsæmandi hátt. Lífið ber því að vernda með ýtrustu umhyggju all frá getnaði. Fóstureyðingar og barnamorð eru viðurstyggilegir glæpir.” (Reglugerð um hirðishlutverk kirkjunnar í heimi nútímans, Gaudium et spes, 51).

Starf kirkjunnar í þágu hins ófædda barns birtist meðal annars í kirkjurétti okkar, sem leggur þá refsingu á hvern sem stuðlar með einhverjum hætti að fóstureyðingu, að hann sé útilokaður frá samfélagi kirkjunnar um sakramentin (sbr. kirkjuréttinn, Codex iuris canonici, can. 1398). Í Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar er mönnum gert ljóst að þessi ströngu, lögfræðilegu viðurlög “þrengi ekki að miskunnseminni”, heldur miði þau að því að undirstrika “alvarleika afbrotsins og hins óbætanlega tjóns sem unnið hafi verið saklausu barni, foreldrum þess og öllu samfélaginu” (2272). Loks gerði Jóhannes Páll II páfi skýra og ótvíræða gerin fyrir kenningu kirkjunnar varðandi fóstureyðingar í páfabréfi sínu Evangelium vitae 1995 og lýsti því yfir “í samfélagi við biskupana” að “bein fóstureyðing, gerð af ásettu ráði, sem miðar að aflífun saklausrar manneskju, sé alltaf alvarlegt afbrot gegn siðgæði” (Evangelium vitae, 62).

2. Staðan á Norðurlöndum

Okkur er fullljóst að mikill hluti Norðurlandabúa fellst ekki á sannfæringu okkar um gildi og algera friðhelgi hins ófædda barns og að mörgum finnst ekkert athugavert við að grípa til fóstureyðinga, enda eru þær útbreiddar í löndum okkar. Á Norðurlöndum eru kringum 75.000 fóstureyðingar framkvæmdar árlega. [5] Við megum ekki sætta okkur við þessa stöðu mála. Það er sorglegt og ætti að vekja okkur til umhugsunar að svo margt tiltölulega ungt fólk skuli hafa reynslu af því að rjúfa þungun. [6] Meira fé þarf að verja til menntunar, upplýsinga og endurbættrar löggjafar til þess að draga úr fóstureyðingum og koma í veg fyrir þær og binda endi á að mannlegt líf verði slökkt.

Orsakir þess að fóstureyðingar eru nú orðnar svo aðgengilegar sem raun ber vitni eru margar og flóknar. Við förum ekki út í hugmyndafræðilegar eða sögulegar útlistanir þess eða leitum tæmandi svara, en viljum heldur beina athyglinni að vissum atriðum í fóstureyðingamálinu sem eru dæmigerð fyrir Vesturlönd og þó sérstaklega okkar lönd.

2.1. Krafan um aukinn sjálfsákvörðunarrétt

Sérstakt einkenni þess skilnings á siðgæði sem nú er ráðandi er ósk manna um aukinn sjálfsákvörðunarrétt eða sjálfræði sér til handa. Getan til að hagnýta sér það frelsi “er eitt af helstu einkennum Guðsmyndarinnar í manninum” (sjá Reglugerð um hirðishlutverk kirkjunnar í heimi nútímans, Gaudium et spes, 17) og er því í sjálfu sér góð. En frelsi okkar verður að hafa hliðsjón af réttri notkun þeirra gjafa og gáfna sem komið hafa í okkar hlut. Frelsi okkar getur aldrei verið frelsi frá ábyrgðinni á lífsskilyrðum meðsystkina okkar.En nú á tímum blasir við okkur ástand þar sem beiting þess frelsis er í síauknum mæli orðið að markmiði í sjálfu sér. Þar sem aukning kaupmáttar hefur orðið samfara þessum óskum, hefur tekið við þar sem félagsfræðingar skilgreina sem kröfu um “umsvifalausa fullnægingu þarfa”. Við viljum fá meira af því sem við óskum okkur og það umsvifalaust, í þeirri fölsku von að með því getum við uppfyllt allar þarfir okkar. Þessi hugsunarháttur setur líka sinn svip á afstöðu okkar til mannlífsins. Sænska orðtakið “att skaffa barn — að afla sér barns” er einkennandi fyrir þá afstöðu. Hættan felst í því að menn með slíkan hugsunarhátt líti á barnið sem neysluvöru sem hægt sé að panta þegar manni hentar og það verði að samsvara ákveðnum gæðastaðil við afhendingu, til þess að við því verði tekið. Ef menn hugsa á þann hátt er skammt til þess að þeim finnist koma til greina að grípa til fóstureyðingar ef kona verður þunguð án þess að barnsfæðingar sé óskað.

Réttur okkar til sjálfsákvörðunar má aldrei ganga á rétt annars til lífs. Hver og ein manneskja er sérstök og óbætanleg í augum Guðs (sbr. Mt 10. 29-31). Enda þótt hver og einn einstaklingur hafi verið vakinn til lífs fyrir meðverknað foreldranna, er manneskjan að öllu leyti, með líkama og sál, sköpuð af Guði (sbr. 1M 2, 7). Hann kallar hvert og eitt okkar út af fyrir sig til persónulegs sambands við sig: “Þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar. Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn” (Sl 22. 10-11). Hvað þetta snertir eru allir menn jafnir og því á að koma fram við þá sem jafningja.

Sú staðreynd, að ekki hefur verið óskað eftir sumum þungunum eða ekki hefur verið gert ráð fyrir þeim, veitir okkur engan rétt til að binda endi á þær af ásettu ráði, þar sem mannlegt líf er þá hafið, óendanlega dýrmætt í augum Guðs. — Við leggjum áherslu á að með þessu er ekki átt við læknisaðgerðir sem framkvæmdar eru til þess að bjarga lífi þungaðrar konu og gætu leitt til dauða ófædds barns. Þegar þannig stendur á er ætlunin ekki að deyða barnið, heldur að bjarga lífi . — Þó að sum börn fæðist líkamlega eða andlega fötluð, höfum við engan rétt til að ráða yfir lífi þeirra. Slíkar fatlanir gera þau á engan hátt minna verð þess að fá hlutdeild í gjöf lífsins og njóta kærleika Guðs og meðbræðra sinna og systra. Kirkjan er andvíg því að gerður sé nokkur greinarmunur sem byggður sé á heilbrigði eða kyni og leggur áherslu á grundvallargildi og sama gildi allra manna (sbr. Rm 2.; Gl 3. 28; Ef 6.9).

Sjúkdómsgreiningu á fóstri snemma á meðgöngutíma, sem getur með síauknu öryggi gefið upplýsingar um heilsufar hins ófædda barns, má aldrei gera með það fyrir augum að hún geti leitt til fóstureyðingar (sbr. Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, 2274).

2.2. Staða verðandi foreldra

Einn mikilvægasti ávinningurinn á sviði félagsmála í löndum okkar er aukin þátttaka kvenna í félagslífinu. Fyrir breytta stöðu þeirra í lífinu hafa þær öðlast ríkulega möguleika til að þróa persónuleika sinn, ekki hvað síst vegna menntunar og hlutdeildar í atvinnulífinu. Þótt við berum okkur saman við flest önnur lönd, erum við Norðurlandabúar langt komnir í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Við getum þó ekki látið okkur nægja það sem náðst hefur, heldur verðum að berjast gegn hvaða mismunun milli kynja sem er.Staðan er þó ekki ótvírætt jákvæð. Nú á dögum eru bæði karlar og konur undir miklum þrýstingi að ná góðum árangri í atvinnu sinni. Oft eru þau ár, þegar harðast er sótt fram til að ná sem bestum árangri í starfinu, sömu árin og flestir menn í okkar heimshluta stofna til fjölskyldu. Margar konur komast að því að aukin þátttaka þeirra í opinberu atvinnulífi leiðir ekki til þess að úr því starfi dragi sem vænst er af þeim á heimilunum. Það veldur töluvert meira vinnuálagi sem veldur aukinni streitu og því að konurnar eiga erfiðara með svefn en karlmenn. Það á ekki síst við konur á barneignaaldri. Konum, sem gera sér ljósa hættuna á því að þær lendi í þeim vanda, kann að finnast að þær verði að neita sér um að verða mæður, t.d. með því að láta eyða fóstri ef þær hafa orðið þungaðar án þess að ætlast til þess.

Ójafnt vinnuálag getur líka leitt til spennu á heimilinu sem loks getur endað með hjónaskilnaði. Við verðum því að leggja ríka áherslu á að það er skylda karlmannsins, ekki síður en konunnar, að láta fjölskylduna ganga fyrr öllu öðru.

Á síðari árum hefur það komið oftar og oftar fyrir að vinnuveitendur hafa krafist þess af ungum konum að þær lofi því að verða ekki þungaðar. Að öðrum kosti fái þær ekki starfið. Algerlega óviðunandi er að menn hlutist þannig til um líf ungra kvenna. Auk þess bendir það til þess skilnings að konan beri ein ábyrgð á börnunum, þar sem hliðstætt heit er ekki heimtað af karlmönnunum. Ef svo er þrengt að konunum kunna þær að líta þungun svo alvarlegum augum að þær kjósi að láta eyða fóstrinu.

Við megum ekki gleyma því að allt frá stundu getnaðarins ber karlmaðurinn jafn mikla ábyrgð á barninu ófædda og konan. Þess vegna er ánægjulegt að feður skuli nú líka eiga rétt á barnsfæðingaleyfi. Vinnuveitandinn má ekki synja feðrunum um þennan rétt því hann er tryggður þeim með lögum.

Við vitum að margir foreldrar eru fegnir því að geta komið börnum sínum á dagheimili og að það getur verið gott fyrir eldri forskólabörn og stuðlað að auknum þroska þeirra að vera í forskóla að minnsta kosti nokkra klukkutíma á dag. Mestu ræður að foreldrarnir séu frjálsir að því að velja um, hvað þeir sjálfir telja börnum sínum fyrir bestu. Þess vegna er það skylda samfélagsins að sjá um, að foreldrarnir neyðist ekki til að fara báðir út á vinnumarkaðinn t.d. vegna ranglátrar sköttunar, enda þótt þeir vildu að annað hvort þeirra gæti verið heima hjá börnunum.

Karlmenn sem yfirgefa fjölskyldur sínar eru vaxandi vandamál um allan heim, ekki síst í fátækum löndum. Sífellt fleiri konur eru skildar etir einar með ábyrgðina á forsjá og uppeldi barnanna. Í okkar löndum tíðkast ennþá mest — þrátt fyrir aukið jafnrétti — að móðirin beri aðalábyrgðina á börnunum eftir aðskilnað. Á Norðurlöndum er tiltölulega vel séð fyrir einstæðum mæðrum, en engu að síður teljast þær til þeirra samfélagshópa sem minnstar hafa tekjurnar og veikastir eru fyrir sjúkdómum sem tengjast streitu, enda er skiljanlegt að það leiði af vinnuálagi eða námi þeirra einstæðu kvenna sem verða jafnframt því að annast börnin einar, svo og heimilisstörfin. Það hefur úrslitaþýðingu að karlmennirnir axli ábyrgð á börnunum, fjárhagslega og tilfinningalega séð, svo og í daglegu lífi. Sú skylda hvílir engu að síður á þeim, þótt karlmaðurinn og konan búi ekki lengur saman.

Afstaða umhverfisins til þungunar ræður oft úrslitum um, hver þróun hennar verður. Þegar ung hjón eða sambýlingar, sem eru nýorðin áskynja um að þau eigi von á barni, verða þess vör að það sé vandamál, er mikil hætta á því að þau kjósi fóstureyðingu. Löggjafinn verður því að leggja aukna áherslu á að auðvelda unga fólkinu að verða foreldrar, til dæmis með því að búa þeim betri efnahagsskilyrði. Enginn á að þurfa að taka þá þungbæru ákvörðun að binda endi á þungun, allra síst af efnahagsástæðum.

Við minnum á að samkvæmt kristinni kenningu takmarkast kynmök við hjón. Í skauti fjölskyldunnar og trúnaðarsambandi milli hjóna, sem bjóða velkomna gjöf lífsins, er að finna bestu skilyrðin fyrir því að barni sem fæðist verði tekið með kærleika og fögnuði.

2.3. Femínisminn og viðhorf til fóstureyðinga

Í baráttunni gegn því óréttlæti sem konur eiga enn við að stríða, er stundum sett á oddinn að baráttan fyrir raunverulegri frelsun þeirra verði að hefjast á lausn frá því arfhelgaða hlutverki þeirra og stöðu í hugsun manna að verða mæður. Menn segja aðhafa verði fulla stjórn á tímgunargetu kvenna, meðal annars með óhindruðu aðgengi að getnaðarvörnum og fóstureyðingum, svo að hægt verði, hvað sem það kostar, að koma í veg fyrir eða binda enda á þungun sem ekki hefur verið óskað eftir. Séð frá þessu sjónarmiði virðist barnið ófædda vera raunveruleg hindrun í vegi baráttu kvenna fyrir jafnrétti.Þó er farið að örla á breytingu á þessu viðhorfi. Germaine Greer, sem er framarlega í forystusveit femínistahreyfingarinnar, víkur í síðustu bók sinni “Konan öll” [7] frá þeirri eindregnu skoðun sinni fyrrum að fóstureyðingar eigi að vera öllum heimilar. Þess í stað leggur hún nú áherslu á að fóstureyðingar beri vott um þá kynferðislegu kúgun kvenna sem karlar hafi enn í frammi. Þeir vænti þess af konum að þær séu alltaf reiðubúnar til kynmaka, þar sem getnaðarvarnir og fóstur-eyðingar geti komið í veg fyrir eða bundið enda á óæskilega þungun. Hún bendir meðal annars á að framleiðsla varnings til getnaðarvarna og fóstureyðinga sé orðin að iðnaði sem ráði fyrir miklum fjármunum. “Í neðri deild breska þingsins tekst áróðursmönnum gegn fósureyðingum ár eftir ár að fá þingmenn til að leggja fram lagafrumvörp án þess að þeir virðist hafa hugmynd um að heilbrigðisstofnunum kemur ekki til hugar að leyfa neinum að hlutast til um rétt þeirra til þess að ráða yfir frjóvguðum eggjum kvenna, fóstrum og ófæddum börnum eftir því sem þeim sýnist” [8].

Kristnir femínistar, sem eiga, sameinaðir ýmsum öðrum, meðal annars biskupum okkar, í baráttu gegn því óréttlæti sem konur eru ennþá beittar, benda réttilega á hversu rangt það það sé að líta svo á sem hagsmunir ófæddra barna og þungaðra kvenna rekist á. [9] Þær leggja áherslu á að það sem einkenni sannan femínisma sé samfélagsviðhorf þar sem reynt sé að leysa vandamál heimsins þannig að lausnirnar komi heim við siðgæði, sem merki að tillit sé tekið til allra manna, einnig ófæddra barna. Kristnir femínistar líta á það sem svik við hið sanna gildismat sitt ef femínistar verji það ofbeldi gegn bróður eða systur sem fóstureyðing er. Samkvæmt skoðunum kristinna femínista eiga þær siðgæðisskoðanir, sem byggjast einhliða á sjálfræði og efnahagsframförum og undirstrika og fallast á hneigð mannsins, sérstaklega karlmannsins, til þess að stjórna þróuninni í heiminum, að víkja fyrir siðgæði sem byggt er á ábyrgð gagnvart náunganum.

Jesús Kristur fór, eins og í öllu öðru, fyrir okkur með fordæmi til að fara eftir. Jóhannes Páll II páfi hefur sagt: “Í allri fræðslu Jesú, svo og í breytni hans, er ekkert að finna sem endurspegli þann mismun, konum í óhag, sem einkenndi hans tíma. Í orðum hans og breytni er þvert á móti alltaf að finna þá virðingu og þann heiður sem konum ber” (Postullegt bréf Jóhannesar Páls II, Mulieris dignitatem, 13).

Guð tók á sig mannlegt hold með því að fæðast af konu. Í henni, Maríu mey, sem er dóttir, systir og móðir, og í afdráttarlausu jáyrði hennar við vilja Guðs, finna bæði konur og karlar mælikvarðann á göfugt gildi sitt og köllun.

2.4. Viðhorfið til barnsins ófædda

Alls staðar á Norðurlöndum eru nú til lög sem heimila fósureyðingar, á kostnað almennings. Lögin eru mismunandi í smáatriðum en allsstaðar heimila þau frelsi til fóstureyðingar fram að tólftu viku meðgöngutímans. [10]Fyrir 20-30 árum, þegar lög um fóstureyðingar voru sett, var yfirleitt litið á fóstrið sem hluta af líkama konunnar, sem fjarlægja mátti samkvæmt óskum hennar, ef talið var að það væri heilsu hennar fyrir bestu. Aukin þekking á ófæddum börnum vakti samt athygli á þeirri staðreynd, að þótt barnið sé algerlega háð móðurinni vegna næringar, súrefnis, úrgangsefna og verndar, er það einstaklingur út af fyrir sig, meðal annars með sérstök erfðaeinkenni, blóðrás og ónæmisvernd. Nútíma sjúkdómsgreining á fóstrum og aðgengi að sífellt þróaðri tækni í læknismeðferð á ófæddum börnum hefir líka leitt til þess að heilbrigðiskerfið viðurkennir þau sem sjúklinga með eigin þarfir og réttindi. Um leið og þekking okkar á ófæddum börnum fer vaxandi, rýrnar sannfæringin um að 12. vika þungunar sé tiltölulega eins örugg og siðfræðilega verjandi tímatakmark til fóstureyðingar og margir hafa látið í veðri vaka. Nú vitum við að barnið hefur tilfinningu fyrr en men héldu áður. Tilfinninganæmir taugaendar eru komnir kringum munninn í sjöundu viku þungunar og síðustu rannsóknir hafa leitt í ljós að barnið finnur sársauka í 10. viku. Þá er þróun barnsins komin á all hátt stig. Hugsi menn til þeirrar þekkingar á “getu ófædds barns” [11] sem við öflum okkur dag frá degi, verður sífellt erfiðara, jafnvel frá sjónarmiði sem ekki er kristið, að draga slíka takmarkalínu að fram að henni sé siðfræðilega verjandi að slökkva líf barnsins.

Aflífun ófæddra og nýfæddra barna er einnig varin frá heimspekilegu sjónarmiði einu saman. Þá halda menn því fram að ekki sé hægt að líta á slík börn sem persónur, þar sem þau hafi enga sjálfsvitund og þar með enga hagsmuni sem við þurfum að virða.” [12] Þarna er gerður greinarmunur á líffræðilegu og persónulegu lífi. Með liffræðilegu lífi eiga menn við ómeðvitað efnaferli sem stýri þróun lífverunnar, tímgun hennar og lífsgetu. Með persónulegu lífi er aftur á móti átt við það líf sem persóna lifir með vitund um sjálfa sig og getu til að ráða lífi sínu eða það líf sem hún hefur lifað. Tilgangurinn með greinarmuninum er að undirstrika augsýnilega siðræna yfirburði hins persónulega lífs, borið saman við hið líffræðilega til þess að geta með því haldið fram algerum rétti persónunnar til að ráða fyrir líffræðulegu lífi sjálfrar sín og annarra. Þessi tvíhyggjuskoðun á manninum er mjög vafasöm. Að sjálfsögðu er það líka venjulegt í kristinni hefð að greina á milli líkama og anda, en þessi mismunun á aðeins við að forminu til og dregur alls ekki þá staðreynd í efa að maðurinn sé óskiptur einstaklingur. Öll reynsla og þekking mannsins sýnir, að líkami okkar og hugsun eru til samhliða og að þau þróast bæði samtímis sem ein heild. Fóstur verður ekki manneskja heldur er þegar manneskja á þróunarleið. Fóstrið er þegar við getnað búið öllum þeim innri skilyrðum sem það þarfnast til þess að geta þróast upp í fullvaxta einstakling með vitund um sjálfan sig. Þess vegna segir kirkjan með vissu: “Manneskjuna ber að virða og meðhöndla sem persónu frá og með getnaði. Þar af leiðandi verður að virða órjúfanlegan rétt hvers saklauss einstaklings sem persónu og þar á meðal fyrst og fremst til lífs frá sömu stundu” (fyrirmæli Stjórnardeildar trúarkenninga, Donum vitae, 1987), I.1). Þetta skýrir líka hvers vegna kirkjan setur sig kröftuglega upp á móti öllum tilraunum og meðferð á fóstrum sem eyðileggja þau. Þar er þegar um mannlegt líf að ræða.

3. Áskoranir og uppástungur

3.1. Til allra kaþólskra kristinna manna á Norðurlöndum

Við skorum á allar systur okkar og bræður sem játa kaþólska trú að sýna ófæddum börnum virðingu í orði og verki. Okkur er vel ljóst að meðal okkar er að finna fólk sem áður hefur látið eyða fóstri eða átt þátt í slíku. Skýr og ótvíræður boðskapur kirkjunnar í þessu máli er ekki til þess ætlaður að sakfella neinn mann, heldur að bjarga mannslífum. Fagnaðarerindi lífsins er einnig beint til þeirra systra okkar og bræðra. Kristur segir: “Þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara sem gerir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum sem ekki hafa iðrunar þörf” (Lk 15.7). Þungbæra reynslu hvað þetta snertir má í framtíðinni hagnýta, bæði fyrir bæn og einlægan vitnisburð.

3.2. Til annarra kristinna manna á Norðurlöndum

Ásamt öllum öðrum kristnum mönnum á Norðurlöndum viljum við berjast fyrir aukinni virðingu fyrir hinu ófædda barni og biðja allar kristnar systur okkar og bræður að leggja okkur lið til þess. Í kaþólsku kirkjunni á Norðurlöndum er aðeins brot af tölu kristinna manna í löndum okkar. Við þurfum á sameinaðri kristni að halda til þess að boða allan sannleika fagnaðarerindisins um gildi lífsins, svo að menn fallist á hann, enda bað Drottinn: “Ég bið… að allir séu þeir eitt, eins og þú, Faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi að þú hefur sent mig.” (Jh 17. 21)

3.3. Skipulögð barátta fyrir lífinu

1. Við leggjum til að í hverju biskupsdæmi eða í hverju Norðurlandanna verði gripið til skipulagðrar baráttu innan kaþólsku kirkjunnar, til þess að efla virðingu fyrir hinu ófædda lífi, með trúfræðslu, sálgæslu, prédikunum og upplýsingum. Í sambandi við það má einnig benda á að ættleiðing gæti verið leið til að bjarga barnslífi.2. Við leggjum til að fjárhagslega verði séð fyrir slíkri starfsemi með því að stofna “Sjóði lífsins” sem komið verði á stofn í hverju biskupsdæmi í þessu skyni, samkvæmt getu hvers þeirra um sig. Fjármagn sjóðanna byggist á gjöfum fólks í biskupsdæmunum og annarra og skulu þeir styrkja það sem gert er í þágu ófæddra barna og styðja foreldra þeirra, ekki síst ef um einstætt foreldri er að ræða.

3. Kirkjan gæti stuðlað að því að verðandi foreldrar haldi ófæddum börnum sínum með því að annast það sem erfitt væri að ráða fram úr á annan hátt, svo sem með félagslegri hjálp sem margir fara á mis við nú. Kirkjan gæti komið á laggirnar samtökum fyrir fólk sem vill styðja einstæða foreldra, samtökum þar sem einstæðir foreldrar geta hist og hjálpað hver öðrum.

4. Í kaþólsku sóknunum ættu menn að kanna, hvaða möguleikar séu á að hjálpa ungum foreldrum, ekki aðeins fjárhagslega heldur einnig í öðrum hagnýtum efnum. Mikilvægt er að skapa það andrúmsloft í sóknum okkar og guðsþjónustum að barnafjölskyldur finni að þær séu velkomnar. Það verður að vera rými fyrir börnin svo að þau skilji að þau séu mikils metin.

4. Efnisinntak

Kristur “afmáði dauðann en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu” (2 Tm 1. 10). Í ljósi þessa fagnaðarerindis um lífið í Kristi, sjáum við að hin kristna trú okkar er ekki fyrst og fremst safn reglna sem við eigum að fara eftir í smáatriðum heldur kærleiksríkt svar við því ávarpi sem Faðirinn beindi til okkar í Syninum. Það var Guð sem tók frumkvæðið og skapaði okkur frjálsar veru með eigin vilja og skynsemi. Nú á dögum hafa mennirnir möguleika, ef til vill betri en nokkru sinni áður, til þess að notfæra sér það frelsi og ráða fyrir sínu lífi og annarra. En spurningin er: Hvernig getum við brugðist við frumkvæði Guðs, hvernig getum við á sem bestan hátt svarað óendanlegum kærleika hans? Í þessu hirðisbréfi höfum við biskuparnir reynt að tilgreina nokkrar ástæður þess, að við trúum því að fóstureyðing sé ósamrýmanleg þeim kærleika og hvers vegna saklaust, mannlegt líf eigi að njóta verndar frá getnaði til náttúrlegs dauða.

Við megum ekki ráða yfir lífinu, gjöf Guðs, en fyrir náð Guðs og gæsku Jesú Krists megum við vona að einn góðan veðurdag fáum við að upplifa návist Guðs til eilífðar. Eins og heilagur Íreneus orðaði það svo vel: “Sómi Guðs er hin lifandi manneskja og líf manneskjunnar er að geta séð Guð.” [13]  

 

Gautaborg á Lúkasarmessu,
18. október 1999

†   Gerhard Schwenzer, Oslóarbiskup. Formaður Norðurlanda biskuparáðstefnu.

†   Anders Arborelius, Stokkhólmsbiskup. Varaformaður Norðurlanda biskuparáðstefnu

†   Czeslaw Kozon, Kaupmannahafnarbiskup.

†   Jóhannes B.M. Gijsen, Reykjavíkurbiskup.

†   Gerhard Goebel, Tromsöbiskup.

†   William Kenney, Aðstoðarbiskup í Stokkhólmi

†   Georg Müller, Þrándheimsbiskup.

P. Johannes Aarts, Stjórnandi Helsingforsbiskupsdæmis.

†   Hans Martensen, Biskup emeritus í Stokkhólmi.

†   Hubertus Brandenburg, Biskup emeritus í Stokkhólmi.

 

(Torfi Ólafsson þýddi)


 

 1. Okkur er vel ljóst að við getnað er of snemmt að tala um upphaf einstaklings, í þrengsta skilningi þess orðs, þar sem hið frjógvaða egg gæti skiptst í tvennt og orðið að eineggja tvíburum. Sá líffræðilegi möguleiki raskar þó í engu þeirri kenningu kirkjunnar að nýtt, mannlegt eðli verði til við getnað, mannlegt líf sem tilheyri frá upphafi okkar tegund og verði því að virða.
 2. Ýtarlegri sögulegar upplýsinga um afstöðu krikjunnar til fóstureyðinga og barnamorða er að finna í kafla eftir John T. Noonan, “An Almost Universal Value in History”, í bókinni The Morality of Abortion, útg. John T. Noonan, Harvard UP, Cammbridge, Mass., 1970.
 3. Meðal annarra skrifar Tertúlíanus (kringum 200) um fóstrið og þau orð eru enn í fullu gildi: “Það er manneskja, sama manneskjan og það á einhvern tíma eftir að verða, því að ávöxurinn er ævinlega að öllu leyti í sæðinu” (Apologeticum, IX, 8). Á 3. öld fordæmir Clemens frá Alexandríu fóstureyðingu og færir til aðra röksemd, sem sé að stríða gegn kærleiksboðorði Krists að slökkva líf barns, því að í því segi að við eigum að elska hvert annað eins og hann hefur elskað okkur (Jh 15. 12).
 4. Kringum 550 var farið að halda hátíðegan boðunardag Maríu, eða boðun Krists eins og hann var nefndur þá, 25. mars (9 mánuðum fyrir jól) til þess að minnast getnaðar Krists. Þegar kirkjan byrjaði á 12. öld að halda hátíðlegan minningardag um getnað Maríu 8. desember, var það ger með hliðsjón af því að kirkjan hafði í 600 ár haldið hátíðlegan fæðingardag hennar 8. september. Sbr. A.G. Martimot: L’Eglise en priere IV. La liturgie et le temps, Desclée, 1983, bls. 155.
 5. I følge de nyeste tilgjengelige statistiske opplysningene var antallet aborter utført i Sverige 1998: 31 008, Danmark 1996: 18 135, Finland 1997: 10 238, Norge 1997: 13 985, Island i 1997: 919 (foreløpig tall).
 6. Héraðsþingið í Stokkhlómi stóð nýlega fyrir könnun og leiddi hún t.d. í ljós að kringum 21% þeirra ungu stúlkna sem spurðar voru höfðu notað “daginn-eftir töfluna” sem leiðir til þess að egg, sem kynni að hafa frjóvgast við óvarin kynmök, festist ekki í leginu til að þróast þar, ef taflan er tekin morguninn eftir.
 7. Sú bók heitir á sænsku “Kvinnan i sin helhet” og kom út hjá Norstedt 1999.
 8. “Kvinnan i sin helhet”, 1999.
 9. Bls. 100 í bókinni um konuna eftir . Greer. 9 Sbr. “Abortion and the Sexual Agenda: A Case for Prolife Feminism” eftir Sidney Callahan í bókinni Abortion: A Reader, útg. Lloyd Steffen, Cleveland, Ohio, 1996.
 10. Á Íslandi er þess krafist að umsækjandi greini frá heilsufarslegum og félagslegum ástæðum fyrir beiðninni og að aðgerðin fari fram sem fyrst, ef unnt er fyrir lok 12. viku þungunar. Eftir 16. viku þungunar verða viðkomandi yfirvöld að leyfa fóstureyðingu. Í Danmörku er fóstureyðing eftir 12. viku þungunar leyfð, ef félagslegar og heilsufarslegar ástæður eru tilgreindar, en í lögunum eru engin ákvæði um efri tímasetningu, sem segi til um hvenær barnið ófædda fær rétt til að lifa. Árið 1996 voru t.d. framkvæmdar 12 fósureyðingar eftir 23. viku, þar með taldar 3 þar sem fóstrið var á 32. og 33. viku þungunar. Í Svíþjóð eru fóstureyðingar leyfðar fram að 18. viku þungunar. Eftir þann tíma og fram að þeim tíma sem fóstrið er talið geta lifað utan móðurlífs (sem nú er talinn vera 22 vikur) má því aðeins leyfa fóstureyðingu ef um sérstakar aðstæður er að ræða og yfirvöld leyfi. Í Noregi er sá formáli skráður á undanlögunum að ríkinu sé skylt að bjóða umsækjendum siðfræðilegar leiðbeiningar, upplýsingar um kynferðismál, fræðslu um mannleg samskipti og leiðsögn í ábyrgri fjölskylduáætlun, til þess að halda fjölda fóstureyðinga í lágmarki. Eftir 12 viku þungunar verða sérstakar astæður að vera fyrir hendi og ekki má binda endi á þungun eftir að fóstrið hefur náð þeim þroska að geta lifað utan móðurlífs. Í Finnlandi mæla lögin svo fyrir að fóstureyðingu vegna heilsufarslegra eða félagslegra ástæðna megi leyfa til 12. viku þungunar, en þó sé hægt að leyfa hana af heilsufarslegum ástæðum til 24. viku.
 11. “Geta ófædds barns” (“Det ofödda barnets kompetens”) eftir Kerstin Hedberg Nyqvist, Signum 3/98, bls. 80-83.
 12. Þetta sjónarmið hafa ýmsir heimspekingar nytsemishyggjunnar varið, svo sem Michael Tooley, Peter Singer og Helga Kuhse. Helga Kuhse hefur t.d. skrifað: “… við getum ekki einu sinni haldið því fram að framhald lífs sé hagsmunamál nýfædds barns. Það er auðvitað rétt að fari allt vel, getur ungbarn orðið að hamingjusömu, stálpuðu barni og fullorðinni manneskju sem lítur á líf sitt sem ómaksins vert, en eins og við höfum séð verður framvindan ekki alltaf þannig. Þar að auki, sem er veigamikið, er vitundarlíf maneskjunnar ekki bundið lífi barnsins. Nýburinn og barnið eru líkamlega sama lífveran, en barnið er persóna í fyllsta skilningi þess orðs, en það er nýburinn ekki. Það þýðir að nýburar hafa ekki áhuga á framhaldi tilveru sinnar (frekar en kettlingar og fóstur), að þeir hafa ekki “rétt til lífs”, og að það er ekki beinlínis rangt að hætta að vernda líf þeirra.” Sbr. Helga Kuhse, “Quality of Life as a Decision Making Criterion II” í bókinni Ethics and Perinatology, útg. Amnon Goldworth, Oxford UP, New York, 1995.
 13. Adversus haereses, IV, 20
Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: