Guðsp. lífsinsEftirfarandi er íslensk þýðing á úrdrætti úr heimsbréfi Jóhannesar Páls II páfa: “Guðspjalli Lífsins”. Þýðing á heimsbréfinu var gert af Reyni K. Guðmundssyni, þeim sem líka þýddi þennan úrdrátt. Það er líka hægt að lesa það á heimasíðu Vatikansins: Evangelium Vitae
Sjá einnig Donum Vitae, leiðbeiningar um virðingu fyrir mannlegu lífi.


Um gildi og friðhelgi mannlegs lífs

Stuttur útdráttur úr ellefta heimsbréfi Jóhannesar Páls II páfa og útdráttur úr umfjöllun kardínálanna Joseph Ratzinger, Alfonso Lopez Trujillo og Fiorenzo Angelini um Guðspjall lífsins

Apríl 1995

Evangelium vitae (Guðspjall lífsins), ellefta heimsbréf Jóhannesar Páls II páfa, var gert opinbert að morgni 30. mars 1995. “Guðspjall lífsins” er 190 blaðsíður að stærð og er það gefið út á sjö tungumálum. Það skiptist í inngang, fjóra kafla og niðurlag auk atriðaskráar. Það er, eins og páfi sjálfur skýrði frá við angelus bæn þann 26. mars, “ávöxtur víðtæks samráðs við biskupa heimsins, íhugun um lífið í allri sinni vídd, jafnt náttúrlegri sem yfirnáttúrlegri.”

Evangelium vitae staðfestir á ný kenningu kirkjunnar um að beint dráp á saklausri mannlegri veru að yfirlögðu ráði, fóstureyðing og líknardráp séu alvarlegar og syndsamlegar aðgerðir. Í bréfinu er skoðuð sú ógn sem lífið stendur frammi fyrir og birtist á ýmsan hátt í heiminum í dag. Það kemur á framfæri boðskap kristinnar trúar um lífið og býður hverju og einasta okkar að lifa í anda guðspjalls lífsins og leggja með því okkar af mörkum til að umbreyta menningunni. Páfi segir í innganginum: “Maðurinn er kallaður til fullnustu lífs sem nær langt út fyrir víddir jarðneskrar tilvistar hans vegna þess að það felur í sér að eiga hlutdeild í sjálfu lífi Guðs. Háleitni þessarar yfirnáttúrlegu köllunar leiðir í ljós mikilfengleika og ómælanlegt gildi mannlegs lífs jafnvel á tímabundnu stigi þess.” Líf á jörðu er raunveruleiki sem er í senn “næstsíðastur” og “heilagur”. Sérhver persóna fær “skynjað í lögmáli náttúrunnar sem letrað er henni í hjartastað heilagt gildi mannlegs lífs alveg frá byrjun þess til endaloka.”

Páfi segir að við boðun guðspjalls lífsins sé kirkjan skyldug að snúast til andstöðu gegn allri þeirri ógn sem mannlegri virðingu og lífinu stafi hætta af. Þetta sé “sérstaklega áríðandi vegna óvenjumikillar fjölgunar og alvöru þess sem ógnar lífi einstaklinga og þjóða einkum þar sem lífið er vanburða og varnarlaust.” “Hvaðeina sem er andstætt lífinu eins og morð í sínum ýmsu gerðum, þjóðarmorð, fóstureyðing, líknardráp eða sjálfseyðing af ráðnum hug, hvaðeina sem óvirðir mannlega helgi eins og limlestingar, pyndingar á sál og líkama eða tilraunir til að þvinga viljann, hvaðeina sem niðurlægir mannlega virðingu eins og heimilisaðstæður sem ekki eru mönnum bjóðandi, gerræðislegar fangelsanir, útlegð, þrældómur, vændi, sala á konum og börnum svo og smánarlegar vinnuaðstæður… er sannarlega svívirða.”

Sú viðleitni “löggjafans í mörgum löndum,” skrifar Jóhannes Páll páfi, “að refsa ekki fyrir aðgerðir gegn lífinu og að gera þær jafnvel að fullu löglegar er bæði alvarleg einkenni og veigamikil orsök alvarlegrar siðferðilegrar hnignunar. Valkostir sem áður voru einróma álitnir glæpsamlegir og þeim hafnað með almennri siðferðisvitund eru smám saman að verða ásættanlegir í samfélaginu…. Samviskan sjálf…á í sífellt meiri erfiðleikum með að gera greinarmun á góðu og illu….” Hinn heilagi faðir segir að það hafi verið kardínálar sem voru saman komnir til þings í Rómaborg 4.-7. apríl 1991, er “einum rómi báðu mig að staðfesta á ný, í nafni embættis míns sem eftirmanns Péturs, gildi mannlegs lífs og friðhelgi þess í ljósi nútíma aðstæðna og fjandsamlegra aðgerða sem ógna því í dag.” Hann bað um “samvinnu biskupsdæma allra landa heims.” Evangelium vitae er árangur þeirrar samvinnu.

I. KAFLI: BLÓÐ BRÓÐUR ÞÍNS HRÓPAR TIL MÍN AF JöRÐINNI

Ógnir okkar tíma gegn mannlegu lífi

Jóhannes Páll páfi beinir sjónum sínum að frásögn ritningarinnar af morði Kains á bróður sínum Abel og segir: “Líf og þá sérstaklega mannlegt líf tilheyrir engum nema Guði. Því er það að hver sá sem ræðst gegn mannlegu lífi ræðst á vissan hátt gegn Guði sjálfum.” Kain hafnaði því “að gæta bróður síns” en slík höfnun getur haft skaðlegar afleiðingar jafnvel gagnvart nánu “blóði og holdi” eins og á sér stað “við eyðingu fósturs eða þegar…hvatt er til líknardráps eða það jafnvel framkvæmt.” Fyrsti kaflinn fjallar um þá ógn sem steðjar að mannlegu lífi í heiminum í dag: fátækt, vannæringu, hungur, “ofbeldi, sem er eðlislægur þáttur ekki einungis stríðs heldur og þeirra smánarlegu viðskipta sem felast í hergagnasölu; …tilraunir sem raska jafnvægi í vistkerfi jarðar;” eiturlyf, “dálæti á vissum kynferðislegum athöfnum.” Páfi dvelur við “röð fjandsamlegra aðgerða sem hafa áhrif á lífið á fyrstu og síðustu stigum þess” og virðast í dag vera litið á sem réttindi frekar en glæpi. Þegar hann fjallar um spurningar varðandi getnaðarvarnir og fóstureyðingar segir páfi: “Séð frá sjónarhóli siðferðis þá er hér um að ræða tvo vel aðgreinda þætti hins illa” og hann segir að það síðarnefnda “gengur beint gegn hinu guðlega boði “þú skalt ekki morð fremja”.” Hann bendir einnig á að “hinar ýmsu tækniaðferðir við gervifrjóvganir…eru siðferðilega óásættanlegar.” “Sjúkdómsgreiningar fyrir fæðingu eru ekki siðferðilegar rangar ef þær eru gerðar til að kanna hverrar lækningar sé þörf á fyrir barnið í móðurkviði. En oft verða þær tilefni þess að ýta undir og framkvæma fóstureyðingu. Slíkar fóstureyðingar stuðla að því að einungis góðkynjaðir séu valdir til lífs….”

Að þeim steðjar einnig ógn sem eru með ólæknandi sjúkdóma eða eru dauðvona. “Það menningarviðhorf sem megnar ekki að skynja neina merkingu í því að þjást eða gildi þess gerir þeim illt verra…. Við sjáum hörmuleg dæmi alls þessa í útbreiðslu líknardrápa bæði leynilegra og þeirra sem eru framkvæmd fyrir opnum tjöldum og jafnvel löglega.” Annars konar líknardráp eiga sér stað við líffæraflutninga sem “virða ekki hlutlæga og viðhlítandi mælikvarða til að sannreyna andlát gefandans.” Hinn heilagi faðir fjallar um það sem nefnt hefur verið “lýðfræðilega spurningin” en sumir “áhrifamiklir aðilar hér á jörðu…sem hræðast núverandi fólksfjölgun” greiða veg getnaðarvarna, ófrjósemisaðgerða og fóstureyðinga en hér sé um að ræða stefnur sem séu andstæðar fæðingum barna. “Ekki verður því heldur á móti mælt,” segir páfi, “að oft eru fjölmiðlar meðsekir í þessum samblæstri (gegn lífinu) með því að gera þeirri menningu hátt undir höfði sem boðar að það sé merki um framþróun og sé sigur frelsisins að gripið sé til getnaðarvarna, ófrjósemisaðgerða, fóstureyðinga og jafnvel líknardrápa…. Þetta viðhorf til frelsisins hefur í för með sér alvarlega afskræmingu á lífinu í samfélaginu” og að sameiginleg gildi glatast sem leiðir til “siðferðilegrar afstæðishyggju.” Þegar áfanga siðferðilegrar afstæðishyggju er þannig náð — og því jafnvel fagnað — “verður allt umsemjanlegt, allt mun ganga kaupum og sölum jafnvel frumrétturinn, rétturinn til líffs.”

“Meginástæða þessarar ógæfu er sú að skugga hefur brugðið yfir Guð og mann í vitundinni” sem “leiðir til hagnýtrar efnishyggju er elur af sér einstaklingshyggju, nytjahyggju og sældarhyggju.” Þannig verður lífið ekki til lífs heldur verður það eitthvað sem þykir gott til ráðstöfunar; “að hafa” verður tekið fram yfir “að vera.” Hinn heilagi faðir heldur áfram og segir að það yrði “einhliða umfjöllun sem gæti leitt til kjarkleysis og stöðnunar ef við fordæmingu á því sem ógnar lífinu yrði ekki jafnframt minnst á þau jákvæðu tákn sem er að finna við núverandi aðstæður mannkyns.” Þar nefnir hann göfuglyndi margra hjóna; ábyrgar fjölskyldur; miðstöðvar sem eru til stuðnings lífinu; hópa sjálfboðaliða sem hjálpa þeim sem eiga í erfiðleikum; framfarir í læknavísindum sem hafa stuðlað að betri læknishjálp og umönnun sjúklinga; þær hreyfingar sem hafa átt frumkvæði að því að vekja upp í samfélaginu vitund til varnar lífinu; nýjan skilning sem hefur eflt andstöðu gegn hernaði; vaxandi andstöðu almennings gegn dauðarefsingu; þá athygli sem vistfræðin fær sem og hina víðtæku þróun í siðfræði lífvísinda.

II. KAFLI: ÉG ER KOMINN TIL ÞESS, AÐ ÞEIR HAFI LÍF

Boðskapur kristninnar um lífið

Þessi kafli fjallar um biblíulegan og guðfræðilegan bakgrunn guðspjalls lífsins. Þar er það staðfest að lífið sé gjöf Guðs sem var gert enn verðmætara með lífi Krists, dauða hans og upprisu. “Lífið er ávallt gott í sjálfu sér…maðurinn hefur öðlast tign og virðingu…. öll sköpunin er færð manninum og allt er honum undirgefið.” “Lífið verðskuldar ekki einungis virðingu vegna upphafsins, fyrir þá staðreynd að það kemur frá Guði, heldur og allt til loka þess. Guð einn er Drottinn þessa lífs.”

III. KAFLI: ÞÚ SKALT EKKI MORÐ FREMJA

Heilagt lögmál Guðs

Páfi segir boðorðið “þú skalt ekki morð fremja” vera “neikvætt í þrengstu merkingu. Það gefur til kynna ystu mörk þess sem aldrei má fara út fyrir. Hins vegar hvetur það á óbeinan hátt til þeirrar jákvæðu afstöðu að lífið beri að virða afdráttarlaust.” Í upphafi þessa kafla ræðir hann um málefni sem snerta sjálfsvörn og dauðarefsingu. Hann leiðir síðan hugann drjúga stund að beinu drápi á saklausu fólki sem gert sé að yfirlögðu ráði og að fóstureyðingum og líknardrápi. Í Evangelium vitae grípur Jóhannes Páll II til almenns kennivalds páfa þegar hann staðfestir kenningar kirkjunnar um gildi og friðhelgi mannlegs lífs. Þrisvar sinnum í þessum kafla birtir hann bindandi yfirlýsingar með þar til gerðum hætti: Nr. 57 um beint dráp að yfirlögðu ráði á saklausum mönnum, nr. 62 um fóstureyðingar og nr. 65 um líknardráp.

Í nr. 57 ákvarðar hinn heilagi faðir eftirfarandi: “Með því valdi sem Kristur gaf Pétri og eftirmönnum hans, og í einingu við biskupa kaþólsku kirkjunnar, STAÐFESTI ÉG AÐ BEINT DRÁP Á SAKLAUSRI MANNLEGRI VERU AÐ YFIRLöGÐU RÁÐI ER ÁVALLT ALVARLEGT SIÐFERÐISBROT…. Sá ásetningur að svipta saklausa mannveru lífinu er ávallt siðferðilegur bölvaldur og getur aldrei verið lögmætur hvorki sem markmið í sjálfu sér né aðferð til að ná góðu markmiði…. “Ekkert og enginn getur á nokkurn hátt leyft dráp á saklausri mannlegri veru, hvort sem þar um ræðir fóstur eða fósturvísi, ungbarn eða fullorðinn, roskinn einstakling eða þann sem þjáist af ólæknandi sjúkdómi eða einstakling sem bíður dauðans. Ennfremur er engum leyfilegt að biðja um slíkt dráp…né heldur getur nokkur samþykkt að framkvæma það…. Og ekki getur nokkurt stjórnvald mælt með því með lögmætum hætti eða leyft slíka aðgerð”.” Jafnframt því að segja að við þurfum “hugrekki… til að kalla hlutina réttu nafni” í ljósi “útbreiddrar notkunar á óljósum hugtökum,” lýsir Jóhannes Páll II yfir: “En ekkert orð getur breytt því sem í raunveruleikanum felst. Fóstureyðing er vísvitandi beint dráp á mannlegri veru á upphafsstigi hennar sem nær frá getnaði fram að fæðingu. Skiptir þá ekki máli hvernig það er framkvæmt.”

Nr. 62: “Með því valdi sem Kristur gaf Pétri og eftirmönnum hans, og í einingu við biskupana — sem hafa við ýmis tækifæri fordæmt fóstureyðingar og sem hafa í fyrrnefndu samráði sýnt órofa samstöðu um þessa kennisetninngu þótt þeir séu dreifðir um allan heim — LÝSI ÉG ÞVÍ YFIR AÐ BEIN FÓSTUREYÐING, ÞAÐ ER FÓSTUREYÐING SEM ANNAÐHVORT ER MARKMIÐ AÐGERÐAR EÐA LEIÐ AÐ ÞVÍ, FELUR ÁVALLT Í SÉR ALVARLEGAN SIÐFERÐISBREST þar sem það er dráp af ásettu ráði á saklausri mannveru…. Engar aðstæður, engin markmið, engin lög geta nokkru sinni gert þá aðgerð lögmæta sem er í eðli sínu ólögmæt…”

Jóhannes Páll páfi fjallar síðan um tilraunir á fósturvísum sem hann nefnir “glæp gegn virðingu þeirra sem mannlegrar veru.” Hann heldur áfram: “Siðferðileg fordæming þessi beinist gegn þeim aðferðum þar sem mannlegir lifandi fósturvísar og fóstur eru misnotuð” einkum þegar fóstrið er myndað í glasi “eins og hvert annað lífrænt efni til að ráðskast með að vild”. Páfi vísar til þeirra tækniaðferða sem notaðar séu til sjúkdómsgreiningar fyrir fæðingu og segir að við þær aðstæður sé nauðsynlegt “að ríki nákvæm og skýr siðferðileg vitund. Þessar tækniaðferðir eru siðferðilega lögmætar þegar þær hafa ekki í för með sér of mikla áhættu fyrir barnið eða móðurina og þær beinast að því að gera lækningu mögulega á fyrstu stigum lífsins eða jafnvel að auka vitneskju um ófætt barnið svo að því verði vel tekið.”

“Líknardráp,” heldur páfi áfram í nr. 65, “ber að skilja í þröngri túlkun sem aðgerð eða aðgerðarleysi sem í eðli sínu og af ásetningi orsakar dauða í þeim tilgangi að binda enda á allar þjáningar.” Og hann lýsir yfir: “…í samræmi við kennivald fyrirrennara minna og í einingu við biskupa kaþólsku kirkjunnar, STAÐFESTI ÉG AÐ LÍKNARDRÁP ER ALVARLEGT BROT GEGN LöGMÁLI GUÐS þar sem það er vísvitandi og siðferðilega óréttmætt dráp á mannlegri persónu…. Kringumstæður valda því hvort líknardráp feli í sér ódæðisverk sem sé hliðstætt sjálfsvígi eða morði.”

“Eitt sem einkennir sérstaklega árásir á mannlegt líf í dag…er sú árátta að krefjast lögmætrar réttlætingar á þeim eins og um væri að ræða réttindi sem ríkið…yrði að viðurkenna að borgararnir ættu.” Páfi bendir ennfremur á: “Lög sem heimila beint dráp á saklausri mannlegri veru með fóstureyðingum eða líknardrápi ganga í berhögg við hinn friðhelga rétt til lífs sem hverjum einstaklingi ber” og ganga þau “algjörlega” gegn einstaklingnum sem og almannaheill. “Það leiðir af sér að þau borgaralegu lög sem heimila fóstureyðingar og líknardráp eru fyrir þá staðreynd ekki lengur sönn, siðferðilega bindandi borgaraleg lög.”

“Það er aldrei lögmætt að hlíta þeim eða að “taka þátt í áróðursherferð í þeim tilgangi að koma slíkum lögum á eða greiða þeim atkvæði”.” Jóhannes Páll páfi vísar til “glæpa gegn mannkyni” sem framdir hafa verið á þessari öld og spyr: “En myndu þessir glæpir hætta að vera glæpir sem framdir voru af samviskulausum harðstjórum við það að hljóta löggildingu almenningsálitsins?”

IV. KAFLI: ÞAÐ HAFIÐ ÞÉR GJöRT MÉR

Til nýrrar menningar mannlegs lífs

Í þessum kafla segir að útgáfa heimsbréfsins sé til þjónustu við lífið “sem er “rétt” kirkjuleg ábyrgð. Við biskuparnir erum fyrstir kallaðir til linnulausrar predikunar um guðspjall lífsins. Okkur er jafnframt falin sú ábyrgð að tryggja að kenningunni, sem enn á ný er sett fram í þessu heimsbréfi, sé komið samviskusamlega á framfæri, heilli og óspilltri. Við verðum að nota viðeigandi aðferðir til að verja hina trúuðu gegn öllum kenningum sem eru andstæðar henni.… Við megum ekki óttast fjandsamleg viðbrögð eða óvinsældir og við verðum að hafna sérhverri málamiðlun eða óljósri túlkun sem gæti gert okkur sátta við hugsunarhátt heimsins.” Það eru ekki einungis biskupar sem eru kallaðir til að láta hið nýja ljós guðspjalls lífsins brjótast fram, heldur einnig kennarar, trúfræðingar og guðfræðingar. Sérstaklega er vikið að kennurum, sjálfboðaliðum, spítölum, þjónustustofnunum og miðstöðvum til verndar lífinu og opinberum starfsmönnum og þeim skyldum sem á þeim hvílir. “Sérstök ábyrgð fylgir þeim sem starfa við heilsuvernd: læknum, lyfjafræðingum, hjúkrunarfræðingum, sjúkrahúsprestum, körlum og konum í trúarreglum, stjórnendum og sjálfboðaliðum.”

Um fólksfjölgunina í heiminum segir hinn heilagi faðir: “Á opinberum yfirvöldum hvílir að sjálfsögðu sú ábyrgð að “hafa áhrif á lýðfræðilega þróun í löndum sínum”.” En þau “geta ekki tekið í þjónustu sína aðferðir sem virða ekki grundvallarmannréttindi…. Það er því siðferðilega óviðunandi að það sé hvatt til þess, hvað þá að það sé knúið á um að farnar séu leiðir getnaðarvarna, ófrjósemisaðgerða og fóstureyðinga til að stjórna fæðingum.”

Hver og einn “verður að hafa hugrekki til að hefja nýjan lífsstíl…sem byggist á réttu gildismati: að það “að vera” hafi forgang fram yfir það “að eiga”, að persónan hafi forgang fram yfir hlutinn…Í þessari herhvöt til baráttu fyrir nýrri menningu lífsins má enginn vera afskiptur: hver og einn hefur mikilvægu hlutverki að gegna.” Jóhannes Páll páfi bendir á að fjölskyldan hafi afdráttarlausri ábyrgð að gegna innan raða þeirra sem styðji lífið. Fjölskyldan er “sannarlegur griðastaður lífs” og hlutverk hennar við að “byggja upp menningu lífsins er ótvírætt og ómetanlegt…. Það er umfram allt við uppeldi barnanna sem fjölskyldur uppfylla köllun sína að boða guðspjall lífsins.”

Jóhannesi Páli páfa er tíðrætt um samstöðuna innan fjölskyldunnar og segir að hana “þurfi einnig að rækja með þátttöku í félagslegu og pólitísku starfi.” Þar sem verkefni fjölskyldunnar “að þjóna lífinu verður sífellt erfiðara og vandasamara…verða sveitarfélög og ríki að tryggja allan þann stuðning, þar með talinn efnahagslegan stuðning, sem fjölskyldur þurfa á að halda til að þær geti tekist á við vandamál sín með sönnum mannlegum hætti.”

Páfi ræðir um konur og segir að með hugsun sinni og athöfnum skipi þær einstaka og ótvíræða stöðu. “Konur læra fyrst og kenna síðan öðrum að sönn mannleg samskipti felast í því að taka annarri persónu opnum örmum…. Þetta er það grundvallaratriði sem kirkjan og mannkynið leitar eftir hjá konum. Og það er ómetanleg forsenda þess að sönn menningarbreyting eigi sér stað.”

Hann ávarpar sérstaklega þær konur sem hafa farið í fóstureyðingu og segir páfi að kirkjan “efar það ekki að í mörgum tilfellum hafi það verið ákvörðun sem hafi verið sársaukafull og valdið ykkur andlegu áfalli. Sárið í hjarta ykkar er jafnvel ekki enn gróið. En látið ekki bugast þó að sjálfsögðu hafi það sem gerðist verið og sé hræðilegur atburður. Glatið ekki voninni…leitið veg iðrunar með auðmýkt og trúnaði ef þið hafið ekki þegar gert svo.”

Í ljósi þess að þörf er á að halda á lofti, lifa og samfagna guðspjalli lífsins segir Jóhannes Páll II páfi að hann fari að ráðum þings kardínálanna árið 1991 og “geri ég það að tillögu minni að dagur lífsins verði haldinn hátíðlegur ár hvert í öllum löndum eins og sum biskuparáðstefnur hafa þegar gert…. Meginmarkmið hans ætti að vera að í samvisku einstaklingsins, í fjölskyldum, í kirkjunni og í borgaralegu samfélagi aukist skilningur á merkingu og gildi mannlegs lífs á sérhverju stigi þess og við sérhverjar aðstæður þess.”

Byggt á fréttabréfi Upplýsingaþjónustu Vatíkansins — VIS 950330 (2700)


KYNNING Á HEIMSBRÉFINU EVANGELIUM VITAE

Kardínálarnir Joseph Ratzinger, Alfonso Lopez Trujillo og Fiorenzo Angelini ásamt Dionigi Tettamanzi erkibiskupi og Elio Sgreccia biskupi kynntu heimsbréfið “Evangelium vitae” í fréttamiðstöð Páfagarðs þann 30. mars 1995.

Lopez Trujillo kardínáli vísaði í máli sínu í I. og II. kafla og sagði þá “lýsa sérstökum samstarfsstyrk kirkjunnar, kirkju sem skynjar vel köllun sína að verja manninn — ímynd Guðs — og þær skyldur sínar að verja allt mannkynið gegn þessum ógnarmiklu hættum.”

Evangelium vitae” er í senn sannfærandi og afgerandi vörn fyrir þá sem eru snauðastir og varnarlausastir, saklausastir og mest veikburða: ófædd börn og hinir fátæku og þurfandi…. Þau gæði sem hinir máttugu hafa af gnægð leiða ekki til samstöðu heldur til samsæris gegn lífinu.”

“Fórnarlömb þessara óréttlátu laga (sem eru í sannleika sagt þjófnaður, eins og heilagur Ágústínus sagði) eru ófædd börn, hinir sjúku, hinir öldruðu — auðkenndir hópar — og einnig sá mikli fjöldi sem aðgerðir í fólksfjölgunarmálum hafa dæmt til fátæktar. Hróp páfa mun enn að nýju hljóta þakklæti hinna fátæku þessa heims, sem eru staðfastlega trúir menningu lífsins.”

Kardínálinn bætti því við að bréf páfa “kemur einnig til varnar og styður þá sem menning dauðans ræðst gegn í þeim samfélögum, sem eru sjúk vegna djúprar siðferðiskreppu og brenglaðrar hugtakanotkunar…. Mitt í þessari ringulreið eru þeir sem reyna að klæða hið illa í búning þess góða, segja villuna sanna og telja glæpi réttláta. Hinn heilagi faðir leggur sig allan fram við að hjálpa fórnarlömbum þessa andlega harmleiks, bæði utan kirkjunnar og innan hennar.”

“Maður tekur vel eftir því,” bætti kardínálinn við, “á hvern hátt gjöf lífsins er nátengd fjölskyldunni, griðastað lífsins…. Sú skylda sem hvílir á fjölskyldunni er sérstök og er hún frumskylda; samfélagið, ríkið og þegnar þess verða að styðja fjölskylduna.”

Hann lauk máli sínu með því að leggja áherslu á að heimsbréfið “er ekki eingöngu ætlað fjölskyldum heldur er það augljóslega ætlað öllum þeim sem tengjast menningu lífsins hollustuböndum: öllum þeim sem fara með ábyrgð í kirkjunni, þeim sem trúa og þeim sem ekki trúa, sem og öllu því kristna fólki sem er að finna í hinu auðuga samkirkjulega starfi.”

Joseph Ratzinger kardínáli sem er formaður stjórnardeildar trúarsetninga fjallaði um III. kaflann sem hann nefndi “kennisetningartexta þar sem páfinn sýnir hvernig boðskapur trúarinnar vísar safnaðarhirðum veginn í sérhverri athöfn þeirra.”

Hann nefndi þrjú mikilvæg atriði sem meginþemu kaflans: Merkingu fimmta boðorðsins innan greina trúarboðskaparins, skýr forgangsverkefni páfa í siðferðismálum og hvernig siðferði reiðir af í pólitísku umhverfi.

Síðan sagði hann: “Vitneskjan um heilagleika lífsins sem okkur er gefin að gjöf til að fóstra af trúmennsku en ekki til að fara með af léttúð, tilheyrir í sannleika sagt siðferðisarfleifð mannkyns…. Siðferði trúarinnar og siðferði rökvísinnar renna hér saman; trúin vekur einungis rökvísina af svefni sínum.”

Þegar segir “ekki” í boðorðinu “þú skalt ekki morð fremja,” sagði kardínálinn, “hefur það algert gildi og er afdráttarlaust. Gegn því heyrast andmæli: En hefur ekki kirkjan ávallt talið leyfilega lögbundna vörn þótt hún hafi í för með sér dauða annars manns? Hún er ekki á móti dauðarefsingu. Hvað á maður að halda þegar þessa undantekningu vantar? Með slíkar spurningar í huga gerir páfi það ljóst með þremur bindandi yfirlýsingum hvað “ekki” þýðir í þessu sambandi.”

Ratzinger kardínáli gerði grein fyrir þessum þremur bindandi yfirlýsingum í stórum dráttum: nr. 57 þar sem páfi “staðfestir að beint dráp á saklausri mannlegri veru að yfirlögðu ráði er ávallt alvarlegt siðferðisbrot”; nr. 62 þar sem hann “lýsir yfir að bein fóstureyðing, það er, fóstureyðing sem er annaðhvort markmið eða leið að markmiðinu, felur ávallt í sér alvarlegan siðferðisbrest” og nr. 65 þar sem hann “staðfestir að líknardráp er alvarlegt brot gegn lögmáli Guðs þar sem það er vísvitandi og siðferðilega óréttmætt dráp á mannlegri persónu.”

“Með tilvísun til fimmta boðorðsins, “þú skalt ekki morð fremja”,” hélt formaður stjórnardeildar trúarsetninga áfram, þá eru “tvö atriði gerð skýr í kennivaldsyfirlýsingu páfa. Það fyrra varðar siðferðisverknað eða öllu heldur siðlausan verknað sem slíkan. BEINT dráp að YFIRLöGÐU RÁÐI er siðlaust. Það seinna varðar tilganginn: sá sem drepur SAKLAUSA mannlega veru er sekur…. Þessar skýringar á boðorðinu sem eru grundvallaratriði sýna að gildi þess er algert og afdráttarlaust.” Hvað varðar fóstureyðingar segir Ratzinger kardínáli: “Enginn getur dregið í efa að ófætt barn sé í flokki þeirra saklausu.” Við þeirri spurningu hvort það sé “mögulegt að skilgreina það alveg frá upphafi sem mannlega veru í fullri merkingu þess orðs,” vitnar hann í orð hins heilaga föður í nr. 60. Þar segir: “Frá þeim tíma þegar eggið frjóvgast hefur líf hafist sem er hvorki föðurins né móðurinnar.” Hann sagði að hér ætti einnig við “önnur röksemd heimsbréfsins þar sem páfi bindur enda á ýmsar vangaveltur með eftirfarandi athugasemd sem verður ekki hrakin: “Einungis sá möguleiki að hér gæti verið um að ræða mannlega persónu myndi nægja til að réttlæta algjört og skýrt bann við hverri þeirri aðgerð sem hefur þann tilgang að drepa mannlegt fóstur”.”

Kardínálinn fjallaði um líknardráp og sagði að ýtrasta læknishjálp til handa sjúklingi væri “í raun og veru ekki siðferðilega bindandi” eins og heimsbréfið staðfestir. Hann sagði: “Hins vegar er það algjörlega aðskilið því að hafna ýtrustu læknishjálp, og út í hött, að ákvarða sjálfur stund dauðans, annað hvort með sjálfsvígi — sem í dag er oft í formi aðstoðar til sjálfsvígs — eða einfaldlega með manndrápi.”

Ratzinger kardínáli sneri sér síðan að þriðja hluta III. kaflans, “það er spurningunni: Hvaða afleiðingar hefur allt þetta fyrir réttarríkið og lögréttingu?” Eftir að hafa vitnað í heimsbréfið þar sem segir: “Gildi lýðræðis stendur og fellur með þeim gildum sem það beitir sér fyrir og heldur á lofti,” segir hann: “Lög sem stangast á við megin siðferðisgildi fela ekki í sér réttlæti heldur skapa þau óréttlæti: þau bera engin einkenni laga.”

Að lokum sagði Joseph Ratzinger kardínáli: “Í þessu heimsbréfi hefur páfi sýnt það að hann er mikilsverður kennari, ekki einvörðungu kennari kristninnar heldur alls mannkyns á stundu þegar nauðsyn er á nýju siðferðisafli til að stemma stigu við vaxandi öldu ofbeldis og úrræðaleysis…. Textinn kemst til skila fyrir mikilvægi innihaldsins, dýpt þess og mannlega vídd.”

Fiorenzo Angelini kardínáli fjallaði um IV. kaflann (“Til nýrrar menningar mannlegs lífs”) og ræddi um þær afleiðingar sem kennireglur og leiðbeiningar hirða Drottins hefðu á daglegt líf. Hann vísaði sérstaklega til ábyrgðar á þessu sviði bæði þeirra sem vinna að heilsugæslu og þeirra sem vinna löggjafarstörf.

Hann vitnaði í texta heimsbréfsins sem fjallar um þá sem starfa að heilsugæslu og sagði: “Í nútímasamfélagi og menningu “þar sem bæði vísindi og læknisfræði eiga það á hættu að glata upprunalegri siðferðisskilgreiningu sinni, gætu þeir stundum fundið til mikillar freistingar að taka sér vald yfir lífi og dauða”. Þetta gengur ekki aðeins þvert gegn guðspjalli kristinna manna heldur einnig gegn sjálfum Hippokratesareiðinum sem skyldar mannlega skynsemi að verja lífið og hlynna að því.”

Kardínálinn vísaði til réttrar skyldu til að andmæla af samviskuástæðum. “Umfram allt er þetta skylda kaþólsks heilsugæslufólks…hvar og hvenær sem er, jafnvel þótt ekki sé gert ráð fyrir því í lögum. Þessi skylda snertir ekki einungis lækna heldur alla þá sem vinna við heilsugæslu og þá sérstaklega lyfjafræðinga, fæðingarlækna, félagsráðgjafa og alla þá sem aðstoða þegar fóstureyðing er umbeðin…. Andmæli af samviskuástæðum fela ekki einungis í sér skuldbindingu viðkomandi að gera ekkert sem stríðir gegn lífinu heldur einnig að verja það.”

Hvað varðar hlutverk stjórnvalda og sérstaklega þeirra sem starfa að löggjafarmálum við að virða lífið og fylgja eftir heimsbréfinu lagði hann áherslu á að “í því tilfelli að lög séu að efni óréttlát, eins og þau lög eru sem heimila fóstureyðingu og líknardráp, er það aldrei lögmætt að hlíta þeim eða að “taka þátt í áróðursherferð í þeim tilgangi að koma slíkum lögum á eða greiða þeim atkvæði”.”

Að lokum sagði Fiorenzo Angelini kardínáli: “Það sem heimsbréfið býður okkur að gera gengur fram yfir það sem það bannar. Sé sagt “gjörið ekki” segir ekki sjaldnar “gjörið það” til styrktar lífinu.”

Byggt á fréttabréfi Upplýsingaþjónustu Vatíkansins — VIS 950330 (1450)

Íslensk þýðing © Reynir K. Guðmundsson 1995

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: