Trúfræðslurit

Úrdráttur úr trúfræðsluriti Kaþólsku kirkjunnar

 • Sjálfsvörn
 • Dauðarefsing
 • Vísvitandi manndráp
 • Fóstureyðing
 • Líknardráp
 • Sjálfsvíg
 • Tæknifrjóvgun
 • Þú skalt ekki morð fremja. [54] Þér hafið heyrt að sagt var við forfeðurna: „Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur skal svara til saka fyrir dómi.“ En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. [55]2258. „Mannlegt líf er heilagt vegna þess að strax frá byrjun er það snert sköpunarmætti Guðs og hefur að eilífu sérstök tengsl við skaparann, en hann einn er takmark þess. Aðeins Guð er Drottinn lífsins frá því það hefst og þar til því lýkur. Enginn maður getur undir neinum kringumstæðum tekið sér þann rétt að drepa með beinum hætti saklausa mannveru.“ [56]

  I. VIRÐING FYRIR MANNLEGU LÍFI

  Vitnisburður helgrar sögu mannsins

  2259. Í frásögninni af morði Kains á bróður sínum Abel [57] opinberar Ritningin að fyrir frumsyndina hafi reiði og öfund komið í manninn strax í upphafi mannkynssögunnar. Maðurinn verður óvinur meðbróður síns. Guð lýsir yfir illsku bróðurmorðsins þegar hann segir: „Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni! Og skalt þú nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu, sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi“. [58]2260. Sáttmáli Guðs og mannanna er samofinn upprifjun á gjöf Guðs, mannlegu lífi, og drápsofsa mannsins: En yðar eigin blóðs mun ég hins vegar krefjast.… Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn. [59] Í Gamla testamentinu var ávallt litið á blóð sem heilagt tákn um líf. [60] Nauðsynlegt er að minnast þessarar kenningar á öllum tímum.

  2261. Ritningin gerir nánari grein fyrir banninu sem felst í fimmta boðorðinu: „Ver eigi valdur að dauða saklauss manns og réttláts“. [61] Dráp að yfirlögðu ráði á saklausum manni er alvarlegt brot gegn virðingu mannsins, gegn Gullnu reglunni og gegn heilagleika skaparans. Lögmálið sem bannar þetta er algilt: Það skuldbindur hvern og einn ávallt og alls staðar.

  2262. Í fjallræðunni rifjar Drottinn upp boðorðið „Þú skalt ekki morð fremja“ [62] og bætir við það fordæmingu á reiði, hatri og hefnd. Kristur gengur enn lengra og biður lærisveina sína að bjóða hina kinnina, að elska óvini sína. [63] Hann varði sig ekki og sagði Pétri að slíðra sverðið. [64]

  Lögmæt vörn

  2263. Lögmæt vörn mannsins eða samfélagsins er ekki frávik frá banninu að myrða þá saklausu sem er einkenni vísvitandi manndráps. „Sjálfsvörn getur haft tvennt í för með sér: Varðveislu eigin lífs og dráp á árásarmanninum.… Annað er fyrirhugað, hitt ekki“. [65]

  2264. Að elska sjálfan sig er grundvallarregla siðferðis. Því er það lögmætt að krefjast þess að eigin réttur til lífs sé virtur. Sá sem ver sitt eigið líf er ekki sekur um morð jafnvel þótt hann neyðist til að særa árásarmanninn til ólífis: Það telst ólögmætt að maður í sjálfsvörn sýni meira ofbeldi en nauðsynlegt er. Aftur á móti er vörn hans lögmæt ef hann stillir afli sínu við að bæla niður ofbeldi gegn sér.… Ekki er heldur nauðsynlegt manninum til sálubótar að hann sleppi leyfilegri sjálfsvörn til að forða því að bana hinum manninum, því maðurinn er bundinn því að varðveita eigið líf betur en annarra. [66]

  2265. Í vissum tilfellum er lögmæt vörn ekki einungis réttur heldur alvarleg skylda þess sem ber ábyrgð á lífi annarra. Varðveisla almannaheilla krefst þess að óréttmætur árásaraðili sé gerður skaðlaus. Þetta er ástæða þess að þeir sem sitja við völd með lögmætum hætti hafa rétt til að beita vopnum í því skyni að vernda það borgaralega samfélag sem þeim hefur verið treyst fyrir og hrekja á brott þann árásaraðila sem ráðist hefur gegn því.

  2266. Viðleitni ríkisins að stemma stigu við atferli sem skaðlegt er réttindum fólks og grundvallarreglum þjóðfélagsins samsvarar nauðsyn þess að vernda almannaheill. Lögmæt yfirvöld hafa þann rétt og þá skyldu að innleiða refsingar í réttu hlutfalli við alvarleika afbrots. Refsing hefur fyrst og fremst þann tilgang að lagfæra þá röskun sem afbrotið hefur valdið. Gangist hinn seki fúslega við broti sínu jafngildir það friðþægingu. Til viðbótar því að viðhalda friði í þjóðfélaginu og vernda öryggi borgaranna liggja læknisleg markmið að baki refsingunni: Sé þess nokkur kostur á hún á að stuðla að betrun þess sem afbrotið fremur.[67]

  Dauðarefsing

  2267. Að því tilteknu að kennsl hafi verið borin á þann sem sekur er og ábyrgð hans að fullu ákvörðuð, hefur hefðbundin kenning kirkjunnar ekki útilokað dauðarefsingu ef hún er eina mögulega leiðin til að verja með árangursríkum hætti mannlegt líf gegn óréttmætum árásaraðila. Ef hins vegar óbanvænar aðferðir nægja til að vernda öryggi borgaranna og verja þá gegn árásaraðila, ber yfirvöldum að halda sig við þær aðferðir þar sem þær eru betur í samræmi við raunhæf skilyrði almannaheilla og samræmast öllu heldur virðingu mannsins. Nú á tímum er málið þannig vaxið að þar sem ríkið hefur ýmsar árangursríkar leiðir til að koma í veg fyrir glæpi með því að gera afbrotamanninn ófæran um að valda tjóni – án þess að svipta hann algjörlega því tækifæri að betrumbæta sig – eru þau tilfelli þar sem aftaka afbrotamanns er talin algjör nauðsyn „mjög sjaldgæf ef ekki beinlínis úr sögunni“. [68]

  Vísvitandi manndráp

  2268. Fimmta boðorðið bannar beint og vísvitandi dráp sem er stórsynd. Drápsmaðurinn og þeir sem ótilneyddir eiga aðild að morði drýgja synd sem hrópar á hefnd frá himnum. [69] Morð á barni, [70] systkini, foreldri eða maka eru sérlega alvarlegir glæpir vegna þeirra náttúrulegu tengsla sem rofin eru. Enda þótt varðveisla kynþáttar eða almennt heilbrigðisástand kunni að vera mönnum áhyggjuefni réttlætir það ekki morð jafnvel ekki þótt almenn yfirvöld skipi svo fyrir.

  2269. Fimmta boðorðið bannar að nokkuð sé gert sem vísvitandi veldur dauða manns með óbeinum hætti. Óheimilt er samkvæmt siðalögmálinu að stofna nokkrum manni í lífshættu án þess að gildar ástæður liggi þar að baki sem og að neita manni sem er í hættu staddur um aðstoð. Það er hróplegt óréttlæti og alvarleg misgerð ef samfélag mannanna sættir sig við manndauða af völdum hungursneyðar án þess að gera neitt til að lagfæra það ástand. Þeir sem með okurstarfsemi og fégirnd valda hungri og dauða hjá meðbræðrum sínum í fjölskyldu mannsins, eru með óbeinum hætti valdir að manndrápi sem þeir verða að svara fyrir. [71]Siðferðilega þarf ekki að svara til saka fyrir manndráp sem er óviljaverk. En maðurinn er ekki leystur undan ábyrgð á alvarlegri misgerð ef hann, án þess að hafa fyrir því gildar ástæður, hefur haft í frammi hátterni sem valdið hefur dauða annars manns, jafnvel þótt það hafi ekki verið ásetningur hans.

  Fóstureyðing

  2270. Mannlegt líf verður að virða og vernda með öllum ráðum frá því andartaki að getnaður á sér stað. Það ber að viðurkenna að mannsbarninu ber réttur einstaklings frá fyrsta andartaki tilveru þess – þar á meðal órjúfanlegur réttur hverrar saklausrar mannveru til lífs. [72] „Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig.“ [73] „Beinin í mér voru þér eigi hulin þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.“ [74]

  2271. Alveg frá fyrstu öld hefur kirkjan lýst því yfir að allar fóstureyðingar væru siðferðisbrot. Þessi kenning hefur ekkert breyst og er hún eftir sem áður óbreytanleg. Bein fóstureyðing, það er að segja fóstureyðing sem annaðhvort er markmið aðgerðar eða leið að því, brýtur með alvarlegum hætti gegn siðalögmálinu: Nýtt líf skalt þú ekki drepa með fóstureyðingu og ekki skaltu stuðla að því að nýfæddu barni sé eytt. [75] Guð, Drottinn lífsins, hefur falið mönnunum það göfuga hlutverk að vernda líf og mennirnir verða að inna það af hendi eins og þeim sæmir. Líf verður að vernda af fremsta megni frá því andartaki að getnaður á sér stað: Fóstureyðing og barnsmorð eru viðurstyggilegir glæpir. [76]

  2272. Allt formlegt samstarf sem miðar að því að eyða fóstri er alvarlegt afbrot. Í samræmi við ákvæði kirkjuréttar beitir kirkjan bannfæringu sem refsingu fyrir þennan glæp gegn mennsku lífi. „Sú persóna sem stuðlar að því að fóstureyðing er fullgerð kallar yfir sig bannfæringu latæ sententiæ,“ [77] „vegna þess sem í afbrotinu felst“. [78] Þetta er háð fyrirvara í skilmálum kirkjuréttar. [79] Þannig er það ekki ætlun kirkjunnar að miskunninni séu takmörk sett. öllu heldur er hún að gera ljósan alvarleika glæpsins sem framinn er, óbætanlegan skaðann gegn hinum saklausa sem er líflátinn, sem og gegn foreldrum og öllu samfélaginu.

  2273. Það er grundvallarþáttur í borgaralegu samfélagi og löggjöf þess að hver saklaus einstaklingur eigi sér óafsalanlegan rétt til lífs: „Óafsalanleg réttindi hverrar persónu verða þjóðfélagið og pólitísk stjórnvöld að viðurkenna og virða. Þessi mannréttindi byggja hvorki á tilteknum einstaklingum eða foreldrum. Og ekki eru þau til merkis um ívilnun af hálfu samfélagsins eða ríkisins. Þau eru hluti af náttúru mannsins og eru eðlisbundin honum fyrir mátt sköpunarinnar þaðan sem maðurinn sækir uppruna sinn. Meðal þeirra grundvallarréttinda sem ber að geta í þessu sambandi er réttur mannsins til lífs og líkamlegs heilleika frá andartaki getnaðar til dauðadags“. [80] „Þegar lögin svipta flokk manna þeirri vernd sem borgaraleg löggjöf ætti að veita þeim, er ríkið að hafna því að allir séu jafnir fyrir lögunum. Þegar ríkið kostar ekki kapps um að hlúa að réttindum sérhvers borgara og einkum þeirra sem eru berskjaldaðir, þá grefur það undan þeim lagalega grundvelli sem það byggir á.… Sú virðing og vernd sem tryggja ber hinu ófædda barni frá fyrsta andartaki getnaðar, hefur það í för með sér að lögin verða að kveða á um tiltekin viðurlög við öllum vísvitandi brotum gegn réttindum barnsins“. [81]

  2274. Þar sem líta ber á fósturvísi sem persónu frá getnaði verður að vernda hann í heilleika sínum, annast hann og græða eins og kostur er líkt og hverja aðra mannlega veru. Sjúkdómsgreining á fósturstigi er siðferðilega lögleg, „ef aðgerðin virðir líf og heilleika fósturvísisins og fóstursins og beinist að því að vernda þá eða græða sem um einstakling væri að ræða.… Það er algjörlega andstætt siðalögmálinu ef þetta er gert með þeim fyrirvara að fóstureyðingu megi framkalla allt eftir því hverjar niðurstöðurnar verða: Sjúkdómsgreining má aldrei jafngilda dauðadómi“. [82]

  2275. „Telja verður þær aðgerðir á mannlegum fósturvísi lögmætar er virða líf og heilleika hans og fela ekki í sér of mikla áhættu fyrir hann heldur beinast að lækningu hans, að því að bæta heilsu hans eða að einstaklingsbundið líf hans fái þrifist“. [83] „Það er siðferðisbrot að framleiða mannlega fósturvísa í þeim tilgangi að nýta þá sem einnota líffræðileg efni“. [84] „Vissar tilraunir til að hafa áhrif á arfgenga litninga eða erfðavísa beinast ekki að því að ráða bót á sjúkdómum heldur er markmið þeirra að framleiða útvaldar mannverur samkvæmt kyni eða öðrum fyrirframákveðnum eiginleikum. Slík misnotkun gengur þvert gegn persónulegri reisn mannsins, heilleika hans og séreðli“ [85] sem eru einstök og ekki hægt að framkalla á ný.

  Líknardráp

  2276. Sýna ber þeim sem búa við skertan eða veikan lífsþrótt sérstaka virðingu. Aðstoða ber þá sem eru sjúkir eða fatlaðir til að lifa lífinu eins eðlilega og kostur er.

  2277. Hverjar sem leiðir eða ástæður líknardráps eru, felur það í sér að endir er bundinn á líf fatlaðs, sjúks eða deyjandi fólks. Það er siðferðilega óréttlætanlegt. Verknaður eða hirðuleysi sem beint eða óbeint veldur dauða í því skyni að afmá þjáningar, jafngildir morði og brýtur með alvarlegum hætti gegn reisn mannsins og þeirri virðingu sem hinum lifanda Guði ber, skapara mannsins. Þá dómgreindarvillu sem hér um ræðir hafa menn stundum öðlast í góðri trú en það breytir ekki eðli slíks manndrápsverks sem ber jafnan að banna og útiloka.

  2278. Stöðvun á lyfjameðferð sem er þungbær, hættuleg, óvenjuleg eða ekki í samræmi við þann árangur sem vænst er, getur verið lögmæt; það er þá höfnum á „of metnaðarfullri“ meðferð. Í því tilfelli er ekki sá vilji fyrir hendi að orsaka dauða; einungis er verið að viðurkenna eigin vangetu til að hindra hann. Þá ákvörðun á sjúklingurinn sjálfur að taka ef hann er hæfur og hefur getu til þess. Ef ekki þá verða þeir að taka þá ákvörðun sem lögum samkvæmt hafa rétt til að koma fram fyrir hans hönd. Ávallt ber að virða heilbrigða skynsemi sjúklingsins og lagalega hagsmuni hans.

  2279. Jafnvel þótt dauðinn sé talinn yfirvofandi má ekki með neinum hætti gera hlé á reglubundinni umönnun sjúklingsins. Notkun verkjalyfja til að lina þjáningar hins deyjandi sjúklings, jafnvel þótt í því felist hætta á að líftími hans styttist, getur verið siðferðilega í samræmi við mannlega reisn ef dauðinn er hvorki markmið aðgerðarinnar né leið að því, heldur einungis fyrirsjáanlegur og hann umborinn sem óumflýjanleg staðreynd. Á líknardeildum er stundaður sérstakur og óeigingjarn náungakærleikur. Hvetja á til slíkrar umönnunar.

  Sjálfsvíg

  2280. Sérhver maður ber ábyrgð á lífi sínu gagnvart Guði sem hefur gefið manninum líf sitt. Guð einn er eftir sem áður herra lífsins. Okkur ber skylda til að taka lífinu opnum örmum og varðveita það honum til dýrðar og okkur til sáluhjálpar. Við erum ráðsmenn, ekki eigendur, þess lífs sem Guð hefur treyst okkur fyrir. Það er ekki okkar að losa okkur við það.

  2281. Sjálfsvíg stangast á við náttúrulega tilhneigingu mannsins að varðveita og viðhalda lífi sínu. Það brýtur með alvarlegum hætti gegn réttmætri ást mannsins á sjálfum sér. Ennfremur er það brot gegn kærleikanum til náungans vegna þess að það rýfur á óréttmætan hátt tengsl einingar við fjölskyldu, þjóð og önnur samfélög mannanna en gagnvart þeim höfum við stöðugt skyldum að gegna. Sjálfsvíg gengur gegn kærleikanum til hins lifanda Guðs.

  2282. Ef sjálfsvíg er framið í því skyni að gefa fordæmi, sérstaklega hinum ungu, þá felur það einnig í sér alvarlega hneykslun. Sá sem tekur ótilneyddur þátt í sjálfsvígi brýtur gegn siðalögmálinu. Alvarlegt sálarstríð, angist eða mikill ótti við þrautir, þjáningar eða pyndingar geta minnkað ábyrgð þess sem fremur sjálfsvíg.

  2283. Við ættum ekki að örvænta um eilífa sáluhjálp þeirra manna sem hafa tekið sitt eigið líf. Eftir leiðum sem Guð einn þekkir getur hann veitt þeim tækifæri til gagnlegrar iðrunar. Kirkjan biður fyrir þeim sem hafa tekið sitt eigið líf.

  Barn er gjöf

  2373. Heilög Ritning og erfivenja kirkjunnar telja stórar fjölskyldur vera til merkis um blessun Guðs og örlæti foreldranna. [163]2374. Hjón sem uppgötva að þau eru ófrjósöm þjást mikið. „Hvað ætlar þú að gefa mér?“ sagði Abraham við Guð, „ég fer héðan barnlaus… “ [164] Og Rakel segir við Jakob, eiginmann sinn: „Láttu mig eignast börn, ella mun ég deyja.“ [165]

  2375. Þær rannsóknir ber að styðja sem beinast að því að ráða bót á ófrjósemi í mönnum að því tilskyldu að þær séu til „þjónustu við manninn, óafsalanleg réttindi hans og sannan heildarhag hans samkvæmt fyrirætlun og vilja Guðs.“ [166]

  2376. Tækni sem gerir kleift að tengsl hjóna séu rofin og notar til þess aðild þriðja aðila (gjöf á egg- og sæðisfrumum, staðgöngumæðrun) er alvarlegt siðferðisbrot. Þessi tækni (tæknisæðing og tæknifrjóvgun annarrar persónu) brýtur rétt barnsins að fæðast af föður og móður sem það þekkir og eru bundin hvort öðru í hjónabandi. Hún er svik við rétt makanna „að gerast faðir og móðir einungis fyrir hvort annað.“ [167]

  2377. Tækni þar sem einungis hjónin eru aðilar (tæknisæðing og tæknifrjóvgun maka) er ef til vill ekki eins ámælisverð en engu að síður er hún siðferðilega óásættanleg. Hún rýfur tengsl hjúskaparfars og getnaðar. Sú athöfn sem gefur barni tilveru sína er ekki lengur athöfn þar sem tvær persónur gefa sig hvor annarri, heldur er hún athöfn sem „lætur lækna og líffræðinga um líf og séreðli fósturvísisins og leggur grundvöll að því að tæknin ráði uppruna og hlutskipti mannlegrar persónu. Slíkt fyrirkomulag stríðir í eðli sínu gegn þeirri reisn og því jafnrétti sem eiga að vera sameiginleg foreldrum og börnum.“ [168] „Út frá siðferðilegu sjónarmiði er getnaður sviptur eiginlegri fullkomnun sinni þegar hann er ekki fyrirhugaður sem ávöxtur hjúskaparfars, það er að segja, hinnar tilteknu athafnar sem felst í einingu makanna.… Getnaður getur einungis verið í samræmi við reisn persónunnar með því að virða þau tengsl sem eru á milli merkingar hjúskaparfars og virðingar fyrir einingu mannsins.“ [169]

  2378. Barn er ekki réttur neins, það er gjöf. „æðsta gjöf hjónabandsins“ er mannleg persóna. Ekki má líta á barn sem eignarhlut, hugmynd sem meintur „réttur til barns“ leiðir af sér. Á þessu sviði er það einungis barnið sem hefur sönn réttindi: Réttinn „til að vera ávöxtur hinnar sérstöku athafnar hjúskaparkærleika foreldra þess,“ og „réttinn til að vera virt sem persóna frá andartaki getnaðar síns.“ [170]

  2379. Guðspjallið leiðir í ljós að ófrjósemi er ekki í einu og öllu af hinu vonda. Makar sem þjást af ófrjósemi eftir að hafa leitað allra lögmætra leiða til að lækna hana eiga að sameinast krossi Drottins, uppsprettu allrar andlegrar frjósemi. Þeir geta tjáð örlæti sitt með því að ættleiða yfirgefin börn eða inna af hendi krefjandi þjónustu í þágu annarra.

  Óopinber útgáfa © Reynir K. Guðmundsson þýddi

  Trúfræðslurit Kaþólsku Kirkjunnar í heild sinni


  1. 2M 20:13.
  2. Mt 5:21-22.
  3. CDF, tilsögn, Donum vitae, intro. 5.
  4. Sbr. 1M 4:8-12.
  5. 1M 4:10-11.
  6. 1M 9:5-6.
  7. Sbr. 3M 17:14.
  8. 2M 23:7.
  9. Mt 5:21.
  10. Sbr. Mt 5:22-39; 5:44.
  11. Sbr. Mt 26:52.
  12. Hl. Tómas frá Akvínó STh II-II, 64,7, corp. art.
  13. Hl. Tómas frá Akvínó STh II-II, 64,7, corp. art.
  14. Sbr. Lk 23:40-43.
  15. Jóhannes Páll II, Evangelium vitae 56.
  16. Sbr. 1M 4:10.
  17. Sbr. GS 51 § 3.
  18. Sbr. Am 8:4-10.
  19. Sbr. CDF, Donum vitae, I, 1.
  20. Jer 1:5; sbr. Jb 10:8-12; Sl 22:10-11.
  21. Sl 139:15.
  22. Didache 2, 2: SCh 248, 148; sbr. Ep. Barnabae 19, 5: PG 2, 777; Ad Diognetum 5, 6: PG 2, 1173; Tertúllíanus, Apol. 9: PL 1, 319-320.
  23. GS 51 § 3.
  24. CIC, grein 1398.
  25. CIC, grein 1314.
  26. Sbr. CIC, greinar 1323-1324.
  27. CDF, Donum vitae III.
  28. CDF, Donum vitae III.
  29. CDF, Donum vitae I, 2.
  30. CDF, Donum vitae I, 3.
  31. CDF, Donum vitae I, 5.
  32. CDF, Donum vitae I, 6.
  1. Sbr. GS 50 § 2.
  2. 1M 15:2.
  3. 1M 30:1.
  4. CDF, Donum vitae intro., 2.
  5. CDF, Donum vitae II, 1.
  6. CDF, Donum vitae II, 5.
  7. CDF, Donum vitae II, 4.
  8. CDF, Donum vitae II, 8.
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: