SINNASKIPTI BERNARDS NATHANSONAR FÓSTUREYÐINGARLÆKNIS


Bernard Nathanson (fæddur 1920), prófessor við Cornell-háskóla, var
yfirlýstur guðleysingi og einn af helstu leiðtogum fóstureyðingarsinna
heimsins. Hann barðist linnulaust fyrir lögleiðingu og aðgengi að
ódýrum fóstureyðingum í Bandaríkjunum. Árið 1968 varð Nathanson
stofnfélagi að National Abortion Rights League (skammstafað NARAL).
Þetta voru samtök sem börðust fyrir réttinum til fóstureyðinga um allt
þjóðfélagið. Hann átti stærstu fóstureyðingarstöð í Bandaríkjunum og
sagðist bera ábyrgð á 75.000 fóstureyðingum. Hann játaði síðar að á
meðal þessara fóstureyðinga hefðu verið ófædd börn hans sem hann drap
með sínum eigin höndum. En síðar átti sér stað kraftaverki í lífi Nathanson. Hann sá að sér og hugsunin breyttist. Fremsti
fóstureyðingarsinni heimsins hóf að leiða baráttuna fyrir lífi ófæddra barna. Eftir margra ára undirbúning var hann skírður til kaþólsku kirkjunnar.

FJÖLSKYLDA, HEIMILI OG SKÓLI

Faðir hans, prófessor í læknisfræði og sonur innflytjenda af
gyðingaættum, hafði á námsárum sínum hafnað rétttrúnaði Gyðinga. Hann
trúði ekki á Guð, einungis á „æðra vald“ (Nathanson B. The Hand of
God: A Journey from Death to Life by the Abortion Doctor Who Changed
His Mind, Washington, DC: Regency, 2001, 109 – Hönd Guðs: Vegferð frá
dauða til lífs eftir fóstureyðingarsinna sem breytti um skoðun).
Tómhyggjuskoðanir föður hans sem hann innrætti syni sínum höfðu
varanleg áhrif á líf Bernards og persónuleika hans. Bernard ólst upp á
heimili þar sem gyðingatrú var ekki iðkuð enda þótt siðir og hefðir
hefðu verið í heiðri hafðar. Hatur föður Bernards á móður hans gerði
ástandið enn verra á heimilinu.

Foreldrar hans sendu hann í einn besta skóla New York (Columbia
Grammar School) en hann sóttu börn ríkustu gyðingafjölskyldanna. Rétt
eins og faðir hans, sem hann leit upp til, hafnaði Bernard
trúarbrögðum – trúði því að þau væru tilgangslaus flækja í lífinu –
ekkert annað en myllusteinn. Þrátt fyrir að vera trúlaus krafðist
faðir Bernards þess að hann færi í herbreskan skóla þrisvar í viku.
Þar lærði hann hebreskar bænir utanbókar sem sannfærði hann um að
gyðingatrú væri ströng og alls ekki til sátta. „Ímynd mín af Guði á
æskuárum mínum,“ sagði hann seinna frá, „var lík hinum alvörugefna og
skeggjaða Móse sem Mikelangelo skapaði. Þarna sat hann álútur,
hugleiddi hlutskipti sitt, við það að kveða upp sinn óhjákvæmilega
dóm. Þetta var minn gyðinglegi Guð: ógnarmikill og ógnvekjandi.
(Hvílík uppljómun það var þegar ég var í bandaríska flughernum að í
einhverri gremju fór ég að stunda kvöldnám í biblíufræðum. Þar
uppgötvaði ég að Guð Nýja testamentisins var elskulegur og mildur sem
fyrirgaf allt – að hann yrði þar sem ég myndi leita hans og að endingu
finna fyrirgefninguna sem ég hafði leitað vonleysislega þetta lengi“)
(27).
Hann gekk í hinn virta læknaskóla McGill árið 1945. Á fjórða námsári
sínu hafði prófessor í geðlækningum, Karl Stein, mikil áhrif á hann.
Kern var góður kennari og virtur fræðimaður og hann var einnig
Gyðingur. Nathanson dáði hann, var frá sér numinn af framúrskarandi
fyrirlestrum hans og rólyndi. Hann vissi ekki þá að Stern hefði gerst
kaþólskur árið 1943 eftir áralangar athuganir, lestra og íhugun. Stern
lýsti reynslu sinni af afturhvarfi sínu í bókinni The Pillar of Fire
sem kom út 1951. Nathanson varð fyrir áfalli þegar hann las bókina í
fyrsta sinn árið 1974. Þessi sjálfsævisaga hafði mikið að segja þegar
hann ákvað að hverfa til kaþólskrar trúar. Í síðasta kafla bókarinnar
útskýrir Stern fyrir bróður sínum, rétttrúnaðar Gyðingi, hvers vegna
hann gerðist kaþólskur: „Kirkjan er óbreytanleg í kennslu sinni. Það
er aðeins til einn yfirnáttúrulegur sannleikur á sama hátt og það er
einungis til einn vísindalegur sannleikur. Það sem lögmál framfara er
fyrir það efnislega er lögmál varðveislunnar fyrir það andlega. Ég
minnist þess þegar ég sýndi þér páfabréfið um Nasistana. Þér fannst
mikið til þess komið og sagðir: „Það er líkt og að það hefði verið
skrifað á fyrstu öld.“ Það er einmitt málið!“ (44).

HINN DJÖFULLEGI HEIMUR FÓSTUREYÐINGA
Á háskóladansleik haustið 1945 hitti Bernard hina heillandi og
saklausu 17 ára Ruth. Þetta var ást við fyrstu sýn. Þau hittust æ
oftar og töluðu um að festa ráð sitt. Ruth varð ófrísk. Þungunin gerði
sælu elskendanna að engu. Þau vildi ekki barnið og ákváðu að losa sig
við það. Eftir nokkra leit fundu þau loksins hjálp til við að eyða
fóstrinu. Það var gert á einkalæknastofu í algerri leynd.
Fóstureyðingar voru þá enn ólöglegar. Eftir að barnið var drepið
höguðu Bernard og Ruth sér líkt og samsærismenn í óhugsandi glæpi sem
ekki var hægt að koma orðum að. Mörgum árum síðar rifjaði Bernard
þetta upp: „Ég er viss um að þrátt fyrir að hafa virst huguð, þrátt
fyrir tryggð hennar og elsku, raunsæju mati hennar á öllum þessum
dapurlegu kringumstæðum er ég viss um að í einhverjum dapurlegum
afkimum huga hennar leyndust spurningar: Hvers vegna kvæntist hann mér
ekki? Af hverju gátum við ekki átt barnið? Hvers vegna hefði ég átt að
stofna lífi mínu í hættu og ókomnum börnum mínum vegna hagsmuna hans
og akademískar áætlunar? Mun Guð refsa mér fyrir verknað minn og gera
mig að óbyrju?“ (57).
Hjá Bernard höfðu spurningar trúarlegs eðlis engin áhrif á þessum
tíma. Hann skrifaði: „Hinn ósveigjanlegi guðlausi Gyðingur var þá
þegar frosinn í stellingu sinni“ (58). Hann hafði einungis áhyggjur af
heilsu Ruth og hvort hún gæti áfram verið frjó. Þau skildu skiptum.
Þetta var fyrsta reynsla Nathanson af hinum „djöfullega heimi
fóstureyðinga“ (58).
Um miðjan sjöunda áratuginn lauk Bernard læknanámi sínu í fæðingum og
kvensjúkdómafræði og afar arðbær starfsferill blasti við honum. Hann
hafði þegar að baki tvö hjónabönd. Þau brugðust – eins og hann síðar
viðurkenndi – vegna hans „eigin sjálfselsku og vanhæfni að elska“
(58). Hann barnaði konu sem elskaði hann mjög mikið. Hún grátbað hann
að leyfa sér að ganga með barnið og fæða það. Nathanson var
ósveigjanlegur: hann krafðist þess að hún endaði þungunina vegna þess
að hann hafði ekki efni á því að sjá fyrir barni og ef hún gerði ekki
það sem hann vildi myndi hann ekki kvænast henni. Hann sagðist sjálfur
geta eytt barninu. Hann endaði lífi þess á faglegan hátt. Hann hafði
ekkert samviskubit og efaðist ekki um réttmæti aðgerðar sinnar. Hann
var fóstureyðingarlæknir og hann hafði gert verk sitt fagmannlega.
Áður en þeir framkvæmdu fóstureyðingu sögðu hvorki Nathanson eða aðrir
læknar á þeim tíma sjúklingum sínum frá þeim hættum sem fylgdu slíkum
aðgerðum. Eftir sinnaskipti sín skrifaði hann: „Nú hefur komið fram að
það kann að vera samband á milli fóstureyðinga og brjóstakrabbameins;
þúsundir kvenna hafa orðið ófrjóar í kjölfar viðvaningslegra
fóstureyðinga. Og dánartíðni kvenna sem fara í fóstureyðingu eftir
þrettán vikur er meiri en dánartíðni kvenna við fæðingu. Hroki þeirra
sem stunda lækningar hefur ávallt verið viðurkenndur sem ljót hlið
starfsgreinarinnar en það mikla stærilæti sem þeir sem framkvæma
fóstureyðingar hafa látið í ljós hefur fyrr og nú verið óskaplegt.
Fyrir hverjar tíu þúsund konur höfum við einn lækni sem framkvæmir
fóstureyðingar: ískalda, samviskulausa menn sem miskunnarlaust misnota
læknishæfileika sína. Þeir smána siðferðilega ábyrgð sína og hjálpa –
nei, afvegaleiða, með sínu læknislega rólyndi, sinni altumhyggjusömu
fagmennsku – konum í verknað sem kemst næst því að vera sjálfseyðing.
Það er engin tilviljun að næsta skrefið á læknisfræðilegum vettvangi
skuli vera að læknum sé gert af ríkinu að aðstoða, alltaf í nafni
samúðar, við sjálfsmorð. Hversu breyttur hefði heimurinn ekki orðið ef
einhverjir afvegaleiddir „sérfræðingar“ í þjáningum hefðu farið upp að
krossinum og gefið Jesú skammt af óðjurt stuttu eftir krossfestingu
hans“( 61-62).

Árið 1968 gerðist dr. Nathanson stofnfélagi í félagsskap sem barðist
fyrir réttinum til fóstureyðingar í Bandaríkjunum (National Abortion
Rights Action League skammstafað NARAL). Eftir að fóstureyðingar voru
lögleiddar í New York-ríki árið 1970 var Nathanson skipaður stjórnandi
stærstu fóstureyðingarstofnunar í heiminum. Hann hefur viðurkennt að
bera ábyrgð á og að hafa framkvæmt 75.000 fóstureyðingar. Í grein sem
hann skrifaði stuttu fyrir sinnaskipti sín, Confession of an
Ex-Abortionist (Játningar fyrrum fóstureyðingarlæknis) lýsir hann
aðferðum sem hann sjálfur og samstarfsmenn hans hjá NARAL (og öðrum
fóstureyðingarstofum um allan heim) stunduðu til að fá allar hindranir
á fóstureyðingum í Bandaríkjunum felldar niður. Við verðum að minnast
þess að á sjöunda áratugnum voru flestir Bandaríkjamenn andvígir
fóstureyðingum. Innan 5 ára, þökk sé öflugu „markaðsátaki“, náðu
sérfræðingarnir hjá NARAL því markmiði sínu að sannfæra hæstarétt
Bandaríkjanna að lögleiða fóstureyðingar að vild allt að níunda mánuði
þungunar.

„Hvernig fórum við að þessu? Mikilvægt er að skilja aðferðirnar sem
notaðar voru vegna þess að þessar aðferðir hafa verið notaðar um allan
hinn vestræna heim – þótt þær kunni að hafa birst með ólíkum hætti –
við að gera breytingar á fóstureyðingarlögum (Mallon J. Bernard
Nathanson. 2009.).

Fyrsta aðferðin var að skoða hvaða aðferðir ætti að nota til að
sannfæra fjölmiðla um að viðurkenning á fóstureyðingum væri tákn um
upplýst frjálslyndi. Þeir vissu að skoðanakannanir meðal almennings
myndu ekki styðja viðhorf þeirra. Þannig að þeir bjuggu til
upplýsingar sem byggðar voru á tilbúnum skoðanakönnunum. Þeir höfðu
samband við fjölmiðla og sögðu þeim að eftir því sem síðustu kannanir
sýndu þá væru 60% Bandaríkjamanna hlynntir fóstureyðingum. Þeir skýrðu
frá því sem staðreynd að árlega dæju 10.000 konur vegna ólöglegra
fóstureyðinga (rétt tala var 200-250) og að ein milljón kvenna færi í
ólöglega fóstureyðingu á ári hverju (rétt tala var um það bil
100.000).Áframhaldandi og blygðunarlausar endurtekningar á þessum stóru lygum
af fjölmiðlum hafði þann árangur að sannfæra þá sem á hlýddu. Þessi
áróðursherferð var mjög árangursrík. Á einungis 5 árum hafði NARAL
tekist að sannfæra meirihluta þjóðarinnar um að lögleiða ætti
fóstureyðingar eins fljótt og unnt væri.
Önnur aðferðin fólst í svokölluðu „kaþólsku spili“. Þeir rægðu
linnulaust kaþólsku kirkjuna og félagslegar hugsanir hennar og sögðu
að hún ætti sér enga stoð í samtímanum. Kirkjunni var lýst sem
helgivaldi sem væri uppfullt af hræsnisfullum varmennum sem voru á
móti fóstureyðingum í því skyni að takmarka frelsi. Þessu var stöðugt
komið á framfæri. Þeir létu fjölmiðlum í té ýmiskonar lygar eins og:
„Allir vita að einungis klerkaveldið er á móti fóstureyðingum. En
flestir þeirra sem eru kaþólskir eru hlynntir fóstureyðingum.“
Þriðja aðferðin var að gera áróðursherferðina enn meira sannfærandi
með því að þagga niður vísindalegar niðurstöður um að mannlegt líf
hæfist við getnað. NARAL hélt því fram að það „væri vonlaust að
ákvarða hvenær lífið byrjaði; að spurningin væri af heimspekilegum
toga en alls ekki vísindalegum. Fósturfræði (fetology) [rannsóknir á
upphafi mannlegs lífs] leiðir ekkert annað í ljós en að líf hefjist
við getnað og að það krefjist allrar þeirrar verndar og gætni sem við
öll eigum að njóta (Mallon J. Bernard Nathanson. 2009.).
Þetta skrifaði Bernard: „Þegar ég lít yfir 25 ára tímabil, þann tíma
sem aðskilur mig frá þeirri andstyggð sem ég sá gert við líkama
þungaðra kvennanna og eyðingu barna þeirra, þykir mér undarvert hversu
ógagnrýnir við vorum í verkum okkar, siðferðilegt og andlegt tómlæti
okkar sem við höfðum tileinkað okkur við þessar aðgerðir og ótvíræða
vissu um hversu mikið siðferðilegt réttsýni fólst í verkum okkar. En
samt var þetta allt augljóslega óþverraverk. Hvers vegna gátum við
ekki séð tengslin á milli þess siðfræðilega og siðgæða, milli
óvandaðra verka og subbulegra sérfræðinga; hina augljósu græðgi og
kaldlynda hvata: milli stofnanna sem eru gersneyddar tilfinningum og
þeirra sem þar starfa, milli allra þessara siðfræðilegu vísa og
hryllilegs siðferðis við sjálfan verknaðinn?“ (106).

SINNASKIPTI

Árið 1973 varð Nathanson yfirmaður fæðingardeildar St.
Lúkasar-spítalans í New York. Þar var í fyrsta skipti komið fyrir
ómskoðunartæki en það var háþróað tæki sem gerði kleift að skoða og
hafa eftirlit með fóstrinu í móðurkviði. Ómskoðunartækið opnaði
Nathanson algerlega nýjan heim. Kvensjúkdómalæknirinn sagði: „Í fyrsta
skipti gátum við raunverulega séð mannlegt fóstur, mælt það, horft á
það og fylgst með því og raunar myndað tengsl við það og elskað það“
(125). Myndirnar í ómskoðunartækinu hafa ótrúlega sterk áhrif á þann
sem á horfir. Með ómskoðuninni breyttist viðhorf Nathanson gersamlega
gagnvart mannlegu fóstri: „Með ómskoðunartækni gátum við ekki einungis
komist að raun um að fóstrið væri lifandi lífvera heldur gátum við
einnig mælt allar mikilvægar hreyfingar þess; við gátum viktað það og
áætlað aldur þess, séð það kyngja og láta þvag, horft á það þegar það
svaf og vakti og sjá það hreyfa sig eins og það hafði nauðsyn til líkt
og nýfætt barn gerir“ (146). Eftir þetta var Nathanson ekki lengur
sannfærður um að leyfa ætti fóstureyðingar að vild. Hann skar niður
til muna fjölda þeirra tilfella sem hann taldi vera læknisfræðilega
réttlætanleg. Hann framkvæmdi síðan síðustu fóstureyðingu sína árið
1979.

Þegar komið var fram á árið 1984 var hann farinn að draga alvarlega í
efa réttlæti fóstureyðinga. Hann vildi komast að raun um hvað
raunverulega gerðist við fóstureyðingu. Hann hafði framkvæmt svo
margar en ávallt blindandi, vélrænt og í hugsunarleysi. Hann stakk inn
í móðurlífið verkfæri, kveikti á tæki sem sogaði út leifar af
líkamsvefjum. Hann varð að komast að raun um hvað gerðist. Hann bað
því vin sinn Jay, sem framkvæmdi 20 fóstureyðingar á dag að kveikja á
ómtækinu við aðgerðina og taka hana upp. Vinur hans gerði nákvæmlega
það sem hann bað um. Þegar þeir skoðuðu upptökuna varð þeim svo
brugðið að Jay hét því að hann myndi aldrei aftur framkvæma
fóstureyðingu. „Skelfing mín náði inn í innstu fylgsni hugskots míns
þegar ég sá það sem gerðist,“ skrifaði Nathanson síðar (141). Í fyrsta
skipti hafði hann verið vottur að því sem gerist við framkvæmd
fóstureyðingar; hann fékk vitneskju um hvað gerðist í raun og veru.
Filmurnar voru endurunnar af fagmönnum og myndin The Silent Scream
(Þögla ópið) varð til. Þetta er heimildarmynd um ógnvekjandi glæp gegn
alsaklausri og varnarlausri mannveru. Myndin sýnir 12 vikna barn í
móðurlífi reyna að verja sig gegn verkfæri sem kramdi það og öðru sem
sogaði það út. Myndin var frumsýnd í Flórida 3. janúar 1985. Hún olli
uppnámi.

Frjálslyndir urðu ævareiðir þar sem heimildarmyndin var mikil ógn við
fóstureyðingarbaráttu þeirra. Frjálslyndir fjölmiðlar reyndu að koma í
veg fyrir að meginþorri Bandaríkjamanna fengi vitneskju um þennan
sannleika. Sjónvarpsstöðvar neituðu hvort tveggja að sýna myndina og
selja auglýsingatíma sem sýndu auglýsingar þar sem borið var lof á val
lífsverndarsinna. Hér var komin skýr sönnun þess að fjölmiðlar voru
undir valdi fólks sem kaus menningu dauðans.
Þegar Nathanson sá þessar vísindalegu staðreyndir opnaðist hjarta
hans: hann viðurkenndi hinn óvefengjanlega sannleika að mannlegt líf
byrjar við getnað og að fóstureyðing væri morð á saklausri og
varnarlausri mannveru. Skoðanir dr. Nathanson á fóstureyðingum
breyttust á grunni vísindalegrar íhugunar en ekki trúarlegrar.

VEGURINN TIL KAÞÓLSKU KIRKJUNNAR

Andleg vegferð Bernard Nathanson til trúar á Guði var mjög erfið. Í
fyrstu uppgötvaði hann að mannlegt líf var heilagt frá getnaði til
náttúrlegs dauða. Það var ekki fyrr en síðar að hann fór að trúa á
tilvist Guðs. „Ég leitaði ekki að neinu andlegu; langanir mínar höfðu
verið – að mestu leyti – jarðneskar og holdlegar, markmið mín voru
áþreifanleg og hlutstæð og breyttust tafarlaust í peninga. Til að gera
málið enn verra var ég opinskár í fyrirlitningu minni yfir öllu þessu
– þetta var hinn ósveigjanlegi og trúlausi Gyðingur“ (187). Árin
1978-1988 voru honum einkum erfið. „Ég vaknaði hvern morgun klukkan 4
eða 5 og starði út í myrkrið í þeirri von (ég hafði ekki enn byrjað að
biðjast fyrir) að þær fréttir myndu koma leiftrandi í drunganum um
sýknun mína frammi fyrir einhverjum ósýnilegum dómstóli. Eftir að hafa
árangurslaust beðið í nokkurn tíma kveikti ég á lampanum á
náttborðinu, tók upp lesefni um syndina (sem ég hafði safnað að mér í
verulegu magni) og endurlas kafla úr Játningum heilags Ágústínusar
(sem var mikilvægast), Dostoevsky, Paul Tillich, Kierkegaard, Niebuhr
og jafnvel Lewis Mumford og Waldo Frank“ (188).

Hugsanir um sjálfsmorð komu æ oftar upp í huga hans. Hann gat ekki
borið þunga synda sinna einkum fóstureyðingar á þúsundum saklausra
barna. Hann reyndi að draga úr andlegum sársauka sínum og örvæntingu
með róandi lyfjum, áfengi, sjálfshjálparbókum og ráðgjöf geðlækna.
Ekkert kom honum að gagni. Á sama tíma tók hann æ meiri þátt í
starfsemi lífsverndarsinna. Hann hélt fyrirlestra um öll Bandaríkin,
skrifaði bækur og lét til sín taka á pólitískum vettvangi. Á
fjöldafundum lífsverndarsinna gerði hann áheyrendum og skipuleggjendum
ljóst að það eina sem sameinaði þá var sameiginleg andstaða þeirra
gegn fóstureyðingum. Hann var eftir sem áður fálátur um spurninguna um
trú á Guð.
Á þessum fjöldafundum og mótmælum frammi fyrir fóstureyðingarstofum
fór ekki fram hjá honum hið óskilgreinalega andrúmsloft óeigingirni
sem einkenndi allan mannfjöldann. Enda þótt fólkið væri umkringt
lögreglunni geislaði af andlitum þeirra sem viðstaddir voru og báðust
fyrir hreinn kærleikur. Fólkið baðst linnulaust fyrir og minnti hvort
annað á að ofbendi væri algerlega bannað. „Ég geri ráð fyrir að það
hafi verið hinn einskæri ákafi í kærleika og bæn sem undraði mig. Það
bað fyrir ófæddum börnum, fyrir ráðvilltum og hræddum þunguðum konum
og fyrir læknum og hjúkrunarfólki á læknastofunum. Það bað jafnvel
fyrir lögreglunni og fjölmiðlunum sem fjölluðu um atburðinn. Það bað
hvort fyrir öðru en aldrei fyrir sjálfu sér. Og ég velti fyrir mér:
hvernig getur þetta fólk gefið af sjálfu sér fyrir hóp sem er (og mun
ávallt vera) mállaus, ósýnilegur og getur ekki þakkað þeim?“ (192).
Fordæmið sem þetta fólk gaf fékk Nathanson til að hugleiða alvarlega
möguleikann á að Guð væri til. Hann skrifaði að í fyrsta skipti í
lífinu hefði hann farið að hugleiða tilvist Guðs – „guðs sem í óvissu
hafði leitt mig í gegnum alkunna vítishringi einungis til að sýna mér
leið til endurlausnar og miskunnar fyrir náð sína. Þessi hugsun var á
öndverðu við alla 18. aldar vissu sem ég hafði varðveitt; hún breytti
samstundis fortíð minni í andstyggilegt fen synda og illsku; hún
ákærði mig og sakfelldi mig fyrir alvarlega glæpi … en jafnframt –
eins og kraftaverk hefði gerst … entist hún … hin vaxandi trú að
einhver hefði dáið fyrir syndir mínar – fyrir tvö þúsund árum“
(193-4).

Áður en hann hóf andlega vegferð sína að leita að Guði var hann
óseðjandi í lestri á ævisögum merkra kaþólskra manna sem orðið höfðu
nýir í trúnni. Meðal þeirra voru Malcolm Muggeridge, Newman kardínáli,
Graham Green sem og aðrir rétttrúnaðar kristnir menn eins og C.S.
Lewis, Walker Percy og aðrir. En hann tengdist með nánustum hætti
reynslu prófessors síns, Karl Stern, sem lýsir sinni heillandi
andlegri vegferð í bókinni The Pillar of Fire . Nathanson viðurkenndi
að hafa fellt tár í hvert skipti sem hann endurlas kafla úr ævisögu
Stern. „Það hefur verið hlutskipti mitt að ráfa um heiminn í leit að
Honum sem gæti forðað mér frá glötun. En nú gríp ég í fald klæða hans
í örvæntingu, í skelfingu og til að fá himneska aðkomuleið fyrir þær
tærustu þarfir sem ég hef nokkru sinni þekkt. Hugsanir mínar hverfa
aftur til hetju ára minna í læknaskóla, Karl Stern, sem fór í gegnum
andlega umbreytingu einmitt á sama tíma og hann var að fræða mig um
hugvísindi, skipulag þeirra og uppsprettu, og skrifaði þessi orð í
bréfi til bróður síns: „Og um það var enginn efi – til Hans höfðum við
verið að skunda eða frá Honum höfðum við verið að skunda en allan þann
tíma hafði Hann verið í miðju alls““ (196).
Nathanson gerði sér grein fyrir að margir í lífsverndarsamtökunum báðu
fyrir honum. Andlega breyting hans var mild og kom með eðlilegum hætti
og færði honum létti og innri frið. Hann hóf að fá vikulega fræðslu
hjá séra McCloskey sem gerðist andlegur leiðbeinandi hans á erfiðum
vegi trúarinnar. Hann talaði opinberlega um ákvörðun sína um að eiga
afturhvarf til kaþólskrar trúar árið 1994. J. O‘Connor kardínáli
skírði hann 9. desember 1996 í dómkirkju St. Patricks í New York.
Vinir hans sem voru Gyðingar fögnuðu ákvörðun hans. Dr. Nathanson
sagði: „Með því að taka á móti Kristi þykir mér enn meira vænt um þá
staðreynd að ég er hluti af menningu, þjóð og hefðum Gyðinga. Það mun
aldrei breytast og af því er ég hreykinn.“ Frá þeirri stundi sótti
hann heilaga messu reglulega og gekk oft til skrifta auk þess að hann
stundaði djúpt bænalíf. Í stöðu sinni sem vísindamaður – á ótalmörgum
ráðstefnum og í bókum sínum og kvikmyndum – gaf hann vitnisburð um
helgi mannlegs lífs sem er jafn heilagt og Guð sjálfur, lífsgjafinn.
Enginn hefur rétt á að taka líf annarra. Sinnaskipti dr. Nathanson,
heimsfrægs fóstureyðingarsinna og ósveigjanlegs guðleysingja sem
gerðist guðrækinn kaþólskur maður og fór fyrir verjendum lífs ófæddra
barna, er efalaust ein af merkustu sinnaskiptum 20. aldarinnar.
Þegar hann heimsótti Pólland 10. október 1996 bar hann fram
tilfinningaríka bón til pólskra þingmanna á fréttamannafundi í
Porczyński sýningarsalnum: „Ég sárbæni ykkur: ekki taka eitt einasta
skref í átt að því að gera fóstureyðingar auðveldari! Sagan mun aldrei
fyrirgefa ykkur. Ég vara ykkur við: ekki gera sömu mistök og við
gerðum í Bandaríkjunum. Atkvæði greitt fóstureyðingum er sömuleiðis
atkvæði greitt líknardrápi, drápi á öldruðum, bækluðum og dauðvona, og
erfðafræðilegum tilraunum. Það yrði fyrsta skrefið í fótfesturökum
(slippery slope) en botn þeirra er að gera lífið algerlega ómennskt –
að dal dauðans.“

Alicja Kozlowska.
Þýtt úr ensku af Reyni K. Guðmundssyni.
Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: